Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Skilnaðarveislur

    Kristín:

    Mynd: Roberto Bouza

    Mynd: Roberto Bouza

    Í skemmtilegri frétt á RUV segir frá hugvitsömum bissnissmanni í Japan sem býður hjónum sem eru að skilja upp á að halda þeim veislu af tilefninu.  Kannski dettur flestum ekki veisluhöld í hug þegar hjónaskilnaður er annars vegar – en hugmyndin að gera þeim tímamótum skil er ekki ný af nálinni.

    Það fylgir manneskjunni að vilja lyfta upp með einhverjum hætti stórum stundum í lífinu.  Margar kenningar í mannfræði um helgihald og helgisiði ganga út frá því að við tímamót og krossgötur sé manneskjunni beinlínis nauðsynlegt að viðhafa ritúal eða heilaga stund. Slík stund miðlar merkingu og staðfestir ferli sem á sér stað.

    Þessar helgistundir gegna margvíslegu hlutverki. Stundum eru þær beinlýnis ætlaðar til þess að koma breytingum til leiðar – eins og margvíslegir útfararsiðir gegna því hlutverki að auðvelda ferðalagið frá þessu lífi yfir í hið næsta. Við getum skoðað hjónavígsluna – eins og hún birtist í ólíkum trúarbrögðum og menningarsamhengi – út frá þessu sjónarhorni. Hjónavígslan er haldin til að gera sýnilegt – og raunverulegt – að tveir einstaklingar úr tveimur fjölskyldum rugla nú reitum sínum og binda nýtt bandalag. Þetta er gert í heyranda hljóði og staðfestir fyrir umhverfinu að þessi breyting hefur átt sér stað.

    Ýmsar félagslegar aðstæður þurfa að vera til staðar til að krossgötur í lífi manneskjunnar fá þann sess að verðskulda helgisiði. Eitt af því er sameiginlegur skilningur á því sem á sér stað. Barn fæðist – á því leikur enginn vafi – við höldum skírn, nafngjöf, helgun eða eitthvað slíkt. Barn verður að fulltíða manneskju – við sjáum ýmsar útfærslur á hvernig haldið er upp á það.

    Þetta á líka við um hjónavígslu eða brúðkaup. Skilnaður hefur hins vegar ekki fengið sérstaka athöfn fyrir sig – og fer þannig lagað séð ekki fram fyrir opnum tjöldum.  Engum dylst að skilnaður er stór breyting á högum einstaklinga og fjölskyldu – félagslega, tilfinningalega, fjárhagslega. En það sem greinir skilnað frá mörgum öðrum breytingum í lífinu er að aðilar málsins koma hugsanlega að því frá ólíkum hliðum og upplifa hann ólíkt. Fyrir einn er skilnaðurinn lausn, fyrir annan skipbrot.  Jafnvel þegar um sama skilnað er að ræða.

    Vegna þess að erfitt er að finna sameiginlega tjáningu á því sem skilnaðurinn hefur í för með sér, er líka erfitt að miðla henni með athöfn. En það er auðvitað alltaf tilefni til að halda góða veislu.

  • Allir geta gift sig í kirkju

    Árni og Kristín:

    Þingvallakirkja

    Í Bakþönkum Fréttablaðsins í dag skrifar Hólmfríður Helga Sigurðardóttir að „ótrúlegur fjöldi þjóðkirkjupresta“ ætli ekki að gefa samkynja pör saman í hjónaband og sé á móti því að samkynhneigðir njóti jafnra réttinda og virðingar í samfélaginu.

    Þetta er ekki rétt.

    Meirihluti presta fagnar nýjum hjúskaparlögum og frá og með 27. júní geta allir sem vilja gengið í hjónaband í kirkjunni sinni. Og þau sem koma eru afar velkomin.

  • Fleiri vatnsdropar

    Í dag bárust fréttir frá Alþingi um að gildistöku vatnalaganna hefði verið frestað.  Í frétt sem birtist hér á Eyjunni segir:

    Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í kvöldfréttum RÚV nú áðan að þótt vatnalögum verði ekki breytt fyrir þinglok verði það tryggt að þau taki ekki gildi og því sé niðurstaðan ásættanleg í bili að hennar mati. … [S]amkvæmt samkomulaginu á Alþingi í kvöld verður gildistökunni verði frestað fram á næsta ár, þannig að enn verði svigrúm til að afnema þau eða breyta verulega.

    Við blogguðum um vatn á dögunum. Á trú.is má lesa meira um vatn, meðal annars þessa pistla:

    Það er full ástæða til að rifja þetta upp og huga að því í áframhaldandi umræðu um vatnið okkar.

  • Góður leiðtogi þjónar

    Árni:

    Góður leiðtogi þjónar segir Tutu erkibiskup.

  • Hjúskaparlög fyrir alla, kellingar og kalla

    Kristín:

    Margir prestar innan þjóðkirkjunnar fagna einum hjúskaparlögum. Rúmlega níutíu prestar, djáknar og guðfræðingar skrifuðu undir yfirlýsingu þess efnis í apríl. Lögin voru samþykkt í gær. Það var gleðidagur og enn meira verður fagnað 27. júní þegar lögin taka gildi. Þann dag verður messað í þjóðkirkjunni og á mörgum stöðum verða gleði- og regnbogamessur af þessu tilefni.

    Til hamingju!

  • Vatn, réttlæti og Biblían

    Kristín:

    Í Biblíunni er vatn táknmynd réttlætis fyrir alla og umgengni við vatn er mælistika á siðferði manneskjunnar. Að synja þyrstum um vatn er synd (Job 22.7). Og spámaðurinn Esekíel þrumar yfir þeim sem spilla vatni svo að aðrir geta ekki notið þess:

    Nægir yður ekki að drekka tæra vatnið, nema þér gruggið upp það, sem eftir er, með fótum yðar? Og svo verða sauðir mínir að bíta það, sem þér hafið troðið með fótum yðar, og drekka það, sem þér hafið gruggað upp með fótum yðar (Esk 34.18-19).

    Vonska og spilling manneskjunnar kemur líka með sérstökum hætti fram í ranglæti í vatnsumgengni. Þetta á bæði við um trúarlífið og framkomu við aðra. Jeremía spámaður, sem var samviska þjóðar sinnar á erfiðum tímum, lýsir hinu siðferðilega ástandi svo:

    Því að tvennt illt hefir þjóð mín aðhafst: Þeir hafa yfirgefið mig, uppsprettu hins lifandi vatns, til þess að grafa sér brunna, brunna með sprungum, sem ekki halda vatni (Jer 2.13).

    Og hin endanlega svívirða þess sem valdið hefur, er að krefja fólk um borgun fyrir aðgang að vatni: “Vatnið sem vér drekkum, verðum vér að borga” (Hl 5.4).

    Á sama hátt er hið góða og réttláta ástand tjáð með gnægð vatns. Hin réttláta manneskja er vatnsveita sem lætur “réttinn vella fram sem vatn og réttlætið sem sírennandi læk” (Am 5.24). Sömuleiðis stendur náð Guðs opin hverjum þeim sem vill: “Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn” (Op 22.17).

  • Vatnið og markaðslögmálin

    Kristín:

    Í dag var frumvarp um afnám vatnalaga afgreitt úr iðnaðarnefnd Alþingis. Miklar deilur urðu um vatnalögin árið 2006, einkum breytingu á eignarréttarákvæði laganna sem kvað á að landeigendur skyldu öðlast eignarrétt á vatnsauðlindum í eignarlöndum sínum.

    Mynd: Árni Svanur Daníelsson

    Mynd: Árni Svanur Daníelsson

    Kirkjan stendur föstum fótum í grundvallarskilningi sínum á því að vatnið sem grunnefni lífs og Guðs gjöf til allra, eigi aldrei að lúta markaðslögmálum eða gróðasjónarmiðum sem koma niður á almannahagsmunum. Hún leitar í sína eigin hefð að myndmáli og áherslum sem undirstrika samábyrgð okkar gagnvart hvert öðru og umhverfinu sem við tilheyrum. Þannig eru áþreifanleg vatnsmál tjáð með hugtökum guðfræðinnar og orðfæri trúarinnar.

    Við erum minnt á að takmörkuð auðlind skapar þörf fyrir að deila því sem við höfum með þeim sem ekki hafa. Kirkja Krists er einn líkami sem nærist af sama vatni í sama andlega og efnislega vistkerfinu. Vatnið sem Guðs gjöf kallar sömuleiðis á ábyrgð manneskjunnar að umgangast það með virðingu og skynsemi. Mannréttindi og vatnsvernd eru þess vegna forgangsatriði í því umhverfi sem við viljum skapa í kringum vatn, á Íslandi og heiminum öllum.

  • Réttlæti, umhyggja og reisn í hnattvæddu markaðssamfélagi

    Árni:

    Þetta er þriðja viðtalið af þremur sem ég tók við Martin Junge og Peter Prove í tilefni af komu þeirra hingað til lands. Þeir eru komnir til að tala á málþinginu Vorar skuldir sem verður haldið í Neskirkju 7. júní kl. 13.

  • Ísland sem fyrirmynd og Ísland sem lexía

    Árni:

    Við höfum séð gjá myndast milli efnahagskerfis og samfélags manna í heiminum, segir Peter N. Prove, sem er í forsvari fyrir mannréttindastarf Lútherska heimssambandsins. Þetta hefur haft djúpstæð áhrif. Vandinn hér á Íslandi er dæmi um þetta og hér á landi getur að líta afleiðingar þessarar gjár, afleiðingar ábyrgðarleysis og skorts á siðferðisramma. Hann bætir við: Við teljum að það sem hefur gerst á Íslandi feli í sér mikilvægan lærdóm fyrir Íslendinga og fyrir fólk um allan heim.

    Þetta er annað viðtalið af þremur sem ég tók við Martin Junge og Peter Prove í tilefni af komu þeirra hingað til lands. Þeir eru komnir til að tala á málþinginu Vorar skuldir sem verður haldið í Neskirkju 7. júní kl. 13.

  • Ólögmætar skuldir og hnattvæðing

    Árni:

    Við höfum mikla reynslu í Lh af því að fást við fjárhagsleg áföll og krísur, segir Martin Junge, verðandi framkvæmdastjóri Lútherska heimssambandsins. Hann bætir við: Við höfum fjallað mikið um ólögmætar skuldir og viljum deila þeirri reynslu með Íslendingum og íslensku kirkjunni. Við viljum skoða áskorunina sem felst í núverandi aðstæðum og viljum ræða spurninguna: Hvernig eigum við að lifa saman í hnattvæddum heimi?

    Þetta er fyrsta viðtalið af þremur sem ég tók við Martin Junge og Peter Prove í tilefni af komu þeirra hingað til lands. Þeir eru komnir til að tala á málþinginu Vorar skuldir sem verður haldið í Neskirkju 7. júní kl. 13.