Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Ekki snúa út úr

    Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata:

    Þjóðkirkju skal aldrei í lög leiða held­ur skal rík­is­valdið styðja og vernda trúfrelsi á Íslandi

    Hér er Helgi Hrafn að bregðast við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. 51,1% aðspurða vildu hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá, 38,3% vildu ekki hafa slíkt ákvæði.

    Mér finnst þetta útspil þingmannsins úr takti við ímynd Pírata. Ég hef ekki haft þá sýn á þann flokk að þau vilji beita pólitískum klækjabrögðum til að beygja niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu að sínum stefnumálum.

    Annars finnst mér stjórnarskráin okkar eiga meiri virðingu skilda en að þingmenn leggi til að í henni séu ákvæði sem má í besta falli túlka sem útúrsnúning.

    Hitt er svo annað mál að við þurfum að halda áfram samtalinu um trúna í samfélagi og almannarými. Ég er alveg sammála því við þurfum skýr ákvæði um trúfrelsi og ég myndi gjarnan vilja sjá kveðið upp úr um það í stjórnarskrá að Ísland sé trúarlega opið samfélag.

  • Aulinn, björninn, Jesús og þú

    Hvað eiga Grú í Aulinn ég, Paddington í samnefndri kvikmynd, Jesús í Markúsarguðspjalli og við sem erum kristin sameiginlegt? Eitt svar er að finna í prédikun dagsins í Bústaðakirkju:

    Manstu eftir aulanum? Hann vildi vera bestur og mestur í allri veröldinni? Af því hann var þrjótur þá vildi hann vera sá mesti meðal þrjóta. Mesti vondi-kallinn. Hann ákvað því að stela tunglinu. Til að ná markmiðinu þurfti hann á börnum að halda svo hann tók að sér þrjár munaðarlausar stelpur. En þetta gekk ekki alveg upp því þegar þær komu inn í lífið hans tóku þau yfir og hann breyttist. Það kom í ljós að inn við beinið var þrjóturinn bara allt í lagi.

    Lesið og hlustið á Trú.is.

  • Fram í kærleiks krafti

    Davíð Þór Jónsson, héraðsprestur á Austurlandi:

    Að mínu mati er einfaldlega jafnóviðunandi nú á dögum að líkja trúnni og starfi kirkjunnar við hernaðarbrölt og að líkja því við önnur víðtæk og skipulögð mannréttindabrot.

    Sammála. Nýi textinn hans við lagið Áfram Kristsmenn krossmenn er góður og dæmi um það hvernig má bregðast á uppbyggilegan hátt við svona líkingum.

  • Karlremban, feðraveldið og Gamla testamentið

    Bragi Páll Sigurðarson, verðandi faðir:

    Þannig maður spyr sig, hvernig get ég, fyrrverandi karlremba og skíthæll, núverandi örvæntingafullur verðandi faðir, reynt að undirbúa dóttur mína fyrir þennan heim? Heim launamismunar. […] Heim þar sem stelpum er sagt að vera hljóðar og þægar á meðan strákum er hrósað fyrir að vera hugrakkir og röggsamir. Þar sem stelpum er sagt að þær eigi að sýna ábyrgð á meðan strákar eru jú, og verða alltaf, strákar.

    Þórir Kr. Þórðarson heitinn, sem var prófessor í Gamlatestamentisfræðum við Háskóla Íslands, kenndi mér á fyrsta ári mínu í guðfræðinámi. Hann setti okkur stúdentunum fyrir að lesa megnið af Gamla testamentinu strax í upphafi annarinnar. Þegar einn af nemendunum dæsti yfir þessu sagði Þórir Kr. kíminn:

    Að lesa Gamla testamentið er eins og að éta fíl. Maður tekur einn bita í einu.

    Ég held að baráttan fyrir stelpurnar okkar sé eins. Við setjum upp feminísku gleraugun og byrjum svo bara, tökum eitt skref í einu og sjáum hverju það skilar okkur.

  • Eyjur á Hringbrautina

    Guðmundur Kristján Jónsson í Fréttablaðinu:

    Til viðbótar við tillögur umhverfis- og skipulagsráðs legg ég til að almennum akreinum við Hringbraut verði fækkað og að almenningssamgöngur og hjólreiðar njóti forgangs í göturýminu. Á milli akreina væri tilvalið að gróðursetja tré og annan gróður og koma fyrir litlum almenningsrýmum á völdum stöðum. Þá fyrst geta talsmenn umferðaröryggis andað léttar – í orðsins fyllstu merkingu.

    Skýr framsetning og mikilvægt mál. Borgir þurfa að anda.

  • Það var þetta með kristnu gildin

    Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju:

    Ef hann vill standa vörð um kristin gildi þá er hann forvitinn um aðra siði og menningu af því að hann hefur væntanlega lesið Galatabréfið þar sem segir “Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.” Og í nútímasamhengi mætti jafnframt bæta við: Hér er hvorki trúmaður né trúleysingi því sá sem kemur fram við náungann af virðingu og kærleika , áhuga og forvitni er þegar búinn að leggja veg milli himins og jarðar.

    Nákvæmlega.

  • Að velja rektor og biskup

    Torfi H. Tulinius, prófessor við Háskóla Íslands skrifar um rektorskjör í Fréttablaðið í dag:

    Háskólasamfélagið greiðir atkvæði um þau sem teljast embættisgeng. Atkvæði starfsmanna skólans sem hafa háskólapróf gilda 60%, atkvæði stúdenta 30% en atkvæði annarra starfsmanna 10%. Ef enginn fær hreinan meirihluta atkvæða í fyrstu umferð er haldin önnur þar sem kosið er milli tveggja efstu. Að þessu loknu gerir Háskólaráð tillögu til menntamálaráðherra sem skipar rektor til fimm ára.

    Þrátt fyrir ýmsar takmarkanir, bæði á embættisgengi og vægi atkvæða eftir stöðu, er þetta nokkuð lýðræðislegt fyrirkomulag. Ég veit ekki betur en að það sé einsdæmi í íslensku samfélagi að starfsmenn stofnunar eða fyrirtækis kjósi sér leiðtoga með þessum hætti.

    Þetta er ekki einsdæmi en það er óalgengt. Hliðstæðan er til dæmis kjör biskups Íslands og vígslubiskupa í þjóðkirkjunni. Þar eru það vígðir starfsmenn þjóðkirkjunnar og kjörnir fulltrúar sjálfboðaliða í kirkjunni sem velja.

    Atkvæðamagnið er hlutfallslegt í háskólanum en atkvæði gilda jafnt í kirkjunni. Af þeim sökum fara leikmenn með fleiri atkvæði í biskupskjöri en vígðir fulltrúar. Atkvæði háskólamenntaðra starfsmanna gilda hins vegar meira í rektorskjöri.

    Allir starfsmenn og nemendur hafa atkvæði í háskólanum, en það eru vígðir menn (hliðstæðir við starfsmenn með háskólapróf) og fulltrúar leikmanna sem fara með atkvæðin í kirkjunni.

  • Skipulögð glæpastarfsemi, ekki trúarbrögð

    Ritstjórn Kjarnans:

    Mennirnir sem skutu blaðamenn Charlie Hebdo voru ekki sendiboðar trúarbragða eða hugmyndafræði, heldur stigu þeir með afgerandi hætti yfir línu réttarríkisins og gerðust sekir um hrikalegan siðlausan verknað samkvæmt okkar gildum og lögum. Þeir voru fjöldamorðingjar, studdir áfram af fólki sem heldur úti skipulagðri glæpastarfsemi. Ekki síst af þessum sökum, þá ættu þingmenn að tala varlega og færa umræðuna hér á landi, sem á rætur að rekja til hrikalegra glæpa úr í heimi, ekki beint inn á borð trúarbragðanna. Þar á hún ekki heima.

    Sammála. Þetta ættum við öll að hafa hugfast, ekki bara þingmennirnir sem ritstjórnin beinir orðum sínum til.

  • Opið eða bara afhelgað?

    Nick Baines, biskup í Leeds:

    [T]he French secularism being lauded in the popular response to the massacre in Paris is not noble and is not what is understood by ‘secularism’ elsewhere. It is one thing to deprivilege religion in the public square; it is something else entirely to be anti-religion to the point of wanting to wipe it out. The myth of neutrality is just that: the public square is either open to all – including religion – or it privileges those who believe that it is open to all except religions. Neutral it is not.

    Það er grundvallarspurning hvort samfélagið okkar, hvort almannarýmið, er opið fyrir alls konar hugmyndir, þar með talið þær trúarlegu, eða hvort það er opið fyrir allt-nema-trú.

    Ps. Lesið líka pistilinn eftir Giles Fraser sem Baines vísar til. Hann gefur innsýn í sögulegt samhelgi afhelgunar fransks samfélags.

  • Tjáningarfrelsið og trúarkenningarnar

    Kirkjuþing og biskup Íslands lýstu í dag yfir stuðningi við frumvarp þingflokks Pírata um afnám fangelsisrefsinga fyrir tjáningu skoðana. Í greinargerð með málinu segir meðal annars:

    Í 125. gr. almennra hegningarlaga, er nú m.a lögð fangelsisrefsing við því að draga opinberlega dár að eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúfélags, sem er hér á landi. Biskup tekur undir þá skoðun [þingflokks] Pírata að lagaheimildir sem setja tjáningarfrelsinu skorður með þessum hætti standist ekki nútíma viðhorf til mannréttinda.

    Sammála.