Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Eitt hundrað sjötíu og sex orð um sparnað og svita

    Það er inni að hjóla í Reykjavík.

    Sífellt fleiri kjósa hæga lífsstílinn og hjóla til og frá vinnu allan ársins hring. Reiðhjólið er líka ein einfaldasta og skjótvirkasta aðferðin til að auka ráðstöfunartekjur heimilisins verulega. Það getur jú munað allt að 100 þúsund krónum á mánuði að vera á bíl eða hjóli þegar allt er talið með.

    Ljós á reiðhjóli
    Í skammdeginu þurfa að vera góð ljós á hjólinu.

    Sumir klæða sig í hjólagalla, gjarnan úr spandexi, fara í sérstaka hjólaskó, og stíga svo upp á létt og hraðskreitt götuhjól sem má nota til að komast hratt og örugglega milli staða.

    Aðrir vilja vera í skrifstofugallanum og velja sér þyngra borgarhjól með færri gírum. Á slíku hjóli situr hjólreiðamaðurinn uppréttur, tekur á sig mikinn vind og kemst hægar yfir, en fær um leið tíma til að upplifa og íhuga meðan á ferðinni stendur.

    Allir njóta þess að upplifa borgina okkar frá öðru sjónarhorni og renna sína leið framhjá umferðarteppunum milli átta og níu og fjögur og fimm. Koma kannski svolítið sveittari heim en alveg örugglega glaðari.

  • Karlar þurfa að leggja sitt af mörkum

    til að konum finnist þær vera öruggar í borginni okkar. Það er eitt af markmiðum átaksins Örugg borg. Ólafur Stephensen skrifar í Kjarnann í dag:

    Við karlarnir eigum einfaldlega að vera sammála um að það er aldrei í lagi að beita ofbeldi, áreita konur eða sýna þeim ógnandi framkomu. Allir ljósastaurar heimsins taka ekki í burtu óttann og öryggisleysið sem margar konur upplifa. Að búa til öruggara borgarumhverfi að þessu leyti er á endanum undir okkur körlunum komið.

    Við þurfum að leggja okkar af mörkum.

    Ps. Nei, ég er ekkert að plögga Kjarnann sérstaklega, fann bara gott efni þar, tvo daga í röð.

  • Mánudagsmeðmæli: Pabbi, mamma, börn og bíll

    Mánudagsmeðmælin fá Kjarninn og Guðmundur Pálsson fyrir hlaðvarpsþáttinn Pabbi þarf að keyra sem er bráðskemmtilegur. Guðmundur er auðvitað alvanur útvarpsmaður og góður pistlahöfundur og hér gefur hann skemmtilega innsýn í líf fjölskyldunnar sem kvaddi hversdagsbaslið og hélt á vit ævintýranna í Evrópu.

    Hlaðvarpið er á uppleið á Íslandi. Alvarpið ruddi því leið. Nú kemur Kjarninn sterkur inn og fleiri eiga vonandi eftir að bætast í hópinn. Mér finnst alveg frábært að geta hlustað á stutta og skemmtilega íslenska þætti á leiðinni í vinnuna. Takk fyrir mig.

  • Alþjóða klósettdagurinn er í dag

    Í fátækrahverfum Nairobi þarf vegfarandi að vara sig á því að verða fyrir svokölluðum fljúgandi klósettum – það er þegar plastpokar með saur koma fljúgandi, og eiga að lenda í ræsinu, lækjum, ofan á þök nágrannans eða bara eitthvert úr augsýn. Í Mexíkóskum þorpum er oft sérstök karfa fyrir notaðan klósettpappír, því lagnakerfið höndlar ekki pappír af neinu tagi.

    Þarftu á klósettið, pistill á Alþjóða klósettdeginum.

  • Notuð spariföt fá nýtt líf

    Það leynist margt í fataskápunum á heimilunum í borginni. Í sumum eru jafnvel falleg spariföt sem ekki hafa ekki verið notuð oft og eru kannski orðin of lítil. Næstu tvær vikurnar ætlum við í Laugarneskirkju að safna gömlum sparifötum fyrir Hjálparstarf kirkjunnar.

    Sjálfboðaliðar Hjálparstarfsins ætla svo að flokka fötin og deila þeim út til síns fólks í desember. Það vantar alltaf falleg og góð föt á skólabörn, ekki síst drengi á aldrinum 5-14 ára. Ef þú, lesandi góður, lumar á fallegum fötum sem ekki eru lengur not fyrir þá væri gaman að fá þig í heimsókn.

    Kirkjan er opin alla daga nema mánudaga og það verður heitt á könnunni.

    Sjáumst.

  • Ljósmúrinn í Berlín

    Um síðustu helgi var þess minnst að tuttugu og fimm ár eru liðin frá falli Berlínarmúrsins. Í tilefni af því var listgjörningurinn Ljósmúrinn – Lichtgrenze – settur upp í borginni. Hann samanstóð af 8000 upplýstum blöðrum sem var komið fyrir þar sem múrinn stóð áður, á fimmtán kílómetra leið frá Bornholmer Straße í norðri að East Side Gallery í suðri. Kveikt var á blöðrunum við sólsetur þann 7. nóvember og klukkan sjö sunnudaginn 9. nóvember var þeim sleppt, einni af annarri og ljósmúrinn leystist upp og sveif til himins. Með blöðrunum fylgdu stutt skilaboð og bænir frá börnunum í Berlín.

    Ég gekk hluta af þessari leið og tók nokkrar myndir. Það var sérstakt að upplifa þetta, ganga í gegnum hverfin þar sem Múrinn stóð, íhuga kjör fólksins sem lifði sitt hvoru megin við hann og þakka fyrir friðartáknið sem hann er núna.

    Ps. Á vef The Atlantic eru nokkrar magnaðar myndir af ljósmúrnum. Múrinn á líka sína síðu á Facebook.

    Pps. Ég tók líka fleiri myndir en þær sem eru hér að ofan.

  • Elstu félagsgjöldin

    Í setningarræðu á kirkjuþingi í síðustu viku sagði Magnús E. Kristjánsson að sóknargjöldin væru elstu félagsgjöld á Íslandi. Hann áréttaði þetta í viðtali við Morgunblaðið og sagði jafnframt frá því að ýmsir hefðu gert ágreining um þetta efni og vildu frekar líta á sóknargjöld sem framlag ríkisins til trúfélaga.

    Morgunblaðið fylgdi málinu eftir með fyrirspurn til fjármálaráðuneytisins sem vísaði á innanríkisráðuneytið. Í dag greinir blaðið frá því að ráðuneytið líti svo á að sóknargjöld séu félagsgjöld og að „eng­in sér­stök and­mæli hafa verið við því“. Blaðið á þakkir skildar fyrir að fylgja málinu svona eftir.

    Þar með má öllum vera ljóst að fulltrúar stærsta trúfélags á Íslandi og fulltrúar innanríkisráðuneytisins sem fer með málefni trúfélaga hafa sama skilning á sóknargjöldunum. Það greiðir vonandi úr í viðræðum um niðurskurð á sóknargjöldum þegar fram líða stundir.

  • Á Hallgrímshátíð

    Ég sótti hátíðarmessu í Hallgrímskirkju í gær. Tilefnið er Hallgrímshátíð sem er haldin í tilefni þess að 400 ár eru liðin frá fæðingu sálmaskáldsins sem Hallgrímskirkja er kennd við. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, prédikaði í guðsþjónustunni og ræddi meðal annars um traustið í samfélaginu okkar.

  • Geðveik messa í Laugarneskirkju

    Í dag var haldin geðveik messa í Laugarneskirkju. Bergþór G. Böðvarsson formaður undirbúningsnefndar Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins flutti ávarp og Kári Auðar Svansson flutti magnaða hugvekju um líf með geðklofa. Kristín þjónaði ásamt messuþjónum, Arngerður María og kórinn Veirurnar leiddu sönginn.