Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Frambjóðandi #5: Þórhallur Heimisson

    Sumarnámskeið fermingarbarna í Hafnarfjarðarkirkju 2011

    Sr. Þórhallur Heimisson var fimmti frambjóðandinn í biskupskjöri. Þessa dagana birtum við myndir af öllum frambjóðendum í biskupskjöri.

    Þessa mynd tók ég af Þórhalli á sumarnámskeiði fermingarbarna í Hafnarfjarðarkirkju. Það var gaman að fylgjast með krökkum og prestum og æskulýðsleiðtogum sem nutu samverunnar og fræddu og fræddust um trúna og lífið. Það geislaði líka af þeim gleðin.

    Meira um biskupskjör 2012.

  • Sæluboð einhverfunnar

    Í dag er sunnudagur einhverfunnar og alþjóðlegur dagur bæna fyrir þeim sem eru einhverfir og með Asperger heilkenni. Í tilefni dagsins viljum við deila með ykkur þýðingu okkar á sæluboðum einhverfunnar.

    Sæl eru þau sem tala ekki,
    því að þau munu kenna okkur það sem er handan orðanna.

    Sæl eru þau sem einbeita sér að því smáa,
    því að þau munu sjá undur sem aðrir sjá ekki.

    Sæl eru þau sem hringsnúast,
    því að þau sjá lífið úr öllum áttum.

    Sæl eru þau sem sem eru sérlunduð,
    því að þau vita nákvæmlega hvað þau vilja.

    Sæl eru þau sem baða út höndunum,
    því að þeim munu vaxa vængir svo þau geti flogið.

    Sæl eru þau sem ganga alltaf sömu leiðina,
    því að þau eru staðföst og sönn.

    Sæl eru þau sem halda fast við siði sína og venjur,
    því að fyrir þeim verður lífið allt að helgiþjónustu.

    Sæl eru þau sem endurtaka sig,
    því að þau kunna að meta hvert hljóð og þagnirnar á milli þeirra.

    Sæl eru þau sem eru þrautseig,
    því að þau munu ljúka því sem aðrir gefast upp á.

    Sæl eru þau sem helga sig einni ástríðu,
    því að þau munu sjá dýptina í því sem öðrum yfirsést.

    Sæl eru þau sem leggja hvert smáatriði á minnið,
    því að þau varðveita það sem annars væri gleymt.

    Sæl eru þau sem berjast fyrir því að vera heyrð og samþykkt eins og þau eru,
    því að þau gæta réttar okkar allra.

    Sæl eru þau sem fylgjast með og bíða,
    því að þau munu uppgötva og þekkja og skilja.

    Sæluboðin minna okkur á að þau sem eru öðruvísi í augum samfélagsins geta kennt okkur margt um leyndardóma lífsins. Sæluboð einhverfunnar kallast á við sæluboðin í Matteusarguðspjalli. Höfundur þeirra heitir Tim og hann bloggar um einhverfu ásamt konu sinni Mary. Þau eiga einhverfan son eins og við.

    Við vitum ekki til þess að haldið hafi verið upp á þennan sunnudag í kirkjum hérlendis, en það er full ástæða til að taka upp þann sið, í kirkjunum og í samfélaginu okkar.

  • Frambjóðandi #4: Þórir Jökull Þorsteinsson

    Sr. Bára Friðriksdóttir og sr. Þórir Jökull Þorsteinsson

    Sr. Þórir Jökull Þorsteinsson var fjórði frambjóðandinn í biskupskjöri. Þessa dagana birtum við myndir af öllum frambjóðendum í biskupskjöri.

    Þessa mynd tók ég af Þóri Jökli og Báru Friðriksdóttur á Prestastefnu hér um árið. Þau voru bæði með svo fín höfuðföt í prósessíunni til kirkju.

    Meira um biskupskjör 2012.

  • Frambjóðandi #3: Sigurður Árni Þórðarson

    Dr. Sigurður Árni Þórðarson

    Dr. Sigurður Árni Þórðarson var þriðji frambjóðandinn í biskupskjöri. Þessa dagana birtum við myndir af öllum frambjóðendum í biskupskjöri.

    Þessa mynd tók ég á fyrirlestri í Neskirkju sem var hluti af fyrirlestraröðinni Á nöfinni. Það var Framtíðarhópur kirkjuþings, sem Sigurður Árni leiðir, sem efndi til þessara fyrirlestra um kirkju og framtíð. Þarna er Sigurður Árni í essinu sínu, lifandi fyrirlesari með skarpa sýn.

    Meira um biskupskjör 2012.

  • Frambjóðandi #2: Kristján Valur Ingólfsson

    Sr. Kristján Valur Ingólfsson

    Sr. Kristján Valur Ingólfsson var annar frambjóðandinn í biskupskjöri. Þessa dagana birtum við myndir af öllum frambjóðendum í biskupskjöri.

    Þessi mynd er tekin á vígsludegi Kristjáns Vals sem Skálholtsbiskups. Það var í mörg horn að líta og margir sem vildu hitta nývígðan vígslubiskup. Ég fylgdi honum í Skálholtsskóla þar sem hann afskrýddist og smellti svo af þessari mynd. Þetta er semsagt nývígði vígslubiskupinn Kristján Valur á gleðidegi.

    Meira um biskupskjör 2012.

  • Frambjóðandi #1: Sigríður Guðmarsdóttir

    Dr. Sigríður Guðmarsdóttir

    Dr. Sigríður Guðmarsdóttir var fyrst til að bjóða sig fram í biskupskjöri. Næstu daga ætlum við að birta myndir af öllum frambjóðendum. Af því að hún var fyrst er hún fyrst.

    Þessi mynd var tekin á vígsludegi Guðríðarkirkju þar sem Sigríður er sóknarprestur. Þetta var fallegur gleðidagur þar sem margir komu saman til að fagna þessari nýju kirkju. Gleðin sést alveg á andliti Siggu.

    Meira um biskupskjör 2012.

  • Á netinu er ekkert einkalíf

    4 5 6Stefán Hrafn Hagalín talaði á Alþjóða netöryggisdeginum í gær. Hann var líka í viðtali við Sjónvarp Mbl og sagði þar meðal annars:

    … þú stýrir þínum prófíl á netinu. Það portrett sem er til af þér. Sú spegilmynd sem er til af þér á netinu, þú ákveður hvað er sett þarna, bæði orðin og myndirnar og annað slíkt og ég held að þeim mun fyrr sem fólk er komið í skilning um þetta, að þeim mun betri og öruggari staður verður netið til að vera á.

    Þetta er alveg rétt hjá honum og það verður ekki brýnt of mikið fyrir fólki á öllum aldri að þekkja miðlana sem eru notaðir hverju sinni og vera sér meðvituð um hverjir geta séð. Þekkja til dæmis muninn á sýnileika- og friðhelgisstillingum á Facebook.

    Morgunblaðið tekur þetta upp í leiðara um einkalíf á netinu:

    Umræða um persónuvernd og friðhelgi einkalífsins er síst of mikil í samfélaginu og finnst mörgum skorta á virðingu fyrir henni. Í þeirri umræðu gleymist að oft eru það einstaklingarnir sjálfir, sem minnsta virðingu bera fyrir friðhelgi síns einkalífs og gæta ekki að því hvaða upplýsingar þeir bera á torg. Netið er vitaskuld mikið þing en það verður að umgangast af varúð eins og alla aðra hluti. Á netinu er ekkert einkalíf.

    Þetta er góð brýning og hægt að taka undir allt í henni nema seinustu setninguna.

    Hún er röng.

    Hún er röng í samhengi málsgreinarinnar. Ef það væri ekkert einkalíf á netinu þá þyrftum við ekki að bera virðingu fyrir friðhelgi eigin einkalífs á netinu.

    Hún er röng í samhengi netsins almennt. Þar eru til að mynda opnir vefir (eins og mbl.is), lokaðar netþjónustur (eins og iMessage í snjallsímanum) og hálf- eða kannski misopnir vefir (eins og  facebook og flickr). Það efni sem fer á opinn vef er vissulega öllum aðgengilegt. Þar er lítið einkalíf. Efni á lokuðum vefjum og netþjónustum er ekki aðgengilegt og á ekki að vera neinum aðgengilegt. Þar getur vissulega verið efni sem heyrir til einkalífi fólks. Eða lítum við svo á að smáskilaboðin sem við sendum varði ekki einkalífið? Eða myndasafnið sem ég set á lokað vefsvæði, læst með aðgangsorði sem ég deili bara með fjölskyldunni.

    Mörkin þarna á milli eru skýr og við eigum ekki að hringla í þeim eða ala á óöryggi fólks gagnvart þeim með því að senda misvísandi skilaboð.

    Það eru hinsvegar misopnu vefirnir, eins og facebook og flickr og google+ sem við þurfum að vera okkur sérstaklega meðvituð um. Þar setjum við mörkin nefnilega sjálf og þá þarf heilbrigða dómgreind.

    Morgunblaðið og Stefán Hrafn fá hrós dagsins fyrir að minna okkur á mikilvægi þess að vera meðvituð um einkalífsmörkin á netinu og ábyrgð hvers og eins á eigin gjörðum. En leiðarahöfundur Moggans fær líka skamm fyrir lokasetningu leiðarans sem gerir mörkin ekki skýr heldur óljós.

  • Alþjóðlegi netöryggisdagurinn – bloggað í beinni

    Alþjóðlegi netöryggisdagurinn er haldinn í dag. Í tilefni dagsins stendur SAFT fyrir málþingi þar sem á að ræða um net og tengsl. Ég er mættur þar og ætla að freista þess að blogga dagskrána í beinni. Þetta er spennandi dagskrá þar sem meðal annars á að ræða um áhrif netsins á samskipti fólks, tölvunotkun í námi og kennslu, kynslóðamun, siðferði og einkalíf.

    Ragnheiður framkvæmdastjóri Heimilis og skóla og ungur maður sem er fulltrúi ungmennaráðs SAFT kynna daginn og dagskrána stuttlega. Svo ætlar innanríkisráðherra að setja málþingið. Fylgist með frá upphafi. (more…)

  • Eru bara allir prestar landsins í framboði?

    Sjö prestar hafa boðið sig fram í biskupskjöri. Framboðsfrestur rennur út 29. febrúar sem er eftir rúmar þrjár vikur svo fleiri gætu átt eftir að bætast við. Þó er líklegt að ef einhver hyggst gefa kost á sér verði það fyrr en síðar því kosningabaráttan er farin af stað. Frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra skrifa á vefinn, hringja í kjörmenn, halda fundi og vekja á sér athygli með ýmsum hætti.

    Eru allir í kjöri?

    Ein spurningin sem við höfum séð og heyrt, meðal annars á Facebook, lýtur að fjölda þeirra sem bjóða sig fram. Einn vinur okkar á Facebook spurði:

    Eru allir prestar landsins í kjöri?

    Svarið við því er já. Það eru allir í kjöri, en einungis þeir prestar sem gefa kost á sér fá nafnið sitt ritað á kjörseðilinn.

    Sjö, níu, þrettán?

    Ekki liggur fyrir hversu margir munu bjóða sig fram. Þau er sjö þegar þetta er skrifað, en gætu allt eins orðið níu eða þrettán áður en yfir lýkur. Er það of mikið?

    Athugun á fjölda umsækjenda um sjö prestsembætti leiddi í ljós að umsækjendur hafa verið frá 6-15:

    Í þessu ljósi er fjöldi frambjóðenda til biskups Íslands afar eðlilegur. Um er að ræða flott djobb – krefjandi, ábyrgðarmikið, skemmtilegt, umfangsmikið og vellaunað starf með sérstökum skyldum og réttindum.

    Hvers vegna ætti fólk sem hefur til þess réttindi og hæfi ekki að sækjast eftir slíku starfi?

  • Þátttökuveisla

    Pad thai

    Pad thai er uppáhaldsréttur. Þessi var gerður heima undir handleiðslu Wat og Svavars sem kenndu okkur að elda upp á tælenska vísu. Þeir bjóða upp á heimanámskeið. Koma til þín og kenna þér og nokkrum gestum að elda tvo rétti. Úr verður þátttökuveisla þar sem allir leggja eitthvað af mörkum.

    Skemmtilegt kvöld og maturinn alveg frábær.

    Fleiri myndir á flickr.