Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Tónlistin sem brú þess einhverfa

    Tómas Viktor

    Frásagnir Biblíunnar af græðandi mætti tónlistarinnar kallast á við reynslu af því hvernig tónlist nýtist í lækningarskyni. Margt bendir til þess að tónlist hafi góð áhrif á líðan sjúklinga vegna þess að hún róar hugann og leysir upp streitu. Rétti tónninn og tíðnin getur líka hitt mannslíkamann fyrir með ótrúlegum árangri. Rannsóknir á því hvernig heilinn okkar skynjar og móttekur tónlist leiða ýmislegt í ljós sem getur stuðlað að framförum í umönnun og meðferð á ýmsum sjúkdómum og einkennum.

    Músíkþerapía er t.d. notuð með börnum með einhverfu. Einhverfa er taugaröskunarsjúkdómur sem uppgötvast í ungum börnum. Einhverfa hefur mikil áhrif á getu einstaklingsins og möguleika hans til að þroskast og dafna, en einstaklingur með einhverfu er sviptur getunni til að bregðast við og aðlagast áreitinu sem verður okkur að öllu eðlilegu til þroska. Rannsóknir hafa sýnt að tónlist í meðferðarskyni getur haft góð áhrif á einhverf börn.

    Tónlist getur haft bætandi áhrif á samskiptahæfni og félagsfærni þess einhverfa. Einhverfa barnið getur móttekið tónlistina á allt annan hátt en orð og tónlausa tjáningu. Tónlistin getur hjálpað hinum einhverfa að skapa tengingu við umhverfið og það sem er í kringum hann – og með því að læra á hljóðfæri getur skapast færni í að fást við ákveðna hluti.

    Þannig getur tónlistin orðið að brú milli einhverfa barnsins og umhverfisins og gefið barninu leið til að tjá sig. Þetta gerist gegnum söng, dans og hljóðfæraleik og verður þegar vel tekst stórkostleg lausn og frelsi fyrir barnið sem er lokað í eigin heimi og nýtur ekki góðs af félagslegum samskiptum.

    Ég prédikaði um Biblíu og trú og tónlist í Víðistaðakirkju í dag. Þar má meðal annars lesa um Biblíusögurnar. Myndin hér að ofan er af Tómasi Viktori, litla einhverfa stráknum okkar.

  • Ertu drottning?

    Leiðin í hefðarsætið getur hins vegar þvælst fyrir okkur – alveg eins og líf í slæmum tengslum og meðvirkni getur hindrað okkur í því að vera frjáls. Því segi ég þér: Ekki láta þitt eigið hefðarsæti neinum öðrum eftir heldur taktu skref í áttina að eigin frelsi og eigin hefðarsæti, með því að fikra þig út úr því sem heldur þér niðri. „Vinur, flyt þig hærra upp!“ eru orðin sem Jesús talar til þín í dag.

    Prédikun í Víðistaðakirkju, 30. september 2012.

  • Magnaðar mömmur

    Sköpunarkraftur og umönnunarhlutverk móðurinnar gerir hana að fremsta samverkamanni Guðs í sköpun og lífgjöf. Mömmusögurnar í lífinu eru sögur um kærleika Guðs.

    Prédikun í Hallgrímskirkju í Vindáshlíð, 2/9/2012.

  • Hugrökk!

    Við heillumst af hugrekki. Þess vegna vekja sögurnar af Hrafnhildi, Meridu prinsessu, Óskari spretthlaupara og íþróttakonunni Tahminu áhuga okkar og aðdáun. Þess vegna höldum við áfram að hlusta á Jesú, sem nærir og styrkir trúna á að lífið færi okkur það sem við þráum. Það er boðskapurinn um ást Guðs sem frelsar, leysir og réttir við. Það er boðskapurinn sem gefur okkur kraft til að breyta og kraft til að lifa.

    Prédikun í Brautarholtskirkju 12. ágúst.

  • Lectio Divina fyrir prédikarann

    Við höfum verið að glugga í verk David Adam sem er viskubrunnur um kristna íhugunar- og bænahefð eins og hún hefur þróast í írskri og keltneskri trúarmenningu. Hann hefur meðal annars skrifað mikið fyrir presta og guðfræðinga um prédikunarvinnu í þessu ljósi.

    Útgangspunkturinn í nálgun hans er að prédikunin á að koma frá hjartanu og í gegnum íhugun á Guðs orði. Ein leið til að nálgast lestur Biblíunnar er Lectio Divina sem er aðferðarfræði úr fornkirkjunni og byggir á því að orð Guðs fái að móta og snerta manneskjuna alla. (more…)

  • Konur geta breytt heiminum

    Í dag 8. mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Af því tilefni rifjum við upp fræga ræðu eftir Sojourner Truth sem hún flutti á baráttusamkomu kvenna í Akron, Ohio, árið 1851.

    Sojourner Truth var prédikari af Guðs náð og áhrifamikill leiðtogi. Hún fæddist í þrældómi og var gefið nafnið Ísabella og var seld frá foreldrum sínum 9 ára gömul. Hún hafði þrælað í mörg ár og eignast nokkur börn sjálf þegar hún hlaut frelsi. Hún lifði reynslumiklu og litríku trúarlífi, tók sér nafnið Sojourner Truth og varð farandprédikari sem eftir var tekið.

     

    (more…)

  • Grannar og guðsþjónusta

    Síðastliðinn sunnudag, sem var fyrsti sunnudagur í föstu, var haldin grannaguðsþjónusta í Seltjarnarneskirkju. Íbúar úr Eiðismýri, Suðurmýri, Tjarnarmýri, Grænumýri, Kolbeinsmýri, Tjarnarstíg og Tjarnarbóli tóku virkan þátt í guðsþjónustunni, m.a. með því að lesa ritningarlestra, semja og lesa bænir. Þá var kirkjukaffið í umsjón íbúa þessara tilteknu gatna.

    TúlípanarGrannaguðsþjónustan er sniðug hugmynd sem sýnir vel grunnhugsun þjóðkirkjunnar, nefnilega að hún er byggð upp á landfræðilegum einingum eins og götuheitin vísa til. Þessar landfræðilegu einingar heita sóknir en öllu landinu er skipt upp í sóknir.

    Þetta er gífurlega mikilvægt atriði í skipulagi og uppbyggingu þjóðkirkjunnar en allt hennar starf hvílir á sóknahugsuninni. Öll þjónusta og stjórnsýsla miðast við sóknirnar sjálfar.

    Um þetta segir í Innri samþykktum þjóðkirkjunnar, sem samþykktar voru á kirkjuþingi fyrir nokkrum árum:

    Sóknin er grunneining þjóðkirkjunnar og vettvangur þjónustu hennar á hverjum stað. Sóknin er félag þess fólks innan þjóðkirkjunnar sem myndar söfnuð, þar sem fagnaðarerindið er boðað og sakramentin um hönd höfð og fólk leitast við að lifa samkvæmt boði Krists.

    Við þetta má bæta að sóknirnar eru grundvöllur þess samkomulags sem ríki og kirkja gerðu með sér á sínum tíma, um að ríkissjóður tæki yfir eignir og arð sóknanna en stæði jafnframt skil á launagreiðslum kirkjunnar þjóna.

    Seltjarneskirkja fær hrós fyrir að lyfta upp þjóðkirkjuhugsjóninni með grannaguðsþjónustunni og minna þannig á landfræðilegar rætur þjóðkirkjunnar.

  • Bæn við jólatréð – tilbeiðsluráð #1

    Hér er hugmynd að stuttri stund við jólatréð, þegar ljósin eru tendruð, hvort sem er í kirkjunni eða heima. Hún samanstendur af örstuttri hugleiðingu, ritningarlestri, bæn og söng. Lykilþemu stundarinnar er ást Guðs til heimsins og nærvera Guðs í barninu sem fæddist í Betlehem. Þetta er tilbeiðsluráð #1 á blogginu okkar. (more…)

  • Íslenskir prestar í íslenskum kvikmyndum

    Prestar eru sýnilegir í íslenskum bíómyndum og oft eru þjónandi prestar fengnir í hlutverkið. Sú er raunin í tveimur nýlegum kvikmyndum. Í Borgríki hefur sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson góða nærveru í sálgæsluviðtali við eina aðalpersónu myndarinnar og í Eldfjalli söng sr. Kristján Björnsson yfir moldum einnar aðalpersónunnar.

  • Lítum ekki undan

    Saga Guðrúnar Ebbu lætur ekkert okkar ósnortið. Við eigum varla orð til að lýsa því hvað okkur finnst hún hugrökk og sterk að deila hræðilegri reynslu af kynferðisofbeldi af hendi föður síns. Föður sem var líka prestur sem varð biskup og æðsti embættismaður þjóðkirkjunnar.

    Þegar við stöndum andspænis svona hryllingssögu vakna sterkar tilfinningar. Við spyrjum spurninga eins og hvers vegna, hvernig í ósköpunum og hvað brást?

    Í dag lifir þjóðkirkjan í skugga Ólafs Skúlasonar og ofbeldis hans í garð kvenna og sinnar eigin dóttur. Hún lifir líka í skugganum af því hvað hún átti erfitt með að horfast í augu við það sem gerðist. Kannski vitum við aldrei alla söguna, hvort fleiri konur og fleiri börn sköðuðust á sál og lífi vegna hans.

    Mikilvæg skref til réttlætis og lækningar hafa verið tekin af hálfu þjóðkirkjunnar til að rétta hlut þolenda Ólafs Skúlasonar. Þjóðkirkjan eignar sér ekki baráttu þeirra hugrökku kvenna sem hafa stigið fram og sagt sögu sína en verður að horfast í augu við að ekki var hlustað á þær þegar þær knúðu dyra eins og skýrsla rannsóknarnefndar kirkjuþings frá því í sumar greinir frá með skýrum hætti.

    Þessum sögum er ekki lengur stungið ofan í skúffu í skömm og sorg yfir því sem gerðist. Við erum ekki lengur hrædd við að horfast í augu við það sem hefur gerst og leggjum allt í sölurnar til að það gerist aldrei aftur.

    Guðrún Ebba er bandamaður í baráttunni fyrir málstað kirkjunnar um öryggi og réttlæti til handa þolendum kynferðisofbeldis. Í samstarfi við Guðrúnu Ebbu og aðra aðila stendur þjóðkirkjan að ráðstefnu og námskeiði með Marie Fortune í næstu viku um kynferðisofbeldi í kirkjunni. Þar verður ljósi varpað á málefnið út frá þeirri miklu reynslu og þekkingu sem stofnun dr. Fortune býr yfir á sviði forvarna og viðbragða við kynferðislegri misnotkun í samhengi kirkju og trúfélaga.

    Lítum aldrei aftur undan.

    Birtist fyrst á Trú.is.