Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Guð verður að vera kona

    Bókin heitir Jóhannesarguðspjall og er í grunninn gamla guðspjallið, nema Jesús er ekki lengur hetjan heldur María frá Magdala, betur þekkt sem María Magdalena. Guð er sömuleiðis kvenkyns og líka helmingur lærisveinanna, eða lærlinganna eins og þeir heita hjá mér,“

    Óttar M. Norðfjörð er höfundur nýrrar útgáfu af Jóhannesarguðspjalli. Hann er í viðtali við Fréttablaðið í dag.

  • Dauði á diskóbar

    Þett’er föstudagurinn langi
    aðeins fimmtíuogtvisvar á ári

    Í dag er fyrri dagurinn sem við skrifum um í pistlinum Dauði og upprisa á diskóbar.

  • Stafróf páskanna

    A — Altarið er afskrýtt í sérstakri athöfn á skírdagskvöld eftir kvöldmáltíðina. Ljósin eru slökkt og gengið út í kyrrð.

    Á — Áfengi er það sem hefð er fyrir að nota í altarisgöngunni þegar síðustu kvöldmáltíðarinnar er minnst. Venjulegast er að nota rauðvín eða styrkt vín eins og púrtvín.

    B — Barabbas var dæmdur maður sem fólkið valdi í staðinn fyrir Jesú þegar Pílatus reyndi að fá Jesú lausan.

    D — Dymbilvika er nafnið á vikunni sem hefst með Pálmasunnudegi. Hún er einnig kölluð kyrravika.

    Ungi á íslensku páskaeggi.
    Ungi á íslensku páskaeggi.

    E — Egg tengjast páskahaldi órjúfanlegum böndum. Eggin tákna lífið sem kviknar á vorin og enginn vill láta páskaeggin fram hjá sér fara.

    É — Él eru ekki óalgeng í íslenskum páskahretum.

    F — Föstudagurinn langi er dagurinn sem Jesús var krossfestur.

    G — Golgata var staðurinn sem kross Jesú var reistur og hann dó.

    H — Hallgrímur Pétursson skrifaði Passíusálmana sem eru lesnir á hverjum degi föstunnar og fjalla um píslarsögu Krists.

    I — Innreiðin í Jerúsalem átti sér stað á Pálmasunnudegi.

    Í — Íkonar eru helgimyndir sem eru mikið notaðir tilbeiðslu í kristinni trúarhefð.

    J — Jesús var hylltur á pálmasunnudegi, handtekinn í Getsemane á skírdagskvöldi, krossfestur, dó og var grafinn á föstudaginn langa.

    Krossfesting Jesú. Málverk frá 16. öld eftir Peter Gertner.
    Krossfesting Jesú. Málverk frá 16. öld eftir Peter Gertner.

    K — Krossfesting var almenn aftökuaðferð í Rómaríki. Jesús var krossfestur ásamt tveimur öðrum dæmdum mönnum á föstudaginn langa.

    L — Langafasta eru síðustu sjö vikurnar fyrir páska. Á sunnudögum föstunnar er ekki sunginn dýrðarsöngur og helgiklæði prestanna eru fjólublá.

    M — Malkus hét þjónn æðsta prestsins sem Símon Pétur hjó eyrað af í Getsemane garðinum.

    N — Náð þýðir að miskunn Guðs stendur manneskjunni til boða án endurgjalds. Dauði og upprisa Jesú ryður því úr vegi sem hindrar að miskunn Guðs nái til manneskjunnar.

    O — Obláta er það sem er notað í altarisgöngunni og minnir á ósýrðu brauðin sem var neytt á páskahátíð Gyðinga.

    Ó — Ó, þá náð að eiga Jesú eftir Matthías Jochumsson er einn ástsælasti sálmur Íslendinga.

    Pálmagreinar.
    Pálmagreinar.

    P — Pálmasunnudagur er fyrsti dagur í dymbilviku. Páskahátíðin er upprisuhátíð kristinnar kirkju.

    R — Rómverska heimsveldið náði m.a. yfir landið helga á tímum Jesú. Þess vegna ríktu þar rómversk lög sem var hrint í framkvæmd af rómverskum hermönnum.

    S — Skírdagur er fimmtudagur í kyrruviku. Á skírdagskvöld hélt Jesú páskamáltíðina með vinum sínum, svo hélt hann út í Getsemanegarðinn þar sem hann var handtekinn og færður í fjötra.

    T — Tómas hét lærisveinninn sem trúði ekki að Jesús hefði risið upp, fyrr en hann fengi að sjá sárin á höndu Jesú og snerta hann sjálfur.

    U — Upprisu Jesú er minnst á páskunum. Upprisan táknar sigur lífsins yfir dauðanum.

    Ú — Útivera og útivist er vaxandi þáttur í páskahaldi Íslendinga. T.d. með helgigöngum á milli kirkjustaða.

    V — Vinir Jesú áttu með honum síðustu kvöldmáltíðina á skírdagskvöld.

    X — X-laga krossar þekktust líka í Rómarríki. Postulinn Andrés á að hafa verið líflátinn á þannig krossi.

    Y — Ytri forgarður musterisins var sá staður þangað sem venjulegt fólk mátti koma. Fortjaldið sem afmarkaði hið allra heilagasta rifnaði við dauða Jesú, samkvæmt guðspjöllunum.

    Z — Zzzz … mörgum finnst gott að blunda í messu, undir langri prédikun prestsins. Lærisveinarnir gátu heldur ekki barist við svefninn og beðið með Jesú í Getsemane.

    Þ — Þvottur er nátengdur við skírdag því þá þvoði Jesús fætur lærisveina sinna.

    Æ — Æðstu prestarnir Annas og Kaífas yfirheyrðu Jesú um kenningar hans og starf áður en þeir sendu hann til Pílatusar.

    Ö — Öskudagur er fyrsti dagur lönguföstu.

  • Megas syngur

    Megas syngur Passíusálmana
    Megas syngur Passíusálmana.

    Ég kíkti á æfingu fyrir Passíusálmatónleika morgundagsins. Megas söng og Magga Stína og stúlknakórinn með. Hljóðfæraleikarar töfruðu fram fallega tóna. Andi Hallgríms var yfir og allt um kring.

  • Nói – vísanir

    Kvikmynd Darren Aronofsky um Nóa er frumsýnd hér á landi í lok mars. Þetta er áhugavert efni fyrir okkur sem erum að fást við trúarstef og Biblíuna í kvikmyndum. Ég ætla að safna saman vísunum á umfjallanir um Nóa á eina síðu. Bætið endilega við í ummælum ef þið sjáið eitthvað sem ég hef misst af. (more…)

  • Styttan og eplatréð

    „Þótt ég vissi að heimsendir yrði á morgun þá myndi ég planta eplatré í dag,“ á siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther einu sinni að hafa sagt. Þessi tilvitnun er rótin að fallegum minnisvarða um siðbótina í Wittenberg. Minnisvarðinn samanstendur af 500 trjám sem munu standa í svokölluðum Lúthersgarði. Við vorum stödd þarna í síðustu viku í góðri fræðsluferð með Biskupsstofu. Við það tækifæri plantaði Agnes biskup þjóðkirkjutré í garðinn.

    Við tókum myndir og gerðum myndband.

  • Bíóið og Biblían á kirkjuveggnum

    Bíó og Biblía í Egilstaðakirkju
    Bíó og Biblía í Egilstaðakirkju.

    Ég heimsótti Egilsstaði fyrr í mánuðinum og hitti þar presta, fermingarbörn og foreldra og flutti erindi um bíóið og Biblíuna. Þessi mynd var tekin stuttu áður en fyrirlesturinn hófst, þegar við vorum búin að stilla öllu upp. Kirkjuveggurinn og hvíta tjaldið runnu saman og krossinn yfir altarinu rammaði myndflötinn inn.

  • 775 þúsund orð í 66 myndum

    Biblían samanstendur af 66 bókum sem saman telja um það bil 775 þúsund orð. Joseph Novak er prestur í anglíkanskri kirkju í Bandaríkjunum. Hann er líka grafískur hönnuður og hefur hannað 66 veggspjöld sem túlka bækur Biblíunnar, eitt fyrir hverja bók. Þetta er skemmtileg nálgun við bók bókanna.

  • Feður gegn feðraveldi

    Jafnréttið byrjar heima. Allar stúlkur eiga föður, og afa, margar bræður og syni. Hvaða faðir vill ekki dóttur sinni vel? Enginn, hefði ég haldið. Það er mikilvægt að feður leggi dætrum sínum lið í mannréttindabaráttu hvar í heiminum sem er, feður og afar, frændur, bræður og synir. Barátta kvenna um heim allan hefur skilað miklum árangri. Henni lýkur hins vegar ekki, og getur ekki lokið, án feðra, bræðra og sona. Saman leggjum við Feðraveldið að velli og byggjum nýtt samfélag.

    Auður Styrkársdóttir í Konudagsmessu

  • Dásamleg eru dæmin þín – fyrsti Passíusálmur

    Í kvöld verður fyrsti Passíusálmurinn lesinn í útvarpinu. Í tilefni af því rifjum við upp Passíusálmablogg Kristínar frá því í fyrra. Fyrsta bloggið fjallar um dásamleg dæmi.