Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Lúther á Sólon, Lúther í Bíó Paradís

    Kjalarnessprófastsdæmi og Hið íslenska Lúthersfélag standa fyrir sýningu á kvikmyndinni Luther á mánudegi í dymbilviku. Myndin fylgir sögu siðbótarmannsins frá fyrrihluta 16. aldar þegar hann byrjar sem ungur munkur að hvetja til breytinga innan kirkjunnar, sem hann telur þrúgaða af efnishyggju og hræsni. Barátta hans átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á mörgum sviðum menningar, trúar og stjórnmála.

    Myndin færist mikið í fang þar sem hún gerir tilraun til að fylgja hraðri og átakamikill atburðarrás yfir langan tíma. Fjölmargir skrautlegir karakterar sem komu við sögu í hræringum siðbótartímans eru mættir til leiks, bæði af veraldlegum og geistlegum toga. Myndin er þó ekki síst þroskasaga Marteins Lúthers og sýnir innri og ytri baráttu fyrir sannfæringu sinni og persónulegri trú.

    Áður en sýning hefst flytur sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi stutta innlýsingu um myndina og áhugaverð sjónarhorn á hana. Að sýningu lokinni leiðir dr. Gunnar Kristjánsson, prófastur, umræður um efni myndarinnar.

    Myndin er sýnd í Bíó Paradís mánudaginn 18. apríl og hefst sýningin kl. 20.

    Í tengslum við sýningu myndarinnar heldur Hið íslenska Lúthersfélag fund á Kaffi Sólon kl. 18. Þar mun formaður félagsins, dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, fara yfir starfsemi félagsins í stuttu máli og ritari félagsins, sr. Árni Svanur Daníelsson, ræða stöðu lúthersrannsókna á Íslandi við upphaf 21. aldar.

    Að lokum verða umræður um framtíðarstarf Lúthersfélagsins og ræddar hugmyndir að undirbúningi fyrir siðbótarhátíðina miklu eftir 6 ár, en árið 2017 eru liðin 500 ár frá upphafi siðbótarinnar sem er miðað við er Marteinn Lúther negldi greinarnar 95 á dyr Hallarkirkjunnar í Wittenberg.

    Allt áhugafólk um Martein Lúther og siðbótina er velkomið á meðan húsrúm leyfir.

  • Blýantsnagarar eru líka fólk

    Kanji Watanabe hefur verið borgarstarfsmaður og blýantsnagari allt sitt líf. Hann og eyðir dögunum á skrifstofunni sinni ásamt samstarfsfólki sínu, en gerir aldrei neitt. Þegar hann greinist með ólæknandi krabbamein fyllist hann þörf til að finna tilgang með lífinu.

    Japanska kvikmyndin Ikiru (Akira Kurosawa: 1952) er saga Kanji. Þetta er magnað meistaraverk frá uppáhaldsleikstjóra sem fjallar um stóru spurningarnar um tilganginn í lífinu, um kulnun og mennsku og kærleika. Myndin verður sýnd í Bíó Paradís að kvöldi þriðjudagsins 5. apríl. Á undan sýningunni verður flutt stutt innlýsing og að henni lokinni verða almennar umræður sem Toshiki Toma ætlar að leiða okkur inn í.

    Verið velkomin.

  • Vatn breytir öllu

    Water Changes Everything – Vatn breytir öllu – er ágætis áminning frá charity:water á Alþjóðadegi vatnsins. Hann er einmitt í dag.

  • Kynþáttafordómar leynast víða

    Við tókum viðtal við Toshiki Toma, prest innflytjenda, að loknu málþinginu Kynþáttafordómar: Hvar erum við stödd? Hann segir meðal annars að ekki séu allir kynþáttafordómar sýnilegir eða uppi á borðinu. Toshiki bætir við að duldir fordómar komi meðal annars fram í því hvernig opinbera kerfið veitir útlendingum ekki sömu þjónustu og Íslendingum. Þetta er oft vandséð vegna þess að útlendingar hafa ekki alltaf sterka málsvara hér á landi.

    Toshiki brýnir líka að við þurfum að vera vakandi fyrir því hvað börnin okkar skoða á netinu því rasistahópar nota netið grimmt til að ná til ungs fólks með sinn vonda boðskap. Eineltismál sem snerta börn og alla fjölskylduna tengjast oft því sem er að finna á netinu, því þarf að vera vakandi og gagnrýnin á efnið þar.
  • Fjölmenningin og ofbeldið

    Toshiki Toma er vekjandi í pistlinum Fjölmenning hafnar ofbeldi sem hann skrifar í tilefni af Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti:

    Að styðja fjölmenningarstefnu þýðir að viðkomandi hefur sjálfkrafa vilja til að berjast gegn rasisma og hvers konar ofbeldi. En sú barátta er ekki ofbeldi, þar sem fjölmenning neitar ekki manneskjunni um virðuleika hennar, möguleika á að iðrast eða að breyta hugmyndum sínum. Málstaður fjölmenningar er ekki eyðilegging, heldur uppbygging gagnkvæmrar virðingar.

  • Frelsi og fjötrar á fjórum mínútum

    Fjórar mínútur er verðlaunamynd eftir þýska leikstjórann Chris Kraus. Hún er ein þriggja mynda eftir Kraus sem er sýnd á þýskum bíódögum í Bíó Paradís, hinar eru Glerbrot sem er fyrsta mynd leikstjórans og Dagbækurnar frá Poll sem er sú nýjasta. Allt afar áhugaverðar myndir. Með fyrstu mynd sinni steig Kraus fram sem fullburða leikstjóri og við sjáum það vel í þessari mynd hvað hann hefur gott vald á miðlinum. Sem áhorfendur finnum okkur í góðum höndum.

    Hundrað og tólf mínútur

    Fjórar mínútur er eitt hundrað og tólf mínútur að lengd. Titillinn vísar til um það bil fjögurra mínútna langs loksatriðis myndarinnar. Til magnaðrar lokasenu „þar sem náðargjöf fær að njóta sín til fulls“ og við verðum vitni að kraftaverki endurlausnar og sigurs, svo vitnað sé í umsögn dómnefndarinnar sem veitti myndinni kvikmyndaverðlaun kirkjunnar árið 2005.

    Myndin fjallar um sekt og sorg, ofbeldi og atlæti, tónlist, náðargáfu, mennsku og ómennsku, fordóma og fyrirhugun – svo eitthvað sé nefnt. Fyrst og fremst má þó kannski segja að Fjórar mínútur fjalli um fjötra og um frelsi.

    Fjötrar og frelsi

    Söguhetjurnar tvær, tónlistarkennarinn Traude og fanginn Jenny eru báðar fjötraðar. Jenny situr bak við lás og slá, innilokuð vegna ofbeldisbrots. Traude hefur verið að sönnu verið frjáls til að gera það sem hún vill, en verið föst á sama stað í áratugi.

    Fangelsið táknar ytri fjötra þeirra beggja, en kannski eru fjötrarnir hið innra þeir sem eru bæði mikilvægari og sterkari í myndinni. Fortíðin er fjötur þeirra beggja, fordómar samfélagsins líka, sektarkennd og ofbeldi sem þær máttu þola hefur mótað sjálfsmyndina. Það er veganestið þeirra frá unga aldri á fullorðinsár.

    Frelsið er andstæða fjötranna. Í Fjórum mínútum birtist það í mótstöðu við regluverk sem deyðir, í tónlistinni sem tengir Jenny og Traude og í sköpunargleðinni.

    Til íhugunar við áhorf

    Þegar horft er á myndina má haga þetta samspil fjötra í frelsis í huga. Hvar er sterkustu fjötrana að finna í myndinni? Hvernig rakna þeir upp?

    Aðalpersónurnar tvær, Traude og Jenny, eru líka áhugavert umhugsunarefni. Hvað tengir þær saman? Hvað er ólíkt með þeim.

    Síðast en ekki síst er það svo sýnina á manneskjuna sem birtist í Fjórum mínútum sem er full ástæða til að íhuga. Ein af lykilspurningum Kraus í þessari mynd og reyndar fleiri myndum er: „Getur fólk breyst?“ Hvað segir Fjórar mínútur okkar um það?

    Byggt á innlýsingu sem var flutt á undan sýningu myndarinnar í Bíó Paradís, 19. mars 2011.

  • Fjórar mínútur á tæpum fjórum mínútum

    Fjórar mínútur var síðast sýnd í Tjarnarbíói. Þá fluttum við Oddný Sen stuttar innlýsingar áður en myndin hófst. Upptaka af innlýsingu Árna Svans er með þessari bloggfærslu. Hún er tæpar fjórar mínútur og fjallar meðal annars um vonina í Fjórum mínútum, frelsi og fjötra:

    „Myndin hreyfir líka við áhorfandanum. Það er unnið með samspil frelsis- og fjötra og sýnt með áhrifamiklum hætti hvernig það sem fjötrar manninn getur bæði verið hið innra og hið ytra. Erfið reynsla úr fortíðinni er nefnilega byggingarefni í mun sterkari fjötra en steinsteypan og stálið sem fangelsið er byggt út! Það sýnir Vier Minuten.“

    Verið velkomin á sýninguna í Bíó Paradís annað kvöld.

  • Fjórar mínútur

    Vier Minuten er önnur kvikmynd leikstjórans Chris Kraus í fullri lengd. Myndin greinir frá Jenny, ungri konu sem situr í fangelsi fyrir manndráp. Hin áttræða Traude Krüger, sem kennt hefur föngum á píanó síðan 1944, uppgötvar hæfileika Jennyar sem var undrabarn í tónlist. Samband þeirra tveggja verður sérstakt og flett er ofan af atburðum úr fortíðinni. Fjórar mínútur fjallar um viljann til að nýta hæfileika sína.

    Myndin er sýnd á þýskum bíódögum í Bíó Paradís og á morgun, laugardaginn 19. mars kl. 20, verður dagskrá í tengslum við sýningu myndarinnar. Á undan sýningunni flytur Árni Svanur stutta innlýsingu og að  sýningu lokinni verða umræður um myndina.

    Chris Kraus er einhver áhugaverðasti leikstjóri Þjóðverja í dag. Fyrstu mynd hans, Brotið gler (Scherbentanz), var afar vel tekið og hlaut margvísleg verðlaun í heimalandi hans. Fjórar mínútur er önnur mynd hans og þriðja mynd hans Poll var frumsýnd nú í febrúar.

    Vier Minuten hlaut kvikmyndaverðlaun kirkjunnar þegar þau voru veitt í fyrsta sinn í október 2005. Í umsögn dómnefndar um myndina sagði:

    „Örlög tveggja kvenna fléttast saman í sögu sem vekur upp spurningar um tilgang lífsins, frelsi, köllun og hæfileika. Fortíð beggja geymir leyndarmál sem hafa mótað þær og fjötrað. Konurnar tengjast í tónlist sem verður vettvangur átaka og farvegur endurlausnar. Óbeislaður sköpunarkraftur og mannleg reisn birtist með áhrifamiklum hætti í eftirminnilegu lokaatriði þar sem náðargjöf fær að njóta sín til fulls. Kraftaverk endurlausnar og sigurs gerist á fjórum mínútum.“

    Það er svo sannarlega hægt að mæla með þessari mynd.

  • Fjórar mínútur

    Vier Minuten er önnur kvikmynd leikstjórans Chris Kraus í fullri lengd. Myndin greinir frá Jenny, ungri konu sem situr í fangelsi fyrir manndráp. Hin áttræða Traude Krüger, sem kennt hefur föngum á píanó síðan 1944, uppgötvar hæfileika Jennyar sem var undrabarn í tónlist. Samband þeirra tveggja verður sérstakt og flett er ofan af atburðum úr fortíðinni. Fjórar mínútur fjallar um viljann til að nýta hæfileika sína.

    Myndin er sýnd á þýskum bíódögum í Bíó Paradís og á morgun, laugardaginn 19. mars kl. 20, verður dagskrá í tengslum við sýningu myndarinnar. Á undan sýningunni flytur Árni Svanur stutta innlýsingu og að  sýningu lokinni verða umræður um myndina.

    Chris Kraus er einhver áhugaverðasti leikstjóri Þjóðverja í dag. Fyrstu mynd hans, Brotið gler (Scherbentanz), var afar vel tekið og hlaut margvísleg verðlaun í heimalandi hans. Fjórar mínútur er önnur mynd hans og þriðja mynd hans Poll var frumsýnd nú í febrúar.

    Vier Minuten hlaut kvikmyndaverðlaun kirkjunnar þegar þau voru veitt í fyrsta sinn í október 2005. Í umsögn dómnefndar um myndina sagði:

    „Örlög tveggja kvenna fléttast saman í sögu sem vekur upp spurningar um tilgang lífsins, frelsi, köllun og hæfileika. Fortíð beggja geymir leyndarmál sem hafa mótað þær og fjötrað. Konurnar tengjast í tónlist sem verður vettvangur átaka og farvegur endurlausnar. Óbeislaður sköpunarkraftur og mannleg reisn birtist með áhrifamiklum hætti í eftirminnilegu lokaatriði þar sem náðargjöf fær að njóta sín til fulls. Kraftaverk endurlausnar og sigurs gerist á fjórum mínútum.“

    Það er svo sannarlega hægt að mæla með þessari mynd.

  • Íslensk trú

    Liljur vallarins er ný íslensk heimildamynd eftir Þorstein Jónsson, sem var frumsýnd sl. haust. Hún greinir frá lífinu í fallegri sveit og stórum sem smáum viðfangsefnum fólksins í sveitinni.

    Hlutverk prestsins í samfélaginu og samskipti hans við sóknarbörnin er ákveðinn útgangspunktur í myndinni. Þannig verða til spurningar hjá áhorfendanum um mót trúar og reynslu, hlutverk prédikunarinnar í pólitík dagsins í dag, og hvað það er sem mótar sýn manneskjunnar á stöðu hennar í sköpunarverkinu og mannlegu samfélagi.

    Stóru þemun í myndinni snerta til að mynda umgengni okkar við náttúruna, hina pólitísku prédikun, ásókn stóriðju og áhrif hennar á nærsamfélagið, og hlutverk trúarinnar í samtali og mótun menningarinnar. Sögusviðið er Kjósin og presturinn þar er dr. Gunnar Kristjánsson prófastur og sóknarprestur á Reynivöllum. Myndin er tekin á tíma sem nær yfir nokkur misseri og Þorsteinn fylgir Gunnari eftir í starfinu, m.a. sjáum við prestinn þar sem hann þjónar söfnuðinum sínum í helgihaldi og prédikun og í prófastshlutverki sínu á fundum í Kjalarnessprófastsdæmi með prestum og fleirum.

    Dr. Gunnar leikur stórt hlutverk í þessari mynd en stærsta hlutverkið er kannski í höndum sköpunarverksins sem flæðir yfir tjaldið – náttúra, dýr og manneskjur – í ólíkum klæðum eftir árstíðum og tilefnum.

    Þessi látlausa og hófsama mynd er í sjálfu sér prédikun um hina klassísku dyggð hófsemdina, sem segja má að nái yfir hið sanngjarna í samskiptum við náttúruna og við meðbræður okkar og – systur. Hún rekur hvernig hugmyndir um grundvallarþættina og það sem er mikilvægt í lífinu, þar með talin trúin á Guð og hlutverk kristinnar kirkju, birtast hjá fólkinu í sveitinni, og hvernig þessar hugmyndir eru ræddar út frá reynslu daglegs lífs og þess sem fengist er við hverju sinni.

    Meðmæli mín þegar horft er á Liljur vallarins eru þessi:

    Fylgstu með sterkri nærveru náttúrunnar og hvernig hún talar fyrir sig og fylgstu með hvernig lífið í sveitinni mótast af nálægðinni við þessa sterku náttúru.

    Fylgstu með trúarveruleikanum sem birtist í myndinni, í gegnum samtöl og yrðingar, frá leikum og lærðum.

    Og njóttu þess trausts sem þér sem áhorfenda er sýnt þegar fólkið í Kjósinni býður þér inn til sín og alla leið að hjartanu – því þar verða vangavelturnar um lífið til.

    Byggt á innlýsingu sem Kristín flutti á sýningu Kjalarnessprófastsdæmis á Liljum vallarins í Bíó Paradís 14. mars.