Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Jesú blóð – þriðji Passíusálmur

    Það er mikið blóð í Passíusálmunum og það hefur einn tilgang. Blóð Jesú sem er úthellt til að greiða syndaskuld fyrstu manneskjunnar. Hallgrímur gerir sér mikinn og góðan mat úr þessu líkingamáli, og í anda dulhyggjunnar lætur hann blóðrásir sínar og guðdómsins renna saman þegar hann tínir blóðdropa Jesú saman og setur þá í sjóð síns eigin hjarta.

    Jesú blóð hefur mögnuð kosmísk áhrif, því það frelsar ekki bara manneskjuna heldur alla sköpunina, jörðina og allt sem vex á henni. Þetta er falleg hugsun og jarðarmiðlæg – dregur fram sýnina á að allt á jörðinni heyrir saman og að manneskjan er háð gjöfum jarðarinnar sér til framfærslu.

    Í Adams broti var blóðskuld gjörð.
    Bölvun leiddi það yfir jörð.
    Jesú blóð hér til jarðar hné,
    jörðin aftur svo blessuð sé,
    ávöxtur, gróði og aldin klár
    oss verði að notkun sérhvert ár. (3. Passíusálmur vers 10)

  • Huggun er manni mönnum að – annar Passíusálmur

    Hallgrímur vissi hið fornkveðna að það er ekki gott að vera einn þegar erfiðleikar steðja að. Í trúarlegu samhengi eru erfiðleikar í formi freistinga – t.d. að missa sjónar af fordæmi Krists sem gengur möglunarlaust inn í þjáningu og dauða. Þegar slíkar freistingar láta á sér kræla, er selskapur guðhræddra það sem Hallgrímur mælir með.

    Í samtímanum þekkjum við þessa hugsun vel í tólfspora vinnu eins og AA samtökunum. Þegar þú þarft á því að halda, eru félagar alltaf til staðar til að hlusta og veita nærveru. Þegar áföll dynja yfir og erfiðleikar í lífinu er nærvera og stuðningur annarra stórkostlegur verndarþáttur og geta hreinlega bjargað lífi.

    Freisting þung ef þig fellur á,
    forðastu einn að vera þá.
    Guðhræddra selskap girnstu mest,
    gefa þeir jafnan ráðin best.
    Huggun er manni mönnum að.
    Miskunn guðs hefur svo tilskikkað. (2. Passíusálmur vers 10)

  • Dásamleg eru dæmin þín – fyrsti passíusálmur

    Passíusálmarnir innihalda ekki síst íhugun hins trúaða yfir guðlegum leyndardómum. Í dulúðarhefðinni kristnu sjáum við hvernig sálin leitar og þráir einingu við guðdóminn. Þetta er mjög sterkt þema hjá Hallgrími. Hann hefur upp sín innri augu og mænir á Jesú. Þar finnur ekki síst fyrirmynd og kennara sem gengur á undan með fordæmi fyrir hina kristnu sál.

    Fyrirmynd og samstaða Jesú með Hallgrími – og þeim sem gerir bænir Passíusálmanna að sínum – felst ekki síst í þjáningunni sem Jesús gengur í gegnum hinn örlagaríka sólarhring sem hefst í grasagarðinum og endar á Golgata. Þjáningin gegnir risahlutverki í trúarlífi Hallgríms – við getum vel skilið það ef við höfum í huga það sem hann gekk í gegnum sjálfur, barnsmissi og erfiðan sjúkdóm.

    Í heimi Passíusálmanna er Jesús fyrirmynd þeirra sem þjást vegna þess að hann gengur í gegnum atburðarrásina með réttu hugarfari. Hlýðinn og undirgefinn vilja Guðs. Í hugmyndafræði sem útskýrir hið illa og erfiða með því að það sé vilji Guðs, er mikilvægt fordæmi fólgið í framgöngu og hugarfari Jesú sem tekur á móti örlögunum með æðruleysi og hlýðni.

    Horfi ég nú í huga mér,
    herra minn Jesú, eftir þér.
    Dásamleg eru dæmin þín.
    Dreg ég þau gjarnan heim til mín. (1. Passíusálmur vers 17)

  • Vald væntinganna

    Lífið er að vissu leyti eins og hæfileikakeppni. Það snýst ekki um hver stendur uppi sem sigurveigari, hver fær að fara til Malmö með besta Júróvisjónlagið í ár, heldur hvernig þú notar þá hæfileika – þær talentur sem Guð gefur þér – til góðs fyrir þig og aðra. Prédikun í Víðistaðakirkju 27/1/2013.

  • Betlehem, Newtown, Reykjavík

    Úr barnadagspistli á Trú.is sem fjallar um þrjá barnadaga. Þann í Betlehem forðum daga, í Newtown fyrr í þessum mánuði og barnadagana í Reykjavík á komandi ári:

    Atburðurinn voðalegi þegar tuttugu börn og sex kennarar voru skotin til bana í Newtown í Connecticut er hluti af jólasögunni um Guð sem gerðist manneskja í litlu viðkvæmu barni. Hryllingurinn í Newtown átti sér ekki einvörðungu stað í aðdraganda jólahátíðarinnar heldur varpar hann ljósi á jólasöguna og merkingu hennar.

  • Ljósberi í myrkri ofbeldis

    Sankta Lucia

    Í dag, 13. desember, er messudagur heilagrar Lúsíu sem lifði á Sikiley undir lok þriðju aldar og lét að öllum líkindum lífið í ofsóknum Díokletíanusar árið 304. Í okkar heimshluta birtast Lúsíuminnin helst í sænskum þjóðháttum sem hafa að einhverju leyti skolast hingað á land en í kirkjuhefðinni er Lúsía verndardýrlingur blindra, veikra barna, bænda, vændiskvenna sem hafa snúið við blaðinu, glergerðarmanna, bílstjóra, hjúkrunarkvenna, klæðskera, vefara, ritara og fleiri.

    Eins og aðrir dýrlingar er Lúsía fyrirmynd trúaðra í lífi sínu og trú, með því að standa gegn ríkjandi viðmiðum umhverfisins og veraldlegum kröfum. Lúsía er í myndlistinni gjarnan táknuð með augun sín á diski sem hún heldur á, því helgisagnir greina frá því þegar hún svipti sig sjóninni og fegurð augna sinna með því að rífa þau úr sér, til að sýna einhverjum vonbiðlinum að henni væri full alvara með því að varðveita trúarlega innblásinn meydóm sinn.

    Samkvæmt gregóríönsku tímatali var 13. desember stysti dagur ársins og minni Lúsíu því samofið því magnaða náttúrulega mómenti þegar nóttin ríkir á norðurhveli jarðarinnar. Tenging hennar við ljósið er sterk og hefur talað til ljósþyrstra norðurlandabúa því annað tákn Lúsíu er olíulampinn sem hún heldur á, eins og hinar klóku meyjar sem biðu brúðgumans í dæmisögunni. Enda getum við litið á Lúsíu sem táknmynd sálarinnar – eða kirkjunnar – sem á aðventunni bíður komu Krists.

    Lúsía er líka táknmynd fyrir örlög margra kvenna sem eru undir ákvarðanir og vald annarra settar. Hún er þolandi heimilisofbeldis og mansals eins og kynsystur hennar um allan heim enn þann dag í dag. Ofbeldi gegn konum er stór og svartur blettur á menningu okkar og því er við hæfi að staldra við einmitt á svartasta tíma ársins og horfast í augu við þær konur sem hafa lifað og dáið við kerfisbundna beitingu ofbeldis í skjóli fjölskyldutengsla eða hefða.

    Koma ljóssins í heiminn sem aðventan vísar til hefur þeim mun meiri áhrif eftir því sem myrkrið er meira. Hjúpuð myrkri blindu og valdbeitingar heldur Lúsía uppi ljósi vonarinnar sem nær til hinna kúguðu og gleymdu – einnig þessa jólaföstu.

    Pistillinn birtist fyrst á Trú.is. Myndina með pistlinum tók Bengt Nyman í Vaxholms Kyrka í desember á síðasta ári.

  • Aðventa og breytingastjórnun

    Jólastjarna

    Það er gott að enduruppgötva aðventuna og boðskap hennar með því að einfalda og hægja á. Orð Jesú í samkunduhúsinu (sem var eins konar kirkjuhús Gyðinganna) slá tóninn fyrir aðventuna og gefa henni merkingu hér og nú.

    Andi Drottins er yfir mér
    af því að hann hefur smurt mig.
    Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
    boða bandingjum lausn
    og blindum sýn,
    láta þjáða lausa
    og kunngjöra náðarár Drottins.
    Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ (Lk 4)

    Jesús beinir sjónum þangað sem skórinn kreppir. Til hinna fátæku meðal okkar. Þangað sem skortur ríkir. Við skulum horfa þangað með honum. Af nógu er að taka. T.d. var mikið af dagskrá Rúv helguð fátækt í heiminum heilan dag í nýliðinni viku og þar kom margt áhugavert fram. Fátækt getur í okkar samhengi þýtt t.d. skort á menntun og heilbrigðisþjónstu og leitt til félagslegrar einangrunar.  Fátækt getur líka fylgt skömm sem eykur á umfang vandans. Sérfræðingar hafa bent á að það sé mjög erfitt að fá fólk til að tjá sig um eigin fátækt og deila reynslu sinni, því það sé svo mikil skömm að vera stimpluð fátæk. Þarna þarf samfélagið að taka höndum saman – og við getum látið aðventuna verða afl til breytinga.

    Við viljum nota orðið búsáhaldaaðventa yfir þetta.  Að okkar mati tengist forskeytið búsáhalda- friðsamlegum mótmælum sem leiða til breytinga.  Búsáhaldaaðventan beinir sjónum okkar inn á við, til barnanna í kringum okkur, inn á heimilið, inn í eldhús, til þess sem vex og dafnar í nærumhverfinu okkar, til hins veika og smáa sem verður undir í kapphlaupinu um það sem er nýjast, dýrast, stærst og best.

    Búsáhaldaaðventan er algáð og heldur vöku sinni gagnvart þeim sem standa höllum fæti en hún gleðst líka yfir góðra vina fundi og samveru sem skapar og byggir upp. En hún setur spurningamerki við eyðslu og dýrar skemmtanir, gervigleði og utanaðkomandi kröfur um efnisleg gæði.

    Látum aðventuna verða afl til breytinga í okkar eigin lífi og í samfélaginu okkar. Tökum Jesús til fyrirmyndar.

  • Litabók aðventunnar

    Aðventan er tími litanna. Við getum tengt marga liti við þennan tíma biðar og eftirvæntingar. Á vefsíðu kirkjunnar segir um aðventuna:

    Litur hennar er fjólublár sem er litur iðrunarinnar. Fjólublátt er blandaður litur, samsettur af bláu, sem er táknlitur himinsins, og trúmennsku og sannleika, svörtu sem er litur sorgar og rauðu sem er litur kærleikans.

    Við þetta má bæta einum lit sem er hvíti litur fyrsta sunnudags í aðventu. Fyrsti sunnudagurinn sker sig úr hinum sem hátíðisdagur með gleðiþema í kirkjunni. Liturinn sem tilheyrir honum er því hvíti litur fagnaðarins.

    Hvaða litur einkennir aðventuna þína? Er það fjólublái iðrunarliturinn, svarti sorgarliturinn, blái himinliturinn – og Maríu meyjar -, hvíti litur fagnaðarins eða rauði litur kærleikans?

    Við þurfum að taka allan litakassann fram á aðventunni því hún spannar breitt litróf. Alveg eins og lífið.

    Ps. Smellið á myndina hér að ofan til að opna eintak sem má prenta og lita!

  • Vaski, vaski, vaskir menn

    dirty/clean dishwasher magnetÍ síðastliðinni viku bilaði uppþvottavél heimilisins. Fyrstu viðbrögð voru sjokk og ógeð sem fylgdi því að þurfa að plokka út fitug og skítug eldhúsáhöld, óþrifin, út úr vélinni, láta renna í vaskinn og handþvo allt draslið. Við höfum búið svo lengi við uppþvottavélarlúxusinn að uppþvottavöðvarnir höfðu slaknað allverulega og atferlið allt framandi.

    En viti menn, eftir nokkrar máltíðir fór uppvaskið að venjast og jafnvel að hafa góð áhrif á einstaklinga sem og heimilisandann. Að vaska upp hægir á eldhúslífinu svo um munar og hið hæga líf er eftirsóknarvert. Uppvaskið tengir líka áhöld og notanda og gerir okkur meðvitaðri um það sem við grípum til og notum. Það er ákveðin jarðtenging sem fæst með því að handleika, þvo og þurrka, og setja á sinn stað.

    Uppvaskslífið gefur líka möguleika á skemmtilegri samveru. Kallað á eitt barnanna og því fengið viskustykki. Á meðan pabbi eða mamma vaska upp stykki fyrir stykki og barnið þurrkar, er gott að spjalla um daginn, veginn og allt hitt.

    Kannski er uppvaskið gullnáma eftir allt, sem er okkur hulin á meðan uppþvottavélarinnar nýtur við?

    Mynd: scmtngirl á flickr

  • Kvennafrídagur og krabbamein

    Krabbamein og baráttan gegn því er samfélagsmál en ekki einkamál. Þú ert ekki ein þegar þú greinist. Þú átt rétt á stuðningi og úrræðum, þjónustu og umönnun. Þú átt í samferðafólki þínu samhygð, hlýju og hjálp. Þú hvílir í stuðningsneti sem er haldið uppi af öðrum konum, systrum, dætrum, mæðrum, vinkonum. Þú finnur það hér í kirkjunni í dag að við stöndum saman. Þú finnur að enn er von.

    Kvennafrídagurinn er dagurinn þar sem við réttum úr okkur, lítum yfir sviðið og horfum á hverja aðra. Og við sjáum að saman búum við yfir gífurlegum krafti. Krafti til að breyta lífi og líðan kvenna á öllum aldri, í öllum stéttum, fatlaðra og ófatlaðra, gagnkynhneigðra og lesbía, heilbrigðra og sjúkra. Kvennafrídagurinn minnir okkur á frelsið sem við allar þráum og eigum að gera að veruleika í lífinu okkar.

    Kvennafrídagurinn minnir okkur líka á ábyrgðina sem við höfum gagnvart hver annarri og skylduna sem við allar höfum til að berjast fyrir réttindum kvenna. Sérstaklega þeirra sem veikjast og geta tímabundið eða langvarandi ekki borið hönd fyrir höfuð sér.

    Megi stuðningsnetið í kringum þig, megi konurnar í lífi þínu, minna þig á vonina sem þér er ætluð. Megir þú finna í kirkjunni í dag að þú ert umvafin kærleika Guðs, sem er skapari þinn og hefur myndað þig í móðurlífi. Þú verður örugg því að enn er von, nýtur verndar og sefur óhult.

    Úr prédikuninni Enn er von sem var flutt í bleikri messu á kvennafrídegi 2012.