Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Þar sem krækiberjasafi og hunang mætast

    IMG_0586

    Í matreiðslubókinni Orð, krydd og krásir er uppskrift að eftirréttarkúlum sem eru gerðar úr möndlum og pistasíuhnetum og rúsínum sem eru hnýttar saman með hunangi og krækiberjasafa og kryddaðar með stjörnuanís. Við gerðum fyrsta skammtinn í gær og gæddum okkur á honum. Myndin hér að ofan sýnir bindiefnin tvö.

  • Skrifum undir

    „Við undirrituð skuldbindum okkur til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Við munum sérstaklega gæta réttar barna og ungmenna sem og einnig allra hópa sem ekki eiga sér málsvara eða sterka rödd.

    Við munum öll hvert á okkar sviði, skuldbinda okkur til þess að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi okkar. Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til þess að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er.“

    Í dag er góður dagur til að leggja nafn sitt við þjóðarsáttmála gegn einelti með undirskrift á vefnum. Svo skulum við öll leggja okkar af mörkum á baráttudegi gegn einelti 8. nóvember næstkomandi.

  • Vaski, vaski, vaskir menn

    dirty/clean dishwasher magnetÍ síðastliðinni viku bilaði uppþvottavél heimilisins. Fyrstu viðbrögð voru sjokk og ógeð sem fylgdi því að þurfa að plokka út fitug og skítug eldhúsáhöld, óþrifin, út úr vélinni, láta renna í vaskinn og handþvo allt draslið. Við höfum búið svo lengi við uppþvottavélarlúxusinn að uppþvottavöðvarnir höfðu slaknað allverulega og atferlið allt framandi.

    En viti menn, eftir nokkrar máltíðir fór uppvaskið að venjast og jafnvel að hafa góð áhrif á einstaklinga sem og heimilisandann. Að vaska upp hægir á eldhúslífinu svo um munar og hið hæga líf er eftirsóknarvert. Uppvaskið tengir líka áhöld og notanda og gerir okkur meðvitaðri um það sem við grípum til og notum. Það er ákveðin jarðtenging sem fæst með því að handleika, þvo og þurrka, og setja á sinn stað.

    Uppvaskslífið gefur líka möguleika á skemmtilegri samveru. Kallað á eitt barnanna og því fengið viskustykki. Á meðan pabbi eða mamma vaska upp stykki fyrir stykki og barnið þurrkar, er gott að spjalla um daginn, veginn og allt hitt.

    Kannski er uppvaskið gullnáma eftir allt, sem er okkur hulin á meðan uppþvottavélarinnar nýtur við?

    Mynd: scmtngirl á flickr

  • Nóvemberjólakakan hennar Nönnu

    Nanna Rögnvaldar er uppáhalds matarbloggari. Í dag bloggar hún um jólakökuna sem gott er að gera um þetta leyti og leyfa svo að sjatna fram að þessum eða næstu jólum.

  • En allir geta gert eitthvað

    Tómas Viktor gefur í söfnun sem #Hjálparstarf #kirkjunnar stendur fyrir þessa dagana.

    Þessa dagana ganga fermingarbörn í hús um allt land. Þau eru með söfnunarbauka frá Hjálparstarfi kirkjunnar til að safna fyrir vatnsverkefnum í Malaví í Afríku. Féð sem safnast verður meðal annars notað til að byggja brunna sem gjörbreyta lífi fólksins sem hefur aðgang að þeim.

    Við skulum taka vel á móti krökkunum og gefa í söfnunina, minnug slagorðsins: Enginn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað.

  • Kvennafrídagur og krabbamein

    Krabbamein og baráttan gegn því er samfélagsmál en ekki einkamál. Þú ert ekki ein þegar þú greinist. Þú átt rétt á stuðningi og úrræðum, þjónustu og umönnun. Þú átt í samferðafólki þínu samhygð, hlýju og hjálp. Þú hvílir í stuðningsneti sem er haldið uppi af öðrum konum, systrum, dætrum, mæðrum, vinkonum. Þú finnur það hér í kirkjunni í dag að við stöndum saman. Þú finnur að enn er von.

    Kvennafrídagurinn er dagurinn þar sem við réttum úr okkur, lítum yfir sviðið og horfum á hverja aðra. Og við sjáum að saman búum við yfir gífurlegum krafti. Krafti til að breyta lífi og líðan kvenna á öllum aldri, í öllum stéttum, fatlaðra og ófatlaðra, gagnkynhneigðra og lesbía, heilbrigðra og sjúkra. Kvennafrídagurinn minnir okkur á frelsið sem við allar þráum og eigum að gera að veruleika í lífinu okkar.

    Kvennafrídagurinn minnir okkur líka á ábyrgðina sem við höfum gagnvart hver annarri og skylduna sem við allar höfum til að berjast fyrir réttindum kvenna. Sérstaklega þeirra sem veikjast og geta tímabundið eða langvarandi ekki borið hönd fyrir höfuð sér.

    Megi stuðningsnetið í kringum þig, megi konurnar í lífi þínu, minna þig á vonina sem þér er ætluð. Megir þú finna í kirkjunni í dag að þú ert umvafin kærleika Guðs, sem er skapari þinn og hefur myndað þig í móðurlífi. Þú verður örugg því að enn er von, nýtur verndar og sefur óhult.

    Úr prédikuninni Enn er von sem var flutt í bleikri messu á kvennafrídegi 2012.

  • Ketilbjallan í grasinu

    Kettlebell In Autumn Grass

    Sérfræðingarnir mæla með því að við hreyfum okkur reglulega, helst í þrjátíu mínútur á dag, fimm sinnum í viku. Nýleg rannsókn leiddi svo í ljós að það er enn heilsusamlegra að hreyfa sig úti en inni.

    Ketilbjallan í grasinu, mitt á meðal haustlaufanna föllnu er einmitt til marks um slíka hreyfingu.

  • Simpsons fjölskyldan á hvíta tjaldinu – með umræðuspurningum

    Simpsons fjölskyldan hefur verið tíður gestur á mörgum heimilum frá því þættirnir hófu göngu sína árið 1989. Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda og það mátti því alveg búast við því að fjölskyldan rataði loksins á hvíta tjaldið. Kvikmyndin um Simpsons fjölskylduna var frumsýnd árið 2007 og hún fékk nokkuð góðar viðtökur. Hér er stutt kynning á myndinni og helstu trúar- og siðferðisstefjunum í henni ásamt þremur spurningum sem má nota til að koma af stað samtali um myndina.

    (more…)

  • Þegar einhverfi strákurinn fór til tannlæknis

    Í DV í dag er sagt frá háum reikningi eftir tannlæknisheimsókn einhverfrar stúlku. Margir einhverfir einstaklingar höndla illa snertingu, við höfum reynt þetta með Tómasi Viktori. Niðurstaða einnar tannlæknisheimsóknarinnar var að fara með hann sérfræðings, láta svæfa litla kút til að hægt væri að laga tennurnar. Þá verða reikningarnir háir.

    Að sjálfsögðu á að mæta þessum hópi betur, sérstakar aðstæður kalla á sérstök úrræði. Einhverfum er mætt mjög vel á ýmsum sviðum samfélagsins, tannlæknaþjónustan á ekki að vera nein undantekning.

  • Tónlistin sem brú þess einhverfa

    Tómas Viktor

    Frásagnir Biblíunnar af græðandi mætti tónlistarinnar kallast á við reynslu af því hvernig tónlist nýtist í lækningarskyni. Margt bendir til þess að tónlist hafi góð áhrif á líðan sjúklinga vegna þess að hún róar hugann og leysir upp streitu. Rétti tónninn og tíðnin getur líka hitt mannslíkamann fyrir með ótrúlegum árangri. Rannsóknir á því hvernig heilinn okkar skynjar og móttekur tónlist leiða ýmislegt í ljós sem getur stuðlað að framförum í umönnun og meðferð á ýmsum sjúkdómum og einkennum.

    Músíkþerapía er t.d. notuð með börnum með einhverfu. Einhverfa er taugaröskunarsjúkdómur sem uppgötvast í ungum börnum. Einhverfa hefur mikil áhrif á getu einstaklingsins og möguleika hans til að þroskast og dafna, en einstaklingur með einhverfu er sviptur getunni til að bregðast við og aðlagast áreitinu sem verður okkur að öllu eðlilegu til þroska. Rannsóknir hafa sýnt að tónlist í meðferðarskyni getur haft góð áhrif á einhverf börn.

    Tónlist getur haft bætandi áhrif á samskiptahæfni og félagsfærni þess einhverfa. Einhverfa barnið getur móttekið tónlistina á allt annan hátt en orð og tónlausa tjáningu. Tónlistin getur hjálpað hinum einhverfa að skapa tengingu við umhverfið og það sem er í kringum hann – og með því að læra á hljóðfæri getur skapast færni í að fást við ákveðna hluti.

    Þannig getur tónlistin orðið að brú milli einhverfa barnsins og umhverfisins og gefið barninu leið til að tjá sig. Þetta gerist gegnum söng, dans og hljóðfæraleik og verður þegar vel tekst stórkostleg lausn og frelsi fyrir barnið sem er lokað í eigin heimi og nýtur ekki góðs af félagslegum samskiptum.

    Ég prédikaði um Biblíu og trú og tónlist í Víðistaðakirkju í dag. Þar má meðal annars lesa um Biblíusögurnar. Myndin hér að ofan er af Tómasi Viktori, litla einhverfa stráknum okkar.