Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Grimmdin, sorgin og ástandið

    Ólafur Páll Jónsson:

    Ef við viljum virkilega koma í veg fyrir fleiri voðaverk eins og þau sem framin voru í París á miðvikudag, svo ekki sé minnst á slátrunina í Nígeríu, þá verðum við að vinda ofan af stríðsmenningu samtímans og bregðast við fátækt og úrræðaleysi, bæði utan Vesturlanda og innan þeirra. Við verðum að gera okkur ljóst að lýðræði verður ekki komið á með stríði. Stríð elur ekki af sér lýðræði, það elur af sér meira stríð, meiri kúgun.

    Stríð elur af sér stríð, það er mergurinn málsins. Gott innlegg frá skýrum heimspekingi.

  • Litanía og dygðir, Britney Spears, Bono, Davíðssálmar og kirkjuskipan

    Nýjasta tölublað Ritraðar Guðfræðistofnunar er komið út. Þetta er annað tölublaðið sem kemur nú út eftir að tímaritinu var breytt í vefrit. Að þessu sinni eru fimm greinar og einn ritdómur í ritröðinni:

    • Einar Sigurbjörnsson: Litanía
    • Guðmundur Sæmundsson: Glæðing dygða í hverri þraut. Um tengsl íþrótta og kristinnar trúar
    • Guðni Elísson: „Britney fokkíng Spears.“ Kærur Vantrúar og innihaldsgreining í hugvísindum
    • Gunnar J. Gunnarsson: Bono og Davíð. Áhrif Davíðssálma á texta hljómsveitarinnar U2
    • Hjalti Hugason: Kirkjuskipan fyrir 21. öld. Önnur grein: Frjáls og aðskilin kirkja?
    • Sólveig Anna Bóasdóttir: Ritdómur um Ask the Beasts. Darwin and the God of Love eftir Elizabeth A. Johnson

    Líklega verður að gera könnun meðal lesenda til að fá viðhorf þeirra til breytingarinnar á formi ritsins, en mér finnst þetta vera framfaraskref og það hefur þegar leitt til þess að ég les meira af Ritraðargreinum en áður.

  • Tvö ákvæði

    Sigríður Guðmarsdóttir:

    Rétturinn til trúfrelsis er óendanlega mikilvægur réttur til tjáningar og lífssýnar. Ég vil geta farið í kirkju og tjáð mig opinberlega um trú mína og lífssýn án þess að sæta fjársektum, fangelsisvist eða ógnunum. En ég virði líka rétt annarra til að finnast lífsskoðanir mínar fáránlegar og að tjá þá skoðun með myndasögu og texta án þess að sæta fjársekt, fangelsisvist eða ógnunum.

    Já.

  • Uppgötvun ársins: dj flugvél og geimskip

    Tónlistaruppgötvun ársins 2014 var Steinunn Harðardóttir sem gengur undir listamannsnafninu dj. flugvél og geimskip. Við sáum hana fyrst á jólagúmmelaði Prins Póló og félaga þar sem hún flutti nokkur dásamleg og dillandi góð lög. Í fyrsta þætti Júpíter á Alvarpinu ræðir Davíð Berndsen við Steinunni um tónlistina og lífið.

    Kíkið á þetta.

    [soundcloud url=”https://api.soundcloud.com/tracks/184128919″ params=”auto_play=false&hide_related=false&show_comments=true&show_user=true&show_reposts=false&visual=true” width=”100%” height=”450″ iframe=”true” /]

  • Gleðilegt nýtt ár

    Við upphaf nýs árs viljum við biðja öllum lesendum þessa bloggs blessunar. Megi nýja árið færa ykkur spennandi upplifanir, gleði og góðar stundir með fjölskyldu og vinum.

  • Einhverju kannski stolið, skömmum kirkjuna

    Sigurvin Lárus Jónsson og Sunna Dóra Möller á Vísi:

    Árni Björnsson þjóðháttafræðingur viðurkennir að „helsta röksemd fyrir heiðnu jólahaldi í desember er mánaðarnafnið” (1993:321), sem og sú staðreynd að fæðingarhátíð frelsarans tók á sig heitið jól á norðurlöndum.

    Hvað vitum við annars um heiðin jól í desember? Sigurvin Lárus og Sunna Dóra bæta við:

    Hverjar sem orðsifjar hugtaksins eru til forna er ljóst að heimildir okkar um forn-heiðna jólahátíð eru næsta engar. Við vitum ekki hvort slík hátíð var útbreidd, hvenær hún var haldin eða hvert inntak hennar var. Það sem við vitum er að orðsifjar hugtaksins jól tengjast fornu tímatali á norðurslóðum.

    Það er semsagt ekki vitað hverju var stolið því hátíðin er ekki þekkt. En orðið er þekkt. Snýst þessi kristni-sem-stal-jólunum kannski bara um orðið „jól“ en ekki hátíðina sem slíka?

    Er það ekki áhugavert í ljósi þess að kristnir menn á Íslandi hafa haldið jól á sama tíma og kristnir menn í útlöndum. Ekki nota útlendingarnir orðið jól um sína hátíð. Eru okkar jól þá stolin en þeirra ekki?

    Sigurvin og Sunna komast að þessari niðurstöðu:

    Fullyrðingar þess efnis að kristnir menn hafi stolið jólunum úr heiðnum sið eru áróður en ekki staðreyndir, eins og ítrekað er staðhæft í umræðunni.

    Sammála.

    Að lokum þetta: Ef einhverjum finnst úr lausu lofti gripið að segja að jólin séu kristin hátíð gildir það ekki síður um þá fullyrðingu að þau séu heiðin hátíð. Þegar upp er staðið eru jólin hátíð sem bera með sér þá merkingu sem við hvert og eitt leggjum í hana út frá lífi okkar og reynslu. Líf okkar, saga og reynsla er ólík, virðum það og eigum gleðileg jól.

  • Rammpólitísk kirkja I

    Herdís Þorgeirsdóttir skoraði á kirkjuna í ræðu á aðventukvöldi í Áskirkju fyrr í mánuðinum. Hún sagði meðal annars:

    Ég vona að kirkjan hiki ekki heldur stígi fram og umvefji það samfélag sem hún vill þjóna, sameini sína rödd þeirra sem enga hafa. Kærleikur og réttlæti eiga að ráða för en ekki bókstafur og blind lagahyggja.

    Hún kallar eftir pólitískari kirkju sem tekur skýrari afstöðu í pólitískari málum. Í því samhengi horfir Herdís meðal annars til Frans páfa í Róm sem hefur talað með skýrri röddu þegar kemur að ýmsum réttlætismálum.

    Þetta er ekki nýtt kall. Fyrir ári síðan fjallaði sr. Sigurvin Lárus Jónsson um pólitíska kirkju í prédikun. Þar sagði hann:

    [Í] mínum huga er óhugsandi að vera ópólitískur prestur, þar sem boðskapur Jesú frá Nasaret er hápólitískur. Jesús krefur okkur um réttlátt samfélag og setur í öndvegi alla þá sem standa höllum fæti í samfélagi manna; sjúka, synduga, útlendinga, fátæka, hvern þann sem handhafar hins veraldlega valds telja utangarðs eða beita valdi.

    Kannski má orða þetta þannig að kirkjan hljóti að vera pólítísk því hún fylgir Jesú sem lét sig varða um manneskjuna, aðstæður hennar og kjör. Það þýðir þó ekki að hún þurfi að vera flokkspólitísk.

    Á næstu dögum ætlum við að rýna aðeins í þetta og skoða dæmi um mál sem kirkjunnar þjónar hafa rætt í prédikunum sínum.

    Fylgist með.

  • Jólastjarnan

    Jólastjarna í glugga
    Jólastjarnan í glugganum.

    Jólastjarnan í glugganum boðar birtu og yl, rett eins og stjarnan í Betlehem forðum daga.

  • Jólaprédikanirnar í ár

    Um allt land hafa prestar stigið upp í stól og lagt út af jólaguðspjallinu. Margar af þessum prédikunum hafa líka birst á vefnum. Hér eur nokkrar.

    Aðfangadagur jóla

    Jóladagur

    Annar jóladagur

  • Herra Jólaefi og fröken Fullkomnunarárátta

    Okkur hjónunum var boðið að skrifa jólahugvekju á Bleikt.is. Úr varð saga af hr. Jólaefa og frk. Fullkomnunaráráttu sem líka fjallar um hin fyrstu jól:

    Þetta voru jólin þegar jólagestirnir voru ekki prúðbúnir fjölskylduvinir og ættingar heldur dasaðir hirðar sem komu beint úr haganum eftir langan vinnudag og þrír sveittir vitringar sem höfðu ferðast langan veg á úlföldunum sínum.