Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Tjáningarfrelsið og trúin

    Rúv greinir í dag frá breytingum á norskri refsilöggjöf sem voru samþykktar í gær:

    Norðmenn geta frá og með deginum í dag lastað hverja þá guði og gyðjur sem þeim sýnist án þess að eiga yfir höfði sér ákærur eða refsingar af hálfu hins opinbera. Í gær samþykkti norska stórþingið endanlega breytingar á refsilöggjöfinni sem fólu í sér að grein 142 var felld úr lögunum.

    Í gær birtist líka pistill eftir Sigurjón Árna Eyjólfsson sem fjallar um trúna og tjáningarfrelsið. Þar segir:

    Ég þarf því ekki að minna á að Jesús frá Nasaret var tekin að lífi fyrir guðlast. Það eitt ætti að nægja til að minna á að innri rök kristins trúarsamfélags styðja ytri kröfur nútímasamfélags um að ekki eigi að vera hömlur á tjáningarfrelsi um málefni og um trúmál eiga ekki að gilda aðrar reglur en um önnur samfélagsleg málefni. Það mætti orða þetta svo að skotleyfið er á skoðanir og hugmyndir en ekki á einstaklinga.

    Það er gott að hafa þetta í huga þegar rætt er um málefnið, fólkið og umræðuna.

  • Skóflustunga

    Í gær var tekin skóflustunga að nýrri viðbyggingu við Klettaskóla. Þetta þykir okkur alveg frábært því það mun gera Klettaskóla – sem er frábær skóli – enn betri. Því ber að fagna. Á vef skólans eru nokkrar myndir.

  • Ég og Kim Kardashian

    Árni prédikaði í Laugarneskirkju:

    Samfélagsmiðlarnir eru leikvöllur. Leikvöllur sjálfsins. Þar sem við drögum upp mynd af okkur sjálfum og myndum tengsl á grundvelli þess. Við skrifum, birtum myndir, tökum þátt í samtali. Oftast undir eigin nafni, stundum undir dulnefni.

    En þeir eru meira. Þeir eru líka vettvangur samfélagsins til að hugsa upphátt sem hópur. Og þeir geta skapað samkennd og tilfinningu fyrir því að við getum/megum/eigum að taka þátt og fyrir því að við séum hluti af einhverju sem er stærra – jafnvel miklu stærra – en við erum sjálf.

  • Biblíulestur í hádeginu

    Í Laugarneskirkju í hádeginu:

    Tíminn á milli páska og hvítasunnu eru gleðidagar. Á þessu tímabili ætlum við að íhuga sérstaklega gjafir lífsins sem við þiggjum úr Guðs hendi. Í hverju þriðjudagshádegi verður sóknarpresturinn með heitt á könnunni og opið hús, kl. 12.15 – 13, og leiðir samtal og biblíulestur út frá þema gleðidaganna.

    Kíktu í heimsókn ef þig langar að staldra við og eiga samtal sem vekur til umhugsunar um þakkarefni lífsins. Hlakka til að sjá þig!

  • Selirnir og sunnudagaskólinn

    Sunnudagaskólinn í Húsdýragarðinum 5. apríl 2015.

    Börn og fullorðnir skemmtu sér konunglega.

    Ein af skemmtilegustu upplifunum páskadags var sunnudagaskólinn í Húsdýragarðinum. Skemmtunin hófst með því að selunum fjórum var gefið og svo var haldið í tjaldið í garðinum þar sem við tók söngur, sögur og bænir undir handleiðslu presta og sunnudagaskólakennara úr Laugardalnum að viðbættum Þorvaldi Halldórssyni sem lék undir. Börn og fullorðnir skemmtu sér konunglega.

    Ps. Rúv mætti á staðinn.

  • Ömurlegt kvöld, opið hjarta

    Árni í prédikun á skírdagskvöldi:

    Altarisgangan er semsagt matarboð. Og hún er í senn eins og þessi venjulegu matarboð sem eru haldin út um alla borg og enginn tekur eftir og líka þessu flottu sem eru mynduð fyrir Gestgjafann og Smartland.

  • Úlfurinn Jesús

    Morgunprédikun um lærdóminn sem felst í bókinni Vertu úlfur og orðaskipti Jesú og Pílatusar.

  • Jón, séra Jón og skólareglurnar

    Ragnar Þór Pétursson kennari um skólana, sólmyrkvann, gleraugun og gjafirnar:

    Nær væri að nefna að fyrir utan hið augljósa, að þessar fráleitu reglur þarf að setja á höggstokkinn strax í dag, þá er ástandið í grunnskólum Reykjavíkur orðið pínlega vandræðalegt þegar kemur að öllum þessum misráðna graut tillitssemi og ofverndunar. Sjálft Skóla- og frístundasviðið undanþegur sjálft sig öllum reglum um hverju halda megi að börnum. Dómgreind miðstýringarvaldsins er ekki dregin í efa – aðeins dómgreindir allra annarra. Þannig gengst borgin sjálf fyrir því að vekja athygli á tilteknum bókum á hverri vertíð. Skiptir þar engu þótt bækur séu söluvara og börnin neytendurnir. Og það eru ekki sérlega margar vikur síðan börnum í reykvískum skólum var safnað saman til að hlusta á Friðrik Dór syngja lagið sem hann vildi að þau fjármögnuðu til Austurríkis.

    Það virðist ekki vera saman hvort Jón eða séra Jón mætir í skólana.

  • Tuttugasti og annar er vatnsdagur

    22. mars er vatnsdagur

    Í dag er alþjóðlegur dagur vatnsins. Þá er gott að rifja upp grundvallaratriði eins og þetta:

    Kirkjan stendur föstum fótum í grundvallarskilningi sínum á því að vatnið sem grunnefni lífs og Guðs gjöf til allra, eigi aldrei að lúta markaðslögmálum eða gróðasjónarmiðum sem koma niður á almannahagsmunum. Hún leitar í sína eigin hefð að myndmáli og áherslum sem undirstrika samábyrgð okkar gagnvart hvert öðru og umhverfinu sem við tilheyrum. Þannig eru áþreifanleg vatnsmál tjáð með hugtökum guðfræðinnar og orðfæri trúarinnar.

  • Tuttugasti og fyrsti þriðji er Downsdagur

    Síðasta kvöldmáltíðin - Mamedov

    Tuttugasti og fyrsti þriðji er alþjóðlegur dagur þrístæðu tuttugu og eitt, dagur Downs heilkennisins. Í tilefni dagsins langar okkur að deila með ykkur þessari fallegu mynd af síðustu kvöldmáltíðinni. Listamaðurinn heitir Raoef Mamedow og er frá Azerbaidjan. Hann hefur gert fleiri svona trúarmyndir.