Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Jóladagatalið: Þorsteinn

    Þorsteinn Guðmundsson er hnyttinn og við þurftum bara eina töku fyrir þennan fallega kærleiksboðskap.

  • 101 jólaskraut: Spútnik

    Klassískir jólakjólar og meððí í Spútnik á Laugavegi.
    Klassískir jólakjólar og meððí í Spútnik á Laugavegi.
  • Bænavaktin í hríðinni

    Gott að standa bænavaktina í hríðarbyljum og éljagangi. Snjóbarðar konur með eplakinnar komu í Vídalínskirkju til að íhuga Guðs orð og sig sjálfar í bænahringnum og Jóga Nidra.

  • Jóladagatalið: Arna Ýrr

    Arna Ýrr spyr lykiljólaspurningar. Hverju svarar þú?

  • Jóladagatalið: Ævar

    Kærleikurinn er fyrirkomulag, segir Ævar. Hvað segir þú?

  • Jólakisa fylgist með

    Messa Jólakisa fylgist með jóladagatali kirkjunnar. Svo mjög að hún helst varla í fangi vefprestsins.

    Fyrsti glugginn í dagatalinu fór í loftið í dag á kirkjan.is/joladagatal/kaerleikur/1

  • Fjörutíu góðir dagar með Guðjóni

    Það kitlaði prestinn og guðfræðinginn í mér svolítið að taka þátt í fjörutíu daga átaki kettlebells.is. Jesús fastaði jú í fjörutíu daga og var freistað reglulega á þeim tíma. Fjörutíu dagarnir kallast líka á við visku fræðanna sem segja okkur að það taki þrjátíu daga að breyta vönum. Tíu til viðbótar nýtast svo til að festa nýja vana í sessi. (more…)

  • Ef þú lemur Talibana ertu engu skárri en hann

    Friður er á dagskrá í heiminum þessa dagana. Við hjónin urðum vör við það þegar við tókum flugvallarlestina frá Gardemoen flugvelli inn til Oslóar á dögunum. Þá mátti sjá til skiptis nöfn fólks sem hafði verið orðað við friðarverðlaun Nóbels og svo nafn samtakanna sem fékk friðarverðlaunin.

    Meðal þeirra sem voru orðaðir við verðlaunin var pakistanska skólastúlkan Malala Yousafzai. Hún var skotin í höfuðið þegar hún var á leið í skólann. Malala hafði talað fyrir því að stúlkur mættu mennta sig og fyrir kvenfrelsi. Talibanar báru ábyrgð á tilræðinu við hana. Þeir eru þeirrar skoðunar að stúlkur eigi alls ekki að ganga í skóla. Malala lifði tilræðið af og hefur verið öflugur talsmaður kvenréttinda og skólagöngu.

    Kvensjúkdómslæknirinn Denis Mukwege frá Kongó var einnig nefndur sem mögulegur verðlaunahafi. Hann hefur sérhæft sig í meðferð kvenna sem hafa mátt þola hópnauðganir af hálfu uppreisnarmanna þar í landi. Hann hefur gagnrýnt alþjóðasamfélagið og stjórnvöld í Kongó fyrir að aðhafast ekkert í sautján ár til að stöðva grimmdarverk í Kivuhéraði í Kongó. Í október 2012 reyndu fjórir ofbeldismenn að myrða hann á heimili hans. Lífvörður Mukwege lét lífið en læknirinn lifði.

    Malala og Mukwege eru friðflytjendur, en þau fengu samt ekki verðlaunin í þetta skiptið. Friðarverðlaunin í ár falla í skaut samtakanna OPCW – Samtök um efnavopnabann. Á starfstíma þeirra hefur 80% af efnavopnum sem vitað er um í heiminum verið eytt, en það er samt nóg eftir. Efnavopn hafa verið í deiglunni upp á síðkastið vegna þess að þeim var beitt í Sýrlandi. Nú eru samtökin að starfi þar og hafa eftirlit með eyðileggingu á sýrlenskum efnavopnum. Vopnum sem var beitt gegn saklausum sýrlenskum borgurum sem eru þolendur hryðjuverks í borgarastríði. Ekki er vitað hver ber ábyrgðina, en ýmsir eru grunaðir.

    Í þágu hinna smæstu

    Friðflytjendurnir þrír: Unglingsstúlkan Malala, læknirinn Mukwege og samtökin OPCW starfa öll í þágu friðar en þau eiga fleira sameiginlegt: Þau beita sér í þágu uppbyggingar, til að draga úr ofbeldi, fyrir þau sem eru þolendur ofbeldis. Þau vilja gera heiminn öruggari – í þágu hinna smæstu.

    Friðarverðlaun Nóbels setja friðinn á dagskrá og heimsbyggðin öll hugsar um frið og fagnar friðflytjendunum í heiminum. Ekki bara samtökunum sem fá friðarverðlaunin heldur líka öllum hinum sem eru nefnd í tengslum við þau af því að þau eru sannarlega boðberar friðar.

    Friðarverðlaun snúast nefnilega ekki um að sigra því það fer enginn út í friðarstarf til að vinna friðarverðlaun. Við sinnum friðarstarfi til að gera heiminn okkar öruggari og betri.

    Ef þú lemur Talibana

    Ef þú lemur Talibana ertu engu skárri en hann, sagði Malala í samtali við bandaríska sjónvarpsmanninn Jon Stewart. Hún bætti svo við „Þú verður að berjast með friði og samtali og fræðslu.“

    Hún og allir hinir friðflytjendurnir skora á okkur að taka undir með þeim, berjast fyrir réttindum hinna smæstu, standa vörð um þá sem þola ofbeldi.

    Kannski er það hvatningin til okkar sem kristins samfélags: Að finna út úr því hvernig við getum verið boðberar friðar, ekki bara í orðum heldur í verkum. Hvað við getum lagt af mörkum.

    Þannig gætu kannski orðin um náð og frið sem prestarnir ávarpar okkur með í upphafi hverrar prédikunar fengið að taka sér bólfestu í lífinu okkar að við verðum sælir friðflytjendur, kölluð Guðs börn.

    Því hinn kristni Guð er friðarguð og við erum friðarfólk.

    Birtist fyrst í Kirkjuritinu í október 2013.