Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 29: Þegar æðandi kraftar eldsins

    Mynd af vef Rúv

    Tuttugasti og níundi gleðidagur er öskudagur. Hugur og hjarta eru hjá þeim sem upplifa ótta og angist og eru í vanda vegna gossins í Grímsvötnum. Við viljum gera að okkar þessa bæn eftir Kristján Val Ingólfsson, vin okkar og samstarfsmann.

    Þegar æðandi kraftar eldsins
    úr iðrum jarðar,
    þrýsta öskunni til himins
    breiða hana yfir byggðirnar,
    byrgja auglit sólar,
    fela angan jarðar ,
    og fylla vit alls sem andar,
    áköllum við þig ó, Guð
    um miskunn.

    Þú, sem í árdaga bast höfuðskepnurnar
    og breyttir óskapnaðinum í sköpun
    við biðjum þig,
    Kom í mætti þínum
    og beisla óhemjuna,
    svo að aftur verði kyrrð og friður á jörðu,
    ullin verði aftur hvít
    og jörðin græn
    og fólkið gangi til iðju sinnar
    í öruggu trausti,
    til verndar þinnar
    og varðveislu
    í frelsaranum Jesú Kristi.
    Amen.

  • Gleðidagur 28: Listin er í loftinu

    Deventer On Stilts 2010

    Listin getur lyft andanum í hæðir, glatt og göfgað. Það er því mjög viðeigandi að halda Listahátíð í Reykjavík á gleðidögum. Hátíðin var sett í gær og í dag fengum við að njóta spænska fjölllistahópsins La Fura dels Baus. Þau léku listir sínar hátt uppi og nutu reyndar aðstoðar 60 sjálfboðaliða við verkið. Mögnuð upplifun.

    Á tuttugasta og áttunda gleðidegi viljum við þakka Listahátíð í Reykjavík fyrir sitt framlag til gleðidaganna í ár.

    Myndina með færslunni tók Alfons Hoogervorst.

  • Gleðidagur 27: Hvað gerir maður kvöldið fyrir heimsendi?

    Blossoming apple-tree

    Tilhugsunin um heimsendi vekur ólíkar kenndir og hvetur til ólíkra viðbragða. Marteinn Lúther á að hafa sagt í þessu samhengi:

    Þótt ég væri viss um að heimurinn endaði á morgun, myndi ég samt gróðursetja eplatréð mitt.

    Spekin í þessum orðum er að við eigum ekki að lifa hvern dag eins og hann væri sá síðasti – heldur miklu fremur eins og hann væri sá fyrsti.

    Byrjum á einhverjum nýju, gróðursetjum, hlúum að, gerum áætlanir, vonum og hlökkum til.  Lífið rennur áfram, líka í erfiðustu aðstæðunum, þegar okkur finnst að öllu sem við þekkjum sé lokið.

    Það er verðugt verkefni á gleðidögum.

    Myndin er af eplatré í blóma. Ljósmyndarinn heitir Harry Popoff.

  • Gleðidagur 26: Ástin liggur í loftinu

    Í dag langar okkur að deila með ykkur uppáhaldslagi með uppáhaldshljómsveit. Við kynntumst FM Belfast fyrst í heimildarmyndinni Backyard sem var opnunarmyndin í Bíó Paradís síðasta haust. Síðan þá hefur diskurinn How to make friends hljómað reglulega á heimilinu og í bílnum.

    Uppáhaldslagið okkar heitir I can feel love og myndband með því fylgir þessari færslu. Það minnir okkur á að ástin liggur í loftinu og við erum aldrei ein.

    I can feel love er í raun gott dæmi um nútíma sálmaskáldskap, því sálmurinn fjallar um manneskjuna í heiminum og reynslu hennar af sterkasta afli sem er til – ástinni.

    Ps. Hálfnað verk þá hafið er segir máltækið og það er sjálfsagt heilmikið til í því. Í dag er tuttugasti og sjötti gleðidagurinn og þá erum við rétt rúmlega hálfnuð. Þetta er bara gaman :)

    Pps. FM Belfast spila á Nasa um helgina.

  • Gleðidagur 25: Sumardagar eru hjóladagar

    IMG_0887

    Sumardagar eru hjóladagar á Íslandi. Nú stendur yfir átakið Hjólað í vinnuna og þúsundir Íslendinga hafa skipt út bílnum fyrir annan fararskjóta. Á hjólastígum og gangstéttum mætum við brosandi fólki og börnum með hjálma á höfði sem njóta þess að fara leiðar sinnar fyrir eigin afli.

    Leikskólabörnin okkar fengu líka að njóta hjólanna því einn vikudagur er hjóladagur. Fyrir utan leikskólann var fjöldi reiðhjóla og jafnmargir hjálmar.

    Sumardagar eru hjóladagar og hjóladagar eru gleðidagar.

    Myndin með færslunni er af öðruvísi hjóli sem við sáum í Uppsala í fyrra.

  • Gleðidagur 24: Vorboðinn ljúfi

    Rhubarb

    Rabarbari er vorboði. Hann er planta af súruætt og er stundum kallaður tröllasúra. Hann vex í mörgum garðinum og beðinu og bíður eftir að vera nýttur í góða og girnilega rétti.

    Það er rauðleitur leggurinn sem er nýttur af plöntunni, t.d. í grauta og sultur, saft og vín og svo í bakstur. Hollustugildið er töluvert og er rabarbarinn talinn hafa góð áhrif á meltinguna og einnig vera góður gegn bólgum. Súra bragðið er oxalsýra sem vinnur gegn nýtingu kalks þegar í líkamann er komin. Því er ekki bara gott á bragðið heldur skynsamlegt að nota rjóma, mjólk og osta með rabarbaranum til að vega upp á móti sýrunni.

    Við eigum eftirlætisrétt úr rabarbara sem er tilbrigði við hina frægu Pavlovu köku. Marensinn er til staðar, líka þeytti rjóminn, en í stað fersku ávaxtanna er sett rabarbara kompott. Hér er ágætis uppskrift af því:

    Skerið 500 g af rabarbara í litla bita og sjóðið saman með 1 dl sykri og 2 msk vatni í 10 mínútur, eða þangað til rabarbarinn hefur mýkst. Hrærið saman í kompott og bragðbætið með smá vanillu. Kælið og skellið á herlegheitin!

    Myndin er af rabarbara. Við fundum hana á flickr. Myndasmiðurinn heitir Whitney.

  • Gleðidagur 23: Stephen Hawking og gleðin yfir lífinu

    Mynd: Doug Wheller. http://en.wikipedia.org/wiki/File:Stephen_Hawking_in_Cambridge.jpg

    Stephen Hawking, vísindamaðurinn og rithöfundurinn snjalli, segir í viðtali við breska blaðið Guardian í gær að vitundin um eigin dauðleika hafi kennt honum að njóta lífsins betur. 

    Hawking greindist sem ungur maður með alvarlegan hrörnunarsjúkdóm og hefur lifað í skugga hans í 49 ár. Þrátt fyrir mikla líkamlega fötlun hefur Hawking verið í fremstu röð vísindamanna í eðlis- og heimsfræði síðustu áratugina. Hann hefur yfirstigið hindranir og blómstrað.

    Þess vegna er áhugavert lesa vangaveltur hans um merkingu, líf og dauða. Í viðtalinu kemur m.a. fram sýn hans á líf eftir dauðann. Hann segir að rannsóknir hafi leitt hann til þeirrar niðurstöðu að við dauðann slokkni á manneskjunni, eins bilaðri tölvu. Hugmyndir manna um himnaríki eru hins vegar að mati Hawking ævintýri fyrir fólk sem óttast dauðann. Sjálfur segir Hawking að hann óttist ekki að deyja.

    Að sættast við eigin dauðleika getur verið langur og flókinn ferill. Stundum horfumst við harkalega í augu við þessa staðreynd, til dæmis andspænis erfiðri sjúkdómsgreiningu.  Stundum reynum við að lifa eins og við þurfum ekki að deyja og leiðum hugann ekki að því em sem er óumflýjanlegt.

    Hvort sem við deilum sýn Stephen Hawking á dauða manneskjunnar eins og tölvubilun eða ekki, er hann verðug fyrirmynd í því að kunna að meta gjöf lífsins og merkingu þess.

    Kúnstin er kannski sú að finna jafnvægið milli gleðinnar yfir lífinu og sáttarinnar við dauðann.

    Myndin með færslunni er af Stephen Hawking. Hana tók Doug Wheller. Við fundum hana á Wikipediu, en upphaflega var hún sett á flickr.

  • Gleðidagur 22: „Þín kenning klár sé kröftug, hrein og opinskár“

    Neskirkjufólkið

    Í dag fór fram prests- og djáknavígsla í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þar voru fjórir guðfræðingar vígðir til hins heilaga prests- og prédikunarembættis og tveir djáknar vígðir til kærleiksþjónustu í samfélaginu.

    Þjónustuhlutverk kirkjunnar skiptist í þrennt: prestsþjónustu, djáknaþjónustu og biskupsþjónustu. Þessi embætti hvíla á vitnisburði Nýja testamentisins og eru tæki kirkjunnar til að boða trúna í orði og verki í heiminum.

    Aðgreining þjónustuhlutverk prests, djákna og biskups, er ekki bara praktísks eðlis heldur miðlar hún guðfræði sem sprettur upp úr sjálfsmynd kirkjunnar, þ.e. að hún er farvegur náungakærleikans í ólíkum myndum.

    Presturinn er vígður til að boða gleðiboðskap trúarinnar um ást Guðs og frelsi til handa manneskjunni, í orði og verki.  Djákninn er vígður til að boða kærleika Guðs til manneskjunnar allrar, í orði og verki. Biskupinn er vígður til að hafa tilsjón með störfum og vera prestur prestanna.

    Við prestsvígslur á Íslandi er alltaf sungið úr tíunda Passíusálmi þar sem Hallgrímur Pétursson beinir orðum sínum til kennimannsins og minnir á ábyrgð þess vígða. Boðun hinnar réttu trúar er Hallgrími hugleikin og því þarf kenningin sem boðuð er að vera „klár, kröftug, hrein og opinskár“.

    Það sem Guðs kennimaðurinn á EKKI að gera, er að smjaðra og hræsna. Það kann ekki góðri lukku að stýra og hefur hörmulegar afleiðingar. Í heild er versið svona:

    Jesús vill, að þín kenning klár
    kröftug sé, hrein og opinskár,
    lík hvellum lúðurs hljómi.
    Launsmjaðran öll og hræsnin hál
    hindrar Guðs dýrð, en villir sál,
    straffast með ströngum dómi.

    Prests- og djáknavígsla er gleðiatburður á gleðidögum. Við erum brýnd til þess að fara með þjónustuna eins og gleðiboðskapnum sæmir.

    Myndina tók Árni af glöðum hópi úr Neskirkju sem fagnaði vígslu Sigurvins Jónssonar í dag.

  • Gleðidagur 21: Grjónagrauturinn í Staðarskála

    Grjónagrautur

    Við komum við í Staðarskála í Hrútafirði á leiðinni til Reykjavíkur í dag. Einn af réttum dagsins var grjónagrautur með slátri, kanilsykri og mjólk. Dýrindis matur fyrir ferðalanga og til mikillar fyrirmyndar í þjóðvegasjoppufæðinu.

    Það er framfaraskref að geta gengið að þjóðlegum, einföldum mat úr héraði á ferðalögum. Það er áhugaverðara, hollara, sjálfbærara og umhverfisvænna en staðlaðir hamborgarar og franskar sem eru eiginlega alls staðar eins.

    Staðarskáli fær því bæði hrós og þakklæti á tuttugasta og fyrsta gleðideginum.

    Myndin með færslunni er af heimilisgrjónagrauti sem okkur finnst alltaf bestur.

  • Gleðidagur 20: Snert Hörpu mína

    Á opnunardegi Hörpu fögnum við tónlistinni og flotta tónlistarfólkinu okkar. Við hrífumst líka af fallega húsinu og hlökkum til að skoða það og upplifa tónlistina.

    Í apokrýfu guðspjalli er saga af því þegar Jesús var strákur og gerði nokkra fugla úr leir. Fyrir þetta fékk hann ákúrur fyrir því þetta var víst á hvíldardegi. Jesús brást við með því að segja fuglunum að hefja sig til flugs og það gerðu þeir. Ljóðið hans Davíðs Stefánssonar um fuglana vísar til þessarar helgisögu um leirfuglana sem fengu líf:

    Snert hörpu mina himinborna dís
    svo hlusti englar Guðs í paradís.
    Við götu mína fann ég fjalarstúf
    og festi á hann streng og rauðan skúf.

    Úr furutré sem fann ég út við sjó
    ég fugla skar og líka úr smiðjumó.
    Í huganum til himins oft ég svíf
    og hlýt að geta sungið í því líf.

    Ég heyri í fjarska villtan vængjaþyt
    um varpann leikur draumsins perluglit.
    Snert hörpu mína himinborna dís
    og hlustið englar Guðs í paradís.

    Það er von okkar og bæn að tónlistarhúsið Harpa verði staðurinn þar sem listafólk og áheyrendur hefja sig til flugs og upplifa lífið í gegnum listina. Til hamingju með daginn.

    Myndin er af Eldborg sem er stærsti salurinn í Hörpu. Við fengum hana lánaða af vef tónlistarhússins. Takk fyrir lánið og til hamingju með húsið.