Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Er kirkjan inni eða úti?

    Þessu er best að svara með hinni fornkveðnu yrðingu: Eitt þarf ekki að útiloka annað. Í gær var sumarkirkjan til dæmis utanhúss, í Nónholti, þar sem þrír söfnuður áttu saman guðsþjónustu á einum fegursta degi ársins.

    IMG_7318
    IMG_7351
    IMG_7354
    IMG_7369
    IMG_7376
    IMG_7382
    IMG_7418
    IMG_7424
    IMG_7435

    Dásamlegt samfélag á góðum degi. Sigrún flutti líka flotta prédikun um samfélag. Árni tók þessar myndir.

  • Hver er kreppta konan?

    Sigrún, Kristín Þórunn, Guðrún

    Í útvarpsmessu á kvenréttindadegi prédikuðu þrjár prestsvígðar konur saman út frá guðspjallinu um krepptu konuna:

    Guðrún Karlsdóttir: Konan hefur ekki hugsað sér að bera skömmina lengur. Hún vill skila henni aftur til ofbeldismannsins jafnvel þó að það þýði að hún verði að berjast gegn valdamiklum mönnum í áratugi. Hún er hætt að líta í eigin barm í leit sinni að ástæðu ofbeldisins.

    Sigrún Óskarsdóttir: Þarna er það samstaða kvennanna sem er lykilatriði. Þær gefast ekki upp. Þær vilja ekki vera krepptar heldur legga mikið á sig til þess að rétta sig sjálfar við og rétta um leið við systur sínar í landinu.

    Kristín Þórunn Tómasdóttir: Það er afkreppandi þegar okkur er mætt sem manneskju sem er mikils virði. Það er afkreppandi þegar við erum virt fyrir það sem við erum, fyrir það hvernig okkur líður, ekki hvort við erum í valdastöðu eða eigum réttu vinina.

  • Gleðidagur 37: Takk

    „Ef eina bænin sem þú færir með í lífinu væri „Takk“ þá myndi það nægja.“

    Þessi bæn er eignuð Meister Eckhart. Hann var þýskur heimspekingur, dulhyggjumaður og guðfræðingur sem var uppi á miðöldum. Eckhart var munkur af reglu Dóminíkana og bjó um tíma í borginni Erfurt sem var miðstöð viðskipta og mennta á miðöldum. Hann er meðal annars þekktur fyrir prédikanir sem hann flutti á móðurmálinu í stað latínu.

    Við gerum þakkarbænina hans að okkar á þrítugasta og sjöunda gleðidegi.

  • Gleðidagur 36: Þrjár og hálf mínúta er ekki nóg

    Fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn á því hvað foreldrar notuðu að meðaltali langan tíma til að tala við börnin sín á hverjum degi. Niðurstaðan var ekki beysin. Í ljós kom að fyrir utan skammir og bein tilmæli stóðu eftir um þrjár og hálf mínútua í alvöru samtal. Samtal um lífið, um gleðina og óttann, stóru spurningarnar, litlu áhyggjurnar, þarfir og óskir og allt hitt.

    Þrjár og hálf mínúta. Það er ekki langur tími miðað við allt sem hver dagur ber með sér. Ekki síst í ljósi þess að börnin okkar eru þær manneskjur sem við viljum vera í sem bestum tengslum við. Þess vegna skyldi maður ætla að við leggðum meira í samskipti við þessar mikilvægustu manneskjur í heimi.

    Bænadagurinn sem er í dag, fjallar um samskipti og kærleikstengsl. Í textum sunnudagsins sjáum við að samskipti liggja til grundvallar tengslum. Bæn er samskipti. Í dag er líka Dagur barnsins.

    Í guðspjallinu útleggur Jesús bænina eins og afar hversdagslegan hlut, þegar maður kemur að máli við vin sinn og biður hann bónar, um eitthvað sem vantar.

    Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.

    Þessi vinur, segir Jesús, mun að sjálfssögðu ekki vísa beiðninni á bug, ef ekki fyrir vináttu sakir, þá fyrir bónina sjálfa og áleitni þess sem biður.

    Þetta notar Jesús til að útskýra hvernig manneskjan nálgast Guð í bæn.

    Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.

    Ef við hugsum um bænina eins og samskipti sem manneskjan notar til að tjá óskir og þarfir, sjáum við hliðstæðuna við samtalið sem við eigum sem foreldrar og börn.

    Samskipti eru lykill að tengslum við okkur sjálf, okkar nánustu og við Guð. Notum bænadaginn til að iðka þessi samskipti – í samtali og bæn.

  • Gleðidagur 35: Takk fyrir sól og skugga

    Sumargult

    Uppáhaldssálmur fjallar um sumarið og hefst svona:

    Ó Guð, ég veit hvað ég vil
    er ég vakna með rísandi sól
    þakka sumarsælu og yl
    nú er sólskin um byggðir og ból.

    Í einu barnaherberginu á heimilinu eru tveir gluggar sem snúa í austur. Fyrir þeim eru rúllugardínur sem kemur sér vel á morgnana því það hjálpar ungu fólki að sofa. Önnur þeirra bilaði um daginn og því var herbergið herbergið baðað ljósi snemma morguns. Þetta truflaði unga fólkið minna en þau sem eldri eru, en þýddi nú samt að þau vöknuðu svolítið fyrr en ella. Eiginlega fyrir allar aldir.

    Það er dásamlegt að vakna snemma á sumardegi í flennibjörtu herbergi sem er baðað í morgunsólinni. Það vita börnin og líka við. Það er full ástæða til að þakka það og þakka sumarsól og -sælu. Það gerum við líka. En sólin á ennfremur þess hlið að vera óvægin og sterk. Sú hlið er okkur á Íslandi frekar framandi – en hjá þjóðum sem búa við sólríkari og heitari daga en við gerum alla jafna, geta sólargeislarnir táknað ógn og erfiðleika fyrir gróður, dýr og fólk.

    Í Biblíunni hefur sólin þessa merkingu – enda skín hún sterkt og mikið á slóðum Biblíunnar. Þar er skugginn eftirsóknarverður og veitir skjól og öryggi. Þetta tákn um skuggann sem líkn má sjá í orðalagi Davíðssálma þar sem talað er um skjólið og öryggið hjá Guði:

    Í skugga vængja þinna leita ég hælis þar til voðinn er liðinn hjá (Sl 57.2)

    og

    Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna (Sl 17,8)

    Rúllugardínan í barnaherberginu veitir mikilvægan skugga fyrir ágengum sólargeislum sem vilja kitla augu og kinnar. Á þrítugasta og fjórða gleðidegi viljum við því segja:

    Takk fyrir sumarið.

    Takk fyrir sólina

    En við viljum líka bæta við:

    Takk fyrir rúllugardínur og morgunsvefn.

    Takk fyrir skuggann.

    Myndin er tekin á fallegum sumardegi.

  • Gleðidagur 34: Táknmálið og vonin

    Á þrítugasta og fjórða gleðidegi urðu þau tíðindi að lög, sem tryggja lagalega stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls í íslensku samfélagi voru samþykkt á Alþingi. Í dag langar okkur því að deila með ykkur orðum tólfta vonarberans okkar frá því desember. Þá sagði Sigurlín Margrét eftirfarandi um vonina, á táknmáli (smellið á rauða CC takkann til að sjá textann):

    Vonin.
    Vonin fylgir okkur allt lífið.
    Vonin gefur trú á lífið framundan.
    Vonin er í huga okkar og hjarta.

    Þegar við sjáum nýtfætt ungabarn í fyrsta sinn
    þá horfum við á það vonaraugum og vonum að barnið fái jafnræði,
    njóti alls þess sem lífið gefur því
    og að barnið sé virt sem einstaklingur og mál þess líka.

    Segjum að seinna og stundum komi tímar
    að við finnum vonina hverfa
    en, nei, vonin hverfur aldrei
    vonin er í okkur.

    Það sem við þurfum að gera er að kveikja á ljósi vonarinnar
    og lífið heldur áfram.

    Til hamingju með daginn.

  • Gleðidagur 33: Regndansinn

    Spring Rain (136 / 365)

    Að kvöldi þrítugasta og þriðja gleðidags rignir. Svo fyllstu hreinskilni sé gætt þá kunnum við lítið að meta regnið að sumarlagi. Já, já, gróðurinn þarf regn, við mannfólkið fögnum sólinni og hitanum. En í dag, eftir öskufallið úr Grímsvatnagosinu, er regnið velkomið. Það hreinsar loft og land og býr í haginn fyrir góða daga sem í vændum eru.

    Nú er því rétt að dansa örlítinn regndans og gleðjast yfir regninu sem drýpur af himnum ofan, vökvar og nærir.

    Myndina með færslunni tók Casey Fleser. Við vorum reyndar líka að hugsa um að nota þessa, en fannst hin flottari.

  • Gleðidagur 32: Takk ljósvíkingar!

    Þó ég gangi um dimman dal
    sem vestrin hafa skapað
    ég geng ekki einn.

    Að hver einn og einasti einstaklingur
    fæðist hér sem ljósvíkingur
    ég geng ekki einn.

    Ég trúi því að allir hafi kraft
    og geti áhrif haft
    ég geng ekki einn. […]

    Svo geng ég um þennan dimma dal
    en aðrir ganga um svartari sal
    ég geng ekki einn.

    Ég bið náungann að vaka yfir mér.
    Allir eru ljósvíkingar í hjartanu á sér
    ég geng ekki einn.

    Söngur Hjálma og Mugison um ljósvíkingana hefur verið í uppáhaldi lengi. Textinn kallast á við 23. Davíðssálm þar sem einnig er ort um dimman dal og samstöðu og öryggi. Ljósvíkingur hefur verið okkur hugstæður síðustu daga þegar dimmt hefur verið yfir Íslandi út af öskugosinu, þegar við höfum fundið fyrir samkennd og samstöðu þjóðarinnar.

    Það er eiginlega eins og spádómur þeirra félaganna í laginu hafi ræst á íslensku þjóðinni í þessari viku: Þegar náttúruhamfarir dynja á okkur finnum við að við göngum ekki ein, að landið okkar er fullt af ljósvíkingum sem eru það ekki bara í huga hendur líka með hendi.

    Á þrítugasta og öðrum gleðidegi viljum við þakka fyrir ljósvíkingana og taka undir hvatningu bóndans sem sagði í kvöldfréttunum í vikunni að björgunarsveitarfólkið okkar ætti skilið að fá fálkaorðuna.

    Takk ljósvíkingar!

    Með færslunni fylgir myndband þar sem Hjálmar og Mugison syngja þetta magnaða lag.

  • Gleðidagur 31: Góði hirðirinn

    Ljósmynd: Frank Bradford

    Þessi magnaða mynd af stúlkunni sem ber lítið lamb í öruggt skjól úr öskufallinu minnir okkur á vers í Jóhannesarguðspjalli sem er svona:

    Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina (Jh 10.11).

    Stúlkan með lambið er tákn um samhjálp og samstöðu sem íbúar gossvæðisins, bæði ungir og aldnir, sýna með hverjum öðrum. Fólkið fyrir austan ber ótrúlegt æðruleysi og hugrekki vitni í erfiðum aðstæðum.

    Allir leggjast á eitt að bjarga lífum og hlúa að viðkvæmu ungviðinu. Þótt það þýði óþægindi og hættur fyrir mann sjálfan.

    Það gerir einmitt góður hirðir.

    Myndina tók Frank Bradford, við fundum hana á twitpic síðunni hans Hjartar.

  • Gleðidagur 30: Undir birkitré

    Þrítugasti gleðidagurinn er hamingjudagur. Í dag eru nefnilega þrjú hundrað sextíu og fimm dagar síðan við gengum í hjónaband. Í tilefni af því langar okkur að deila uppáhaldslaginu Undir birkitré með ykkur. Svavar Knútur syngur og leikur á gítar og minnir okkur á hið einfalda og fallega í lífinu.

    Staðurinn undir birkitrénu er í okkar huga myndlíking fyrir það þegar við finnum okkur algjörlega örugg, sönn og sátt. Það er svo mikil blessun þegar hjónabandið er þannig staður og gefur kraft og styrk til að ganga með kærleikann út lífið og viðfangsefni þess. Fyrir það erum við þakklát og glöð.