Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gleðidagur 28: Kjördagur

    Kosið til stjórnlagaþings

    Kjördagur er hamingjudagur í lífi þjóðar. Þetta er dagurinn þegar við mætum á kjörstað og velja þann flokk og þá einstaklinga sem við treystum best til að skapa réttlátt og gott samfélag á Íslandi.

    Á tuttugasta og áttunda gleðidegi viljum við þakka öllum kjósendum sem leggja sitt af mörkum í dag til að skapa betra samfélag. Þetta er dagurinn okkar sem búum í þessu landi. Njótum hans.

  • Gleðidagur 18: Hvernig verða börnin til?

    Fyrr í vikunni áttum við skemmtilegt samtal við góða vini um það hvernig þau heyrðu fyrst hvernig börnin verða til. Á þessu virðist vera nokkur kynslóðamunur. Þegar við hjónum stóðum frammi fyrir því að verða eldri systkini fengum við bæði litla græna bók með dásamlegum teikningum sem tóku af öll tvímæli um það hvernig þetta á sér stað.

    Það var upplýsandi.

    Í vetur var samtalið um það hvernig börnin verða til sett á svið með eftirminnilegum hætti í Hljómskálanum. Hulli og Laddi syngjast á í laginu Storkurinn og má heyra tvenns konar skýringar. Þá langsóttu um storkinn með þotuhreyfil í rassinum og afar heitan andardrátt og svo hina stuttu um ástalíf mömmu og pabba.

    Á átjánda gleðidegi viljum við þakka fyrir börnin sem spyrja og foreldrana alla sem miðla börnunum sínum af visku og eru óhrædd við að eiga samtölin sem einu sinni þóttu afskaplega vandræðaleg.

  • Nytjamarkaðurinn, kosningarnar og næsti forsætisráðherra

    Þjóðin gengur senn til atkvæða og kýs hver fær lyklavöldin á Íslandi næstu fjögur árin, gerir upp hug sinn hverjum hún treystir … Stóru málin nú sem endranær, hljóta að snúa að því að lyfta mannvirðingu og mannréttindum upp og ryðja úr vegi því sem hindrar þessi grunngildi samfélagsins. Og enginn ætti að bjóða sig fram til að leiða þjóð, sem ekki treystir sér til að standa á sama hátt vörð um náttúruna og gjafir hennar, treysta sér til að láta náttúruna stundum njóta vafans þegar áhrif af uppbyggingu og nýtingu eru annars vegar.

    Útvarpsprédikun 14. apríl 2013

  • Sigga greinir

    Sigríður Guðmarsdóttir rýnir í svör oddvita flokkanna í Reykjavík-Suður við spurningu DV um afstöðu til þjóðkirkjunnar. Þetta er fróðlegt.

  • Fimmtándi gleðidagur: Eiríkur og Albert, döðlutertan og netið

    saudi dates

    Í dag höldum við svolitla afmælisveislu. Í tilefni af því var þvegið og bakað, skorið og hrært í gær. Við vildum spanna fjóra áratugi í veitingunum og leituðum því fanga í sarpi fjölskylduboðanna fjóra áratugi aftur í tímann. Þegar kom að samtímanum kom svo ekkert annað til greina en að slá í nútímalega hráköku. Hana fundum við hjá Alberti sem hefur kökuna eftir Eiríki.

    Þetta þarf í tertuna:

    500 g steinlausar döðlur
    3-4 dl kókosmjöl, kakan má ekki vera of blaut
    2 dl haframjöl
    ½ dl kakó
    2 tsk kanill
    2 tsk vanilluduft eða 1 tsk vanilluextrakt
    2 msk kókosolía
    2-3 bananar, fer svolítið eftir stærð
    Smá salt

    Svo gerum við svona:

    Leggið döðlurnar í bleyti í amk. 10 mín. Hellið vatninu af og setjið döðlurnar í matvinnsluvél, líka hægt að nota töfrasprota. Bætið við þurrefnum, olíu og vanilluduft bætt úti. Stappið banana og setjið þá síðasta útí. Setjið í sílíkonform, þjappið vel niður og stráið yfir kókosflögum og kælið eða frystið ef ykkur liggur mikið á.

    Á fimmtánda gleðidegi þökkum við fyrir döðlutertuna og það hversu auðvelt er að blogga sem þýðir að það eru ekki bara Eiríkur og Albert og vinir þeirra sem fá að njóta döðlutertunnar heldur líka við og vinir okkar.

    Myndin sýnir döðlur á tré. Hana tók Edward Musiak.

  • Fjórtándi gleðidagur: Gordjöss

    Páll Óskar er uppáhalds og það er Bragi Valdimar líka. Þegar þessir tveir snillingar mættust með Memfismafíuna í för varð útkoman alveg hreint fabjúlöss.

    Á fjórtánda gleðidegi spilum við og syngjum uppáhaldslögin okkar.

  • Tólfti gleðidagur: Það sem foreldrar og stjúpforeldrar eiga sameiginlegt

    Elísabet, Heiðbjört Anna og Jakob Agni

    Við búum í stjúpfjölskyldu. Samkvæmt skilgreiningum sérfræðinga þýðir það að „annar eða báðir aðilar koma með barn eða börn úr fyrri samböndum í fjölskyldur“.  Í fjölskyldunni okkar eru tveir fullorðnir og sex börn. Börnin okkar eiga aðra foreldra og stjúpforeldra, eiga aðrar fjölskyldur en þær sem við eigum með þeim.

    Stjúpfjölskyldur eru eins og aðrar fjölskyldur sem deila heimili, kjörum og viðburðum saman. Kærleikurinn er eldsneytið sem knýr okkur áfram og gefur okkur styrk til að takast á við verkefni daglegs lífs í gleði og sorg. Við vitum líka að þegar börnin okkar fara á hin heimilin sín hitta þau foreldra og stjúpforeldra sem elska þau og hlúa að þeim.

    Það sem foreldrar og stjúpforeldrar eiga sameiginlegt eru börnin sem þau elska. Fyrir það  þökkum við á tólfta gleðidegi. Sérstaklega viljum við í dag þakka fyrir stjúpfeður og stjúpmæður sem elska börnin sín öll, þau sem eru þeim blóðtengd og líka þau sem eru það ekki.

  • Tíundi gleðidagur: Hver hugsar um hús Guðs?

    Brautarholtskirkja

    Hver hugsar um hús Guðs? Það er meðhjálparinn. Meðhjálparinn gegnir mikilvægu og merkilegu hlutverki í kirkjunni. Hún setur svip sinn á helgihaldið í kirkjunni og hefur í nógu að snúast áður en athöfnin byrjar: hún tekur á móti fólkinu, sér um að kveikt sé á öllum ljósum í kirkjunni, stillir hljóðkerfið, sér um að blómunum sé smekklega hagrætt. Hún gætir þess að allt sé á sínum stað.

    Þegar stundin nálgast hverfur hún til að skrýða prestinn – kannski þarf fyrst að skreppa upp í turn og hringja klukkunum – hún tekur sér sæti og fyrstu tónar orgelsins berast um kirkjuna.

    Augu hennar eru vakandi fyrir öllu sem gerist í kirkjunni: er hitinn í lagi, þarf að opna eða loka glugga, eru allir með sálmabækur? Að athöfn lokinni þarf að ganga frá svo allt sé til reiðu fyrir næstu athöfn. Meðhjálparinn er andlit kirkjunnar og þjónar náunga sínum.

    Á tíunda gleðidegi þökkum við fyrir öll þau sem eru þjónar í húsi Guðs.

  • Bikinivottorð fyrir sumarið?

    Líkamsvirðingarbloggið er gott innlegg í opinbera umræðu hér á landi. Í dag bloggar Gabríela Bryndís Ernudóttir um bikinikroppa. Hún hefur eftir erlendum bloggara eitt gott sumarprinsip: Bikinikroppur er sérhver kroppur sem kemst í bikini. Stutt og laggott og skýrt enda eru bikinikropparnir allskonar.

    Það eru góð skilaboð á gleðidögum að enginn eigi að þurfa að skammast sín fyrir líkamann sinn. Takk líkamsvirðingarbloggarar.

  • Fyrir klippinguna

    Heiðbjört Anna

    Heiðbjört Anna, fyrir klippinguna.