Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 19: Nú er sólskin um byggðir og ból

    Blóm í mold
    Það er uppáhaldssálmur í Sálmabókinni sem er eftir Kristján Val Ingólfsson og Margaretu Melin. Hann tjáir á yndislegan og einlægan hátt tilfinninguna sem fæðist í brjóstinu þegar vaknað er við sólargeisla á björtum vormorgni.

    Ó, Guð, ég veit hvað ég vil,
    er ég vakna með rísandi sól:
    Þakka sumar, sælu og yl,
    nú er sólskin um byggðir og ból.

    Þú, Guð, ert svo góður við mig,
    það er gaman að lifa og sjá
    hvernig skúrir og ský fela sig
    þegar skinið fær sólin þau á.

    Þér sé lof, því loftið er tært
    og ég leik mér um grundir og hól
    svo ég geti af lífinu lært
    þín ég leita og á hjá þér skjól.

    Fyrir hreysti og hugarins þor,
    fyrir hendur sem vinna í trú,
    fyrir yndi og æskunnar vor,
    fyrir allt vil ég þakka þér nú.

    Við tökum undir orð sálmsins og gerum þau að okkar á þessum gleðidegi.

    Myndin sýnir blóm stinga kolli upp úr mold og hendur hlúa að því.

  • Gleðidagur 18: Notum tímann vel

    Viddi á köku

    Ein bókin í Biblíunni heitir Prédikarinn. Hún inniheldur spakmæli kennd við Salómon konung og er vægast sagt oft á alvarlegu nótunum.

    Hver kannast ekki við þessi fleygu orð:

    Aumasti hégómi, segir prédikarinn, aumasti hégómi, allt er hégómi (1.2)

    Brýning Prédikarans snýst fyrst og fremst að því að manneskjan veiti athygli á meðvitaðan hátt staðreyndum lífsins og fljóti ekki sofandi að feigðarósi. Að tíminn líður, það skiptast á skin og skúrir, og að gæfa manneskjunnar hvílir á því að þekkja visku Drottins.

    Þessi lífsráð eiga við á ólíkum æviskeiðum:

    Lifi maðurinn mörg ár, þá á hann að vera glaður öll þau ár ( 11.8)

    og

    Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni
    og láttu liggja vel á þér unglingsár þín (11.9)

    Speki Prédikarans er sígild og sístæð. Hún bendir á jákvæða, uppbyggilega nálgun við lífið og tárin sem fylla spor manneskjunnar oft á tíðum og bendir á leið til að gleðjast yfir því að vera til.

    Myndin með færslunni er af Vidda kúreka sem prýddi eina afmælistertuna í ár. Hann er uppáhaldsfígúra og -leikfang eins af strákunum okkar :)

  • Gleðidagur 17: Aftur heim

    Sautjándi gleðidagurinn er fjölskyldudagur og Evróvisjóndagur og dagur Strákanna okkar. Þeir stóðu sig vel á stóra sviðinu í kvöld, miðluðu gleði og þakklæti. Takk strákar, við hlökkum til að sjá ykkur aftur á laugardag :)

  • Gleðidagur 16: Vatn fyrir ALLA

    IMG_1408

    Sumarið er tími til að njóta þess besta sem Ísland á: heitu, yndislegu, náttúrulegu sundlauganna.  Það er svo mikill ríkidómur fólginn í því að út um allt land, í öllum bæjum, upp um sveitir og út til nesja, er að finna sundlaugar sem við öll höfum aðgang að.

    Sundlaugarnar okkar og það hve aðgengilegar þær eru fyrir ALLA eru lífsgæði sem munar um. Stutt dýfa í pottana í Laugardalslaug fyrir kvöldmatinn, minnti okkur á það.

    Myndin er frá sundlauginni í Hofsósi en hún er snilldarlega byggð á fallegum stað. Skyldustopp fyrir alla á leið um Skagafjörðinn.

  • Gleðidagur 15: Elskar þú mig?

    http://www.youtube.com/watch?v=z-Bg1tTgxZ8

    Do you love me sló í gegn á popplistum vestanhafs árið 1963. Það var hljómsveitin The Contours sem lék og söng. Hljómsveitin endurútgaf lagið árið 1988 fyrir kvikmyndina Dirty Dancing og lagið hitti aftur í mark.

    Textinn fjallar um unga manneskju sem leitar að ástinni en hefur ekki haft árangur sem erfiði. Hún hefur orðið fyrir ástarsorg því sá sem hún hafði augastað á endurgalt ekki áhugann. Nú hefur unga manneskjan brugðið undir sig betri fætinum og kemur dansandi inn á sviðið:

    You broke my heart, cause I couldn’t dance
    You didn’t even want me around.
    And now I’m back, to let you know,
    I can really shake ‘em down.

    Do you love me? (I can really move)
    Do you love me? (I’m in the groove)
    Do you love me? (Do you love me)
    Now that I can dance
    Watch me now HEY!

    Spurningarnar í textanum kallast á við guðspjall þessa sunnudags sem er skrifað í Jóhannesarguðspjalli 21.15-19. Það geymir stutt samtal milli Jesú og Símonar Péturs. Í þrígang spyr Jesús þessarar spurningar:

    Elskar þú mig?

    Í hvert skipti svarar Símon Pétur:

    Já, þú veist að ég elska þig.

    Við þurfum öll ást, viðurkenningu, athygli, trúnað og tryggð. Við þurfum að heyra það frá þeim sem elska okkur. Fimmtándi gleðidagurinn er dagur ástarjátninganna.

  • Gleðidagur 14: Gleðin að gefa

    Jólaúthlutun 2008

    Það gerir okkur hamingjusöm að láta gott af okkur leiða og finnast við gera gagn fyrir aðra. Fjöldi fólks vinnur í sjálfboðavinnu á ólíkum vettvangi og auðgar samfélagið með framlagi sínu.

    Á prestastefnu í Reykjavík sem haldin var í vikunni flutti Kristín erindi um sjálfboðaliðastörf í kirkjunni. Kirkjan er einn stærsti vettvangur sjálfboðastarfs í samfélaginu og sjálfboðaliðar starfa á ólíkum sviðum þjóðkirkjunnar, svo sem stjórnun, fræðslu, boðun, tónlist og kærleiksþjónustu.

    Þegar fólk sem tekur þátt í sjálfboðastarfi nefnir það sem er því mikilvægt, eru nokkrir hlutir ofarlega á blaði. Félagsskapur, reynsla, viðurkenning, tækifæri til að hafa áhrif eru allt atriði sem höfða til fólks og eru eftirsóknarverð.

    Þannig haldast í hendur það sem við getum kallað eigingjarnar og óeigingjarnar hvatir til að taka þátt í sjálfboðastarfi. Við fáum helling út úr því sjálf að láta gott af okkur leiða.

    Besta gjöfin er að gefa það til baka sem maður hefur sjálfur þegið.

    Myndina með færslunni tók Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir af glöðum sjálfboðaliðum hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.

  • Gleðidagur 13: Elskaðu þig

    Þrettándi gleðidagurinn er Megrunarlausi dagurinns. Sigrún Daníelsdóttir skrifar í tilefni hans:

    Það er andstyggilegt og niðurrífandi að vera í sífelldri baráttu við sjálfan sig og líkama sinn – óþarfa barátta sem hefur ekkert með heilbrigði að gera.

    Dagurinn sem helgaður er engri megrun miðar að því að brjóta niður fordóma sem við höfum sjálf gagnvart okkur sjálfum og hvernig við lítum út. Hann er hugsaður til vitundarvakningar um hvað það er skaðlegt að vera of upptekin af því að telja hitaeiningar og láta þrönga staðla stjórna því sem okkur finnst fallegt.

    Okkur finnst megrunarlausi dagurinn snúast um sjálfselsku af því tagi sem er nauðsynleg og góð. Getan til að elska sjálfan sig og sýna sjálfun sér virðingu er grundvöllur heilbrigðra samskipta, heilbrigðra sambanda og heilbrigðs lífs.

    Ekki vera í stríði við sjálfan þig – mundu að ekki minni maður en Jesús frá Nasaret sagði (Mk 12.31): „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

    Myndbandið með færslunni er af uppáhaldsréttinum Gulrætur í svínaspiki. Uppskriftina má lesa hér á blogginu.

  • Gleðidagur 12: Fyrir ljósmæðurnar í lífinu

    Puntstrá

    Tólfti gleðidagurinn er jafnframt dagur ljósmæðra. Í dag viljum við þakka fyrir ljósmæðurnar góðu sem hlúa að upphafi lífsins. Í dag viljum við þakka fyrir þau öll sem taka að sér ljósmóðurhlutverk í lífi og samfélagi með því að hlúa að hinu viðkvæma og vernda það.

    Takk ljósmæður.

  • Gleðidagur 11: Vegurinn ert þú

    Á ellefta gleðidegi viljum við deila nýjum sálmi sem var frumfluttur á Prestastefnu í dag. Hann er þýddur úr japönsku af Kristjáni Vali Ingólfssyni og er svona:

    Látum tengjast hönd og hendi
    hér til starfs í trú.
    Kristur, á þinn kross við horfum,
    kærleikans á brú.
    Þessi heims- og himinsbörnin
    hrópa til þin nú:
    Jesús, vísa okkur veg þinn.
    Vegurinn ert þú.

    Í myndbandinu segir Kristján frá sálminum og við heyrum hluta af honum sunginn.

  • Gleðidagur 10: Tjáning í frelsi

    Twist to open

    Samskipti snúast í eðli sínu um að gefa af sjálfum sér. Þar er Kristur fyrirmynd okkar. Í boðun hans var enginn undanskilinn. Hin fátæku, sjúku, útilokuðu, kúguðu og valdalausu áttu sérstaka athygli og umhyggju hans. Samskipti í anda Krists eru því kærleiksverk sem hafa frelsið sem Jesús færði öllum sem tóku á móti honum að leiðarljósi.

    Í dag, 3. maí, er haldinn Alþjóðadagur tjáningarfrelsis. Sameinuðu þjóðirnar eiga frumkvæði að deginum. Við tökum undir með þeim á þessum degi og viljum styðja þau þau sem kalla eftir tjáningarfrelsi í öllum sínum myndum.

    Boðskapur Jesú Krists um frelsi og ást til handa manneskjunni er það sem knýr okkur. Köllun okkar sem kristnar manneskjur er að stunda samskipti djarflega og óttalaust, boða, vitna og segja frá “dýrð hans til vegsemdar” (Ef 1.12) og til að vera „samverkamenn að gleði ykkar“ (2. Kor 1.24).

    Munum það á tíunda gleðidegi.

    Nánar

    Frjáls samskipti, pistill eftir Kristínu á Trú.is

    Yfirlýsing WACC – World Association for Christian Communication í tilefni dagsins

    Myndin með færslunni er af lyklaborðinu hans Árna.