Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Væn, græn og kæn

    Hefur þú heyrt um hvernig úlfarnir í Yellowstone þjóðgarðinum í Bandaríkjunum breyttu ekki bara lífríkinu þar heldur líka landslagi og árfarvegi?

    Árið 1995 höfðu úlfar verið útdauðir og víðs fjarri þessum víðlenda þjóðgarði í 70 ár. Þá var tekin ákvörðun um að flytja litla úlfahjörð inn á svæðið til að auðga dýralífið. Engan grunaði hvað áhrifin af þeirri aðgerð áttu eftir að ná langt.

    Það sem hafði gerst í fjarveru úlfanna, var að dádýrum hafði fjölgað upp úr öllu valdi vegna þess að enginn náttúrulegur óvinur var fyrir hendi. Þrátt fyrir reglulega grisjun, af manna völdum, hafði aldrei náðst að halda stofninum í skefjum. Allur þessi fjöldi af dýrum þurfti sitt að éta og gekk mjög nærri gróðri á öllu svæðinu, þannig að stórsá á. (more…)

  • Pútín á fjallinu

    Við hjónin fórum í stutta heimsókn til Stokkhólms um síðustu helgi. Þar var auðvelt að verða var við mikla stemningu í aðdraganda vetrarólympíuleikanna í Sochi, sem nú eru hafnir.

    Svíar taka íþróttirnar sínar mjög alvarlega og vetrarólympíuleikarnir eru þar engin undantekning. Á annað hundrað keppenda taka þátt og Svíar eru in-it-to-win-it. Vangaveltur og spádómar um hversu mörg verðlaun falla þeim í skaut eru alvöru umfjöllunarefni fjölmiðla og manna á milli. H&M, sem ekki þarf að kynna fyrir Íslendingum, er af tilefni ólympíuleikanna með sérstaka fatalínu til sölu í verslunum sínum, sem kallast á við búninga sænsku keppendanna og minnir á hverja ber að hvetja til sigurs. Og ef allt fer eins og lítur út fyrir, má búast við mörgum gulum og bláum á verðlaunapöllunum í Sochi. (more…)

  • Altarisganga – græn í garði Guðs

    Hér er form fyrir altarisgöngu sem er skrifuð til að nota í messu á Æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar sem er haldinn 2. mars í ár. Þessi altarisganga gerir ekki kröfu um að vígð manneskja stjórni henni, heldur getur það verið unglingur eða leiðtogi í æskulýðsstarfinu. Ég birti hana sem tilbeiðsluráð hér á vefnum, til notkunar í kirkjunum.

    (more…)

  • 65% meiri gleði

    Brúðkaupið

    Ein af stærstu gleðistundum lífsins er þegar við göngum í hjónaband. Eða þegar við erum viðstödd þegar einhver okkur nákominn heitir því fyrir augliti Guðs og safnaðarins að elska og virða makann sinn í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur þeim að höndum bera.

    Brúðkaup eru líka sívinsælt viðfangsefni kvikmyndanna, þar sem innihald stundarinnar þegar fólk játast hvort öðru opinberlega, virðist bjóða upp á sérlega marga möguleika til að draga upp áhugaverð samskipti og draga upp litríka mynd af mannlegum tilfinningum.

    Myndir eins og Four Weddings and a Funeral, My Best Friend’s Wedding og Bridesmaids koma upp í hugann, líka íslenskar kvikmyndir eins og Brúðguminn og Sveitabrúðkaup. (more…)

  • Vaggan og varnarleysið

    Skólabörnin sem heimsóttu Vídalínskirkju á aðventunni voru með það á hreinu hvers konar staður fjárhús er: Heimili kinda og skjól fyrir búfénað. Varla staður fyrir manneskjur að dveljast á, hvað þá fyrir lítið barn að koma í heiminn. Samt var fjárhús fyrsta heimili Jesú.

    Þarna varð jólasagan tilefni til samtals um ólíkar aðstæður barna og þá staðreynd að ekki eiga allir heimili eða öruggt skjól. Það þekktu krakkarnir líka, úr fréttum utan úr heimi en líka úr nærumhverfi sínu.

    Sagan af Maríu, Jósef og Jesúbarninu lifnar við um hver jól. Jólasagan rúmar andstæður og miðlar heimssýn þar sem fulltrúar hinna hæstu og hinna lægstu koma fyrir. Persónur og leikendur koma frá himni og jörðu og tilheyra efstu stéttum lærdómsmanna, fjárhirðum af lægstu stéttum samfélagsins, fólki á ferð fjarri heimahögum og heimamönnum.

    Inn í þessar aðstæður fæðist Jesús sem í kristinni trú tjáir nærveru Guðs í heiminum með alveg sérstökum hætti. Barnið í jötunni birtir varnarleysi manneskjunnar, sem er lítil og lifir bara vegna tengsla og kærleika. Þegar við orðum jólaundrið með þeim hætti að Guð hafi orðið manneskja í Jesú Kristi felur það í sér róttæka sýn á valdaframsal hins hæsta og algjöra samstöðu með manneskjunni í viðkvæmustu aðstæðum hennar.

    Jólin eru tími tilfinninganna og við nálgumst jólaundrið frekar með hjartanu en höfðinu. Leyndardómur og kraftur jólasögunnar felst í því að á hverjum tíma speglum við okkur sjálf í henni og sjáum það kallast á við hugmyndir okkar um það sem er ekta, alvöru og varanlegt.

    Við erum alla ævina að vinna með tilfinningar okkar. Verkefni fullorðinsjólanna er ekki síst að vinna með tilfinningar bernskujólanna, vinna úr minningum og upplifunum sem varpa ljósi á jólin hér og nú og móta upplifun okkar og lífið allt. Í tilfinningavinnunni horfumst við í augu við varnarleysið sem felst í því að vera manneskja.

    Jólatíminn er sérstakastur tíma vegna þess að þá fæddist Jesús. Jólin eru tími til að horfa til hans, sem tjáir lífið og nærveru Guðs í heiminum á einstakan hátt en líka þannig að allir fá hlutdeild í henni í varnarleysi sínu. Töfrar jólanna lifna og snerta okkur þegar hjartað okkar fær að vera vaggan hans.

    Þessi hugvekja var skrifuð fyrir mbl.is og birtist þar á aðfangadagskvöldi.

  • Engin sátt án sannleika

    Vitaskuld er auðveldara að fylgjast með og dáðst að manni eins og Mandela, heldur en að líkja eftir honum. Að ná réttlæti með miskunn, iðka von með raunsæi, örlæti með ábyrgð. Mandela átti raunverulega, áþreifanlega fjandmenn sem höfðu unnið honum illt. Þeim fyrirgaf hann og vann þannig sjálfum sér, þeim og allri þjóð sinni frelsi. Engin sátt án sannleika

  • Bænavaktin í hríðinni

    Gott að standa bænavaktina í hríðarbyljum og éljagangi. Snjóbarðar konur með eplakinnar komu í Vídalínskirkju til að íhuga Guðs orð og sig sjálfar í bænahringnum og Jóga Nidra.

  • Úr djúpinu

    Það er hægt að drepa fólk án þess að skjóta það niður – með því t.d. að hunsa mannréttindi og mannvirðingu þeirra sem hafa þurft að flýja heimaland sitt en komast ekki inn í kerfið og fara því á mis við eðlilegan stuðning og tækifæri til að leggja sitt af mörkum og blómstra.

    Úr djúpinu ákalla flóttamenn og hælisleitendur, úr djúpinu ákalla börn og fullorðnir í stríðshrjáða Sýrlandi. Þau leita eftir lífi og öryggi, bíða þess að einhver heyri grátbeiðni þeirra, þrá miskunn, lausn og morgun.

    Úr djúpinu

  • Tvær týpur

    Þegar það rennur upp fyrir okkur hvað við höfum gert, viljum við, eins og konan í sögunni, bara gráta og segja fyrirgefðu, vegna þess að við sjáum hvað við flöskuðum illilega á því að vera ljós í heiminum og bera ást Guðs vitni.

    Kristín Þórunn Tómasdóttir: Tvær týpur

  • Gagnrýni til góðs

    Það er óhætt að segja að við fáum bæði jákvæða og neikvæða mynd af hátíðahöldunum þessa helgi. Það jákvæða er að fólk kemur saman á fallegu stöðum og upplifir dulmagn náttúrunnar og gleðina yfir hvert öðru. Maður er manns gaman. Staðir lifna við. Ungt fólk tengist og kynnist. Við heyrum líka af því sem aflaga fer. Fréttamat almennt virðist hneigjast að því sem er neikvætt og fjölmiðlar taka stundum að sér að vera eins og hneykslunargjörn frænka sem leggur sig eftir því smæsta sem fer úrskeiðis, og sér ofsjónum yfir öllu sem er gert og sagt, öllu sem er étið og drukkið, keypt og eytt.

    Kristín Þórunn Tómasdóttir: Gagnrýni til góðs