Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Tobba og Glói leika sér

    Tobba og Glói leika sér

    Það var gaman að fylgjast með hundunum leika sér í snjónum.

  • Bæn á alþjóðlegum degi einhverfu

    Á alþjóðlegum degi einhverfu viljum við gera bæn Frans frá Assisi í umyrðingu Tim Tucker að okkar:

    Drottinn, lát frið þinn fylla mig þar til flæðir yfir,
    að þar sem fólk getur ekki talað sé ég málsvari þeirra,
    að þar sem einhverjum er hafnað rétti ég út hendur mínar og bjóði þau velkomin,
    að þar sem foreldrar eru þunga hlaðin eigi ég huggunarorð handa þeim,
    að þar sem börn eiga erfitt lyfti ég þeim upp og fagni þeim,
    að þar sem sumir sjá fötlun opinberi ég undursamlegar gjafir þeirra,
    að þar sem aðrir dæma megi ég deila með þeim djúpstæðri gleði,
    og að hvarvetna sem einhver gleymist megi ég leggja mitt af mörkum til að ljós þeirra skíni.

    Gjafari alls þessa,
    gef að ég leiti þess fremur að hugga en vera huggaður,
    að lofa en að vera lofaður,
    að vera samþykktur frekar en að samþykkja.
    Því það er í óöryggi okkar sem við fáum innblástur vonarinnar,
    í mestu áskorunum lífsins uppgötvum við mestu gleðina
    og í samfélagi hinna ráfandi finnum við leiðina heim.

    Amen.

  • Fiskimennirnir á skírdagskvöldi

    Kræklingatínsla í Hvalfirði

    Við heimsóttum gamlar slóðir með stórfjölskyldunni í gær. Keyrðum upp í Hvalfjörð, klædd stígvélum, með gúmmíhanska og nokkrar fötur. Þar gengum við út í fjöruna og tíndum við kræklinga í súpu. Svo tóku meistarakokkarnir í fjölskyldunni við, hreinsuðu og suðu og úr varð dásamleg kræklingasúpa sem var borin fram eftir að degi hallaði ásamt ýmiss konar fiskmeti.

    Maginn fylltist af góðum mat og hugurinn af góðum hugmyndum eftir samtölin við fólkið sem skiptir okkur máli – fjölskylduna.

    Hugurinn leitaði líka til skírdagskvöldsins fyrsta. Kvöldsins þegar Jesús sat með lærisveinum sínum, braut brauð og gaf þeim, blessaði vín og gaf þeim. Síðasta kvöldmáltíðin er orðið sem við notum um þessa athöfn. Síðasta kvöldmáltíðin sem varð líka sú fyrsta því við erum alltaf að endurupplifa hana í kirkjunni. Hún er síðfyrst.

    Hvernig skyldi þeim annars hafa liðið þetta kvöld, fiskimönnunum sem Jesús hafði kallað til sín? Ætli þá hafi langað í fisk þegar þeir settust til máltíðar. Eða skipti það kannski ekki máli hvað var borðað af því að félagsskapurinn var góður? Er kvöldmáltíðin hans Jesú kannski líka brýning um að við megum aldrei gleyma því hversu mikils virði er að geta átt gott samfélag um þá mikilvægu iðju að neyta matar.

    Myndin hér að ofan er tekin í fjörunni í Hvalfirði í gær. Ef rýnt er í hana má sjá iðna fjölskyldu að verki við kræklingatínslu.

  • Hér vantar svolítið

    Um miðjan mars urðum við fyrir því óláni að netþjónustufyrirtækið sem hýsti þennan vef gerði mistök við flutning á milli vefþjóna. Það hafði þær afleiðingar að heilmikið efni datt út. Nánar tiltekið misstum við allt sem við höfðum skrifað frá miðjum janúar fram í miðjan mars. Við höfum fengið loforð um að fá gögnin til baka, en þurfum fram að því að láta gamla efnið duga. Nú er vefurinn hins vegar kominn á nýjan stað. Hann er enn hraðvirkari og við hlökkum til að byrja gleðidagablogg á sunnudaginn.

    Það er von á góðu.

  • Í páfanafninu felst stefnumörkun

    Jorge Mario Bergoglio er fyrsti Jesúítinn sem er valinn til að gegna embætti páfa. Í gærkvöldi las ég viðtal við Philip Geister. Hann er Jesúítaprestur og starfar í Svíþjóð og við höfum kynnst aðeins í gegnum námskeið um kvikmyndir og guðfræði sem við höfum kennt saman á undanförnum árum. Philip sagði í viðtalinu að það væru djúp skilaboð fólgin í nafninu sem hinn nýi páfi hefði valið sér:

    „Hann kemur frá Suður-Ameríku sem glímir við mikla fátækt. Hann tekur sér páfanafn eftir heilögum Frans sem boðaði að kirkjan skyldi lifa einföldu lífi. Þar með setur nýi páfinn stefnuna fyrir það hvernig kirkjan eigi að lifa og hvað hún eigi að prédika.

    Þetta eru skilaboð til fátækari landa um að kirkjan sé fyrst og fremst til fyrir þau fátæku og að kirkjan eigi að einkennast af einfaldleika og fátækt. Það var leiðarljós heilags Frans frá Assisi.“

    Mér finnst þetta nokkuð áhugavert. Það verður forvitnilegt að fylgjast með nýja páfanum og sjá hvort þessi spá reglubróður hans rætist.

  • Liturgy is education

    Liturgy is education. The question before us is not whether people will learn when they worship. The question is, WHAT will they learn when we lead them in worship? …We are engaged in education every time we lead the congregation in prayer or in the Lord’s Supper or in any other occasion of public worship.

    WILLIAM H. WILLIMON: WORSHIP AS PASTORAL CARE

  • Vetrarsólin hans Svavars Knúts

    Svavar Knútur á Café Cultura

    Svavar Knútur er uppáhalds söngvaskáld. Síðasta haust sendi hann frá sér þriðju sólóplötuna sína. Hún heitir Ölduslóð og geymir fjölda fallegra laga. Sum höfðum við áður heyrt a tónleikum, önnur heyrðum í fyrsta sinn á útgáfutónleikunum. Eitt af þeim Vetrarsól og það er eins konar samtímasálmur eins og svo mörg lög Svavars. Hann syngur:

    „En eina veit ég Vetrarsól
    Sem veitir sálu minni skjól“

    Vetrarsólin er manneskja sem söngvaskáldið þráir að hitta. Ef af þeim fundi verður þá breytist allt:

    „Þá myndi birta í hellinn minn,
    skína æ svo fögur inn.“

    Sá grunur læðist að prestunum sem hlusta að vetrarsólina megi sjá sem líkingu fyrir náð sem tekur hold í manneskjunni sem mætir okkur af gæsku og umhyggju á tíma þegar hellirinn okkar – lífið – er dimmur og drungalegir.

    Vetrarsól er fallegt lag með góðan boðskap, eins og reyndar Ölduslóðin öll. Platans hans Svavars er eins konar Vetrarsól handa þeim sem hlustar. Uppbyggilegur boðskapur í tali og tónum sem veitir birtu inn í skammdegið.

    Myndina hér að ofan tókum við á tónleikum á Café Cultura fyrir langa löngu. Þá heyrðum við Svavar flytja Humble Hymn í fyrsta sinn.

  • Trú/verk

    Faith and works

    Þetta stendur skrifað í Jakobsbréfi og ég las það í Fjársjóðnum sem er á skrifborðinu mínu í vinnunni. Hvernig skiljið þið það – almennt og í samhengi þjóðkirkjunnar?

  • Mörkin hennar Míu

    princess

    Síðustu daga höfum við enn á ný verið áþreifanlega minnt á ömurlegan veruleika barnaníðs og kynferðislegs ofbeldis sem þrífst m.a. fyrir sljóleika og sinnuleysi umhverfisins. Umfjöllun síðustu daga hefur varpað ljósi á hve samfélagið upplifðir sig ráðalaust og vanmáttugt þegar kynferðisofbeldi gegn börnum á sér stað, og bregst því ekki við sem skyldi. Ráðaleysið og skömmin býr til feluhjúp sem illvirkjar athafna sig á bak við.

    Vitneskjan um barnaníð og útbreiðslu þess er orðin almennari og öruggari á ýmsan hátt. Sem betur fer hefur andrúmsloftið orðið þolendum ofbeldis skilningsríkara og allsgáðara, aukinn skilningur og eðlilegar varnir leiða vonandi til þess að hægt sé að fyrirbyggja barnaníð í sem flestum tilfellum.

    Hluti af úrvinnslu samfélagsins og almennri vitundarvakningu um kynferðisbrotamál fer fram í listsköpun, svo sem bókmenntum og kvikmyndum. Óhætt er að segja að norræna senan hefur verið töluvert upptekin af þessum málaflokki síðustu ár. Ófáir skandinavískir krimmahöfundar hafa gert honum skil og margar gæðakvikmyndir, ekki síst frá Danmörku hafa varpað nístandi ljósi á veruleika barna sem níðst er á. Kvikmyndir eins og Veislan, Listin að gráta í kór, og Princess koma í hugann.

    Við horfðum á dönsku kvikmyndinni Princess í gærkvöldi. Hún er frá árinu 2006 og er óvenjuleg að því leyti að hún er að stærstum hluta teiknuð. En þessi teiknimynd er ekki fyrir börn. Hún fjallar um Miu, sem er fimm ára og hefur þurft að þola markaleysi og ofbeldi af hálfu fullorðinna alla sína stuttu ævi. Móðir hennar er klámstjarnan The Princess, sem hefur malað gull fyrir gaurana sem hafa skapað heilan bransa í kringum líkama hennar.

    Í upphafi myndarinnar fylgjumst við með bróður Prinsessunnar, sem er prestur, snúa heim frá framandi löndum, til að taka Míu að sér eftir að móðir hennar deyr. Bróðirinn, sem heitir August, ákveður síðan að hreinsa nafn systur sinnar með því að eyða öllu efni sem framleitt var með The Princess. Það gerist með tilheyrandi átökum og blóðsúthellingum.

    Myndin er ljót og sorgleg. Hún er líka beitt áminning um hvað markaleysi og ofbeldi gerir börnum. Á ýktan hátt lætur myndin okkur íhuga hvað við myndum sjálf gera – eða hvort við myndum yfirleitt gera eitthvað?

    Princess dregur athygli okkar að undirheimalífi klámsins og þeirri staðreynd að á bak við fígúrur eins og the Princess eru manneskjur eins og mamman Christine og dóttirin Mia. Misnotkun og valdbeiting eru ekki aðeins fylgifiskar klámiðnaðarins heldur grundvöllur hans.

    Hvorutveggja ætti að uppræta – þótt við mælum ekki með aðferðum prestsins Augusts.

    Mörkin hennar Míu eru mörk allra barna. Þau ber að virða.

  • Nándin nærir allan ársins hring

    Unnur, Kristín, Heiðbjört

    Um þessar eru ýmiskonar áramótaheit strengd. Hér kemur tillaga til foreldra: Við skulum knús börnin okkar meira á árinu sem er nýbyrjað. Og við skulum bregðast vel við þegar þau tjá sig, eyða meiri tíma með þeim og styðja þau í frjálsum leik. Því allt þetta skiptir sköpum þegar kemur að þroska og velferð barnanna okkar.

    Það fullyrðir Darcia Narvaez, prófessor í sálfræði við Notre Dame háskólann í Bandaríkjunum. Hún varar við ýmsu sem hefur verið viðhaft í uppeldi ungra barna þar í landi síðustu hálfa öldina, s.s. að hafa börn ekki á brjósti, setja þau í sérherbergi frá fæðingu, láta þau gráta til að spilla þeim ekki og síðast en ekki síst vera í litlum líkamlegum tengslum við þau.

    Það er hefur sýnt sig að þetta hefur slæm áhrif á sálar- og líkamsþroska barnanna. Það er því verðugt áramótaheit að faðma og halda meira á börnunum sínum, styðja þau í leik og bregðast við þegar þau láta í ljós þörf fyrir athygli og umönnun.

    Það er gott fyrir þau og gefur pabba og mömmu líka heilmikið.

    Myndin er af mæðgunum Unni, Heiðbjörtu og Kristínu í jólaversluninni í desember. Þá var gott fyrir litla hnátu að kúra í magapoka framan á mömmu.