Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Beatrix, Bill og Bechdel

    Bechdel prófið er einfaldur mælikvarði á sýnileika kvenna í kvikmyndum. Það byggist á þremur spurningum:

    1. Eru tvær eða fleiri konur í kvikmyndinni?
    2. Tala þær saman?
    3. Tala þær um eitthvað annað en karla?

    Ef þessum þremur spurningum er svarað játandi þá telst myndin hafa staðist Bechdel prófið.

    Það er skemmst frá því að segja að ótrúlega margar kvikmyndir standast ekki þetta einfalda próf. Meðal þeirra mynda sem eru nefndar í myndbandinu hér að ofan er Pulp Fiction eftir Quentin Tarantino. Hún stenst semsagt ekki Bechdel prófið. Það sama er ekki hægt að segja um Kill Bill eftir sama höfund. Raunar mætti segja að konur fái heldur betri útreið úr þeirri mynd en karlar.

    Við horfðum á Kill Bill um helgina (Kría í annað sinn, Árni í fimmta) og fengum stórfenglega drápsreið Beatrix Kiddo beint í æð (í gamla túbusjónvarpinu okkar, nota bene). Beatrix er mikil hetja og enginn stendur henni á sporði í bardagalist og herkænsku. Vegna þess að uppgjörið er við gömlu klíkuna, og konur voru í meirihluta í henni, sýnir myndin mikið af samskiptum Beatrix og hinna stelpnanna.

    Við höfðum Bechdel í huga þegar við horfðum á Kill Bill. Það kom á daginn að myndin stenst prófið með sóma. Beatrix talar og tekst á fjölda kvenna, svo sem hina hnífalipru Vernitu, ósvífna klíkuforingjann O-Ren Ishii og hina eineygðu Elle. Litríkar aukapersónur koma líka við sögu. Hún kemur þeim öllum fyrir kattarnef án þess að neinn karl komi þar við sögu.

    Hin mjúku gildi kvennanna svífa ekki yfir vötnum í Kill Bill – og myndin er í raun tryllingslega ofbeldisfull. Svo mjög að mörgum þykir nóg um. En hún gerir konum samt sem áður nógu hátt undir höfði til að hafa fleira en eina kvenpersónu í burðarhlutverki, láta þær eiga samskipti og orðastað, um eitthvað annað en karlmenn.

    Þess vegna stenst hún Bechdel prófið.

  • Barnaníð og barnavernd

    Árni og Kristín:

    Sigríður Guðmarsdóttir ræddi um barnaníð og barnavernd í útvarpsprédikun í gær:

    „Barnaníð á aldrei að hafa forgang yfir barnavernd hver sem í hlut á og því er hvert og eitt okkar undir tilkynningaskyldu til barnaverndar ef okkur grunar að líf og heilsa barns sé í veði. Við þurfum sem þjóðfélag að horfast í augu við það sértæka ofbeldi sem konur og börn búa við vegna misréttis kvenna og karla í samfélaginu í stað þess að tala það niður. Við eigum ekki að kveinka okkur við því að heyra sögur þeirra sem þjáðst hafa vegna kynferðisofbeldis og annars ranglætis. Við eigum heldur ekki að smjatta á þeim af pornógrafískri hræsni púrítanans.“

    Og hún bætti hún við:

    „Við þurfum að takast á við bölið og óréttlætið sem viðgengst í okkar eigin röðum og sýna því hugrakka fólki virðingu okkar og stuðning sem stígur fram þegar rifnar ofan af kýlunum. Í því liggur auðmýkt, auðmýkt þeirra sem horfast af djörfung í augu við það að samfélagið okkar er ekki eins öruggt og gott og við vildum hafa það. Og það glittir á hvítar perlur í rifunum.“

  • Barnavernd og tilkynningarskylda

    Árni og Kristín:

    Þagnarskylda - tilkynningarskylda

    Um tilkynningaskyldu er fjallað í sautjándu grein Barnaverndarlaga. Þar segir:

    „Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart. […] Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.“

    Á þetta sama er minnt í 14. grein siðareglna siðareglna vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar:

    „14. Vera ávallt upplýst um lög og reglur sem gilda um börn og unglinga og að skylt sé að tilkynna barnaverndaryfirvöldum ef ætla má að barn búi við óviðunandi aðstæður eða er þolandi ofbeldis.“

    Í 2. grein starfsreglna um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar segir:

    „Ef meint kynferðisbrot varðar barn, skal talsmaður eða sá sem hefur vitneskju um ætlað kynferðisbrot, gegna skilyrðislausri tilkynningaskyldu til hlutaðeigandi barnaverndarnefndar sbr. 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.“

    Þetta er alveg ótvírætt.

    Á þetta hafa þrír prestar sem hafa bloggað um þagnar- og tilkynningarskylduna einmitt bent:

    „Það er engin vafi á því að kirkjan vill og telur að prestar og aðrir innan hennar eigi að hlíta landslögum þ.m.t. vitaskuld barnaverndarlögum.  Í reglugerð um meðferð kynferðisafbrota innan kirkjunnar segir þannig m.a.
    2. gr. Ef meint kynferðisbrot varðar barn, skal talsmaður eða sá sem hefur vitneskju um ætlað kynferðisbrot, gegna skilyrðislausri tilkynningaskyldu til hlutaðeigandi barnaverndarnefndar sbr. 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.“ Baldur Kristjánsson: Prestar og siðareglur!

    „Prestar eru tilkynningaskyldir samkvæmt starfsreglum kirkjunnar og byggir það á ákvæðum barnaverndarlaga. Þetta ákvæði gengur mun lengra en almenn þagnaskylda í siðareglum prestafélagsins og er ákvæðið afdráttarlaust í starfsreglum kirkjunnar (sem byggja á lögum).“ Kristján Björnsson: Prestar eru tilkynningarskyldir

    „Mér finnst gott hjá fjölmiðlum að taka þetta mál upp því það er svo sannarlega mikilvægt. Og Ríkisútvarpið á þakkir skyldar fyrir að sýna umræðum á aðalfundi Prestafélagsins árið 2007 þennan áhuga.
    En vilji RUV upplýsa fólk um hvar það hafi kirkjuna og þjóna hennar í þessum efnum er illskiljanlegt að stofnunin hafi kosið að þegja um Siðareglur vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar sem samþykktar voru á Kirkjuþingu, æðstu stofnun kirkjunnar, í fyrra.“ Svavar Alfreð Jónsson: Þagnarskylda og kynferðisbrot

  • Pétur, Jónas og kirkjujarðirnar

    Kristín:

    Jónas Kristjánsson, eðalbloggari, og Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, virðast hafa sömu sýn á eignir þjóðkirkjunnar. Pétur sagði við upphaf aukakirkjuþings á laugardaginn var:

    „Fjárstuðningur ríkisins við þjóðkirkjuna byggist ekki nema að hluta á sjónarmiðum um sérstöðu kirkjunnar sem þjóðkirkju heldur skýrum rökum um sögulegt eignarréttartilkall hennar til þeirra kirkjujarða og kirkjueigna, sem ríkinu voru endanlega fengnar í hendur með samkomulaginu frá 1997. Hverfi ríkisvaldið frá þessum stuðningi við kirkjuna raknar tilkall hennar til afhentra eigna að sjálfsögðu við. Þessi grundvallarstaðreynd verður að vera öllum skýr og ljós.“

    Og Jónas bloggar í dag:

    „Bezt er að kasta þessum ríkisjörðum í hausinn á lúterskunni. Segja veskú og hætta að borga lúterskunni skattpeninga.“

    Það er að segja að ef samningi ríkis og kirkju er sagt upp þá sé eðlilegt að ríkið skili kirkjunni eignum hennar þannig að hún geti ráðstafað þeim án afskipta ríkisvaldsins.

  • Aldrei aftur

    Árni og Kristín:

    Þegar við vorum að skríða inn í unglingsárin á síðustu öld hélt angistin yfir mögulegu kjarnorkustríði fyrir okkur vöku. Listrænar útfærslur á hörmungum kjarnorkuvetrar og afleiðingum hans fyrir mannfólkið rötuðu iðulega á sjónvarpsskjáinn. Fréttir af ísköldu vopnakapphlaupi stórveldanna voru daglegt brauð í fjölmiðlum.

    IMG_3198

    Sextíu og fimm ár eru liðin síðan kjarnorkusprengjum var varpað á borgirnar Hiroshima og Nagasaki í Japan, við lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Við þessi tímamót er þess virði að nema staðar og íhuga sársaukann sem fylgir þeim.

    Það er sársaukinn yfir fórnarlömbum árásarinnar, þeim sem dóu og þeim sem þjáðust og þjást enn þann dag í dag vegna afleiðinga sprengjunnar á líkama og náttúru.

    Það er sársaukinn yfir því að enn þá lifir heimurinn við kjarnorkuvá sem ógnar friði og stöðugleika. Það er sársaukinn yfir því að frá því sprengjan féll árið 1945, skiptist heimurinn í ríki sem hafa tekið sér rétt til að að framleiða og eiga þessi gjöreyðingarvopn, og mikinn meirihluta ríkja sem eiga þau ekki.

    Við tökum undir með þeim sem hafna því að ójafnvægi og klofningur á borð við þetta sé afsprengi menningar okkar. Heilræði Biblíunnar til manneskjunnar er að velja lífið svo að allir fái lifað. Í þeim anda berjumst við gegn kjarnorkuvopnum. Það er ekkert pláss fyrir vopn sem ógna lífi manneskjunnar og jarðarinnar, eins og kjarnorkusprengjan gerir.

    Kalda stríðið og kjarnorkuváin heldur ekki vöku fyrir unglingunum okkar í dag. En það er full ástæða til að minnast fórnarlamba sprengjunnar í Hiroshima og Nagasaki 6. og 9. ágúst og snúa huga okkar og hjarta til þeirra sem þar þjáðust. Við erum þakklát fyrir framtak opinberra aðila og almennra borgara sem hafa látið sitt af mörkum til að velja lífið.

    Aldrei aftur Hiroshima.
    Aldrei aftur Nagasaki.

  • Nærandi samfélag

    Árni og Kristín:

    Dr. Rowan Williams, erkibiskup af Kantaraborg, flutti aðalfyrirlestur heimsþings LH. Hann minnti okkur á að sem kirkja eigum við að vera samfélag þjónustu og gagnkvæmrar næringar. Þetta snerti á hugsuninni um hina þjónandi kirkju og þetta var ágæt áminning því samhengi og í samhengi yfirskriftar heimsþingsins sem er „Gef oss í dag vort daglegt brauð“.

    Ef kirkjan gleymir sér í eigin deilum sendir hún skilaboð um að hún hirðir ekki um þarfir eða gjafir náungans. Við getum gleymt okkur í endalausri iðjusemi í þjónustunni við aðra en vanrækt okkar eigið hungur og fátækt. Óaðfinnanlegt helgihald kemur ekki staðinn fyrir að við umbreytum samfélagi okkar í samfélag gagnkvæmrar næringar. Þannig samfélag á kirkjan að vera. Ef látum staðar numið við grundvallarréttindi manneskjunnar, missum við af fegurð hennar og reisn – en í því er brauðið sem nærir okkur fólgið.

  • Segjum söguna upp á nýtt

    Árni og Kristín:

    Hluti af því að geta haldið áfram, er að gera upp við sína eigin sögu og horfast í augu við það sem hefur valdið öðrum og okkur sjálfum skaða. Í sögu Evrópu er mikið um ofbeldi og ofsóknir sem tengjast trú og trúarbrögðum.

    Í iðrunarmessu á heimsþingi Lútherska heimssambandsins í Stuttgart heyrðum við sögur af ofsóknum á hendur endurskírendum og Mennonítum, upplifðum sársaukann með þeim sem þjáðust og fundum sorg yfir ranglæti og misnotkun sem okkar eigin trú hefur ýtt undir.

    Við stigum skref í átt að samfélagi sem þorir að biðja um fyrirgefningu og þorir að fyrirgefa.

  • Daglegt brauð eru mannréttindi allra

    Árni og Kristín:

    Aðgangur að mat er ein af forsendum réttlætis og friðar. Á þetta erum við minnt í Faðir vorinu þegar beðið er: „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“

    Kross sem minnir á daglegt brauð

    Fimmtung mannkyns skortir daglegt brauð. Samt er nægur matur til í heiminum. Veruleiki syndar og niðurbrots birtist í því að hungur er til staðar í heiminum í miklum mæli.

    Við, sem höfum nóg, eigum að leggjast á eitt og deila því sem við höfum. Þannig tökum við orð Jesú í 25. kafla Mattheusarguðspjalls alvarlega, þar sem hann segir „Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“

    Frá sjónarhóli kristinnar trúar er ekki bara maklegt og réttvíst að deila fæðu með þeim sem skortir hana, heldur setur Guð þá kröfu á fólkið sitt að það „leysi fjötra rangsleitninnar“, „gefi frjálsa hina hrjáðu“ og „miðli hinum hungruðu af brauði sínu“ (Jes 58.6). Þetta spámannlega sjónarhorn færir okkur að rótum vandans og beinir athygli að kerfinu sem viðheldur ástandi hungurs og skorts.

    Marteinn Lúther skrifaði í Fræðunum meiri um bænina „Gef oss í dag vort daglegt brauð“ að hún væri í raun bæn fyrir öllu sem manneskjan þarfnast til að lifa og njóta lífsins á hverjum degi og gegn hverju því sem stendur í vegi fyrir því. Þegar kemur að díakoníu og hjálparstarfi er því ekki nóg að gefa með sér af brauðinu sínu ef því fylgir ekki krafa um réttlæti til handa þeim sem líða undan fátækt.

    Það er til nóg til af brauði til að fæða allan heiminn. Því hlýtur hungrið í heiminum að stafa af misskiptingu gæða. Sum hafa meira en nóg, önnur hafa alltof lítið. Slíkt er óásættanlegt. Hvort sem misskipting á rætur að rekja til græðgi, sögulegra atburða, náttúruhamfara eða vanþekkingar, á hún ekki að líðast. Við erum kölluð til að vinna gegn misskiptingu. Við erum kölluð til að uppræta hungur.

    Daglegt brauð eru mannréttindi allra.

  • Þjóð, kirkja og hjúskapur

    Árni og Kristín:

    Um helgina tóku gildi ný hjúskaparlög á Íslandi. Fyrir það hafa Íslendingar hlotið hrós frá mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna sem lítur á lögin sem skref í þá átt að samkynhneigðir njóti jafnra réttinda og virðingar.

    Þingvallakirkja á júníkvöldi

    Hér á landi hafa trúfélög umboð til að gefa fólk saman í hjónaband. Þess vegna hafa þau verið virkir þátttakendur í samtalinu um hjúskaparlögin. Eðli málsins samkvæmt snertir þetta mál þjóðkirkjuna með sérstökum hætti þar sem prestar hennar framkvæma langflestar hjónavígslur sem fram fara í landinu.

    Innan þjóðkirkjunnar hafa málefni samkynhneigðra verið mikið til umfjöllunar. Kirkjan hefur, eins og samfélagið almennt, þurft að horfast í augu við að margt í hennar eigin sögu hefur stuðlað að útskúfun og jaðarsetningu samkynhneigðra. Viðhorfsbreyting gagnvart samkynhneigðum hefur átt sér stað í þjóðkirkjunni, eins og í samfélaginu almennt.

    Þjóðkirkja hefur ríkari skyldur við þjóðina en önnur trúfélög. Kirkja og þjóð eiga að ganga saman þegar kemur að umbótum á mannréttindum og auknu jafnrétti. Annars missir kirkjan marks sem þjóðkirkja og gerir sig að sértrúarsöfnuði. Sértrúarsöfnuður lýtur öðrum lögmálum en þjóðkirkja og getur í nafni trúar og samviskufrelsis farið aðra leið en fólkið í landinu þegar kemur að umbótum á mannréttindum.

    Frá því lög um staðfesta samvist tóku gildi 27. júní 1996 hafa samkynja pör getað fengið blessun og bæn yfir samband sitt í kirkju. Frá 27. júní 2008 hafa pör getað staðfest samvist sína í kirkju. Frá 27. júní 2010 geta bæði samkynja pör og gagnkynja pör gengið í hjónaband í kirkju. Þetta er eðlileg þróun. Kirkjan er samstiga þjóðinni í umbótum á mannréttindum og velferð. Þjóð og kirkja eiga samleið þegar ný hjúskaparlög taka gildi.

  • Til hamingju með ein hjúskaparlög

    Árni og Kristín:

    Til hamingju með daginn

    Til hamingju með ein hjúskaparlög sem taka gildi í dag. Deginum verður fagnað með fjölbreyttum hætti í kirkjum víða um land, t.d. verður gleðimessa á Möðruvöllum í Hörgárdal kl. 20.30 í kvöld.

    Þessi dagur er gleðilegur af svo mörgum ástæðum. Það er sannarlega skref í rétta átt í mannréttindamálum að samkynhneigðir séu ekki aðgreindir með sérstökum lögum sem gilda bara um þá. Kirkjan hefur verið þátttakandi í samtalinu um hjúskaparlögin vegna þess að trúfélög á Íslandi hafa umboð til að vígja í hjónaband. Innan kirkjunnar – eins og í samfélaginu öllu – hefur grundvallar viðhorfsbreyting gagnvart samkynhneigðum átt sér stað.

    Frá og með deginum í dag geta öll pör gengið í hjónaband í þjóðkirkjunni. Þannig á það að vera – og því ber að fagna!