Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Hvaða skuldir eru óréttmætar?

    Árni og Kristín:

    Í greininni „Ábyrgð óréttmætra skulda hvílir á þeim sem veita lánið“ nefnir Joseph Hanlon átta atriði sem geta leitt til þess að skuldir teljist óréttmætar.

    Sænskar krónur

    Harðstjórn
    Illa þokkaðar skuldir kallast skuldir sem verða til þegar harðstjórar taka lán til að styrkja sig í sessi. Slíkar skuldir ber að líta á sem skuldir stjórnarinnar en ekki ríkisins.

    Skuldir sem eru teknar í arf
    Nelson Mandela, forseti Suður Afríku, var beittur miklum þrýstingi til að greiða 21 milljarð Bandaríkjadala sem voru fengnar að láni. Lántakandi var ríkisstjórn hvíta minnihlutans. Hún hafði nýtt peningana í þágu aðskilnaðarstefnunnar og til að kúga svarta meirihlutann í landinu.

    Spilling
    Hundruðir milljóna bandaríkjadala hafa aldrei skilað sér til lántakenda. Þess í stað hafa spilltir leiðtogar dregið að sér fé og lagt inn á eigin reikninga í erlendum bönkum. Þetta er gert með vitund lánveitanda. Niðurfellingar lána til Nígeríu voru meðal annars á grundvelli þessa.

    Pólitískar lánveitingar
    Á tímum kalda stríðsins voru mörg lán veitt harðstjórum sem studdu Vesturlönd, til dæmis Mobutu í Zaire og Suharto í Indónesíu. Lánin voru veitt án þess að kannað væri hvort verkefnin sem lánað var til væru æskileg eða hvort lánin yrðu endurgreidd.

    Mikil vanræksla
    Lán sem eru veitt þegar vitað er að ekki verði hægt að endurgreiða þau eru teljast vera á ábyrgð lánveitanda. Slíkt telst mikil vanræksla. Dæmi um þetta eru lán Alþjóða gjaldeyrissjóðsins til Zaire við lok áttunda áratugarins.

    Misheppnuð verkefni
    Mörg lán eru veitt til verkefna sem má rekja til landanna sem veittu lánin. Fátækari lönd hafa oftar en ekki forsendur til að meta slík verkefni og þurfa því að reiða sig á þekkingu annarra. Þegar verkefnin skila ekki árangri verður lánveitandinn, sem hefur þekkinguna, að axla ábyrgðina. Dæmi um þetta er 2,3 milljarða dala kjarnorkuver sem var byggt á þekktu sprungusvæði í Filippseyjum.

    Okur
    Okurvextir hafa lengi verið vandamál. Skuldavanda upp úr 1980 má meðal annars rekja til þess að þá varð breyting á raunvöxtum. Þeir höfðu verið afar lágir en urðu allt að 12% á þeim tíma. Það leiddi til þess að mörg lönd gátu ekki greitt af lánum sínum og þurftu jafnvel að taka ný lán til að geta staðið við skuldbindingar sínar.

    Óásættanleg skilyrði
    Sumum alþjóðlegum lánum fylgja skilyrði sem brjóta í bága við stjórnarskrár eða landslög. Dæmi um það eru skilyrði frá Alþjóðabankanum eða Alþjóða gjaldeyris-sbljóðnum varðandi einka-væðingu, lækkun launa opinberra starfsmanna, komugjöld í heilsugæslu, skólagjöld o.fl. Skilyrði sem þessi geta haft slæm áhrif á samfélagið. Skilyrði sem hafa áhrif langt út fyrir tilgang láns geta leitt til þess að það sé talið óréttmætt.

    Nánar má fræðast um Hanlon á vefnum hans.

    Þessi grein og fleira birtist einnig í júníhefti Víðförla sem fjallar um óréttmætar skuldir.

  • Valdaflokkur eða grasrótarhreyfing?

    Árni:

    Hjalti Hugason, prófessor í guðfræði, brýnir kirkjuna í pistlinum Þjóðkirkjan – valdaflokkur eða grasrótarhreyfing sem birtist í dag á vefnum trú.is. Hjalti hefur í vetur skrifað mikið um sjálfsmynd kirkjuna og þörfina fyrir gagnrýna sjálfsskoðun. Hann bendir í pistlinum á að kirkjan geti bæði séð sig í slagtogi við valdaflokka og grasrótarhreyfingar og hvetur kirkjuna til að samsama sig frekar grasrótinni:

    Þjóðkirkjan býr að félagslegu neti sem spannar landið allt. Víða er hún einn mikilvægasti þátturinn í nærumhverfi fólks. Enn er hún líka í hópi þeirra samtaka sem reglulega nær til hvað flestra eða hvaða félag safnar jafnmörgum til vikulegra samfunda og hún? Við núverandi aðstæður ber Þjóðkirkjunni að taka höndum saman við öll þau samtök sem vilja efla félagslegt starf, beina því í hollan farveg og byggja upp Nýtt Ísland. Þannig verður hún áfram þjóðkirkja í jákvæðri merkingu.

  • Völdum fylgir ábyrgð – opið bréf

    Árni og Kristín:

    Elsku Besti flokkur!

    Innilega til hamingju með stórglæsilegan árangur í borgarstjórnarkosningunum um helgina. Eins og alþjóð veit, þá komst þú, sást og sigraðir. Hinum flokkunum gekk ekki jafn vel.

    Á ylströndinni

    Kannski mátum við kjósendur það sem svo að hinir flokkarnir hafi ekki staðið við loforðin sín. Hafi ekki notað völdin vel. Hafi frekar notað þau í eigin þágu en annarra. Hafi ekki hlustað.

    Þú lofaðir ýmsu. Vonandi gengur vel að efna það. Við hlökkum sérstaklega til að þurfa ekki að taka handklæði með í sund. Við eigum svo mörg börn að okkur munar um að þurfa ekki að druslast með fullt skott af blautum handklæðum.

    Nú er þetta í þínum höndum. Og völdum fylgir ábyrgð. Fyrsta bíómyndin um Köngulóarmanninn minnir okkur á það. Þar sjáum við þegar Peter Parker lætur ógert að stíga inn í aðstæður og stoppa skúrk sem vinnur óvinum hans tjón. Afleiðingarnar eru hræðilegar. Á þetta er líka minnt í sjónvarpsþáttunum The Wire, eins og þú þekkir auðvitað mæta vel. Þar erum við líka minnt á hvað þarf að vera í lagi til að samfélag sé gott.

    Ofurhetja með ábyrgðartilfinningu er kannski það sem Reykvíkingar óskuðu sér í þessum kosningum. Mikill vandi blasir við einstaklingum og samfélaginu öllu. Inn í þessar aðstæður þarf að stíga, slá vörð um velferð og styðja við fólk á öllum aldri. Til þess varst þú valinn.

    Nú ríður á að nota okkar sameiginlegu sjóði sem best. Af því að þeir eru ekki ótakmarkaðir, þarf að ákveða hvað verður gert og hvað er látið ógert. Kannski eru ókeypis handklæði ekki það sem mest liggur á. Við treystum þér til að velja rétt.

    Gangi þér allt í haginn!

    Þessi pistill birtist einnig í Fréttablaðinu, 2. júní 2010.

  • Besti flokkurinn – starfsmenn á plani

    Kristín:

    Í nýafstöðnum bogarstjórnarkosningum dró til tíðinda. Nýtt framboð, Besti flokkurinn, spratt upp og sópaði til sín atkvæðum. Þegar talið var upp úr kjörkössunum í Reykjavík var Besti flokkurinn það framboð sem flest atkvæði hlaut.

    Mannfjöldinn II

    Þetta er athyglisvert fyrir margra hluta sakir. Að mínu mati hljótum við að horfa á niðurstöður í kosningum í höfuðborginni í ljósi þeirra hræringa sem þjóðfélagið allt hefur gengið í gegnum síðustu misseri. Þær eru tímanna tákn.

    Eftir efnahagshrunið hafa hefðbundnar stofnanir samfélagsins, þar á meðal stjórnmálaflokkarnir, þurft að spyrja sig hvort þær hafi ennþá það traust sem þarf til að vera lýðræðislegur farvegur þjóðarinnar. Stjórnmál og stjórnmálamenn sem stóðu vaktina í hruninu, eru í augum kjósenda hluti af vandamálinu sem Ísland glímir við en ekki partur af lausninni sem þarf til að reisa það á fætur.

    Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að Besti flokkurinn kom, sá og sigraði í borgarstjórnarkosningunum. Á einhvern hátt hitti hann í mark hjá kjósendum sem voru hættir að sjá sig sjálfa í hefðbundnum fjórflokknum, hættir að skilja hina pólitísku orðræðu, hættir að treysta atvinnustjórnmálamönnunum.

    Hvað stendur svo Besti flokkurinn fyrir? Guðmundur Andri Thorsson talar um hópinn í kringum Besta sem pólitísk viðrini, þ.e. að hann sjálfur standi ekki fyrir neitt sérstakt heldur komi inn í andrúmsloft sem hafnar trénuðu orðfæri, úrsérgengnu kerfi og stöðnuðum hugmyndum. Besti bauð ekki fram með atvinnu stjórnmálafólki heldur fólki úr öðrum áttum, með annan bakgrunn og ólík sjónarmið.

    Kannski eru árangur Besta flokksins fyrst og fremst endurkoma leikmannsins í stjórnmálin – starfsmanna á plani. Manneskjunnar sem býr að reynslu borgarans, hefur lifað og starfað í Reykjavík, alið upp börn, beðið eftir leikskólaplássi, þurft að hafa samskipti við skólakerfið, notað íþróttaaðstöðu og ferðast með strætó. Allt í einu föttuðu kjósendur að svoleiðis fólk er alveg eins hæft til að fást við borgarmálin og vera fulltrúar borgarbúa eins og atvinnupólitíkusar.

    Kirkjan hefur líka upplifað leikmannabyltingu eins og nú á sér stað í Reykjavík. Það var þegar Lúther setti fram hugmyndina um hinn almenna prestsdóm. Hún gengur út á að fagnaðarerindið tilheyri öllum skírðum og að hvert og eitt okkar hafi þannig ábyrgð og réttindi gagnvart Guði og náunga okkar. Það þarf ekki sérstaka atvinnustétt til að vera milligöngumaður Guðs og manna. Þar er hver og einn einstaklingur við stjórnvölinn.

    Það er hollt fyrir samfélagið að dusta rykið af almenna prestsdóminum, hvort sem er í kirkju eða þjóðfélaginu almennt. Einstakir flokkar og einstakar stéttir eiga hvorki kirkjuna né samfélagið, heldur þú og ég. Við berum öll ábyrgð, við eigum öll að njóta frelsis og erum öll kölluð til þjónustu.

  • Séra Ruddi dópar og drekkur

    Árni og Kristín:

    Nýlegt atriði í þættinum Steindinn okkar sem sýndur er á Stöð2 sýnir samskipti prests við fermingarbörn og annað fólk. Þetta atriði vakti athygli okkar og hér koma viðbrögð við því.

    Fermingin

    Fermingin er  mikilvægur þáttur í íslenskri unglingamenningu. Hlutfall þeirra sem fermast í kirkjunni eða borgaralega í hverjum árgangi er hátt, með því hæsta sem þekkist nokkurs staðar.

    Þetta er mikilvægur tími, börnin standa á þröskuldi unglingsáranna og fá tækifæri til að glíma við stóru spurningarnar, spurningar um líf og tilvist og trú, siðferði og sjálfsmynd. Fermingardagurinn sjálfur er ekki síður mikilvægur. Fjölskyldur koma saman, boðið er til veislu til heiðurs unglingnum og fagnað. Þetta gildir jafnt um þau sem fermast í kirkju og hin sem fermast borgaralega. Við vitum að mörg fermingarbörn upplifa kirkjuna sína sem vettvang fyrir umræðu um stóru spurningarnar í lífinu og öruggan stað til að vera á.

    Atriðið í Steindanum okkar gefur innsýn í fermingarathöfn þar sem allt fer úrskeiðis. Presturinn er sökudólgurinn. Hann er óáreiðanlegur, óábyrgur, ofbeldishneigður. Hann fer yfir öll mörk, hagar sér í öllu tilliti á annan hátt en við búumst við af almennilegri manneskju. Hvað þá presti. Kannski á brandarinn að búa einmitt þar. Father Thug – séra Ruddi – drekkur undir stýri, neytir fíkniefna, mætir of seint í kirkjuna, kemur fram á ofbeldisfullan hátt, sýnir kirkjugestum, fermingarbörnum, kirkjurýminu og sér sjálfum vanvirðingu.

    Presturinn í atriðinu er reyndar ekki aðeins fulltrúi sinnar stéttar eða kristinnar trúar. Hann er líka fulltrúi hinna fullorðnu. Hér er dregin upp neikvæð mynd af fullorðnu fólki.

    Prestarnir í menningunni

    Við þekkjum dæmi um framsetningu af þessu tagi úr menningarsögunni, úr bókmenntum, leikritum og kvikmyndum. Svo nokkur dæmi séu tekin úr kvikmyndasögunni þá má nefna að presturinn í Brúðgumanum er fégráðugur, eldri presturinn í Ítölsku fyrir byrjendur er ofbeldismaður, prestur í Fanny og Alexander beitir fjölskyldu sína andlegu og líkamlegu ofbeldi. Við höfum líka séð dæmi um þetta í nýlegum sjónvarpsþáttum. Bad Vicar úr þáttum Mitchell og Webb kemur upp í hugann.

    Við þekkjum líka dæmi um hið gagnstæða úr menningarsögunni, yngri presturinn í Ítölsku fyrir byrjendur er  mesta gæðablóð, Jón Prímus í Kristnihaldi undir jökli gengur í takt við þjóðina, og presturinn Ivan í Eplum Adams er góðhjartaður en kannski svolítið skrítinn. Í þáttunum um Klerkinn í Dibley sjáum við prest sem er samfélagsstólpi og mætir fólki og viðfangsefnum með húmor og jákvæðni.

    Atriðið í Steindanum okkar er á formi tónlistarmyndbands. Myndbandið er við þekkt lag Ameno með hljómsveitinni ERA. Það mætti hugsa sér að skoða það út frá hliðstæðum við önnur tónlistarmyndbönd, stemningin minnir á rappmyndbönd, en við erum ekki nægilega fróð um það svið til að geta fullyrt um það. Kannski getur einhver lesandi bloggsins frætt okkur um þetta.

    Ímynd og væntingar

    Brandarinn í atriðinu gengur út á að spila á ímynd presta og væntingar til prests og fermingar. Þess vegna er svona áhrifaríkt að draga upp mynd sem er gagnstæð því við eigum að venjast. Það vekur sterk viðbrögð.

    Við höfum horft á nokkur atriði úr þessum þáttum. Þau eru misfyndin, eins og gengur með svona efni. Fermingaratriðið vekur blendnar tilfinningar. Það gerir okkur líka hugsi um ímynd presta og um skilaboðin sem við fullorðna fólkið gefum unglingunum okkar um það sem lífið gengur út á. Virðing fyrir okkur sjálfum og fyrir öðrum er mikilvægt veganesti fyrir unglingana okkar, kannski það mikilvægasta sem þau fá út í lífið. Ef tilgangur Steindans okkar var að minna okkur á það, hefur hann náðst.

  • Ábyrgð stjórnmálamanna – trúnaður við almenning

    Árni:

    Í öðru örviðtalinu sem ég tók við Vilhjálm Árnason ræðir hann um ábyrgð fagstétta og stjórnmálamanna. Þeir ættu að líta á og hugsa um skyldur sínar út frá trúnaðarskyldum við almenning. Breyta þarf sýn stjórnmálamanna á ábyrgð sína.

  • Áberandi skortur á virðingu fyrir reglum

    Árni:

    Það var áberandi skortur á virðingu fyrir reglum í íslensku samfélag, sagði Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki, þegar við spjölluðum saman um daginn. Vilhjálmur var einn af aðalfyrirlesurum Prestastefnu sem var haldin í lok apríl. Hann ræddi þar um siðferði og samfélag og kom inn á skýrsluna og hrunið. Ég tók við hann stutt viðtal, þrjú myndbönd úr því hafa nú ratað á vefinn. Þetta er það fyrsta:

  • Trúverðug kirkja

    Árni:

    Í morgun hittum við Kristín þýska guðfræðinginn Klaus-Peter Jörns. Hann er kominn hingað til lands til að tala á ráðstefnu um frjálslynda guðfræði. Jörns hefur skrifað mikið um trúverðugleika í samhengi guðfræði og kirkju. Um trúverðuga guðfræði og trúverðuga kirkju. Við tókum við hann stutt viðtöl sem er hægt að skoða á YouTube:

    Kristín skrifaði líka pistil á trú.is um trúverðuga kirkju.

  • Kjósin og stóru spurningarnar

    Árni:

    Í næstu viku hefst kvikmyndahátíðin Skjaldborg á Patreksfirði. Þar verður meðal annars sýnd kvikmyndin Liljur vallarins. Hún fjallar um stórar spurningar í raunverulegu umhverfi, nánar tiltekið um tilvist, trú og kirkju í Kjósinni. Presturinn á svæðinu kemur heilmikið við sögu:

    Myndin er tekin að mestu leyti í Kjósinni, sem er 200 manna sveitasamfélag í skjóli við Esjuna. Séra Gunnar [Kristjánsson] kemur inn í þetta íhaldsama bændasamfélag með róttækar hugmyndir frá Evrópu, kenningar friðarhreyfinga og nýjar hugmyndir um náttúruvernd. Í hans huga eru þessar hugmyndir nátengdar kenningum Jesú frá Nasaret og boðskap Biblíunnar. Í sókninni eru ekki allir sammála um það.

    Sem áhugamaður um prestamyndir er ég spenntur að sjá hana, en líka af því að ég er forvitinn að sjá hvernig fjallað er um tilvistarspurningarnar á hvíta tjaldinu. Vonandi rata Liljur vallarins fljótt suður þannig að við sem ekki eigum heimangengt getum notið þeirra.