Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Skilaboð frá Skrímslaborg

    Sölli í kvikmyndinni Skrímsli ehf.

    Við horfðum á Chris Martenson í uppáhaldsþættinum Silfri Egils í gær og hlustuðum á það sem hann sagði um orkuna. Hún er víst höfuðatriði í efnahagskerfum. Sturtið 100 milljónum dollara á sker úti í hafi. Ekkert gerist fyrr en þið bætið orkunni við. Þá fara hjólin að snúast.

    Chris Martenson setti líka aðgengi að orku á heimsvísu í samhengi við hagvöxt og efnahagslíf. Við höfum búið við stöðuga aukningu af orkuframboði í heiminum hingað til (frá við til kola, til olíu sem flæðir út um allt). Nú horfumst við í augu við að með hverju árinu sem líður minnkar aðgengi okkar að hefðbundnum orkugjöfum. Þetta minnkar ekkert endilega með látum, en toppinum er náð. Við þurfum að hugsa neyslu og uppbyggingu hagkerfa út frá þeirri staðreynd.

    Farsæld og vellíðan samfélaga í framtíðinni liggur ekki síst í því að þekkja með hvaða hætti þau geta verið sjálfbær með orku og nýtingu hennar. Á Íslandi er jarðvarminn sá orkugjafi sem við þurfum að læra að nota og nýta sem best.

    Mikilvægi orku og hvernig hún er nýtt er viðfangsefni teikninmyndarinnar Skrímsli hf. Hún gerist í Skrímslaborg þar sem Sölli, Maggi og öll hin skrímslin vinna við að hlaða niður skelfingaröskrum barna til að knýja borgina og skrímslaefnahaginn. Hagvöxtur Skrímslaborgar byggir á því að því meir sem skrímslin ná að hræða lítil börn með því að birtast undan rúmum og út úr skápum, því meiri orka er til staðar til að láta hjólin snúast.

    Eins og í öllum góðum sögum þá á sér stað hreyfing og þroski einstaklinga og samfélags. Helsti lærdómurinn sem Sölli og Maggi draga af starfssemi sinni er að hlátur barna skapar miklu meiri orku af sér en skelfing og grátur.  Það er því samfélaginu til góða að nota tækni og þekkingu til að skapa gleði og vellíðan en ótta og skelfingu.

    Sambandið á milli orku og þess hvernig fólki líður er bæði viðfangsefni Skrímsla hf. og fyrirlestra Chris Martenson. Orkan er undirstaða alls vaxtar og hreyfiaflið í samfélaginu. Með minnkandi orku minnka möguleikar á að bæta lífsstíl fólks. En þýðir það óhjákvæmilega að lífsgæði fólks muni minnka?

    Nei.

    Flottur lífsstíll og lífsgæði haldast ekki í hendur. Orku má nota til að ýta undir aukna neyslu en slíkt leiðir ekki endilega til góðs. Flottur lífsstíll tryggir ekki hamingju. Og ef hann er ekki sjálfbær viðheldur hann ranglæti sem bitnar á öðru fólki.

    Lífsgæði eru ekki fólgin í því að hámarka neyslu. Hlátur og gleði eru betri uppspretta velferðar og vellíðunar en ótti og skelfing.

    Skilaboð dagsins eru því þessi:

    Notum orkuna til góðs.

    Minnkum óttann.

    Hlæjum meira.

  • Þorum að hlusta

    Samfélag sem þorir að hlusta

    Guðrún Jónsdóttir, sem er talskona Stígamóta, segir í Fréttablaðinu í gær:

    „Þjóðfélagsumræðan að undanförnu um ofbeldi hefur hreyft mjög við fólki sem í áratugi hefur burðast eitt með leyndarmál sín. Það er eins og fólki sé að detta í hug í fyrsta skipti að það geti átt rétt á uppreisn æru. Það leyfir sér að þrá staðfestingu á að brotið hafi verið á því.“

    Hún heldur svo áfram og segir:

    „Mörg málanna eru fyrnd og sumir þeirra ofbeldismanna sem um ræðir eru dánir en eftir sitja konur og karlar sem að umræðan að undanförnu hefur hreyft við þannig að þetta fólk er í uppnámi. Það er langt síðan að ég minnist þess að samfélagsumræða hafi skilað fjölgun á borð við þessa inn til okkar.“

    Það sem við heyrum hana segja er að samfélagið hefur, í gegnum umræðu og upplýsingar um kynferðisbrot, opnað sig þannig að þolendum kynferðisofbeldis finnst að þeim sé sýnd virðing. Virðing gagnvart þeirri reynslu sem í lengri eða skemmri tíma hefur valdið sársauka og kreppt. Virðing gagnvart reynslu sem er óþolandi. Og núna skulum við að hlusta. Við skulum ekki að láta þau, sem brotið var á, bera byrðina ein.

    Þess vegna segjum við – sem samfélag – við þau sem hefur orðið fyrir ofbeldi:

    Gefðu þig fram, segðu söguna þína, leyfðu okkur að bera sársaukann þinn með þér. Við getum ekki sett okkur í þín spor því virðingarleysið sem þér var sýnt beindist ekki að okkur, en við viljum hlusta á þig og sýna þér þá virðingu að trúa þér.

    Við viljum standa með þér.

  • Haltu kjafti
!

    Ungur piltur og ryðguð keðja

    Ég var ellefu ára. Staddur heima hjá bekkjarbróður og við vorum að fara út að leika. Áður en við fórum af stað þurfti hann að tala við foreldra sína. Og þeim sinnaðist eitthvað og það skipti engum togum að hann gargaði á mömmu sína: „Haltu kjafti!“

    Svo rauk hann út. Og ég á eftir. Það kom á mig. Ég var alinn upp við það að svona talaði maður ekki við foreldra sína.

    Ég veit ekki hvað varð um strákinn eða fjölskyldu hans. Ég þekki ekki söguna á bak við þetta. En ég hugsaði um þetta kvöld í vikunni þegar ég sá móður hans á gangi niðri í bæ. Hún er svolítið kreppt í útliti. Gengur um lotin. Beygð. Eins og kona sem hefur þurft að bera þunga byrði á ævi sinni.

    Ég hef séð hana nokkrum sinnum í gegnum árin – og reyndar tvisvar í þessari viku! Og alltaf leitar hugurinn aftur til þessa kvölds.

    Þetta hefur líka fengið mig til að hugsa um það hvernig við komum fram hvert við annað, hvað fólk þarf að bera, hverju það þarf að taka á móti.

    Hvers konar heimilisaðstæður ala af sér svona samskipti? Hvað þarf að gerast í sambandi foreldra og barna til að þau gargi á hvert annað: „Haltu kjafti!“ Hvað við getum gert, sem samfélag, til að styðja. Hvernig getum við mætt hvert öðru betur?

    Hér er ein tillaga:

    Við skulum reyna, á hverjum degi, að mæta fólki þannig að það gangi frá samfundum okkar með örlítið beinna bak. Minna kreppt. Með betri tilfinningu fyrir því hvers virði þau eru, reistari sem manneskjur. Þá geta þau mætt öllum hinum betur. Og gefið þeim meira af sér.

    Smátt og smátt verður þá samfélagið okkar aðeins reistara, minna kreppt. Opnara og hlýrra. Og aðeins fallegra.

  • Krútt í reykvískum Bakgarði

    FM Belfast í kvikmyndinni Backyard

    Í gærkvöldi sáum við tónlistarmyndina Backyard frumsýnd í Bíó Paradís. Myndin er höfundarverk þeirra Árna Sveinssonar og Árna Rúnars Hlöðverssonar. Hún fjallar um tónlistarsenuna á Íslandi og segir menningarnætursögu í bakgarði við Frakkastíg þar sem nokkur af mest spennandi böndum landsins komu saman einn dag til að spila tónlist fyrir gesti og gangandi.

    Meðal þeirra sem koma fram í myndinni eru Borko, Sin Fang Bous, Hjaltalín, Reykjavík!, Múm, Retro Stefson og FM Belfast, en Árni Rúnar er einmitt meðlimur í síðastnefndu hljómsveitinni.

    Backyard er opnunarmynd bíótektsins Bíó Paradísar. Það var rífandi stemning í salnum, áhorfendur klöppuðu þegar hljómsveitirnar höfðu flutt lögin sín, og skemmtu sér svo prýðilega að mynd lokinni. Okkur fannst þetta skemmtileg innsýn í tónlistarsenuna á Íslandi. Davíð Þór kallaði myndina „Krútt í Reykjavík“ á fésinu. Við erum sammála og hlökkum til að heyra meira.

    Takk krútt!

  • Videoblogg #3: Meira um Liljur vallarins

    Örlítið meira um Liljur vallarins, þar sem lífsspurningarnar eru ræddar í prédikunarstólnum og stofunni og fjósinu og úti á túni. Árni videobloggar.

  • Videoblogg #2: Bíóseptember

    September er bíómánuður og algjör uppáhaldsmánuður hjá okkur sem bíóunnendum. Í dag opnar Bíó Paradís og í næstu viku hefst Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík. Árni videobloggar.

  • Videoblogg #1: Liljur vallarins

    Við ætlum að gera svolitla tilraun með videoblogg á næstunni. Við prófuðum þetta á þingi Lútherska heimssambandsins í Stuttgart í sumar og nú langar okkur að halda áfram. Kristín byrjar með stuttu spjalli um heimildarmyndina Liljur vallarins. Hún var tekin fyrir á þriðjudagssýningu Deus ex cinema hópsins í gærkvöldi. Þorsteinn Jónsson, kvikmyndagerðarmaður, var gestur okkar og hann leiddi okkur inn í mynd sína og tók svo þátt í skemmtilegu samtali að sýningu lokinni. Mögnuð mynd!

  • Bregðumst við

    Bregðumst við!

    Gerður Kristný er brýnandi í bakþönkum gærdagsins:

    Enn hefur speglinum verið brugðið á loft en nú er hann borinn upp að vitum okkar til að ganga úr skugga um að með okkur bærist lífsmark, fólkinu sem hvorki gat skenkt Sigrúnu Pálínu skilning né samúð. Næst þegar til okkar verður leitað skulum við bjóða gestinum til sætis, ljúka hurðinni aftur, slökkva á símanum og leggja við hlustir. Eitt getum við nefnilega verið viss um, fleiri eiga eftir að biðja okkur um áheyrn.

    Þetta er prófraunin.

    Bregðumst við!

  • Við viljum enga fordóma

    Við viljum enga fordóma

    Við höfum hlustað mikið á barnaplötuna Meira pollapönk í sumar. Lokalagið á henni fjallar um fordóma og það heitir Þór og Jón eru hjón. Textinn dregur upp mynd af nokkrum dæmigerðum einstaklingum sem verða fyrir barðinu á fordómum samfélagsins. Þar á meðal eru hommarnir Þór og Jón sem eiga saman börnin Sif og Örn, Pólverjinn Michal Král sem vinnur hjá Suðurstál og Ylfa Þöll sem elskar tröll.

    Pollarnir taka skýra afstöðu gegn hvers kyns fordómum og þeir kveða í viðlaginu:

    „Ef þú lætur plata þig
    í að tala illa um mig,
    láttu af þeim ósóma,
    við viljum enga fordóma.“

    Því miður eru birtingarmyndir fordóma í dægurmenningunni ekki án fyrirmynda. Í dag voru fjölmiðlarnir fullir af miður skemmtilegum fréttum um íslenska fjölskyldu af kúbverskum uppruna sem hafði reynt á eigin skinni fordóma og ofbeldi vegna kynþáttar.

    Faðir og unglingssonur flúðu land vegna kynþáttafordóma. Ungur maður af erlendu bergi brotnu átti kærustu á Íslandi og var mætt af fordómum.

    Toshiki Toma er prestur innflytjenda á Íslandi. Hann þekkir til fleiri svona mála eins og hann greinir frá í þessu viðtali. Almennt séð séu þó Íslendingar umburðarlyndir í garð innflytjenda. Þeir sem stundi slíkar ofsóknir séu fámennur og fáfróður hópur.

    Pollapönkararnir eru á sömu skoðun. Þeir telja meira að segja að fordómar séu eitthvað sem við lærum, því að öll fæðumst við með tæran koll – þó sumir detti í drullupoll – og verði fordómum um aðra að bráð.

    Við erum sammála.

    Við viljum enga fordóma.

  • Ár sannleiksnefndanna

    Nú eru ár sannleiks- og rannsóknarnefndanna.

    Rannsóknarnefnd Alþingis sendi fyrr á árinu frá sér skýrslu þar sem sannleikurinn um Hrunið er dreginn fram. Í vikunni kom svo út skýrsla um skýrsluna frá Alþingisnefndinni sem fór yfir hana. Fyrir skemmstu var lofað sannleiksnefnd á vegum þjóðkirkjunnar sem á að rannsaka viðbrögð kirkjunnar þegar Sigrún Pálína Ingvarsdóttir steig ásamt fleiri konum fram árið 1996 og sagði frá ofbeldinu sem hún hafði mátt þola af hálfu Ólafs Skúlasonar, sem þá gegndi embætti biskups Íslands.

    Eitt er mikilvægt að hafa í huga varðandi sannleiksnefndirnar: Þær gefa okkur ekki annaðhvort-eða niðurstöður heldur kafa þær á dýptina, setja í samhengi, skýra.

    Það þurfti ekki rannsóknarnefnd Alþingis til að segja okkur að hrunið stafaði af því að kerfið og kerfiskallar og -konur hefðu brugðist. Við vissum það þegar allt fór á annan endann í október 2008.

    Það þurfti enga þingmannanefnd til að segja okkur að ráðherrarnir hefðu brugðist. Við vissum það þegar Geir sagði „Guð blessi Ísland“ í sjónvarpinu.

    Það þarf enga þjóðkirkjusannleiksnefnd til að segja okkur að kirkjan brást árið 1996. Við vissum það áður en biskup sagði það í Morgunblaðsviðtali í ágúst 2010.

    Sannleiksnefndir gefa nefnilega ekki annaðhvort-eða niðurstöður. Þær kafa á dýptina.

    Og við þurfum á því að halda núna.

    Þess vegna olli það vonbrigðum að Eygló Harðardóttir, þingkona, sem var annars flott í viðtalinu við Egil Helgason í Silfrinu í dag, skyldi segja að það þyrfti enga rannsóknar- eða sannleiksnefnd til að skoða einkavæðingu bankanna.

    Við erum ósammála því. Nú er einmitt tími rannsóknar- og sannleiksnefnda. Við skulum velta við steinum og skoða ofan í kjölinn og læra af reynslunni.

    Við skuldum okkur sjálfum það.
    Við skuldum börnunum okkur það.