Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Óttatímar

    Haustlauf

    Þegar manneskjan verður óttaslegin bregst hún við með vissum hætti. Það eru eiginlega náttúrulegir varnarhættir sem gera vart við sig þegar óttinn grípur okkur. Þessir varnarhættir miða að því að verja okkur sjálf, nema hvað.

    Það merkilega er að við bregðumst eins við þegar eitthvað ógnar okkur í raun og veru – og þegar eitthvað ógnar heimsmynd okkar og lífsskoðunum. Varnarhættirnir sem við sýnum þegar eitthvað ögrar viðteknum skoðunum og gildum, geta lokað okkur inni í ótta og andúð á því sem er öðruvísi.

    Við sjáum margskonar varnarhætti og óttaviðbrögð í kringum okkur núna. Þess vegna viljum við gera þessa bæn um styrk á óttatímum að okkar.

    Bæn um styrk á óttatímum

    Látum okkur vera hin fullorðnu í herberginu
    þau sem þekkja sársauka sinn og finna til.
    Þau sem þekkja of vel skelfingu umburðarleysis, múgsefjunar, ofbeldis.
    Þau sem leyfa ótta sínum ekki að umbreytast í biturð.
    Þau sem sætta sig ekki við hatrið sem endanlegt svar.

    Látum okkur vera hin fullorðnu í herberginu,
    sem uppnefna ekki aðra,
    sem ofureinfalda ekki málstaði né smætta manneskjur.
    Sem mála ekki myndir með hnussi og of breiðum penslum.
    Sem afgreiða ekki margbrotið fólk með einföldum dómum.

    Látum okkur vera hin fullorðnu í herberginu,
    þau sem ganga á milli í eineltinu.
    Þau sem leyfa ekki uppnefni.
    Sem líða öðrum ekki að smætta manneskjur.
    Sem standa með kærleikanum.

    Látum okkur vera hin fullorðnu í herberginu,
    þau sem spyrja spurninga, færa rök.
    Sem vita að sannleikurinn gerir okkur frjáls.
    Sem skilja hvenær á að tala og hvenær á að hlusta.
    Sem læra af harðneskju sögunnar og heita: „Aldrei framar.“

    Látum okkur vera hin fullorðnu í herberginu,
    þau sem vita að Hið heilaga rúmast ekki í einu nafni.
    Sem veita viðtöku visku Allah, Móse,
    sem fagna lífi Krishna, Jesú,
    sem lesa heilaga ritningu náttúru og vísinda.

    Látum oss vera hin fullorðnu í herberginu,
    þau sem vita að fjölbreytni gerir okkur sterkari.
    Sem leita margbrotinnar visku,
    sem tala mörg tungumál,
    sem vilja viðurkenna að við þörfnumst hvers annars.

    Höfundur bænarinnar heitir Meg Riley. Hún er prestur.

  • Samstarfssáttmáli

    Skrifað í forskriftarbók í skólanum

    Við hjónin eigum þrjú börn á grunnskólaaldri. Af ýmsum ástæðum eru þau öll í sitthvorum skólanum. Tvö eru í grunnskólum Reykjavíkur og eitt í skóla nágrannasveitarfélagi.

    Við höfum því forréttindastöðu þegar kemur að því að upplifa og reyna starfið í skólunum. Almennt hefur reynslan okkar af samstarfi við kennara og skólayfirvöld verið mjög góð. Kennarar barna okkar hafa sýnt frumkvæði og sköpunargáfu í samskiptum við heimilin og það er auðvelt að finna að hverjum nemanda er mætt með umhyggju.

    Í morgun vorum við á fundi í einum skólanum, þar sem báðir kennarar árgangsins hittu foreldra í upphafi skólastarfs. Tilgangur fundarins var meðal annars að koma á samstarfssáttmála milli skóla og heimilis, með því að skilgreina hvert er hlutverk skólans og hvert er hlutverk heimilisins.

    Foreldrarnir á fundinum fengu nokkrar mínútur í minni hópum til að setja á blað sínar hugmyndir hvert hlutverk skólans væri og hvert hlutverk heimilisins. Til vara mátti setja niður á blað hvað við teldum ekki vera hlutverk skólans og ekki heimilisins. Að lokum deildu hóparnir með hver öðrum því sem fram kom í samtalinu milli foreldranna.

    Meðal þess sem foreldrum fannst vera hlutverk skólans var að leiðbeina, veita uppeldi, skapa tækifæri til náms, kenna nemendum að við erum ólík, með ólíkar þarfir og ólíkar skoðanir, og kenna samskipti. Hlutverk heimilisins var m.a. að skapa börnunum öruggt og nærandi umhverfi svo þau gætu notið skólans og fræðslunnar þar, veita uppeldi og kenna virðingu fyrir reglum, s.s. stundvísi.

    Á sama hátt var það niðurstaða fundarins að það væri ekki hlutverk skólans að mismuna nemendum og hunsa þarfir þeirra. Eins er það ekki hlutverk heimilis að sýna neikvæðni í garð skólans og starfsemi hans.

    Út frá þessum hlutverkum voru dregin gildi, sem fundurinn vill sjá í fyrirrúmi í samstarfi heimilis og skóla. Þau voru

    • Öryggi
    • Umhyggja
    • Virðing
    • Vinátta

    Af því að þetta er sáttmáli, heitum við því hér með að leggja okkur fram um að láta börnunum okkar í té og kenna þeim að miðla til annarra: öryggi, umhyggju, virðingu og vináttu.

    Samstarfssáttmáli er málið.

  • Hvers konar samfélag?

    Þórhallur Heimisson var fundarstjóri á borgarafundi um fátækt sem var haldinn á miðvikudaginn. Hann segir frá fundinum í viðtalinu hér að ofan. Þórhallur skrifaði líka stuttan og brýnandi pistil þar sem hann segir meðal annars:

    Við köllum okkur stundum velferðarþjóðfélag en stöndumst þó hvergi samanburð við raunveruleg norræn velferðarþjóðfélög. Gerðum það ekki heldur á góðæristímabilinu.

    Og svo bætir hann við (og hnýtir aðeins í ESB umsóknina):

    Við erum að sækja um ESB aðild núna. Væri ekki nær að senda sendinefnd þingmanna í læri t.d. til Kaupmannahafnar eða Stokkhólms til að læra hvernig á að reka mannbært samfélag?

    Látum liggja á milli hluta hvaða afstöðu við höfum til ESB, en höldum því til haga að við getum lært sitthvað af frændþjóðum okkar á Norðurlöndunum. Og höldum svo áfram að velta fyrir okkur hvers konar samfélag við viljum byggja upp á Íslandi eftir Hrun.

    Er það ekki aðalmálið?

  • Uppáhaldslagið Komdu

    Svavar Knútur Kristinsson er snillingur og Hraun er uppáhaldshljómsveit. Enda spiluðu þeir í brúðkaupsveislunni okkar og lágu ekki á liði sínu. Á síðustu menningarnótt vorum við í Kraumi þar sem þeir félagarnir léku lagið Komdu. Það er einmitt uppáhaldslag :)

  • Þjónustumiðstöð nærsamfélagsins

    Þessir krakkar tóku þátt í starfi fyrir börn í sókninni sinni.

    Þessir krakkar tóku þátt í starfi fyrir börn í sókninni sinni.

    Í öllum hverfum borgarinnar, í hverjum bæ og hverri sveit er þjónustumiðstöð á formi sóknarkirkju. Þar er veitt margþætt þjónusta fyrir einstaklinga og hópa í ólíkum aðstæðum sem koma upp í lífinu.

    Rekstur þessara þjónustumiðstöðva nærsamfélagsins hvílir á sóknargjöldum. Þau innheimtir hið opinbera fyrir öll trúfélög á Íslandi. Hver fullráða einstaklingur greiðir í ár 767 krónur á mánuði til sinnar þjónustumiðstöðvar. Sóknargjöldin renna þannig beint til nærsamfélagsins á hverjum stað.

    Sóknarnefndir móta starf þessara þjónustumiðstöðva því sóknir þjóðkirkjunnar eru sjálfstæðar stjórnsýslueiningar. Þeim er stjórnað af sjálfboðaliðum sem þiggja umboð sitt á almennum safnaðarfundum sem haldnir eru árlega. Þau sem eru skráð í þjóðkirkjuna geta þannig haft bein áhrif á starf sóknarkirkjunnar sinnar og ákveðið í samstarfi við prestana sína hvernig sóknarkirkjan nærir samfélagið.

    Sóknarkirkjan er öllum opin. Þjónusta presta og safnaða stendur öllum til boða, óháð trúfélagsaðild. Möguleikar safnaðarstarfsins mótast hins vegar af tekjum kirkjunnar, sóknargjöldunum. Ef þú segir þig úr þjóðkirkjunni verður sóknarkirkjan þín af tekjum án þess að nærsamfélaginu sé bætt það upp með beinum hætti. Einhliða skerðing stjórnvalda á sóknargjöldum bitnar líka á nærsamfélaginu.

    Öflugt nærsamfélag nærir einstaklinga og fjölskyldur, skapar öryggi og skilyrði til þroska. Það hlúir að sjálfbærum lífsstíl. Nærsamfélagið er mikilvægur varnarþáttur í þjóðfélaginu og um það þurfum við að standa vörð.

    Kirkjan er þar sem fólkið kemur saman til að syngja og tala, prjóna og biðja, föndra, drekka kaffi, til alls þess sem sem söfnuðurinn skapar í sameiningu. Sóknarkirkjan er hluti af nærsamfélaginu og sóknarkirkjan nærir samfélagið. Með því að vera í þjóðkirkjunni styrkir þú þjónustumiðstöðina þína. Það skilar sér inn í nærsamfélagið þitt.

  • Gulrætur og svínaspik

    Frakkar eru hugkvæmir þegar grænmeti er annars vegar. Auk þess eru þeir öfundsverðri af úrvalinu sem stendur þeim til boða. Hefur það eitthvað með ESB að gera? Látum svarið við því hanga í loftinu.

    Hér er hins vegar uppskrift af ljúffengum rétti sem er góður einn sér ellegar með steiktu kjöti, en lang bestur þegar hans er notið í góðum félagsskap.

    Carottes au lard – Gulrætur með svínaspiki (handa 4)*

    • 1/2 kg nýjar gulrætur
    • 10-12 sjalottlaukar eða nýir laukar
    • um 200 g mögur svínasíða án pöru (má nota beikon af því að á Íslandi fæst voða lítið af lekkerum kjötvörum)
    • 3 msk smjör, salt, pipar
    • 2-3 dl kjötsoð, steinselja

    Svo gerist þetta svona:

    1. Skolið og skafið gulræturnar og skerið í bita (ekkert alltof stóra, ekkert alltof smáa). Hreinsið laukana og skerið í smáa bita.
    2. Skerið spikið í smábita og steikið í 1 msk af smjöri. Bætið í gulrótum og lauk og látið krauma með smástund. Saltið og piprið.
    3. Bætið í kjötsoði og sjóðið með lokið að hálfu yfir pottinum þar til gulræturnar eru orðnar meyrar og lítið er eftir að vökva. Stráið steinselju yfir.

    Við bárum þetta fram með nýbökuðum bagettum, það féll í góðan jarðveg hjá börnum og fullorðnum.

    * Byggt á bókinni Franskur Sveitamatur sem AB gaf út í Reykjavík 1987 og geymir margar afbragðs uppskriftir.

  • Einfalt og hollt og fjölbreytt

    Skyr með bláberjum og smá rjóma er afbragðs matur.

    Skyr með bláberjum og smá rjóma er afbragðs matur.

    Okkur langar að taka undir með Steinunni Stefánsdóttur sem skrifar leiðara Fréttablaðsins í dag. Hún segir meðal annars:

    Vitað er að mataræði og neysluvenjur allar hafa veruleg áhrif á heilsu. Þegar barni er gefið að borða er þannig ekki bara verið að seðja hungur og næra það fyrir daginn heldur er líka verið að leggja inn til framtíðar, ala upp neytanda. Sá matur sem börnum er boðinn hefur áhrif á það hvernig matarsmekkur þeirra þróast og þar af leiðandi hvernig mat þau munu velja sér þegar þau hljóta sjálf til þess umboð. Þannig geta matarvenjur í æsku haft verulega áhrif á heilsu, ekki bara á barnsaldrinum heldur um alla framtíð.

    Leggjum áherslu á einfaldan, hollan og fjölbreyttan mat. Fyrir börnin í skólanum. Fyrir börnin og foreldrana heima.

    Ps. Lesendur bloggsins mega gjarnan deila með okkur hugmyndum og jafnvel uppskriftum að einföldum og hollum uppáhaldsmat.

  • Tilkynningaskylda prestsins er algjör

    Árni og Kristín:

    Sr. Geir Waage hefur verið áberandi í fjölmiðlum í gær og í dag. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag og viðtölum á Pressunni, Eyjunni, Mbl.is og Rúv.is heldur hann fram þeirri skoðun að þagnarskylda prestsins sé algjör og hafin yfir fyrirmæli barnaverndarlaga um tilkynningaskyldu. Í frétt sem birtist á vef Ríkisútvarpsins í dag segir:

    Lögfræðingur á Barnaverndarstofu sagði í viðtali við RÚV nýverið að öllum þeim, sem gruni að brotið hafi verið gegn barni, beri skylda til að tilkynna slíkt til barnaverndarnefnda. Þagnarskylda presta gangi ekki framar þessari skyldu.

    Sr. Geir Waage er ekki sammála þessu. Prestar eigi ekki að tilkynna það sem komi fram í trúnaðarviðtölum við skjólstæðinga. Þagnarskyldan verði að vera alger eða engin. Allt sem prestur verði áheyrandi að við skriftir heyri hann í Kristsstað og presturinn sé bundinn algerri þagnarskyldu um það.

    Þetta er rangt hjá sjera Geir.

    Tilkynningaskylda prestsins er algjör þegar kemur að þessu ákvæði barnaverndarlaga.

    Biskup Íslands svarar þessu í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér eftir hádegi í dag:

    Fyrirmæli barnaverndarlaga taka af öll tvímæli um tilkynningaskyldu presta að hún gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu. Gengið er út frá því að velferð barnsins hafi forgang. Það er í fullu samræmi við hina kristnu siðfræði og mannsskilning sem setur barnið og velferð þess fremst.

    Samkvæmt starfsmannalögum eru prestar eins og allir opinberir starfsmenn bundnir trúnaði og þagnarskyldu um það sem þeir verða áskynja í starfi og leynt skal fara. En jafn ljóst er að þeim ber að lúta fyrirmælum barnaverndarlaga.

    Í skriftum ber presturinn þá ábyrgð að hlusta á syndajátningu einstaklings „í Guðs stað“ og boða iðrun og fyrirgefningu syndanna í Jesú nafni. Þegar einstaklingur leitar prests til að skrifta, það er játa synd sína og þiggja fyrirgefningu syndanna eins og af Guðs munni, þá á það sér undanfara í samtali þar sem iðrun og yfirbót er mikilvæg forsenda. Þó að presturinn sé bundinn trúnaði sem hann má ekki bregðast, þá getur skriftarbarnið ekki bundið samvisku prestsins. Íslensk lög og kirkjuréttur hafa gengið út frá því um langan aldur. Presti sem verður áskynja í skriftum að lífi eða heill annarra er ógnað er skyldugt að leiða viðkomandi fyrir sjónir að honum beri skylda til að koma í veg fyrir það og að prestinum sé skylt að tilkynna slíkt ef viðkomandi gerir það ekki sjálfur.

    Velferð barnsins á að hafa forgang.

    Höfum það hugfast.

  • Trúverðugleiki kirkjunnar er í húfi

    Kristín:

    Í fjölmiðlum síðustu daga hefur manni virst sem svo að innan þjóðkirkjunnar séu uppi ólík sjónarmið þegar kemur að þagnarskyldu presta í tilfellum sem varða barnaverndarmál.

    Die Nacht

    Margir hafa bent á að ákvæði barnaverndarlaganna séu skýr þegar kemur að skyldu og ábyrgð þeirra sem verða varir við að pottur sé brotinn í velferð barna. Þetta sjónarmið kemur vel fram í siðareglum fyrir starfsfólk kirkjunnar og vígða þjóna kirkjunnar, sem voru samþykkt á kirkjuþingi 2009. Karl Sigurbjörnsson biskup hnykkir á þessu í grein í Fréttablaðinu og á trú.is í dag og segir þessi ákvæði vera undantekningarlaus:

    „Í siðareglunum er og skýrt kveðið á um upplýsingaskyldu skv. barnaverndarlögum þar sem segir að starfsfólk og vígðir þjónar kirkjunnar skuli „vera ávallt upplýst um lög og reglur sem gilda um börn og unglinga og að skylt sé að tilkynna barnaverndaryfirvöldum ef ætla má að barn búi við óviðunandi aðstæður eða er þolandi ofbeldis“. Þessar siðareglur voru samþykktar á Kirkjuþingi 2009 og gilda fyrir alla presta og starfsmenn Þjóðkirkjunnar undantekningarlaust.“

    Það kveður við annan tón hjá sóknarprestinum í Reykholti, séra Geir Waage, sem telur að trúverðugleiki prestsins býði hnekki ef þagnarskyldan víki fyrir upplýsingaskyldunni. Hann lætur hafa eftir sér í viðtali við Pressuna í dag:

    „Presturinn er sálusorgari og það sem hann heyrir í skriftum má ekki, undir neinum kringumstæðum, fara lengra. Annaðhvort er þagnarskyldan algjör eða engin.  Trúverðugleiki prestastéttarinnar er í húfi því ef menn geta ekki treyst því að það sem þeir segja prestinum fari ekki lengra er trúnaðurinn horfinn.“

    Hér er greinilegur ágreiningur á ferð um eðli þagnarskyldu prests og gildi barnaverndarlaganna. Það sem er umhugsunarvert er hins vegar hver staða embættismanns er, sem lýsir því yfir að hann muni ekki fara eftir landslögum.

    Hvernig bregst biskupsembættið og kirkjuráð við því?

    Trúverðugleiki kirkjunnar er einmitt í húfi.

  • Takk fyrir

    Árni og Kristín:

    Þakklætið er ekki ein af hinum klassísku dygðum en okkur finnst að það eigi svo sannarlega heima í lista yfir nútímadygðir sem hjálpa okkur að lifa hinu góða lífi.

    Þakklæti er grundvallarafstaða til lífsins. Þakklæti er meðvitund um að við lifum í þörf. Þörf fyrir aðrar manneskjur, ást, næringu, ljós, áskoranir, viðurkenningu og daglegt brauð.

    Þakklæti er að leyfa sér að vera manneskja. Þakklæti er að gleðjast yfir lífinu.

    Við eigum uppáhaldssálm um þakklætið sem er ættaður frá Þýskalandi. Hann hefst svona:

    Danke für diesen guten Morgen,
    danke für jeden neuen Tag.
    Danke, dass ich all meine Sorgen auf dich werfen mag.

    Íslenska útgáfan hefst svona:

    Þakkir fyrir hvern fagran morgun
    þakkir fyrir hvern nýjan dag
    þakkir að ég get endurgoldið og elsku veitt í mót.

    Í dag viljum við þakka fyrir fjölskyldu og vini, fólkið sem gefur okkur verkefni og áskoranir, fólkið sem nærir okkur með umhyggju, velvilja og kærleika. Við viljum þakka fyrir þau sem eru með okkur í dag og líka þau sem eru farin frá okkur og skilja eftir minningar og söknuð. Við viljum þakka fyrir hvert annað og fyrir þennan dag.

    Fyrir hvað vilt þú þakka í dag?