Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Bjart er yfir Betlehem

    Lights

    Kerti

    Kirkjugestir

    Guðsþjónustunni í Langholtskirkju í gær lauk með því að kirkjugestir stóðu í tveimur röðum sem náðu frá altarinu og út að kirkjudyrum. Ungir sem aldnir héldu á kertum sem við fengum í upphafi guðsþjónustunnar.

    Ljósin voru slökkt, logi sóttur á altariskerti og látinn ganga út kirkjuna. Þegar kveikt hafði verið á öllum kertunum settist Jónsi organisti við orgelið og lék undir meðan við sungum Bjart er yfir Betlehem.

    Við hlið okkar í röðinni stóð Sveinn Rúnar Hauksson. Hann hefur verið hvað ötulastur í að minna okkur á aðstæður í Betlehem samtímans. Sálmurinn fékk dýpri aðra merkingu. Varð vonarsálmur sem lýsti bæði upp stundina okkar í Langholtskirkju og vitnaði um vonina sem við berum í brjósti um frið meðal þjóðanna í Landinu helga.

  • Aðeins meira pollapönk

    Aðeins meira pollapönk - útgáfutónleikar

    Við vorum svo heppin að vinna miða á útgáfutónleika Aðeins meira pollapönks sem voru haldnir í Salnum í dag. Pollarnir eru í miklu uppáhaldi á heimilinu. Börnin kunna Meira pollapönk að mestu leyti utanað og syngja hástöfum með þegar 113 vælubíllinn og Pönkafinn eru spilaðir. Við vorum því spennt að heyra lögin af nýja disknum og sjá pollana á sviði.

    Þeir stóðu fyllilega undir væntingum. Gleði og leikur skein af þeim – eins og myndin hér að ofan ber með sér. Nýju lögin eru grípandi og skemmtileg og bera með sér mikilvægan boðskap og fræðslu. T.d. inniheldur ferðalagalagið Ættarmót snilldar upptalningu á helstu viðkomustöðum landans í sumarfríinu og eins víst að það geri staðina áhugaverðari í eyrum ungra ferðalanga og auðveldi þeim líka að festa staðarheitin í minni.

    Aðeins meira pollapönk snertir á þjóðfélagsmálum eins og þeim félögum er svo vel lagið. Á síðustu plötu tóku þeir fordóma í nefið og hér syngja þeir um útrásarvíkingana sem sjóræningja samtímans sem ræna öllu sem þeir komast yfir í laginu Pönk á Polló.  Hinni viðkvæmu stöðu sem kemur upp í fjölskyldunni þegar litla barnið er lasið og pabbi eða mamma verða að taka sér frí úr vinnunni eru líka gerð skil í laginu Heima með veikt barn.

    Sérstakt hrós frá strákarnir fyrir að vera algjörlega slakir gagnvart staðalmyndum af strákum og stelpum í orði og æði. Þeir eru fyndnir, frumlegir og frjóir og þiggja sjálfsmynd sína sem pollar ekki af því að tala stelpur niður eða afgreiða þær á banal hátt. Þetta er hreinlega eins og ferskur blær á þessum tímum kyngervistogstreitu sem ríður húsum hvert sem litið er. Mestu töffararnir eru líka í bleikum íþróttagöllum … 😉

    Myndir frá tónleikunum.

  • Topp 10 á Trú.is

    Í starfinu mínu felst meðal annars að halda utan um vefinn Trú.is. Þar eru birtar prédikanir og pistlar um samfélag, trú og kirkju auk þess sem við svörum spurningum sem lesendur vefsins senda inn. Efnið sem birtist er eftir fjölmarga höfunda, aðallega presta og djákna sem starfa fyrir kirkjuna um allt land, en líka stöku leikmenn og sjálfboðaliða. Til gamans tók ég saman topp 10 lista yfir vinsælasta efnið í nóvember. Hann lítur svona út:

    1. Hann mun minnast veðurbarinna andlita eftir Jónu Hrönn Bolladóttur og Bjarna Karlsson
    2. Um falskar minningar eftir Sigríði Guðmarsdóttur, Auði Ingu Einarsdóttur, Bjarna Karlsson, Guðmund Örn Jónsson, Guðrúnu Karlsdóttur, Hólmgrím E Bragason, Írisi Kristjánsdóttur, Jónu Lovísu Jónsdóttur, Kristínu Þórunni Tómasdóttur, Sigfinn Þorleifsson og Svanhildi Blöndal
    3. Hvað heita kertin á aðventukransinum eftir Steinunni Arnþrúði Björnsdóttur
    4. Boltann til þjóðarinnar eftir Gunnar Kristjánsson og Kristínu Þórunni Tómasdóttur
    5. Örsögur eftir Bolla Pétur Bollason
    6. Sama sagan eftir Benedikt Jóhannsson
    7. Biskupsárið mikla eftir Hjalta Hugason
    8. Brautryðjandinn eftir Gunnar Kristjánsson
    9. Lifandi kirkja eftir Sunnu Dóru Möller
    10. Kom þú Drottinn Jesús eftir Karl Sigurbjörnsson

    Hér skrifa 11 konur og 10 karlar. Að vísu er ein greinin eftir 11 höfunda. Fjórar prédikanir ná inn á topplistann, 5 pistlar og 1 svar. Allt efnið er nýtt nema svarið við spurningunni um kertin á aðventukransinum. Fimm höfundar koma utan af landi, sextán starfa á höfuðborgarsvæðinu. Öll eru þau virk á netinu!

    Það verður spennandi að skoða þetta aftur í desember.

  • Trommað í snjónum

    Sean Quigley trommar í snjónum.

  • Jól í skugga sorgar

    „Fjölskyldur í sorg þurfa að ræða um það fyrir fram hvernig halda skuli hátíðina. Á að halda hefðunum óbreyttum eða á að breyta þeim? Hvernig á að bregðast við þegar fólk óskar gleðilegra jóla?“ – Halldór Reynisson: Jól í skugga sorgar.

  • Túlkunin og faðirvorið

    Í nýsamþykktum reglum um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila Reykjavíkurborgar við trúar- og lífsskoðunarfélög segir meðal annars:

    Þess verði gætt við allar heimsóknir til og frá grunnskóla vegna fræðslu um trú og lífsskoðanir að nemendur fylgist með en séu ekki þátttakendur í helgisiðum og athöfnum, og að þær séu ekki vettvangur fyrir innrætingu eða dreifingu á boðandi efni.

    Hvernig á að skilja þetta? Vísbendingu um það er að finna í bréfi sem Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs borgarinnar, sendi til leikskólastjóra og skólastjóra í gær. Þar segir:

    Heimilt er að leyfa nemendum að fylgjast með athöfnum og kynnast helgisiðum, en ekki má gera kröfu um að nemendur taki þátt í bænum og helgisiðum.

    Þetta er skýrara en texti reglanna sjálfra.

    Þetta útilokar börn sem tilheyra þjóðkirkjunni eða öðrum trúfélögum ekki frá því að fara með bænirnar sem þau fara með á hverjum degi (til dæmis faðirvorið).

    Þetta neyðir engan til að fara með bænir.

    Og allir vinna.

  • Líka fyrir fullorðna

    ‎6h.is er hollráðavefur fyrir foreldra, unglinga og börn. Þar segir um samskipti foreldra og barna:

    Gefum okkur tíma til að ræða við börn okkar á hverjum degi. Í samræðum foreldra og barna er mikilvægt að tala af einlægni, skiptast á skoðunum, lýsa tilfinningum sínum, virða sjónarmið hvert annars og byggja upp gagnkvæmt traust.

    Mikilvægt er að barnið finni að hlustað er á það. Þegar fjölskyldan hefur vanið sig á góð og uppbyggileg samskipti er auðveldara að ræða ágreiningsmál þegar þau koma upp innan sem utan fjölskyldunnar.

    Í samræðum foreldra og barna, þar sem leiðarljósið er að hlusta á barnið deila skoðunum sínum og tilfinningum, eru foreldrarnir í raun að aðstoða börn sín við að verða ábyrg gerða sinna.

    Þetta gildir líka fyrir fullorðna.

    Og mætti leggja til grundvallar í samtalinu um mörg deilumál í samtímanum.

    Með góðum árangri.

  • Á nöfinni í heyranda hljóði

    Upptökur af fyrirlestrunum Á nöfinni voru spilaðar Í heyranda hljóði á Rás eitt ellefta október og átjánda október.

  • Þegar sakleysi og bernsku er rænt

    Dr. Marie Fortune var aðalfyrirlesari á málþingi um kynferðislega misnotkun á börnum í trúarlegu samhengi. Troðfullt var á málþinginu. Dr. Fortune benti á að þegar fullorðinn beitir barn kynferðisofbeldi er barnið er rænt sakleysi sínu og bernsku. Hún lagði áherslu á að kynferðisofbeldi væri nefnt sínu rétta nafni og hvatti kirkjurnar til að setja einstaklinginn og réttindi hans i forgrunn gagnvart stofnuninni.