Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Jólabrynja

    Brynja á Laugavegi
    Á aðventunni er dásamlega jólalegt við verzlunina Brynju á Laugavegi.
  • Aðventuáskorun

    Jóhanna æskulýðsfulltrúi í Langholtskirkju hitti krakka úr Langholtskirkju á dögunum. Hún skoraði á þau og það er ástæða til að taka undir þessa áskorun:

    Þannig að nú ætla ég að koma með smá aðventu-áskor­un. Hvað segið þið um að við sam­ein­ust öll um að gera eitt góðverk heima fyr­ir áður en við för­um að sofa í kvöld? Það þarf ekki að vera risa­stórt eða taka lang­an tíma, það get­ur verið til dæm­is að fara úr með ruslið, ganga frá eft­ir kvöld­mat­inn eða gefa gamla fólk­inu óvænt gott faðmlag og koss á kinn.

  • Skólinn, kirkjan og aðventan – nokkrar vísanir

    Á þessari aðventu hefur verið mikið rætt um vettvangsferðir skólanna í landinu í kirkjurnar. Okkur langar að safna saman vísunum á efni sem hefur verið skrifað á einn stað, til að auðvelda yfirsýn og hjálpa okkur að skilja rökin sem eru notuð. Það mun því bætast við færsluna eftir því sem á líður.

    Pistlar

    Fréttir

    Ps. Í vísun felst engin afstaða til efnis pistlanna, þetta er bara tilraun til að ná utan um umræðuna. Lesandinn athugi það.

  • Þolandi heimilisofbeldis og mansals

    Haldið upp á Lúsíudaginn í sænskri kirkju.
    Haldið upp á Lúsíudaginn í sænskri kirkju. Mynd: Claudia Gründer. Wikipedia.

    Heilög Lúsía er táknmynd fyrir örlög kvenna sem eru undir ákvarðanir og vald annarra settar. Hún er þolandi heimilisofbeldis og mansals eins og kynsystur hennar um allan heim enn þann dag í dag. 13. desember er dagurinn hennar.

    Ofbeldi gegn konum er stór og svartur blettur á menningu okkar og því er við hæfi að staldra við einmitt á svartasta tíma ársins og horfast í augu við þær konur sem hafa lifað og dáið við kerfisbundna beitingu ofbeldis í skjóli fjölskyldutengsla eða hefða.

  • Hjólin og jólin

    Hurðakransinn 2014
    Hurðarkransinn í ár er öðruvísi og endurspeglar hjóla-lífsstíl fjölskyldunnar.

    Hurðarkransinn í ár er öðruvísi og endurspeglar breyttan lífsstíl fjölskyldunnar. Innblásturinn er sóttur til vina á Facebook sem deildu skemmtilegri mynd. Kristín föndraði og við njótum öll.

  • Jólastjarnan boðar sátt

    Jólastjörnur á Lúsíumarkaðinum í Berlín
    Jólastjörnur á Lúsíumarkaðinum í Berlín

    Eitt af uppáhaldsjólalögunum okkar er Jólastjarnan eftir Braga Valdimar Skúlason. Þar sækir hann í smiðju jólafrummyndanna um hlýju og öryggi, ljós í myrkri, börn og fjölskyldur. Jólastjörnunni sem boðar sátt og breiðir út hlýju, er sungið lof en líka er spurt hver huggi þann sem skærast skín. Við rákumst á þessar fallegu jólastjörnur á Lúsíumarkaði í Kulturbrauerei í Berlín á dögunum. Þær skína skært eins og jólaljósin fallegu á aðventunni á Íslandi.

  • Þegar skammdegið er mest

    Þegar skammdegið er mest
    kveiki ég aðventuljós og minnist

    jólanna sem nálgast …

    Jesú sem fæddist í Betlehem …

    boðskapar englanna um frið á jörð …

    stjörnunnar sem lýsir okkur til Jesú

    Megi ljós aðventunnar minna mig á ljós himnanna.

    Á öðrum sunnudegi í aðventu langar okkur að deila með þér þessari bæn úr Bænabók barnanna. Guð gefi þér góðan dag.

  • Bráðum

    Aðventan kom með látum þetta árið, með óveðri og aflýstum aðventukvöldum. Lætin eru skemmtileg andstæða við innreið Jesú í Jerúsalem sem einkenndist öðru fremur af látleysi. Aðventan er tími eftirvæntinganna, nú hefst undirbúningurinn fyrir alvöru, nú hefst biðin og allt miðar að stundinni helgu þann tuttugusta og fjórða.

    Okkur finnst sálmurinn hans Arnar Arnarsonar sem er tónlistarstjóri Fríkirkjunnar í Hafnarfirði ná vel að fanga kjarna þess tíma sem aðventan er. Þess vegna viljum við deila honum á blogginu í dag.

    Þótt dauf sé dagsins skíma
    og dimma okkur hjá,
    við bíðum bjartra tíma
    því bráðum kemur sá
    sem ljós af ljósi gefur,
    nú lífið sigrað hefur!
    Við lofum hann Guðs son
    sem gefur trú og von.

    Við fögnum því við fáum
    að halda heilög jól.
    Hann kom frá himni háum
    og hann er lífsins sól.
    Herskarar engla´ og manna
    nú syngja „Hósíanna!“.
    Við lofum soninn þann
    sem boðar kærleikann.

    Okkur langar, á fyrsta mánudegi aðventunnar, að bera fyrir lesendur bloggsins spurningu. Hún er þessi: Hvaða vonir berð þú í brjósti á aðventunni? Þið megið svara hér á vefnum eða senda okkur línu á arni (hjá) p2.is.

    Takk fyrir að lesa.

  • Jólakranar handa þeim þyrstu

    Fyrstu versin í Biblíunni greina frá því þegar Guð skapar himinn og jörð (1. Mós 1). Ástandinu sem ríkir áður en Guð byrjar að skapa er lýst þannig að jörðin var auð og tóm, og andi Guðs sveif yfir vötnunum. Áður en nokkuð annað verður til, ljósið, landið, gróðurinn, dýrin og manneskjan, er vatnið til. Vatnið var með Guði í upphafi sköpunarinnar.

    Drykkjarbrunnur í erlendri borg
    Drykkjarbrunnur í erlendri borg þar sem nóg er af vatni.

    Þessi sérstaða vatns í kristinni heimsmynd kemur vel fram í því að kirkjan talar um Guð með vatnsmyndum. Guð er uppspretta hins lifandi vatns og hinn trúaði þráir samvistina með Guði eins og hindin þráir vatnslindir (Sálm 42.2). Umhyggja Guðs gagnvart manneskjunni er sömuleiðis tjáð með vatnsveituorðfæri þegar spámaðurinn Jesaja segir fyrir hönd Drottins: „Ég leiði vatn um eyðimörkina og ár um öræfin til þess að svala lýð mínum, mínum útvalda“ (Jes 43.20).

    Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar hefst formlega í dag. Hún er vatnssöfnun og miðar að því að mæta þörfum okkar allra fyrir vatn með því að grafa og reisa vatnssöfnunartanka í Úganda og Eþíópíu. Þú getur lagt þitt af mörkum með því að greiða valgreiðslu í heimabanka, hringja í söfnunarsímann 907 2003 og greiða þannig 2500 krónur, gefa á framlag.is eða leggja beint inn á söfnunarreikning: 0334–26–50886 kt. 450670–0499.

  • Jafn gott og jólalögin

    Það er gaman að ganga um miðbæinn í Reykjavík árla dags eða þegar liðið er á daginn á aðventunni. Þá birtist ljóslifandi hugmyndaauðgi fólksins sem starfar í verslunum og hefur skreytt hús og glugga.

    Jólatré úr ljósi
    Ljósjólatré í verslun í miðbænum.

    Fallegar skreytingar lyfta hug í hæðir rétt eins og uppáhalds jólalög og sálmar gera. Ég fann þetta jólatré sem er gert úr gamaldags ljósaperum á Skólavörðustígnum. Þetta er bæði snjöll og falleg útfærsla.