Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Biblíublogg 25: Maríukjúklingur

    Biblíumatur er bragðgóður og hollur. Í uppskriftirnar er notað hráefni sem var til á tíma Biblíunnar. Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju, er einn þeirra sem hefur eldað Biblíumat og sagt frá honum í ræðu og riti. Þessi uppskrift er sótt á vefinn hans.

    Maríukjúklingur fyrir fjóra

    Maríukjúklingur
    Maríukjúklingur.
    4 kjúklingabringur
    4-6 hvítlauksgeirar
    1 tsk kúmmín
    1,5 tsk túrmerik
    1 tsk kanill malaður
    Salvía, helst fersk annars þurrkuð
    1 stór rauðlaukur
    3 skalottulaukar (sbr. Askelon en líka oft kallaður vorlaukur á íslensku)
    Sítrónubörkur rifin með rifjárni
    Safi úr einni sítrónu (helst lífrænni) ca 70 ml. má líka vera appelsínubland
    150 gr. spínat
    300 ml. grænmetiskraftur
    10 döðlur – langskornar. Mega líka vera fíkjur/sveskjur í staðinn.
    Maldonsalt
    Heslihnetur – til skreytingar

    Maldonsalt og olía á heita pönnu. Kjúklingurinn á pönnuna og meira maldon yfir sem og salvían. Laukurinn skorinn fínt og steiktur, settur við hlið kjúklingabitanna. Kryddað yfir allt og sítrónubörkur yfir. Ekki síðra að leyfa síðan standa í sólarhring í kæli. Sítrónuvökvi, spínat og hnetur yfir og síðan fært í ofn eða pott og látið malla í fjörutíu mínútur. Gæta að vökvinn fari ekki allur, bæta við vatni ef sósan er að verða of þykk. Borið fram með soðnu bulgur (eða byggi eða kúskús).

    Verði þér að góðu.

  • Vinstri, kristni, hræsni

    Giles Fraser:

    Hypocrisy is an accusation often levelled at two groups in particular: lefties and the religious. And the thing that both these groups have in common is that they both want to employ a moral vision to redesign the world. Which opens the possibility of professing a position that one fails fully to live up to – ie hypocrisy. Indeed, unless one is a saint, I cannot see how it is possible to be a Christian and not a hypocrite. To my mind, this hypocrisy is a near inevitable consequence of taking any sort of moral stand.

    Fraser fléttar saman kristni, vinstriáherslur í pólitík og hræsni um leið og hann minnir á að við eigum að taka afstöðu og gera kröfur, til okkar sjálfra og annarra, jafnvel þótt við getum ekki alltaf risið undir þeim.

  • Biblíublogg 24: Hugleikur og heimsendir

    Opinberun eftir Hugleik Dagsson
    Tveir rammar úr myndasögunni Opinberun eftir Hugleik Dagsson.

    Myndasagan Opinberun eftir Hugleik Dagsson fjallar um það þegar nokkrar geimverur setja upp sjónvarpsleikrit – eins konar raunveruleikasjónvarp – sem er byggt á Opinberun Jóhannesar. Það er síðasta bókin í Biblíunni, hún fjallar um heimsslit og geymir margar afar myndrænar lýsingar.

    Það er bæði forvitnilegt og gagnlegt að lesa bókina, ekki síst fyrir það hvernig hún bregður ljósi á bókastafstúlkun á Biblíutextunum. Í meðförum Hugleiks er það beinlínis spurning um líf og dauða.

  • Biblíublogg 20: Fastan og ferðaþjónustan

    Er sú fasta sem mér líkar
    sá dagur er menn þjaka sig,
    láta höfuðið hanga eins og sef
    og leggjast í sekk og ösku?
    Kallar þú slíkt föstu
    og dag sem Drottni geðjast?
    Nei, sú fasta sem mér líkar
    er að leysa fjötra rangsleitninnar,
    láta rakna bönd oksins,
    gefa frjálsa hina hrjáðu
    og sundurbrjóta sérhvert ok,
    það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
    hýsir bágstadda, hælislausa menn
    og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
    og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.
    Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði
    og sár þín gróa skjótt,
    réttlæti þitt fer fyrir þér
    en dýrð Drottins fylgir eftir. (Jes 58.5-8)

    Margir hafa þá mynd af föstunni að hún sé tíminn þegar við neitum okkur um eitthvað, til dæmis kjöt, að við fórnum einhverjum af lífsgæðunum til að geta betur einbeitt okkur að Guði. Í 58. kafla spádómsbókar Jesaja birtist önnur mynd. Hér er fastan ekki fórnartími heldur þjónustutími þegar hagsmunir þeirra sem hafa það ekki eins gott og við eru settir í forgrunn. Út frá því mætti segja að fastan í ár væri til dæmis góður tími til að klára lagfæringar á ferðaþjónustu fatlaðra.

  • Risaeðla í kirkjunni

    Það er gaman í kirkjunni. Í gær rakst ég á litla risaeðlu sem skreið um kirkjugólfið.

    The church is not a dinosaur, but sometimes you can find a dinosaur crawling in the church.

    A photo posted by arnisvanur (@arnisvanur) on

  • Lækin og lífið

    Lífið er læk var yfirskrift morgunverðarfundar Advania í síðustu viku. Þar fluttu þrír fyrirlesarar vekjandi erindi um notkun unglinga á samfélagsmiðlum, hvernig á að nálgast þetta viðfangsefni, hvar ber að varast og hvað er til eftirbreytni. Erindi voru tekin upp og hægt er að horfa á þau á vef Advania.

    Flott framtak.

  • Mótmæli í þremur liðum

    Bjarni Karlsson, prestur:

    Jón Gnarr er í mínum huga hellings mikill frelsari sem í argasta gríni og fúlustu alvöru hefur opnað augu margra fyrir því að það er í lagi að vera alls konar og að við græðum öll á fjölbreytileikanum. Þess vegna langar mig að mótmæla aðalatriðinu í grein hans „Guð er ekki til“ sem birtist hér á þessum vettvangi sl. laugardag.

    Mótmælendaprestur mótmælir fullyrðingum um trú og vísindi, heilbrigði og tjáningarfrelsi í stuttum pistli.

  • Biblíublogg 19: Teiknimyndin

    Það er hægt að miðla Biblíusögunum með margvíslegum hætti. Til dæmis í teiknaðri skýringarmynd eins og þessari sem fjallar um 12. kafla fyrra bréfs Páls til Korintumanna. Þar segir meðal annars:

    Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur. Í einum anda vorum við öll skírð til að vera einn líkami, hvort sem við erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og öll fengum við einn anda að drekka.

    Vísun frá Mary Hess.

  • Biblíublogg 17: Kona tapar peningum

    Í fimmtánda kafla Lúkasarguðspjalls eru fléttaðar saman þrjár dæmisögur Jesú. Ein um týndan sauð, ein um týndan son og sú þriðja um konu sem týnir peningum. Hún er svona:

    Eða kona sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega uns hún finnur hana? Og er hún hefur fundið hana kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: Samgleðjist mér því að ég hef fundið drökmuna sem ég týndi. Þannig segi ég yður að englar Guðs munu gleðjast yfir einum syndara sem bætir ráð sitt.“ Lk 15.8-10

    Jesús notaði dæmisögur til að ná til áheyrenda sinna, miðla trúarboðskapnum og kveikja spurningar. Sögurnar eru þess eðlis að þær kalla á viðbrögð um leið og þær hvetja þann sem les eða hlustar til að hugsa um sig í samhengi sögunnar. Þannig er einn lykill að því að upplifa og meðtaka dæmisögurnar spurningar eins og: Hver er ég í þessari sögu? Hver er ég ekki?

    Prófaðu að lesa nokkrar dæmisögur með þetta í huga og sjáðu hvaða áhrif það hefur á upplifunina.

  • Mótun til mannúðar

    Gunnar Kristjánsson, sóknarprestur á Reynivöllum:

    Það skiptir máli að við mótumst til mannúðar í bernsku okkar og æsku,

    • að við mótumst til að vera þátttakendur í baráttu þeirra, sem eiga á brattann að sækja,
    • að við mótumst til að standa með þeim sem verða fyrir einelti í stað þess að leggja aðra í einelti,
    • að við mótumst til þess að láta okkur þykja vænt um fólk í stað þess að líta á aðra sem óvini okkar,
    • að við lærum að vera frjáls í stað þess að ánetjast því sem vont er og gæti fjötrað okkur þeim fjötrum sem við losnum kannski aldrei úr.

    Mótun til mannúðar, það er gott leiðarhnoð í uppeldinu.