Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Fátækt og bænir

    Gegn fáækt

    Árni og Kristín:

    Fyrir utan eldfjöllin eru fyrirbæri ársins 2010 kannski undirskriftalistar þar sem fólk tjáir afstöðu sína og skoðanir til ólíkra málefna. Áskoranirnar til forseta Íslands um að skrifa ekki undir Icesave lögin eru okkur í fersku minni og á Facebook samskiptavefnum hafa ótal slíkir listar sprottið á formi hópa sem helgaðir eru ólíkum málefnum. Þetta eru nokkurs konar bænalistar.

    Bænalistarnir breyta engu í sjálfu sér. Réttlætinu verður ekki fullnægt við það að við setjum nafn okkar undir yfirlýsingu þess efnis að fjárglæframenn sem köstuðu mykju á málstað ekkna og munaðarleysingja eigi að iðrast gjörða sinna og hljóta makleg málagjöld.

    Bænir sem við beinum hvert til annars og til almættisins gera aðeins sitt gagn ef þær leiða til aðgerða. Bænir, hvers eðlis sem þær eru, eiga að beina okkur til þeirra sem á einhvern hátt skortir það sem þarf til að lifa með mannlegri reisn. Bænalíf sem skilar sér ekki út í lífið er ónýtt bænalíf.

    Nú stendur yfir Evrópuár gegn fátækt og félagslegri einangrun. Athygli okkar hefur beinst að fátækt á Íslandi. Hún birtist í ólíkum myndum, en alltaf rænir fátæktin manneskjuna reisn og tækifærum til að blómstra. Fátækt hefur lengi verið staðreynd á Íslandi, en margt bendir til að Hrunið hafi aukið hana. Í dag eiga rúmlega 11.000 börn foreldri án atvinnu og 30.000 Íslendingar lifa í fátækt.

    Það breytist ekki neitt þótt við göngum í Facebook hópinn Við mótmælum fátækt á Íslandi. Látum því ekki staðar numið með listana. Nú er tími til að byggja samfélag þar sem allir geta lifað með reisn. Samfélag þar sem við sættum okkur ekki við fátækt. Tökum okkur stöðu með þeim sem eru útilokuð frá nægtaborðinu, búa við kröpp kjör. Vinnum í þágu þeirra og samfélagsins.

    Birtist einnig í Fréttablaðinu, á Vísi.is og á trú.is 12/5/2010.

  • Í hjartastað

    Árni:

    Ég hitti Sigrúnu Óskarsdóttur, prest í Árbæjarkirkju, í síðustu viku, og fékk hana til að segja mér svolítið frá því sem er framundan í söfnuðinum. Hún sagði mér líka frá slagorði Árbæjarkirkju sem er stutt yrðing: „Í hjartastað“.

  • Aðgerðasinnar þjónustunnar

    Árni:

    Bænin á að leiða til þess að við verðum eins konar aðgerðasinnar, aðgerðasinnar þjónustunnar. Þetta var eitt af því sem við Kristín ræddum í messunni í Víðistaðakirkju í morgun. Við vitnuðum líka nýja trúarjátningu eftir Ármann Gunnarsson, djákna, sem dvelur um þessar mundir við rannsóknir á aðstæðum stéttleysingja á Indlandi.

    Ármann hefur skarpa sýn á réttlæti og þjónustu og í játningunni segir hann meðal annars:

    Ég trúi á Jesú Krist, vin minn og frelsara, sem fæddist inn í þennann heim til að leita að hinu týnda og frelsa það. Á Jesú vin minn sem tók sér stöðu með þeim sem eru útilokuð frá nægtarborðinu, þeim sem eru hungruð, án klæða, í fangelsum, þyrst, útskúfuð, öðruvísi, með þeim sem þræla við að búa til kaffið mitt, fötin mín og matinn minn, dótið mitt, já með þeim sem vinna öll þau störf sem verður að vinna í hverju samfélagi en þau sem eiga fé og völd vilja ekki vinna sjálf – með verkafólki og ummönnunarstéttum.

    Ég trúi á Jesú Krist, vin minn, sem gagnrýndi óhræddur valdastéttir, fræðimenn og fariseia. Ég trúi á Jesú bróðir minn, sem vildi frekar standa með þeim lægst settu og kallaði þau til starfa sem þjóna sína. Hann er hinn hungraði, fátæki, þyrsti sá sem er sviptur frelsi, hinn nakti stéttlausi maður.

    Ég trúi á Jesú Krist systur mína, sem elskar mig og segir mér að ef ég vilji endurgjalda þessa ást verði ég að elska vini hans og systkyni … öll þau sem lifa án fullra mannréttinda í heiminum.

    Ég held að við getum lært af þessu. Ég held að okkur væri hollt að prófa að hugsa um okkur sem samfélags-aðgerðasinna og sem þjóna í umhverfinu okkar.

  • Gegn fátækt og félagslegri einangrun

    Árni og Kristín:

    Nú stendur yfir Evrópuár gegn fátækt og félagslegri einangrun. Yfirstandandi vika er helguð vitundarvakningu um þetta brýnamálefni og á morgun höfum við prestarnir verið hvött til að fjalla um þetta í prédikunum. Við ætlum að ræða þetta í Víðistaðakirkju klukkan ellefu í fyrramálið. Þangað til er hægt að skoða stutta brýningu frá Karli Sigurbjörnssyni, biskupi Íslands.

  • Kviknar

    Árni:

    Hvernig tjáum við sýn? Hvernig miðlum við ástandi? Hvernig hvetjum við til aðgerða?

    Ég hef verið svolítið hugsi yfir þessu upp á síðkastið og ég hef velt fyrir mér hvernig sé hægt að nota nýja miðla og aðrar aðferðir í þessum tilgangi.

    Tökum dæmi:

    Við Kristín höfum rætt svolítið um hættuna sem felst í doðanum, í kulnun samfélagsins, í vonleysinu og kyrrstöðunni. Við höfum rætt um reiðina og um þörfina fyrir hvatningu. Við þurfum að kveikja von, við þurfum að virkja. Þetta stutta myndbrot má skoða sem myndlíkingu sem miðlar þessu.

    En það má líka líta það öðrum augum. Sem myndlíkingu um sögu föstudagsins langa og páskadags.

    Kannski þarf eitt ekki að útiloka annað 😉

  • Vorar skuldir?

    Hundrað sænskar krónur

    Árni og Kristín:

    Á maður alltaf að borga skuldir sínar? Ef allt er með felldu og rétt er staðið að lánveitingu svörum við því afdráttarlaust játandi. En það er ekki alltaf raunin. Síðasta áratug hefur athygli heimsins beinst að svokölluðum ólögmætum skuldum þjóðríkja.

    Slíkar skuldir geta verið ólögmætar af ýmsum ástæðum. Ein er sú að lánveitandi hafi ekki gengið úr skugga um að lánþegi gæti greitt skuldina. Önnur lýtur að því hver stofnaði var til skuldarinnar. Fyrir nokkrum árum var úrskurðað að milljarða dala skuldir Íraks og Nígeríu skyldu felldar niður vegna þess að til þeirra var stofnað af stjórnvöldum sem ekki voru lýðræðislega kjörin. Samt gátu þessar þjóðir staðið undir greiðslum.

    Í áttunda bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis segir: „Borgarar í lýðræðisríki bera ábyrgð á réttilega kjörnum stjórnvöldum. Meginforsenda þess að borgararnir geti axlað þessa ábyrgð vel er að þeir búi við góð skilyrði til upplýstrar skoðanamyndunar.“ Í skýrslunni kemur einnig fram að alvarlegir misbrestir eru á þessu hérlendis (bls. 241). Þar er jafnframt harðlega gagnrýnt að á ákveðnu tímabili hafi veik stjórnvöld falið fjármálakerfinu og bönkunum of mikið vald, leyft of mikil umsvif og sýnt of lítið aðhald.

    Kannski má ganga svo langt að segja að á Íslandi hafi ríkt auðræði í stað lýðræðis. Að lýðræðislega kjörnir fulltrúar hafi ekki verið við stjórnvölinn.

    Ef allt væri með felldu ættum við að axla fulla ábyrgð á því sem réttilega kjörin stjórnvöld hafa kallað yfir okkur. En skuldsetningu íslensku þjóðarinnar vegna efnahagshrunsins má að hluta rekja til þess auðræðis sem ríkti hér eftir einkavæðingu og útrás. Það var ekki allt með felldu. Við getum ekki horft fram hjá því á leið okkar frá reiði til sáttar.

  • Vorblogg um von

    Árni:

    Svavar Alfreð skrifar vorblogg um vonina og segir meðal annars:

    [S]terkur er hrammurinn sem þjóðin þarf að losa sig úr.

    Íslenska þjóðin á fátt eftir nema vonina.

    En við skulum ekki vanmeta vonina.

    Von getur orðið gott bensín á umbreytingamótorinn.

    Þó að erfitt hafi verið að bíða eftir Skýrslunni var að mörgu leyti við hæfi að birta hana í vorbyrjun.

    Vonin er lykilmál og spurningin er eiginlega þessi: Hvernig miðlum við og vekjum von á þessu vori? Eftir þennan vetur!

  • Í þínu ljósi

    Árni:

    Við Kristín vorum stödd í Frankfurt á dögunum. Urðum reyndar strandaglópar þar um þriggja daga skeið vegna öskunnar frá Eyjafjallajökli. Við heimsóttum meðal annars Alte Nikolaikirche sem er í miðbænum. Þar voru þessi myndskeið tekin.

    Tilvitnunin á bænaljósunum er í Sl 36.10 þar sem segir „í þínu ljósi sjáum vér ljós.“

  • Algjörlega óþolandi

    Árni:

    „Þetta er algjörlega óþolandi.“

    Reiðimessan er í Grafarvogskirkju 16. apríl kl. 20.

  • Matur

    Árni og Kristín:

    “Það er óþolandi að fólk þurfi að standa í röð í marga klukkutíma til þess að fá mat,” segir Sigrún Óskarsdóttir.

    Reiðimessan er í Grafarvogskirkju 16. apríl kl. 20.