Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Hrós dagsins fá frambjóðendur og þjóðkirkjufólk

    Á hrósdegi viljum við lyfta fram frambjóðendum í biskupskjöri sem eru afar duglegir að tjá sig á netinu og þjóðkirkjufólkinu sem lætur samtalið um biskupskjör og kirkju varða sig. Yfirlitssíðan okkar er uppfærð daglega. Þetta bættist við í gær og í dag.

    Eftir frambjóðendur

    Eftir þjóðkirkjufólk

    Svo er líka heilmikil umræða í Facebookhópnum Við kjósum okkur biskup sem er opinn öllu þjóðkirkjufólki.
  • Grannar og guðsþjónusta

    Síðastliðinn sunnudag, sem var fyrsti sunnudagur í föstu, var haldin grannaguðsþjónusta í Seltjarnarneskirkju. Íbúar úr Eiðismýri, Suðurmýri, Tjarnarmýri, Grænumýri, Kolbeinsmýri, Tjarnarstíg og Tjarnarbóli tóku virkan þátt í guðsþjónustunni, m.a. með því að lesa ritningarlestra, semja og lesa bænir. Þá var kirkjukaffið í umsjón íbúa þessara tilteknu gatna.

    TúlípanarGrannaguðsþjónustan er sniðug hugmynd sem sýnir vel grunnhugsun þjóðkirkjunnar, nefnilega að hún er byggð upp á landfræðilegum einingum eins og götuheitin vísa til. Þessar landfræðilegu einingar heita sóknir en öllu landinu er skipt upp í sóknir.

    Þetta er gífurlega mikilvægt atriði í skipulagi og uppbyggingu þjóðkirkjunnar en allt hennar starf hvílir á sóknahugsuninni. Öll þjónusta og stjórnsýsla miðast við sóknirnar sjálfar.

    Um þetta segir í Innri samþykktum þjóðkirkjunnar, sem samþykktar voru á kirkjuþingi fyrir nokkrum árum:

    Sóknin er grunneining þjóðkirkjunnar og vettvangur þjónustu hennar á hverjum stað. Sóknin er félag þess fólks innan þjóðkirkjunnar sem myndar söfnuð, þar sem fagnaðarerindið er boðað og sakramentin um hönd höfð og fólk leitast við að lifa samkvæmt boði Krists.

    Við þetta má bæta að sóknirnar eru grundvöllur þess samkomulags sem ríki og kirkja gerðu með sér á sínum tíma, um að ríkissjóður tæki yfir eignir og arð sóknanna en stæði jafnframt skil á launagreiðslum kirkjunnar þjóna.

    Seltjarneskirkja fær hrós fyrir að lyfta upp þjóðkirkjuhugsjóninni með grannaguðsþjónustunni og minna þannig á landfræðilegar rætur þjóðkirkjunnar.

  • Föstudagur #4: Brauðið

    The 'Daily bread' cross

    Þetta er ein af átta föstumyndum sem Árni tók af Krossi daglegs brauðs sem var í anddyri ráðstefnuhússins sem hýsti heimsþing Lútherska heimssambandsins í Stuttgart 2010.

  • Föstudagur #3: Hvernig væri að fasta jákvætt?

    Margir sjá föstuna fyrir sér sem tímann þegar við neitum okkur um eitthvað og jafnvel sem tíma skortsins. Við getum líka hugsað um hana á jákvæðum nótum og sem tíma þegar við gefum eitthvað jákvætt til samfélagsins okkar.

    Nick Baines, Bradfordbiskup, bloggaði um þetta í vikunni og sagði frá miðborgarprestinum Chris sem ætlar að fasta jákvætt með því að 1) styðja fyrirtækin í Bradford og kaupa lókal, 2) bregðast alltaf við þegar einhver talar illa um borgina þeirra, 3) gera eitthvað upbyggilegt fyrir nærsamfélagið sitt, t.d. taka til á götunum, 4) njóta menningar- og trúarlífsins í borginni og borða mat sem er framleiddur þar og 5) gefa peninga til góðgerðarsamtaka sem starfa í og fyrir íbúana í Bradford.

    Þetta er áhugaverð útfærsla á föstunni. Við erum þegar farin að velta fyrir okkur hvernig má sjá þetta fyrir sér í 104 Reykjavík þar sem við búum.

  • Hamingja og athygli

    Flest af því sem maðurinn tekur sér fyrir hendur í lífinu er við nákvæma skilgreiningu tengt félagslegum tengslum þar sem hann upplifir gagnkvæma umhyggju, athygli og viðurkenningu.

    Wilfried Engemann: Gefandi prédikunarvinna

  • Kaffið í Köben

    Kaffismiðja Íslands er uppáhaldskaffihús og þar fæst besta kaffi á Íslandi að okkar mati. Kaffismiðirnir sem þar starfa undir forystu Sonju Bjarkar og Ingibjargar Jónu eru líka hjálpsamir og þegar við erum á leið til útlanda er gott að spyrja hvar besta kaffið fáist. Þegar við vorum á leið til Kaupmannahafnar í síðustu viku var að sjálfsögðu leitað til þeirra.

    The Coffee Collective

    The Coffee Collective

    The Coffee Collective

    Sonja mælti  meðal annars með The Coffee Collective sem reka kaffihús á yfirbyggða markaðinum Torvehallene við Ísraelstorg. Þar fengum við besta kaffið í þessari ferð. Raunar má mæla með því að ferðalangar geri sér ferð í Torvehallene. Þar fæst ekki bara besta kaffið í borginni heldur líka dásamlegar bollakökur, gott smörrebröd og sitthvað fleira á skemmtilegum markaði.

    Ef þú ert ekki á leið til Köben þá er auðvitað tilvalið að skella sér á Kaffismiðjuna. Kaffið þar er ekki síðra en í Köben.

  • Málsvari ástar innan um slúður og stór brjóst

    Erkibiskupinn af York talar máli ástarinnar á óvæntum stað í dag. Hann skrifar Valentínusardagspistil í slúðurblaðið The Sun sem er þekkt fyrir fáklæddar stúlkur, stór brjóst og fréttir af fræga fólkinu. Pistillinn heitir Tíu leiðir til að halda ástinni lifandi og minnir á að vilji og ábyrgð eru lykilþættir í vel heppnuðum ástarsamböndum. Sentamu fær hrós dagsins fyrir pistil og vettvang.

  • Frambjóðandi #7: Gunnar Sigurjónsson

    Sr. Gunnar Sigurjónsson

    Sr. Gunnar Sigurjónsson var sjöundi frambjóðandinn í biskupskjöri. Þessa dagana birtum við myndir af öllum frambjóðendum í biskupskjöri.

    Ég man ekki hvar ég tók þessa mynd af Gunnari, en fannst hún ágætlega heppnuð, líklega á prestastefnu. Eins og myndin ber með sér er Gunnar ekki bara sterkasti frambjóðandinn heldur líka sá skeggprúðasti.

    Meira um biskupskjör 2012.

  • Frambjóðandi #6: Agnes Sigurðardóttir

    Sr. Agnes Sigurðardóttir

    Sr. Agnes Sigurðardóttir var sjötti frambjóðandinn í biskupskjöri. Þessa dagana birtum við myndir af öllum frambjóðendum í biskupskjöri.

    Þessa mynd tók ég af Agnesi á prestastefnu, líklega í Vídalínskirkju 2010. Mér þykir svolítið vænt um myndina því það er svo mikil kátína í andlitinu hennar.

    Meira um biskupskjör 2012.