Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Vonin á flóttamannsveginum

    Kristín:

    Árið í ár var vont ár fyrir börn í heiminum, hörmulegar fréttir af fjöldamorðum í pakistönskum skóla í síðustu viku hnikkja bara á menningu þar sem börn eru ekki örugg. Börn og fjölskyldur þeirra hrekjast að heiman af mörgum ástæðum, einni þeirra kynnumst við í jólaguðspjallinu þar sem Jesúbarnið er á hrakningum í ókunnugri borg.

    Vonin á flóttamannsveginum, prédikun við aftansöng í Laugarneskirkju, 24/12/2014.

  • Þorlákur, jólin og hið heilaga

    Kristín:

    Ég held að við séum svolítið að sveiflast til baka frá því – af því að það þarf að vera jafnvægi á öllu. Við finnum að það getur verið gott að hvíla í því sem við getum gert með kroppnum okkar, höndum, fótum, augum og heyrum. Við finnum að Guð getur mótað okkur og haft áhrif á okkur í gegnum áþreifanlega hluti, hið heilaga mætir okkur í öðru fólki, í byggingum, í myndlist og tónlist. Allt sem lyftir andanum kennir okkur um hið heilaga og gerir okkur að þátttakanda í því.

    Prédikun í Laugarneskirkju á fjórða sunnudegi í aðventu, 21. desember 2014.

  • Þolandi heimilisofbeldis og mansals

    Haldið upp á Lúsíudaginn í sænskri kirkju.
    Haldið upp á Lúsíudaginn í sænskri kirkju. Mynd: Claudia Gründer. Wikipedia.

    Heilög Lúsía er táknmynd fyrir örlög kvenna sem eru undir ákvarðanir og vald annarra settar. Hún er þolandi heimilisofbeldis og mansals eins og kynsystur hennar um allan heim enn þann dag í dag. 13. desember er dagurinn hennar.

    Ofbeldi gegn konum er stór og svartur blettur á menningu okkar og því er við hæfi að staldra við einmitt á svartasta tíma ársins og horfast í augu við þær konur sem hafa lifað og dáið við kerfisbundna beitingu ofbeldis í skjóli fjölskyldutengsla eða hefða.

  • Stóra samhengið

    Reykjavík – Vikublað spyr í dag:

    Eiga vændiskaup að liggja í þagnargildi?

    Hér er kannski aðalspurningin sú hvort ástæða sé að víkja í þessum málum frá þeirri meginreglu íslensks réttarfars að réttarhöld séu haldin í heyranda hljóði. Ég held að svo sé ekki. Skömm og sársauki eru óhjákvæmilegir fylgifiskur þess að vera opinberlega til umfjöllunar, eins og gerist í réttarhöldum og þar líða ekki bara hinir seku. En stóra samhengið snýr að ofbeldinu sem felst í vændiskaupunum og þar megum við ekki rugla saman hver hin raunverulegu fórnarlömb eru.

    Munum líka að samhengi þessa máls er mansal og frelsissvipting sem því fylgir. Hér er því um dauðans alvöru að ræða og mikilvægt að taka með þunga og alvöru á brotum sem stuðla að ánauð og frelsisskerðingu kvenna sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Ef lokuð réttarhöld yfir meintum vændiskaupendum hindra baráttuna gegn mansali og kynbundnu ofbeldi eru þau ekki af hinu góða.

    Reykjavík – vikublað hefur fengið stóran hóp valinkunnra kvenna og karla til að spá í málefni líðandi stundar með lesendum. Úr verður eins konar Hringborð um málefni líðandi stundar.

  • Friðarþjóð

    Reykjavík – Vikublað spyr í dag:

    Verður samfélagið öruggara ef almennir lögregluþjónar bera vopn?

    Ein stærsta blekking í vestrænum samfélögum er að byssur geri okkur öruggari. Við sjáum hvernig þessari afstaða er haldið fram undir formerkjum stjórnarskrábundins réttar um frelsi einstaklingsins í Bandaríkjunum með skelfilegum afleiðingum. Fleiri byssur í umferð þýðir ekki aukið öryggi eða færri glæpi.

    Ég held að það væri ekki til góðs að almennir lögregluþjónar bæru skotvopn. Allar ákvarðanir um breytingar á þessu fyrirkomulagi hljóta að vera teknar á lögbundinn hátt og undanfari slíkrar ákvarðanartöku þarf að vera samtal í samfélaginu okkar því þetta er ekki einkamál lögreglunnar.
    Við Íslendingar viljum vera friðarþjóð og byssuvæðing lögreglunnar styður ekki við það.

    Jesús talaði um sitt fólk sem friðflytjendur og hvatti okkur til að vera farvegur friðar. Við þurfum fleiri talsmenn friðar í samfélaginu okkar því við leysum ekki ofbeldisvandann með meira ofbeldi.

    Reykjavík – vikublað hefur fengið stóran hóp valinkunnra kvenna og karla til að spá í málefni líðandi stundar með lesendum. Úr verður eins konar Hringborð um málefni líðandi stundar.

  • Aðventukransinn og þau sem vantar

    Fyrsta aðventukertið minnir á ástvinina sem eru ekki lengur með okkur. Við nemum staðar, nefnum nafnið þeirra, rifjum upp röddina þeirra, andlitið þeirra og allar minningarnar sem tengjast þeim og jólatímanum. Við tendrum ljós, felum þau Guði og þökkum fyrir það sem lífið þeirra gaf okkur.

    Aðventan og minningarnar, pistill á vef Laugarneskirkju.

  • Jólakranar handa þeim þyrstu

    Fyrstu versin í Biblíunni greina frá því þegar Guð skapar himinn og jörð (1. Mós 1). Ástandinu sem ríkir áður en Guð byrjar að skapa er lýst þannig að jörðin var auð og tóm, og andi Guðs sveif yfir vötnunum. Áður en nokkuð annað verður til, ljósið, landið, gróðurinn, dýrin og manneskjan, er vatnið til. Vatnið var með Guði í upphafi sköpunarinnar.

    Drykkjarbrunnur í erlendri borg
    Drykkjarbrunnur í erlendri borg þar sem nóg er af vatni.

    Þessi sérstaða vatns í kristinni heimsmynd kemur vel fram í því að kirkjan talar um Guð með vatnsmyndum. Guð er uppspretta hins lifandi vatns og hinn trúaði þráir samvistina með Guði eins og hindin þráir vatnslindir (Sálm 42.2). Umhyggja Guðs gagnvart manneskjunni er sömuleiðis tjáð með vatnsveituorðfæri þegar spámaðurinn Jesaja segir fyrir hönd Drottins: „Ég leiði vatn um eyðimörkina og ár um öræfin til þess að svala lýð mínum, mínum útvalda“ (Jes 43.20).

    Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar hefst formlega í dag. Hún er vatnssöfnun og miðar að því að mæta þörfum okkar allra fyrir vatn með því að grafa og reisa vatnssöfnunartanka í Úganda og Eþíópíu. Þú getur lagt þitt af mörkum með því að greiða valgreiðslu í heimabanka, hringja í söfnunarsímann 907 2003 og greiða þannig 2500 krónur, gefa á framlag.is eða leggja beint inn á söfnunarreikning: 0334–26–50886 kt. 450670–0499.

  • Viltu prófa að þegja í heila klukkustund?

    Viltu vera hluti af alveg sérstakri guðsþjónustu, sem fer fram í kyrrð og íhugun? Laugardaginn 29. nóvember verður guðsþjónusta að hætti kvekara í safnaðarheimili Laugarneskirkju.

    Kvekarar eru kristin kirkjudeild sem sker sig mjög úr í flóru kristinna safnaða, sérstaklega þegar kemur að helgihaldinu. Enginn einn leiðir stundina, engin tónlist er leikin, ekkert þarf að tala. Stundin fer þannig fram að við setjumst á stóla sem er raðað í hring, í miðjum hringnum er lítið borð með blómum og lesefni sem má blaða í á meðan stundinni stendur.

    Vina- og friðarstund í Laugarneskirkju
    Það er gott að taka frá tíma til að sitja og íhuga í kyrrðinni.

    Ef einhver finnur hjá sér að deila bæn eða ritningarversi má gera það. Það er líka partur af prógramminu að standa upp og hreyfa sig, fá kannski sér vatn að drekka og gera það sem líkaminn kallar á.

    Stundin tekur u.þ.b. klukkutíma og á eftir verður tími fyrir smá hressingu og samtal. Guðsþjónustan er í umsjón Kristínar og David Noble sem er einn af messuþjónum Laugarneskirkju. Hann tilheyrir trúfélagi kvekara í heimalandi sínu, Englandi.

    Húsið opnar kl. 11, stundin hefst kl. 11.30. Það væri gaman að sjá þig.

  • Alþjóða klósettdagurinn er í dag

    Í fátækrahverfum Nairobi þarf vegfarandi að vara sig á því að verða fyrir svokölluðum fljúgandi klósettum – það er þegar plastpokar með saur koma fljúgandi, og eiga að lenda í ræsinu, lækjum, ofan á þök nágrannans eða bara eitthvert úr augsýn. Í Mexíkóskum þorpum er oft sérstök karfa fyrir notaðan klósettpappír, því lagnakerfið höndlar ekki pappír af neinu tagi.

    Þarftu á klósettið, pistill á Alþjóða klósettdeginum.

  • Notuð spariföt fá nýtt líf

    Það leynist margt í fataskápunum á heimilunum í borginni. Í sumum eru jafnvel falleg spariföt sem ekki hafa ekki verið notuð oft og eru kannski orðin of lítil. Næstu tvær vikurnar ætlum við í Laugarneskirkju að safna gömlum sparifötum fyrir Hjálparstarf kirkjunnar.

    Sjálfboðaliðar Hjálparstarfsins ætla svo að flokka fötin og deila þeim út til síns fólks í desember. Það vantar alltaf falleg og góð föt á skólabörn, ekki síst drengi á aldrinum 5-14 ára. Ef þú, lesandi góður, lumar á fallegum fötum sem ekki eru lengur not fyrir þá væri gaman að fá þig í heimsókn.

    Kirkjan er opin alla daga nema mánudaga og það verður heitt á könnunni.

    Sjáumst.