Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Það sem gerir okkur reið

    Árni og Kristín:

    Margt gerir okkur reið á Íslandi í dag. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru nefndar fjölmargar ásetnings- og vanrækslusyndir sem hafa bitnað á okkur öllum. Sum okkar eiga í vök að verjast og berjast í bökkum, en lífið gengur sinn vanagang hjá öðrum. Öll verðum við fyrir áhrifum af því að trúverðugleiki og traust til stofnanna og valdafólks hefur hrunið.

    Hruninn trúverðugleiki og svíðandi ranglæti hefur fætt af sér réttláta reiði. Reiðin er eðlilegt og heilbrigt viðbragð við óeðlilegu ástandi. Reiðin er frumtilfinning sem vekur okkur og þenur taugar og hjarta. Reiðin er ekki góður staður til að vera á, en stundum erum við sett á þannig stað.

    Fyrir samfélag í kreppu er sinnuleysi og tilfinningadoði hættulegri en reiðin. Sinnuleysið er samfélagsógn. Það er ekki gott að búa í skeytingarlausu og köldu samfélagi þar sem heiðarleiki og velvild eru sniðgengin. Á meðan við erum reið er okkur ekki sama. Reiðin getur gefið kraft til að hefja ferli sem er nauðsynlegt til að breyta því sem er ranglátt og óheilbrigt.

    Leiðin frá reiði til sáttar er löng. Það er ekki hægt að stytta sér leið. Við verðum að fá að nefna það sem lætur hjartað okkar slá örar í reiði og sorg. Við verðum að fá að vera reið og tjá það. Hlustum á hjartað sem berst í brjósti okkar.

    Skýrslan er birt. Nú rennur upp tími aðgerða. Það dugar ekki að setja plástur á sár þjóðar sem blæðir vegna ábyrgðarlausrar framgöngu og brotins trausts. Góðverk koma aldrei í stað réttlætis. Við þurfum að styrkja lýðræðið, bæta samskiptin og efla samfélagsvitundina á landinu okkar.

  • Skeytingarleysi

    Kristín:

    Það sem gerir mig reiða er skeytingarleysið gagnvart þeim sem minnsta mega sín í samfélaginu okkar.

  • Reiðimessa

    Árni og Kristín:

    Það er margt sem gerir okkur reið á Íslandi í dag. Við erum reið yfir því sem við sjáum í kringum okkur, yfir því sem aflaga fer. Í Grafarvogskirkju verður  reiðimessa föstudaginn 16. apríl kl. 20.

    Reiðimessa er guðsþjónusta þar sem við berum reiði okkar á borð fyrir Guð og hvert annað. Í reiðimessunni ætlum við að nefna reiðina okkar og biðja með henni.

    Við lítum til Biblíunnar til að sjá hvernig reiðin getur birst í trúarlífi manneskjunnar. Alveg eins og með aðrar frumtilfinningar, þá hefur reiðin sinn sess og sitt hlutverk í bæn hins trúaða til Drottins.

    Í 44. sálmi Davíðs er Guð ásakaður og manneskjan segir reið við Guð: „En nú hefur þú hafnað oss og niðurlægt!“ Á öðrum stað sjáum við hvernig Jesús bregst reiður við þegar honum er misboðið: „Þá gerði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra.“

    Við komum með reiðina okkar í kirkjuna og uppgötvum að þar erum við örugg að tjá okkur og nefna það sem lætur hjartað okkar slá örar í reiði og sorg. Við komum með hjarta sem er reitt og úthellum því frammi fyrir Guði. Við rísum upp og erum reið.

    Verið velkomin til kirkju.

  • 12. apríl 2010

    Mynd miðlar þúsund orðum. Myndband miðlar 2000 síðum.

  • Vonlaust samfélag?

    Árni og Kristín:

    Saga dymbilviku og páska hittir í mark. Hún hittir í mark vegna þess að hún fjallar um stöðu okkar í lífinu og afstöðuna til samfélagsins. Hún dregur upp myndir af því að stundum töpum við og stundum sigrum við. Hún segir sögu samfélags sem er vonlaust og óöruggt en fær hugrekki og trú til að breyta heiminum.

    Fyrri myndin tengist tengist skírdegi og föstudeginum langa. Við sjáum hvernig boðskapur Jesú og sú von og trú sem hann kveikti í hjörtum mannanna lýtur í lægra haldi fyrir valdinu. Hvernig mannúð og kærleikur víkur fyrir hagsmunagæslu og valdbeitingu. Þau sem voru samankomin við síðustu kvöldmáltíðina, mynduðu skjálfandi, óöruggt samfélag, sem þurfti að sjá á bak vonum sinna um betri heim. Þau áttu samfélag hugrekkis og sannfæringar, en þurftu að færa stórar fórnir.

    Föstudagurinn langi stendur fyrir átök mannúðar og laga. Jesús helgaði líf sitt þjónustunni við aðra og gekk á undan í því að breyta samfélaginu til mannúðar. Hann gekk gegn viðteknum gildum og lögum hagsmunanna. Sú ganga endaði á krossi. Baráttan fyrir mannúð kostar hugrekki og sannfæringu og hún krefst alls. Krossinn er hvatning okkar til að leggja okkar af mörkum til þess að gera heiminn betri. Krossinn er áminning um að hið góða er hvorki ókeypis né létt.

    Við hlið myndarinnar af vonlausu samfélagi skírdags og föstudagsins langa er myndin af páskunum. Egg og ungar, blóm og laufgaðar greinar eru lífstákn. Páskarnir eru tákn um trúna og hugrekkið, tákn um málstað Jesú sem rís upp í lífi þeirra sem trúa á hann. Upprisan gefur kraft til að trúa, vona og elska og til að feta í fótspor Jesú. Upprisan gefur fyrirheit um að ef við sýnum við sama hugrekki og hann breytum við samfélaginu.

  • Fyrirgefningin og efnahagshrunið

    Það er hefur mikið verið rætt um fyrirgefningu og iðrun og efnahagshrunið upp á síðkastið. Þrír áhugaverðir pistlar um þetta efni hafa birst upp á síðkastið:

    Svavar Alfreð Jónsson skrifar:

    Iðrun er stórkostlegt fyrirbæri. Þeir hugrökku iðrast. Þeir hugrökku þora að hugsa málið upp á nýtt. Endurmeta það. Sjá það frá öðru sjónarhorni.

    Iðrun er dáð. Iðrun er að brjótast út úr vananum. Segja skilið við það hefðbundna. Iðrun er að átta sig á að hlut- irnir þurfa ekkert endilega að vera eins og þeir hafa alltaf verið. — Iðrun

    Sólveig Anna Bóasdóttir skrifar:

    Í ofbeldisaðstæðum nær annar aðilinn valdi yfir hinum og í krafti þess valds getur hann beitt hinn aðilann ofbeldi. Að losna undan valdi persónu sem hefur meitt mann og sært er mjög erfitt og tal um fyrirgefningu hjálpar ekki alltaf í þeim aðstæðum. Ef gerandinn viðurkennir hvorki verknað sinn né reynir að bæta fyrir brot sitt ættum við, með stuðningi Nýja testamentisins, að sleppa öllu tali um fyrirgefningu. Þótt fyrirgefningin sé okkur kristnum kær, er hún ekki alltaf svarið. — Fyrirgefningin – er ekki alltaf svarið

    Og Hjalti Hugason skrifar:

    Orðið fyrirgefning hefur vissulega oft borið á góma í tengslum við það uppgjör og uppbyggingu sem framundan er. Sumir hafa beðist fyrirgefningar. Er það nóg? Kemur það á nýrri samfélagsskipan, nýju Íslandi? […]

    Er hér enn talað af valdastóli eða hefur sá sem hér talar afklæðst valdinu? Eru þetta orð hins veika eða hins sterka gagnvart félagslegum og fjárhagslegum veruleika á Íslandi eftir Hrun. Hvort eru þau sem líða að ósekju fyrir afleiðingar Hrunsins í stöðu hins veika eða sterka gagnvart slíku ávarpi? Á því veltur hvort þessi fyrirgefningarbeiðni og aðrar líkar eru spor fram á við — í átt til nýja Íslands — eða aftur á bak til hins gamla. — Fyrirgefning eftir Hrun — leið til uppbyggingar?

  • SMS-lán og fjárhagsleg heilsa

    Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, skrifar pistil í Fréttablaðið og á trú.is í dag. Hann hefur yfirskriftina SMS-lán og fjárhagsleg heilsa. Þar segir Ragnheiður meðal annars:

    Á Norðurlöndum hefur verið hægt að taka SMS-lán um nokkurn tíma og þau hafa valdið miklum vanda og stuðlað að „skuldafangelsi“ einstaklinga vegna lána sem upphaflega voru smáaurar. Aðstæður í samfélaginu í dag gera þessi lán enn hættulegri.

    Og bætir svo við:

    Ég skora á Alþingi að samþykkja lög sem hindra slíka starfsemi. Ég er ekki að biðja um alræðisríki hér á landi heldur um ábyrga siðferðilega hegðun og skynsemi. Félagsmálaráðherra hefur tjáð sig um þessi lán í sama anda og greinarhöfundur.

  • Gerpla og glímukappar

    Gerpla er á dagskrá kvöldsins. Í undirbúningsskyni renndi ég yfir ítarlega grein um verkið eftir Gunnþór Þ. Ingason. Hún ber yfirskriftina Garpar og glímumenn. Hann segir þar meðal annars:

    Strandhögg og hervirki svokallaðra útrásarvíkinga, voru ekki jafn drengileg enda liggja margir sárir eftir. Af mistökum má læra og gæta þess að nýta með heiðarlegum glímutökum framsækni og drifkraft til farsældar og friðar.

    Slík glímutök væri vert að útbreiða sem víðast. Halldór Kiljan Laxness hefði tekið undir það. Það gera Baltasar Kormákur og Ólafur Egill svo sem fram kemur í ágætri leikgerð þeirra af Gerplu. Hún nær því marki að setja á svið máttuga sögu, sem er grátbrosleg ádeila á hillingar, hernað og vígaferli. Þeir eiga heiður skilið að leggja í það vandasama verk. Fyrir það fær leikverkið fjórðu stjörnuna.

  • Konurnar og daglega brauðið

    Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifar pistil dagsins á trú.is. Tilefnið er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Hún brýnir kirkjuna og okkur öll og skrifar meðal annars:

    Kirkjan boðar með því að ögra fordómum, hefðum og kerfum sem hindra konur í því að standa jafnfætis körlum í kirkju og samfélagi. Kirkjan þjónar með því að að vera þar sem minnstu systur og bræður Krists eru og mæta líkamlegum, félagslegum og andlegum þörfum þeirra. Alþjóðlegur baráttudagur kvenna minnir kirkjuna okkar á að enn skortir á að allir eigi daglegt brauð.

    Holl áminning á þessum mikilvæga degi.

  • Kunningjasamfélagið og náungasamfélagið

    Hvers vegna er kunningjasamfélagið vandamál og hvað er til ráða? Hvert eigum við að stefna? Við Kristín Þórunn svörum þessu í pistli dagsins sem fjallar um náungasamfélagið.