Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Betri heimur með betri umræðu

    Outside

    Á Eyjubloggi birtist fyrr í gær færslan Betri heimur án trúarbragða eftir Valgarð Guðjónsson. Máli sínu til stuðnings nefnir Valgarður meðal annars tíu jákvæðar yrðingar um trúleysi.

    Skilja má pistil Valgarðs sem svo að hinn trúlausi aðhyllist betri lífsskoðun þar sem þessi tíu atriði gildi um hann – og aðeins hann.  Okkur sýnist í fljótu bragði sem þessar yrðingar eigi jafnframt við mikinn fjölda trúaða einstaklinga, til að mynda þá sem tilheyra þjóðkirkjunni á Íslandi.

    Sá sem er trúaður og tilheyrir þjóðkirkjunni (og hér tölum við um þjóðkirkjuna sérstaklega því það er okkar trúfélag og við þekkjum hana best):

    1. getur komið í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma með því að nota smokk – og hefur getað lengi
    2. lætur alveg vera að fordæma þá sem laðast að eigin kyni
    3. hefur enga þörf fyrir að myrða lækna sem fara að lögum
    4. neitar ekki börnunum sínum um að þiggja blóð þegar það getur bjargað lífi þeirra
    5. lætur sér ekki detta í hug að drepa fólk sem teiknar skopmyndir af persónum sem voru (hugsanlega) uppi fyrir þúsunum ára
    6. finnur ekki hjá sér þörf til að sprengja sig og fjöldann allan af fólki í loft upp vegna trúarinnar
    7. treystir frekar á læknismeðferð en bænir
    8. lætur ekki taka ungar stúlkur af lífi sem hefur verið nauðgað
    9. brennir ekki heilu fjölskyldurnar inni vegna þess að hann heldur að þar séu nornir á ferð
    10. þarf ekki að óttast sem barn ef einhver nákominn deyr að viðkomandi líði vítiskvalir í helvíti

    Vandi Valgarðs og kannski vandi svona alhæfinga almennt er þessi: Alhæft er um trúarbrögð og trúaða einstaklinga almennt út frá nokkrum neikvæðum atriðum, sem augljóslega eiga alls ekki við alla. Þar að auki er gagnrýnin sem borin er á borð oftar en ekki gagnrýni sem margir trúaðir hafa þegar fært fram. Ekki þarf að horfa lengra aftur en til deilunnar um afstöðu til einna hjúskaparlaga hér á landi til að sjá þetta.

    Myndin sem Valgarður dregur upp er því of einföld. Fyrirbærið sem hann lýsir er flóknara en svo að það rúmist innan þessa ramma. Það sama gildir að sjálfsögðu um guðleysi/trúleysi. Það er flóknara en svo að hægt sé að afgreiða það með alhæfingum eins og að guðleysingjar séu siðlausir, að þeir séu ómögulegir uppalendur o.s.frv.

    Við eigum að sýna okkar eigin lífsskoðun og lífsskoðunum annarra virðingu. Við getum verið ósammála og talið sumt alveg hreint herfilega rangt, en við skulum ekki leggja upp með umræðu sem byggir á því að ýkja eða afskræma.

    Það gerir ekki gagn og afhjúpar endanlega bara fordóma þess sem heldur á penna.

  • Betri heimur án karlmanna

    „Hugsum okkur frétt um að 44% aðspurðra telji að heimurinn væri betri án karlmanna eða karlmennsku, en 18% að heimurinn sé betri vegna þessa. Gaman væri að heyra að fólk væri á réttri leið, mér þætti að minnsta kosti nokkuð ljóst að heimurinn væri miklu betri án karlmanna.

    Því sá sem er kona

    • getur komið í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma með því að nota smokk – og hefur getað lengi
    • lætur alveg vera að fordæma þá sem laðast að eigin kyni
    • hefur enga þörf fyrir að myrða lækna sem fara að lögum
    • neitar ekki börnunum sínum um að þiggja blóð þegar það getur bjargað lífi þeirra
    • lætur sér ekki detta í hug að drepa fólk sem teiknar skopmyndir af persónum sem voru (hugsanlega) uppi fyrir þúsunum ára
    • finnur ekki hjá sér þörf til að sprengja sig og fjöldann allan af fólki í loft upp vegna trúarinnar
    • treystir frekar á læknismeðferð en bænir
    • lætur ekki taka ungar stúlkur af lífi sem hefur verið nauðgað
    • brennir ekki heilu fjölskyldurnar inni vegna þess að hann heldur að þar séu nornir á ferð
    • þarf ekki að óttast sem barn ef einhver nákominn deyr að viðkomandi líði vítiskvalir í helvíti

    Það er ágætt að hafa í huga að kennisetningar sem margir karlmenn byggja á eru skrifaðar fólki sem (hugsanlega vel meinandi) var að leita að skýringum á heiminum og vildi gefa samferðamönnum sínum leiðbeiningar. Þetta var gert fyrir (mismunandi) mörgum öldum og aldatugum af fólki sem oftast hélt að jörðin væri miðpunktur alheimsins, vissi minna um mannslíkamann en þriggja ára barn í dag, hafði líklega ekki grun um þyngdarlögmálið, minnsta fyrirbæri sem þekktist var sennilega sandkorn og nýting rafmagns ekki einu sinni möguleg hugmynd í þeirra villtustu draumum. Og svo er ekki ólíklegt að eitthvað hafi skolast verulega til í þýðingum á leiðinni.

    Nú veit ég að margir karlmenn meina vel og fyrirlíta þá sem, að þeirra mati, mistúlka og misnota kennisetningar karlmanna til að réttlæta óhæfuverk. En það er nú gallinn við flesta karlmenn að þeir eru mótsagnakenndir innbyrðis í besta falli og hægt að teygja og túlka að vild. Og þeir sem voðaverk fremja í nafni karlmennsku eiga ekki í nokkrum vandræðum með að finna verkinu stoð í sinni „karlmennsku“. Það sem einum finnst dæmisaga sem ber að túlka með tilliti til aðstæðna tekur annar sem heilagan boðskap.

    Væri ekki betri heimur sem er einfaldlega laus við þetta?

    Ég á örugglega eftir að fá óteljandi athugasemdir um óhæfuverk kvenna og vissulega eru til skelfileg dæmi – en þau voru ekki framin í nafni kvenna heldur voru stjórnmálastefnur eða önnur vitfirring sem réði þar för. Eða eru einhver dæmi um fjöldamorð í nafni kvennahyggju (mér er illa við að nota hugtakið „feminisma“)?

    Ég var nýlega spurður hvað konur hefði gert fyrir heiminn og bent á fullt af jákvæðu starfi í nafni karla.

    Jú, það er rétt að mikið og gott starf er unnið í nafni karla, hjálparstarf er kannski það fyrsta sem kemur í hugann. En það er auðvitað hægt að hjálpa bágstöddum án þess að gera það í nafni karla og fullt af fólki sem sinnir eða styrkir hjálparstarf sem ekki tengist körlum á nokkurn hátt.“

    Finnst þér þetta fáránlegt?

    Gott.

    Okkur líka.

    Þetta er endursögn endurvinnsla á bloggfærslu Valgarðs Guðjónssonar um trúna í samtímanum. Í stað tvenndarinnar trúarbrögð-trúleysi hjá Valgarði höfum við sett karlar-konur.

    Hvorug framsetningin gengur upp. Látum hvert annað njóta sannmælis, karla og konur, trúaða og trúlausa.

    Við viljum enga fordóma.

  • Bull, ergelsi, pirra

    Vitringarnir þrír

    Vitringarnir sem sagt er frá jólaguðspjallinu færðu Jesúbarninu gjafir, gull, reykelsi og myrru. Í meðförum rebba í barnastarfinu í Neskirkju varð þetta reyndar að bulli, ergelsi og pirru. Þrettándinn er vitringadagur. Sigurður Árni segir frá vitringunum og hann spyr hvað við eigum að gera við helgisöguna um vitringana:

    Við eigum að nota vitringana sem fyrirmynd og íhuga og vitkast. Sagan tilheyrir áhrifasviði mannlífsins. Hún á sér líklega sögulega stoð. Engu skiptir þó hvort svo var eða ekki, en þó hefur hún engu að síður merkingu fyrir raunverulegt líf. […] [H]elgisögur hafa merkingu eins og mikilvægar sögur mannkyns, sögur sem túlka mikilvægi og skilgreina lífsefnin.“

    Og Sigurður Árni heldur áfram:

    Hin táknræna merking guðspjallstextans er þá m.a. að menn séu ferðalangar í tíma. Að markmið lífsgöngu allra manna sé líkt langferð vitringanna til móts við barnið, til að mæta manninum Jesú í tíma og í raunveruleika. Okkar köllun er að gefa það, sem okkur er mikilvægt, af okkur sjálfum, já okkur sjálf – eins og vitringarnir – og snúa síðan til okkar heima með reynslu af hinu stórkostlega í veganesti.

    Ágætis áminning á helgisögu- og vitringadegi.

  • 2010 í tólf myndum og nokkur hundruð orðum

    Á árinu sem senn er liðið stungum við nokkrum sinnum niður penna og skrifuðum pistla. Flestir birtust í Fréttablaðinu. Tveir í Morgunblaðinu. Allir birtust á vefnum. Þetta var viðburðaríkt ár.

    Desember

    Frá Esjustofu

    Desember var útgáfumánuðurinn mikli. Þá kom Glíman út og þar átti Kristín grein um helgihald og kirkjusýn. Þá gáfum við líka út Víðförla, níu bókamerki um vonina og svo jóladagatalið Að vænta vonar. Við gerðum líka öðruvísi jólakveðju.

    Tími þakka og pakka
    Dagur hinna saklausu barna
    Ljós koma
    Birta nándarinnar
    Smokkar og trúfesti eru forvarnir í þágu lífsins
    Aukapokinn er aðalpokinn

    Nóvember

    Kosið til stjórnlagaþings

    Nóvember var stjórnlagaþingsmánuður. Við vorum þeim Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugasyni innan handar, leiðbeindum þeim um notkun félagsmiðla og útbjuggum stuttar auglýsingar fyrir þau. Afar skemmtilegt. Arnfríður komst á þing :) Árni Svanur útbjó líka nokkur stutt myndbönd um þjóðgildabókina hans Gunnars Hersveins.

    Að vænta vonar
    Búrkubann?

    Október

    Landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar 2010

    Október var landsmótsmánuður. Þá fórum við eina helgi í skottúr til Akureyrar til að taka þátt í Landsmóti æskulýðsfélaga sem reyndist hin besta skemmtun. Landsmótið fékk líka mikla athygli í fjölmiðlum.

    Trú, boð og bönn
    Hreinsunardeild réttlætisins

    September

    Söfnunarbaukurinn í sunnudagaskólanum

    September var bíómánuður. Þá var Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík haldin og við veittum kvikmyndaverðlaun kirkjunnar í fimmta sinn. Mikið bíófjör.

    Umhverfisvænn norskur löggubíll
    Bræður munu bregðast
    Markaleysi og meðvirkni á hvíta tjaldinu
    Þjónustumiðstöð nærsamfélagsins

    Ágúst

    The lobster is on the grill

    Ágúst var mánuður sumarfrís og umróts í kirkjunni. Við áttum góða daga með börnunum í fyrri hluta mánaðarins, en fórum svo ekki varhluta af mikilli umræðu um kirkjuleg málefni. Svo kom Víðförli út, að þessu sinni helgaður heimsþingi LH.

    Takk fyrir
    Aldrei aftur

    Júlí

    Árni og Kristín

    Júlí var lútheskur mánuður. Þá sóttum við heimsþing Lútherska heimssambandsins sem var að þessu sinni haldið í Stuttgart í Þýskalandi. Kristín var þingfulltrúi og lauk líka setu sinni í stjórn LH, Árni Svanur var starfsmaður þingsins og ritstýrði myndböndum á ensku.

    Daglegt brauð eru mannréttindi allra

    Júní

    67borgari

    Júlí var hjúskaparlaga- og sumarfrísmánuður. Við hófum mánuðinn á góðu seminari um ólögmætar skuldir í Neskirkju. Víðförli kom út, helgaður því efni. Þá tóku gildi ný hjúskaparlög sem höfðu mikið verið í umræðunni. Þá fórum við líka í stutt sumarfrí með krökkunum okkar. Kærkomin hvíld og endurnæring.

    Þjóð, kirkja og hjúskapur
    Að skilja ríki og kirkju
    Völdum fylgir ábyrgð – opið bréf

    Maí

    Á+K

    Maí var brúðkaupsmánuður. Á hvítasunnudag gengum við í hjónaband í Langholtskirkju umvafin vinum og ættingjum. Sólin skein á réttláta og rangláta og hljómsveitin Hraun lék undir dansi.

    Fátækt og bænir
    Séra Ruddi dópar og drekkur

    Apríl

    Botnssúlur

    Í apríl voru páskar og við fögnuðum þeim við sólarupprás á Þingvöllum. Þá vorum við í hópi sem skipulagði og hélt reiðimessu í Grafarvogskirkju undir yfirskriftinni Hjartað brennur í brjósti mér. Í apríl gaus Eyjafjallajökull og við fengum nokkra aukadaga í Frankfurt vegna þess. Við gáfum líka út Víðförla, þann fyrsta með breyttu útliti.

    Vorar skuldir?
    Það sem gerir okkur reið
    Vonlaust samfélag?

    Mars

    Skuggamynd fyrir skjávarpa

    Í mars er æskulýðsdagur þjóðkirkjunnar og í tilefni hans var margmiðlunarmessan Bænarý haldin í Neskirkju.

    Sáttin og snjórinn

    Febrúar

    Á gatnamótum

    Febrúar var rólegur heimamánuður. Við héldum áfram að pæla í díakóníunni og hinni þjónandi kirkju vegna námskeiðsins sem við kenndum við guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ.

    „Ég stend með þér“
    Náungasamfélagið

    Janúar

    Kría spilar á ukelele

    Í janúar hófst annasamt og ávaxtaríkt ár, við byrjuðum með útvarpsmessu og settum okkur í díakóníugírinn fyrir námskeiðið Díakónía I.

    Barnið og Bjarnfreðarson
    Fólk ársins

    Þetta var gott ár. Við höfum miklar væntingar til þess sem senn gengur í garð.

  • Tími þakka og pakka

    Jólin eru sú hátíð „sem hjartanu er skyldust,“ orti Steinn Steinarr. Í kringum jólahátíðina eru iðulega dregin fram minningarbrot eldri kynslóða í ljóðum og frásögnum, sem varpa ljósi á hughrif og merkingu jólanna á liðnum tímum. En hvað einkennir jól samtímans?

    Dægurmenningin gefur vísbendingu um það. Þess vegna er áhugavert að skoða jólin í spegli kvikmynda og vinsællar tónlistar. Það eru ljóð og frásögur okkar tíma.
    Love Actually er ein vinsælasta jólamynd síðari ára. Sambönd fólks eru viðfangsefni myndarinnar og bakgrunnur hennar eru jólin. Eftir því sem sögunum vindur fram kemur grunnafstaða persónanna til jólanna í ljós – og það er augljóst að jólin sjálf hafa áhrif á gang mála.

    Jólin í Love Actually snúast um tvennt: að segja það sem manni býr í brjósti – segja sannleikann – og að vera hjá þeim sem maður elskar. Þetta tvennt knýr myndina áfram, vegna þess að það eru jól. Þegar við förum að segja það sem okkur í brjósti býr, horfumst í augu við tilfinningar, brotna erfið og gömul samskiptamynstur upp og nýir hlutir fá rými í lífinu. Að viðurkenna hvernig manni líður og segja frá því getur valdið manni sjálfum og öðrum erfiðleikum, eins og sumar persónurnar reyna. En jólin eru tími sannleikans og það er þess virði að mæta hindrunum til að uppfylla köllun jólastundarinnar.

    Geislaplatan Nú stendur mikið til kom út fyrr í vetur og inniheldur flutning Sigurðar Guðmundssonar á nýjum söngperlum með klassísku yfirbragði, ekki síst fyrir tilstilli texta Braga Valdimars Skúlasonar. Kunnugum myndum og táknum bregður fyrir á plötunni, eins og jólastjörnunni, jólasnjónum, drekkhlöðnu allsnægtarborði, stjörnueygðum strák og ferðamanni sem brýst í gegnum vetrarstormana til að vera hjá henni sem hann elskar.

    Söngvar Sigurðar og Braga Valdimars hitta beint í hjartastað – vegna þess að þeir slá á strengi sem tengja okkur við jólin. Þessir strengir ná enda alla leið til jólaguðspjallsins, þaðan sem þeir spretta, upp úr frummyndunum sem þar koma fyrir og allar kynslóðir kannast við.

    Í jólaguðspjallinu mætum við þrá okkar fyrir öryggi, skjól og hlýju, í fjárhúsinu sem Jesúbarnið kom í heiminn, þar brýst ljósið fram úr myrkviðum næturinnar, jatan er tákn um næringu og umhyggju sem við þurfum til að lifa af og síðast en ekki síst er nýfædda barnið tákn um líf og upphaf, hreinleika og ást.
    Þessar myndir hitta tilfinningar okkar fyrir og taka form í minningum okkar og reynslu. Það hvernig við höldum jólin tjáir þetta að einhverju leyti. Þörfin fyrir öryggi og næringu kemur fram í áherslunni á þægindi og góðgerðir sem einkennir hátíðahaldið. Köllunin til að sýna kærleika og veita umhyggju sýnir sig í því að við viljum gefa gjafir og gera öðrum gott.

    Að gefa og þiggja helst því í hendur og einkennir jólin, eins og segir í einum söngnum á Nú stendur mikið til:

    „Því jólin eru tími til að þakka
    og taka ofan fyrir þeim sem ber.
    Meðan ég hef matarögn að smakka
    og meðan ég fæ risavaxinn pakka.
    -Þá mega jólin koma fyrir mér.“ (Bragi Valdimar Skúlason)

    Birtist fyrst í Sunnudagablaði Morgunblaðsins, 24/12/2010.

  • Hver er gordjöss? Essasú?

    Sigurður Árni er gordjöss-þakklátur og gordjöss-krítískur í bakþönkum dagsins. Við mælum með disknum, laginu og pistlinum hans.

  • Dagur hinna saklausu barna

    Dagurinn í dag, 28. desember, er í kristinni hefð helgaður smábörnunum sem voru myrt í Betlehem af hermönnum Heródesar konungs. Þessi ljóta saga fær rými í skjóli jólanna, þegar við hvílum ennþá í hlýju og birtu fallegu frásagnanna um jötuna, stjörnuna og barnið – þannig að það er ekkert skrýtið að hún hitti okkur fyrir eins og þruma úr heiðskýru lofti.

    „Rakel grætur börnin sín,
hún vill ekki huggast láta, 
því að þau eru ekki framar lífs.“ (Matt. 2.18)

    Sagan er skráð í öðrum kafla Matteusarguðspjalls og byrjar í raun eftir að vitringarnir þrír höfðu verið hjá Jesúbarninu til að veita því lotningu. Þegar þeir voru farnir aftur til síns heima, vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera, uns ég segi þér, að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því. Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar með varð fjölskyldan með Jesúbarnið flóttamenn sem hröktust frá einum stað til annars.

    Gamli konungurinn, Heródes, áttaði sig þá á því að vitringarnir, sem höfðu ætlað að koma við hjá honum í bakaleiðinni höfðu gabbað hann og varð afar reiður. Hann seindi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri, en það svaraði þeim tíma, er hann hafði komist að hjá vitringunum.

    Hvað segir þessi saga okkur? Hún segir okkur t.d. að þjáningin og sorgin taka sér ekki frí yfir jólin. Slys, hamfarir og ofbeldisverk halda áfram að leggja líf í rúst. Sprengjuvargar halda sig við iðju sína og reisn og réttindi manneskjunnar eru áfram fótum troðin í fangabúðum og fangelsum heimsins eða á heimilum fólks.

    Þjáningin veldur sorg og vanlíðan. Þess vegna er harmagráturinn vegna barnsmorðanna í Betlehem umhugsunarefni þessa dags í miðri jólavikunni. Í næstu andrá við hátíð ljóss og friðar, þar sem himinn og jörð mætast og manneskjurnar fá að líta dýrð himinsins í barninu litla, dynja yfir ósköp af sláandi stærðargráðu. Öll sveinbörn undir tveggja ára aldri eru leituð uppi og deydd. Hrifin úr fangi örvæntingarfullra og máttvana foreldra sem þurfa að sjá á bak lífinu litla vegna brjálaðs og vænissjúks einræðisherra.

    Við getum litið á þetta vonskuverk Heródesar sem skref í hinu kosmíska stríði góðs og ills – þar sem hið illa tekur krampakennt áhlaup í kjölfar komu Guðs í heiminn. Svartur á leik – og hann svífst einskis – reiðir hátt til höggs og hittir fyrir þar sem sárast svíður.
    Andspænis illsku og voðaverkum vakna spurningar um réttlæti Guðs. Hvers vegna leyfir Guð illsku og þjáningu á borð við þessa? Hvers vegna var ekki hægt að bjarga litlu drengjunum í Betlehem – alveg eins og Jesúbarnið bjargast af forsjón Guðs sem leiðir fjölskylduna í öruggt skjól? Hvaða tilgangi þjónaði þessi fórn og þjáning saklausra barnanna?

    Hvar var Guð þegar hermenn Heródesar æddu á milli húsa með blóði storkin vopn við skerandi harmagrát og örvinglan íbúa Betlehem? Hvar var Guð í Auswitch? Hvar er Guð þegar fólk er rekið frá heimilum sínum og lífsviðurværi og þarf að leggja á flótta?
    Og af hverju bjargast sumir en ekki aðrir? Hvernig kemur það heim og saman að Guð sem elskar alla og hefur skapað allar manneskjur í sinni mynd, láti á svona áberandi hátt suma komast óskaddaða og ósnortna frá umbrotum á meðan þjáningin virðist fá frítt spil í líf annarra?

    Þessar spurningar eru ekki bara guðfræðilegar vangaveltur heldur spretta upp úr okkar eigin lífi og eigin reynslu – sem og lífi systra og bræðra um víða veröld. Og við erum kannski engu nær um hvert svarið er, eftir allan þennan tíma. Nema því svari sem okkar eigin reynsla og okkar eigið líf leiðir okkur til. Þjáningin og missirinn er og verður hlutskipti mannanna sem elska, missa, gráta og sakna, eins og skáldið komst að orði forðum. Það er inn í nákvæmlega þessar aðstæður sem sonur Guðs fæðist, það er nákvæmlega þetta hlutskipti sem Guð tekur á sig.

    Það er þetta sem Matteus vill benda á í frásögn sinni um barnamorðin í Betlehem, sjálfur Guð er ekki ósnortinn af illsku og ofbeldi heimsins. Búsetu hans, öryggi og lífi er ógnað frá fyrstu stundu.

    Barnadagurinn beinir huga okkar og hjörtum að þeim saklausu lífum sem týndust – og eru að týnast enn þann dag í dag. Hann minnir okkur líka á óendanlegt dýrmæti allra barna og óendanlega ábyrgð okkar gagnvart þeim. Í hverju barni mætir okkur hann sem sagði: allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það gjörðuð þér mér.

  • Tími vonarinnar

    Tími vonarinnar er tími þeirra sem elska okkur, okkar og þeirra sem við elskum.

    Andri Snær Magnason er tuttugasti og fjórði vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar.

    Gleðileg jól!

  • Engill á við þig erindi

    Sigrún Óskarsdóttir er tuttugasti og þriðji vonarberinn í jóladagatali kirkjunnar. Hún minnir okkur á engil vonarinnar sem boðar okkur gleðitíðindi.

  • Ljós koma

    Jólin 2009

    Íslensku jólin snúast um komu ljóssins – í trúarlegum og náttúrulegum skilningi. Minningarbrot frá eldri kynslóðum sem iðulega eru dregin fram í kringum jólahátíðina í formi ljóða og frásagna gera þessu góð skil. Slíkar Slíkar minningar draga jólin iðulega fram sem hinn mikla ljósgerving – hvort sem er með stjörnum á miðsvetarhimni snæþakts lands eða í formi hógværs kertaljóss í barnshendi.

    kertaljós í bláum fjarska,
    bak við ár,
    æskuminning um fegurð.
    (Jón úr Vör)

    Íslensku jólin hafa líka alltaf komið þótt þröngt sé í búi. Fátæktin er oft bakgrunnur jólakomunnar og gleðin yfir komu ljóssins er tjáð á nægjusaman hátt:

    Man það fyrst, er sviptur allri sút
    sat ég barn með rauðan vasaklút.
    (Matthías Jochumsson)

    Íslendingar sem eru jafnvel ekki háaldraðir eiga minningar um hvernig jólin birtust í afar hógværum efnislegum táknum eins og rauðum eplum sem öllu jafna fengust ekki í verslunum hér á landi nema um jól. Ljós í myrkri og uppbrot á fátæklegum hversdegi í formi klæða eða epla eru því jólastefin sem berast til okkar frá íslenskri fjarlægri og nálægri fortíð.

    Þessi stef eiga rætur sínar í jólaguðspjallinu þar sem frummyndir um ljós, skjól, næringu og líf eru tjáðar í fæðingarfrásögninni í Betlehem. Ljósið á jólanótt brýst fram úr myrkrinu sem umlykur náttúru og mannlíf og staðfestir þörf manneskjunnar: að þiggja og veita ást og líkamlega umhyggju.

    Koma ljóssins með hækkandi sól og fæðingu frelsarans hittir okkur í hjartastað. Þess vegna eru jólin hátíð tilfinninga og bernsku, sama hvað á hvaða aldri við erum. Uppbrot á hversdeginum felst ekki í yfirdrifinni neyslu heldur fremur að hlúa að því sem stendur hjartanu næst: kærleikanum til barnsins í okkur sjálfum og náunga okkar.

    Jólin eru til að þiggja og gefa kærleika.