Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Hvers vegna syngur lóan dýrðin, dýrðin?

    Í fyrradag deildum við nokkrum myndum sem voru teknar í Ísafjarðarkirkju í sumar af listaverkinu Fuglar himinsins. Nú bætum við um betur og leyfum ykkur að sjá myndband og viðtal sem við tókum upp þegar við heimsóttum sr. Magnús.

    Hann segir meðal annars frá því hvernig verkið varð til og útskýrir heiti verksins og hvernig það svarar lykilspurningu um lóuna: Hvers vegna syngur hún dýrðin, dýrðin?

  • Grænfánadagur

    Grænfáninn var dreginn að húni á Steinahlíð við hátíðlega athöfn í dag. Foreldrum var boðið að taka þátt í hátíðarhöldunum. Við hittum fulltrúa Landverndar sem afhenti Steinahlíðarkrökkum og -fóstrum Grænfánann í fjórða sinn. Krakkarnir sungu og fáninn var dreginn að húni og svo gæddum við okkur á dýrindis veitingum og fylltumst stolti yfir flottu krökkunum okkar og þakklæti fyrir frábæra starfsfólkið á leikskólanum.

    Grænfánadagur
    Grænfánadagur
    Grænfánadagur

    Grænfáninn minnir okkur á hvað það er mikilvægt að hugsa um umhverfið okkar og náttúruna. Grænfánauppeldi er uppeldi til meðvitundar um að lífið á jörðinni okkar er viðkvæmt og þarf á alúð, umhyggju og virðingu að halda. Hluti af því er að átta sig á mikilvægi þess að flokka og endurnýta rusl og afganga. Það vita krakkarnir á Steinahlíð og eru óspör að minna á það þegar heim er komið.

    Fáninn er afhentur til tveggja ára í senn og í hvert sinn fylgir loforð um tiltekin markmið í umhverfismálum. Að þessu sinni á að leggja áherslu á líffræðilega fjölbreytni. Við veltum svolítið fyrir okkur hvað líffræðileg fjölbreytni þýðir í samhengi leikskólans. Ætli við fáum að sjá hvolpa og kettlinga tekna inn í bland við ný leikskólabörn í haust?

    Myndirnar eru líka á flickr og á Google+.

  • Fuglar himinsins

    Í Ísafjarðarkirkju er mögnuð altaristafla. Kirkjan var einn viðkomustaður á ferð um Vestfirði og þá voru þessar myndir teknar.

    Fuglar himinsins
    Fuglar himinsins
    Fuglar himinsins
    Ísafjarðarkirkja
    Fuglar himinsins
    Fuglar himinsins

    Fleiri myndir eru á flickr.

  • Prinsíp í stað persóna

    Hjalti Hugason skrifar Pressupistil um vígslubiskupskjör í Skálholti sem nú stendur yfir. Það er að komið að síðari umferð þegar valið verður milli sr. Sigrúnar Óskarsdóttur og sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar. Af því að þau eru ólík getur valið snúist um prinsíp í stað persóna:

    Niðurstaðan úr fyrri umferð er að öðru leyti sú að eftir standa tveir ágætir kandídatar sem hvor um sig hefur góðar forsendur til að gegna embættinu með sóma. Helsti kosturinn við niðurstöðuna er þó að hún býður upp á val milli gjörólíkra kandídata. Nú ef nokkru sinni geta biskupskosningar snúist um „prinsíp“ í stað persóna. Það er gleðilegt.

    Valið stendur milli karls og konu. Karlinn er á lokaskeiði starfsferils síns en konan um miðbik hans. Karlinn hefur einkum markað sér stöðu í innra starfi kirkjunnar. Konan hefur verið meira áberandi í samfélagsumræðunni. Síðast talda atriðið vegur þung nú um stundir þegar tengsl kirkjunnar við þjóðina standa sennilega tæpar en nokkurn tíman áður. Loks má benda á að þrír einstaklingar gegna biskupsembætti í þjóðkirkjunni í senn. Valið stendur því einnig milli óbreytts biskupateymis eða róttækrar breytingar í því efni. Breidd í forystuliðinu skiptir sköpum um snertiflöt kirkjunnar við samfélagið.

  • Úti: Fordómar

    Kristín skrifaði í pistli dagsins:

    Ummæli Páls Óskars hittu í mark og vöktu mikla athygli vegna þess að hann setur fingurinn á mein í samfélaginu okkar sem setur of mikið mark sitt á opinbera umræðu. Grímuklædd og grímulaus óvild og níð um einstaklinga og hópa fer ekki fram hjá neinum sem fylgist með umræðunni og þau sem blanda sér í samtalið um samfélagið eiga oft á hættu að verða fyrir því sem Páll Óskar lýsir.

    Bregðist endilega við í svarhala við pistilinn sjálfan.

  • Samúel og Selárdalur

    Selárdalur var einn viðkomustaðurinn í sumarfríinu. Þar skoðuðum við verkin hans Samúels og tókum nokkrar myndir. Ljónin vöktu mikla lukku hjá yngri kynslóðinni.

    Í Selárdal
    Í Selárdal
    Í Selárdal
    Í Selárdal
    Í Selárdal

    Fleiri og stærri myndir eru á flickr.

  • Útipúkinn 104

    Útipúkinn í 104

    Ein af mörgum skipulögðum útihátíðum um verslunarmannahelgina átti sér stað ofarlega á Langholtsveginum í Reykjavík. Þar höfðu góðir grannar haft frumkvæðið af því undirbúa hverfispartý og götugrill sem stóð frá miðjum laugardegi og fram á kvöld.

    Skreytingarteymið lagði sitt af mörkum og hnýtti rauðar blöðrur á ljósastaura á Langholtsveginum frá Skeiðarvogi að Suðurlandsbraut. Skipulagsnefndin vann líka sína vinnu vel og hafði fengið skilti og vegatálma hjá borginni sem voru notuð til að afmarka hátíðarsvæðið.

    Í eftirmiðdaginn voru sölubásar og fataslár settar upp og vegfarendur gerðu góð kaup á sannkallaðri basarstemningu. Ekki fara sögur af neinu heimabökuðu bakkelsi sem þarna skiptu um hendur en nokkur tuskudýr og pet shop kvikindi eignuðust ný heimili.

    Undir kvöld breytti gatan enn um svip þegar útileguborðum og -stólum var raðað upp á miðri götunni og grillum af öllum stærðum og gerðum rúllað á staðinn. Hver og ein fjölskylda sá um að koma sér fyrir og að grilla sinn matarbita og koma með sín húsgögn út á götu.

    Svo hófst hin undursamlega götuveisla þar sem fólk sem alla jafna skýst inn og út úr húsum sínum án þess að blanda geði við nágranna sat í mestu makindum, ræddi um daginn og veginn og kynntist ungum og öldnum grönnum. Allt á meðan lambaketi, grillpylsum og ýmsu meðlæti var sporðrennt.

    Eins og á öllum alvöru útihátíðum ómaði tónlist yfir hverfinu í boði bíleiganda sem lét vélina malla og bílgræjurnar dæla Rolling Stones og Tinu Turner út í umhverfið.

    Ekki má láta hjá líða að nefna þátt hverfisbúðarinnar í því að gera Útipúkann 104 eins vel lukkaðan og raun bar vitni – því þar ræður rausnarlegur kaupmaður ríkjum og leysti viðskiptavini á barnsaldri út með gosi og íspinnum. Var það vel metið.

    Veðrabrigði settu svip sinn á samveruna en á þeim stutta tíma sem hátíðin stóð yfir fengust sýnishorn af öllu mögulegum veðurgerðum. Sól, skúrir, ský og hellirigning var meðal þess sem götugestirnir fengu að njóta á meðan grillinu stóð.

    Ekki þarf að taka fram að hátíðargestir voru sjálfum sér til sóma og enginn gisti fangageymslur. Við skemmtum okkur konunglega og mælum innilega með götuveislum sem þessum. Þær skapa vettvang fyrir jákvæð og ánægjuleg kynni og samskipti fólks sem myndar nærsamfélagið á hverjum stað. Þær búa líka til óvenjuleg og skemmtileg sjónahorn á götuna sem maður býr við og allt skrítna og skemmtilega fólkið sem býr þar líka.

  • Sumarbúðir og hryðjuverk

    Sumarhiminn

    „Sumarbúðir eru staður þar sem ungt fólk safnast saman til góðrar samveru og leikja, til að þroskast, gleðjast, tala saman, upplifa og verða ástfangið. Þar blómstrar lífið og lýðræðið dafnar. Þegar ungt fólk í sumarbúðum verður að skotmarki, skortir okkur hreinlega getu til að meðtaka það sem gerst hefur.“ Þetta sagði Helga Haugland Byfuglien, biskup í Noregi, í kjölfar skotárásarinnar á sumarbúðir norska Verkamannaflokksins í Útey fyrir utan Osló föstudaginn 22. júlí.

    Hryðjuverkin í Noregi minna okkur enn á ný á varnarleysi manneskjunnar andspænis illsku sem brýst út í ofbeldi sem meiðir og deyðir. Atburðirnir í Osló og Útey eru sláandi í eyðileggingu sinni og tilgangsleysi. Þeir vekja engin svör, aðeins spurningar og sorg.

    Nú þegar atburðarrásin er að skýrast og tilgátur um hryðjuverkin líta dagsins ljós vakna spurningar um öryggi í samfélagi, starfsemi öfgahópa og hættur sem óbreyttir borgarar búa við. Djúpstæðar spurningar um þjáninguna í lífinu, ranglæti illskunnar og tilgangsleysi gera einnig vart við sig.

    Í þannig aðstæðum bregst manneskjan við með því að snúa sér að því sem henni er dýrmætast. Þess vegna þráum við nálægð við þau sem við elskum þegar ógnir steðja að. Þess vegna snúum við okkur til Guðs, með ótta okkar, sorg, reiði og spurningar.

    Við felum þetta allt Guði í bæn, vegna þess að við upplifum okkur smá og vanmáttug í því að rétta hjálparhönd og sýna stuðning þeim sem líða og þjást. Með bænum, hlýjum hugsunum og kveðjum sýnum við strax í dag samstöðu með systrum og bræðrum sem eru þolendur þessa ofbeldisverks.

    Forsætisráðherra Noregs, Jens Stoltenberg, orðaði í kvöld leiðina burt frá þeim vonda stað sem ofbeldisverkin setja norsku þjóðina á:

    „Svarið við ofbeldi er ennþá sterkara lýðræði og mannúð – en ekki að loka augunum fyrir því sem getur gerst og hefur gerst. Það er það sem við skuldum þeim föllnu“.

    Slíkt svar er skref í þá átt að gera samfélagið áfram að stað þar sem lífið fær að blómstra og ungt fólk safnast öruggt saman til góðrar samveru. Áskorun á tíma hryðjuverkanna er að standa saman til að svo megi verða.

    Það er bæn okkar og von.

  • Bæn fyrir Noregi

    Prayers

    Góði Guð.

    Enn á ný komum við fram fyrir þig og biðjum fyrir saklausum þolendum ofbeldis. Í dag leggjum við í þínar hendur íbúa Noregs og sérstaklega þau sem urðu fyrir eyðileggingaráhrifum sprenginganna í Osló.

    Við felum þér einnig þau sem urðu fyrir skotárásinni í æskulýðsbúðunum í Útey. Umvef öll þau sem þjást og líða. Hjálpa okkur að skilja hvernig og hvers vegna slíkt ofbeldi mótar lífið í heiminum okkar í allt of miklum mæli.

    Við biðjum fyrir öllum þeim sem syrgja og finna til vegna árásanna og einnig ástvinum þeirra. Ver með þeim ó Guð, á þessari stundu ótta, sorgar og neyðar. Þess biðjum við í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda.

    Amen.