Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gestrisni, hvíld og náð

    Marteinn Lúther sagði á efri árum að merkilegasti dagur lífs sins hefði verið löngu áður en hann mundi eftir sér, nefnilega skírnardagurinn hans. Skírnardagurinn er sannarlega hátíðisdagur, þar sem barnið sjálft er í miðpunkti og umvafið góðum óskum safnaðarins og fjölskyldu sinnar. Skírnin er stundin þar sem við fáum að leggja fram þakklæti okkar fyrir undrið sem nýtt líf er, hún minnir okkur á gang lífsins og tímann sem líður. Hún vekur hugleiðingar um tilgang lífsins, hvaðan við komum og hvert við förum.

    Í skírninni mætir barnið trúarhefð sem formæður og forfeður hafa haft í heiðri og miðlað áfram kynslóð eftir kynslóð í trú og trausti til þess að trúin geymi þau lífsgildi sem standast áföll tímans. Skírnin er beinir huganum á vit hins heilaga, þess sem er stærra en við sjálf og nær út fyrir hið skiljanlega og áþreifanlega. Barnið er helgað í skírninni með tákni krossins sem minnir á samkennd og samlíðan Guðs með öllum mönnum, vegna þess að Jesús birtir okkur Guð í lífi sínu, dauða og upprisu.

    Kannski er ekkert sem minnir okkur sterkar á hið heilaga en lítið barn sem okkur er treyst fyrir og skírnin tengir einhvern veginn saman þá upplifun að við tilheyrum samhengi sem er stærra en við sjálf og að í gegnum tengsl við aðrar manneskjur verðum við þau sem við erum.

    Í dag, þegar Hrafnar Rökkvi er skírður, er þrenningarhátíð, dagurinn sem við íhugum fyrst og fremst tvennt, annars vegar það hvernig tengsl móta og skilgreina ekki bara okkur sjálf heldur líka Guð, og hins vegar guðsmyndirnar í lífi okkar – hvernig Guð birtist okkur.

    Gömul og hefðbundin framsetning á Guðdóminum í kristinni trú er að tala um þrenninguna eða heilaga þrenningu, sem er ein heild en þrjár persónur. Guð er faðirinn, sonurinn og heilagur andi.

    Hugmyndin um þrenninguna og hlutverk hinna ólíku persóna Guðs er t.d. útfærð í postullegu trúarjátningunni sem við förum með þegar barn er skírt. Það er Guð faðir sem skapar himinn og jörð, allt hið sýnilega og ósýnilega. Það er Jesús Kristur, sem lifði á sínum stað og sinni stund, tengdist fólkinu sem er nefnt í trúarjátningunni og gekk í gegnum atburðina sem eru taldir upp. Það er heilagur andi sem býr til kirkjuna, býr til samfélagið sem við upplifum með hvert öðru, leiðir fram forsendur fyrir sáttum og fyrirgefningu og lífi í fullri gnægð.

    Allt þetta á myndin af Guði að ná utan um og miðla til okkar, óháð stund og stað. Þrenningarpælingin á líka að miðla til okkar því að tengsl tilheyra innsta eðli og veru hins heilaga, vegna þess að persónurnar þrjár tengjast og eru þær sem þær eru vegna þess hvernig þær tengjast.

    Þrenningin er oft sett fram með myndrænum hætti, við sjáum það meira að segja hér í kirkjunni okkar sem lumar á nettum og fallegum myndtáknum sem skírskota m.a. til þrenningarinnar. Eitt frægasta listaverk sögunnar sem gerir tilraun til að miðla heilagri þrenningu er íkonamálverk eftir Rússann Andrei Rublev sem hann málaði snemma á sextándu öld.

    Myndin sýnir þrjá engla sitja í kringum borð og á borðinu stendur bikar eða kaleikur. Í bakgrunni sést hús og tré. Fyrirmyndin sem Rublev studdist við er sagan sem við heyrðum lesna áðan af því þegar Drottinn birtist Abraham og Söru í tjaldinu þeirra í Mamrelundi. Þessi ævaforna saga gerist á þeim tímum þegar engin Ísraelsþjóð var til, hún er í Gamla testamentinu vegna þess að hún útskýrir aðdraganda og tilkomu Guðs útvöldu þjóðar, sem Abraham og Sara urðu frumforeldrar að.

    Lífið sem Abraham og Sara lifðu var hirðingjalífið sem fólst í því að fjölskyldur, sem voru stórar, karlar áttu kannski fleiri en eina konu og flestar áttu fullt af börnum, fluttu sig stað úr stað með hjarðirnar sínar í leit að vantsbólum og beitilöndum. Abraham var auðugur maður og átti margar skepnur og marga þræla – en hann átti engin börn með eiginkonu sinni Söru og þegar hér var komið sögu, voru þau bæði orðin það roskin að engin von var til þess að þau gætu eignast eigið barn.

    En þennan heita dag, þegar Abraham sat í tjalddyrunum sínum í Mamrelundi koma til þeirra þrír menn – eða einn maður – því sagan skiptir svolítið á milli þess að tala um mennina þrjá og einn. Stundum tala mennirnir þrír, stundum bara einn – og það er Drottinn sjálfur sem þarna er á ferðinni.

    Við sjáum hvernig hin forna dyggð gestrisninnar er í hávegum höfð í hirðingjasamfélaginu, því Abraham og Sara rjúka til og matreiða fyrir gestina á meðan þeir hvíla sig undir trénu, þar sem er skuggi og skjól. Þau gefa þeim steiktan kálf, flatkökur, skyr og mjólk. Gestirnir, sem Rúblev túlkar sem heilaga þrenningu, taka sér góðan tíma og njóta gestrisni Söru og Abrahams. Þar kemur að sögu að Drottinn opinberar áætlun sína um að Abraham eigi að verða ættfaðir heillar þjóðar sem telur eins marga niðja og stjörnur himins.

    Það er þarna sem Sara fer að hlæja – vegna þess að hún veit að gangur lífsins er sá að við ákveðinn aldur fara konur úr barneign og karlar slappast. En gestirnir eru afar sannfærandi þegar þeir segja: Er Drottni nokkuð ómáttugt? Ég mun koma til þín aftur á sama misseri að ári og Sara hefur þá eignast son.

    Þessi forna saga sem útskýrir uppruna Ísraelsmanna er jafnframt elsta myndin sem er notuð til að tákna heilaga þrenningu, Guð sem er þrjár persónur sem í tengslum sínum mynda hið heilaga.

    Þegar við segjum í skírninni, í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda, vísum við til þessarar þrenningar um leið og við áköllum hið heilaga og leggjum okkur sjálf og barnið sem við elskum svo ótrúlega heitt, í faðm þess. Við gerum það í bæn um að líf þess einkennist af gestrisni Söru og Abrahams, hvíldinni undir trénu í Mamrelundi, náð hins heilaga og veginum sem Jesús bendir á.

    Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem sýnir okkur þessa ást, dýrð sé andanum sem er þessi ást.

  • Við byggjum brýr

    Við vorum mörg sem sátum við skjáinn í gærkvöldi þegar söngvakeppni sjónvarpsstöðvanna stóð yfir. Opinber yfirskrift Júróvisjón í ár, sem lauk í gær með sigri Måns frá Svíþjóð, er “Building bridges” eða við byggjum brýr. Í keppninni var unnið með þetta þema á margvíslegan hátt, í grafík og tónlist en ekki síst í  uppfrifjunum á því að í ár eru 70 ár síðan heimsstyrjöldinni miklu lauk en þau tímamót skipta vitanlega miklu máli í Evrópu og í mörgum þeim löndum sem taka þátt í söngvakeppninni. (more…)

  • Guðslömbin

    Kristín prédikaði um guðslömbin í Laugarneskirkju í morgun:

    Kraftaverk hvítasunnunnar er líka af þessum toga. Í því sameinast það fallega, eðlilega, góða, sigur lífsins og nærvera hins heilaga, sem hvert og eitt okkar á aðgang að – alveg eins og við fengum öll aðgang að undrinu að Syðri-Hofdölum í heilan sólarhring.

  • Guð blessi jörðina, hafið, gróðurinn …

    Þessi blessun var samin fyrir æskulýðsdaginn 2014 og notuð í messunni Græn í garði Guðs. Hana má nota í helgihaldinu við ýmis tækifæri. Árni notaði hana til dæmis í Hreyfimessu í Lágafellskirkju 3. maí 2015.

    „Guð blessi jörðina og allt sem hún gefur af sér. Guð blessi hafið og vötnin sem fæða af sér líf. Guð blessi gróðurinn, trén og blómin sem gefa fæðu, ilm og fegurð. Guð blessi dýr merkurinnar, fugla himinsins og fiska hafsins. Guð blessi hendur sem sá, rækta og uppskera. Guð blessi hendur sem matreiða, baka og útbúa næringu. Guð blessi þau sem líða skort og eiga ekki mat til morgundagsins. Guð blessi þau sem gefa með sér og muna eftir fátækum.“

    Við gerum hana að 25. tilbeiðsluráðinu okkar.

  • Bænastundir með fólki á öllum aldri

    Ég rakst á skjal frá ensku kirkjunni í Bristol sem er stútfullt af skemmtilegum hugmyndum og útfærslum á bænasamverum.

    Það sem hugmyndirnar eiga sameiginlegt er að þær nálgast viðfangsefnið alltaf út frá einhverju áþreifanlegu sem dýpkar og skerpir upplifunina af sameiginlegri bæn. Þótt þetta skjal sé tekið saman fyrir barnastarf kirkjunnar, er þarna fullt af efni sem er hægt að nýta á breiðari grundvelli – enda segir frelsarinn að barnanna sé Guðs ríki….

  • Stríð 0 – friður 1

    Kristín í prédikun að morgni páskadags:

    Þetta er það fallega og öfugsnúna við upprisuna, sem snýr ríkjandi gildismati á hvolf. Við lifum nefnilega í menningu sem er með þráhyggju á háu stigi fyrir hinu sterka, því að ná árangri, skara fram úr, vera best og mest. En Jesús tekur ekki þátt í því, heldur býður fram leið friðarins.

  • Kranarnir og krossinn

    Kristín í útvarpsprédikun á föstudeginum langa:

    Í dag er dagur krossins, föstudagurinn langi, sem opnar augu okkar fyrir þeim sem þjást. Og andspænis þjáningu krossins finnum við mennskuna sem tengir okkur hvert öðru, í auðsæranleika okkar og varnarleysi. Við finnum mennskuna sem gerir okkur bæði hæf til fremja óskiljanleg grimmdarverk og elska óhindrað. Andspænis krossinum finnum við að við þurfum á hvert öðru að halda, og við finnum að við þurfum á einhverju sem er stærra og meira en við sjálf að halda. Andspænis krossinum finnum við að við þurfum á Guði að halda.

  • Biblíublogg 27: Við getum ekki annað

    Í dag verður haldið málþing í tilefni af sjötugsafmæli Gunnars Kristjánssonar prófasts á Reynivöllum í Kjós um framlag Gunnars í ræðu og riti á ólíkum sviðum kirkjulífs, menningar og samfélagsumræðu.

    Eitt af því sem skoðað verður er prédikunarguðfræði Gunnars en hann er ekki bara mikilhæfur prédikari sjálfur heldur hefur hann skrifað og þýtt prédikunarfræði.

    Í samtíma prédikunarfræðum er mikið horft á prédikarann sjálfan og hvernig hann eða hún miðlar trúarreynslunni. Í bókinni Á mælikvarða mannsins sem Gunnar þýddi, kemur fram að eldri áherslur litu á prédikunarþjónustuna sem þjónustu boðberans eða kallarans. Hlutverk boðberans er jú að flytja það sem honum er trúað fyrir, hvorki meira né minna, og láta sig síðan hverfa. Innihaldið skiptir hann engu máli, engu skiptir hvað hann sjálfur hugsar og honum má standa á sama um þýðingu þess sem honum er falið að flytja.

    Samkvæmt prédikunarguðfræði sem byggir á mikilvægi einstaklingsins í miðlun fagnaðarerindisins, er því ekki þannig farið. Hliðstæðan við prédikarann eða prestinn er miklu fremur vitnið heldur en boðberinn, sbr. Post. 4.20 um fólkið sem tjáir sig um það sem það hefur sjálft séð og heyrt og getur ekki þagað yfir. “Við getum ekki annað en talað það sem við höfum séð og heyrt.“

    Næstsíðasta biblíubloggið okkar rifjar því upp fordæmið sem við finnum í hinum fyrstu kristnu sem fóru með boðskapinn út í heiminn af því þau gátu ekki annað en talað það sem þau höfðu séð og heyrt.

  • Biblíublogg 21: Elskhugi minn

    Samband kristinnar trúar og kynlífssviðsins er margrætt og flókið. Bent hefur verið á að á sínum tíma hafi áhrifamiklir kristnir guðfræðingar hreinlega farið í stríð við kynhvötina og séð hana sem óvin og keppinaut trúarinnar.

    Það breytir ekki mannlegri reynslu og vitnisburðinum um hana, sem við finnum í Biblíunni. Ein áhugaverðasta bók ritningarinnar er Ljóðaljóðin sem innihalda ástarjátningar tveggja elskenda og mjög litríkar og fallegar lýsingar á unaði ástarinnar.

    Þessi vers úr fjórða kaflanum eru gott dæmi um það:

    Hve fögur ertu, ástin mín, hve fögur,
    og augu þín dúfur
    undir andlitsblæjunni.
    Hár þitt er sem geitahjörð
    sem rennur niður Gíleaðfjall,
    tennur þínar ær í hóp,
    nýrúnar og baðaðar,
    allar tvílembdar
    og engin lamblaus.
    Varir þínar eru sem skarlatsborði
    og munnur þinn yndislegur,
    gagnaugun eins og sneitt granatepli
    undir andlitsblæjunni.
    Háls þinn er eins og turn Davíðs
    sem vopnum er raðað á,
    þar hanga þúsund skildir,
    öll hertygi garpanna.
    Brjóst þín eru eins og tveir hindarkálfar,
    dádýrstvíburar
    að leik meðal lilja.
    Þegar kular í dögun
    og skuggarnir flýja
    mun ég halda til myrruhólsins
    og reykelsishæðarinnar.
    Öll ertu fögur, ástin mín,
    lýtalaus með öllu.

    Hér eru engir 50 gráir skuggar á ferð, heldur eintóm litadýrð, ást og unaður.

  • Biblíublogg 18: Margþætt merking öskunnar

    Í dag er öskudagur, sem markar upphaf föstunnar, sem í kristinni hefð er tími samlíðunar og iðrunar. Askan hefur verið notuð af kristnu fólki frá upphafi, til að tjá hluti sem er erfitt að koma í orð og kerfi en móta samt alla tilveru okkar. Í fyrsta lagi táknar hún forgengileikann. Askan minnir á eitthvað sem var, en er ekki lengur. Í annan stað er hún tákn um hreinsun, þar sem hún var notuð sem hreinsiefni í stað sápu. Í þriðja lagi er hún tákn um ákveðna hringrás sem kristin trú boðar, að við erum fædd af jörðu, við verðum að jörðu og við rísum upp af jörðu.

    Myndmál öskunnar á sér rætur í orðum ritningarversins í 1. Mósebók, 3. kafla, 19. versi sem er svona í íslenskri þýðingu:

    Því að mold ert þú
    og til moldar skaltu aftur hverfa.

    Í greftrunarhelgihaldi ensku kirkjunnar, í The Book of Common Prayer árið 1662 taka þessi orð á sig þessa mynd:

    earth to earth, ashes to ashes, dust to dust.

    Tilvistarlega tengingin er að þegar við förum í kirkju á öskudaginn og fáum öskukross á ennið, göngumst við þessum veruleika. Askan á enninu ber hlutum vitni sem við eigum kannski erfitt með að orða eða sætta okkur við, en trúum að við erum ekki ein um að bera.

    Öskukrossinn á enninu segir sögu manneskjunnar í heiminum, sem elskar, missir, saknar og deyr. Öskukrossinn tjáir líka trúna um í gegnum þjáningu og dauða Jesú, sem við íhugum á föstunni, tengjumst við hinum endanlega veruleika á sérstakan hátt.

    Askan á enninu nær utan um sársaukann sem við berum innra með okkur, sorgina yfir því sem við höfum misst og angistina yfir því að lífið sem við elskum verður fyrr en seinna tekið frá okkur.

    Askan á enninu er hjálp til að fá þetta til að ganga upp og feta sig eftir lífsveginum í trú á tilgang og merkingu í því sem við erum hér og nú.

    Mannleg tilvist er vist-leg því við erum hluti af hringrás vistkerfisins. Kannski er það eftir allt saman frekar heavy að horfast í augu við að alveg eins og við erum komin af jörðu, verðum við aftur að jörðu. En það er eins gott að hafa það í huga, það minnir öskudagurinn okkur á.