Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Þar sem gleði og depurð búa saman

    Þessa dagana er teiknimyndin Inside Out sýnd í kvikmyndahúsum hér á landi. Hún fjallar um það sem gerist innra með okkur mannfólkinu – tilfinningalífið. Í brennidepli er samspil tveggja tilfinninga: gleði og depurðar.

    Boðskapur myndarinnar er að til að lífið sé í jafnvægi þurfi þessar tvær tilfinningar að vera í jafnvægi. Þar sem gleðin ein ræður verður manneskjan meðvirk, þegar depurðin hefur yfirhöndina verðum hún þunglynd. Þar sem gleði og depurð haldast í hendur verður til jafnvægi sem getur leitt til hamingju.

    Þetta er lexía um lífið og jafnframt góður boðskapur inn í heimilislífið. Heimilið og fjölskyldan sem þar býr eiga nefnilega að vera staðurinn þar sem við getum upplifað allan tilfinningaskalann og verið örugg. Um leið á heimilið að vera staður þar sem við þurfum ekki að bera sársaukann og depurðina í lífinu ein og staður þar sem við getum deilt og upplifað hina dýpstu gleði með öðrum.

  • Skósveinarnir, Grú og Jesús

    Í dag verður frumsýnd kvikmynd hér á landi sem er eins konar forsaga myndanna tveggja um Aulann Grú. Hún heitir Skósveinarnir eftir söguhetjunum litlu sem hafa heillað áhorfendur um allan heim. Þeir eru gulir og sætir og næstum hnöttóttir, sumir með eitt auga, aðrir með tvö og þeir bralla og babla hver í kapp við annan.

    Þegar við kynnumst þeim í fyrstu kvikmyndinni eru skósveinarnir þjónar Grú og þeir aðstoða hann fyrst við glæpi og spellvirki og síðar við gæskuverk af ýmsum toga. Í kvikmynd dagsins fáum við að kynnast forsögunni. Við sjáum hvernig þeir hafa verið hluti af sögu lífs á jörðu frá upphafi og hafa alla tíð þjónað sterkasta leiðtoganum. Jafnan þeim sem er verstur allra. Kannski er það líka háttur heimsins að upphefja þann sem valdið hefur.

    *

    Morgunlestur þessa miðvikudags (Róm 13.8-10) fjallar einnig um samband fylgjenda og leiðtoga. Við lesum:

    „Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið.“

    Jesús kallar okkur til fylgis við sig. En ekki þó til að vera gagnrýnislausir skósveinar heldur til að beita huga og hjarta í þágu hins góða. Til uppbyggingar. Til að elska náungann. Það er hið sanna og eina lögmál sem okkur ber öllum að fylgja. Guð gefi okkur styrk sinn til þess og Guð gefi okkur einnig gleði skósveinanna hans Grú í þeirri þjónustu.

  • Það er ekki of seint

    Lestin

    Við byrjum í lestarferð.

    Ung blaðakona er stödd í lestinni sem er á leið milli tveggja borga í Bandaríkjunum. Hún heyrir útundan sér símtal manns sem er háttsettur hjá Umhverfisstofnun ríkisins. Hann tjáir sig óvarlega. Blaðakonan gengur svo á hann, kynnir sig og segist hafa heyrt í honum. Af því að hann hafi verið að tala í lestinni – sem er opinber staður – njóti hann engrar friðhelgi. Þarna hefur semsagt átt sér stað leki úr Umhverfisstofnuninni. Á mikilvægum upplýsingum.

    Þetta atriði kemur fyrir í sjónvarpsþáttunum Newsroom sem voru sýndir fyrir nokkrum árum í Bandaríkjunum. Framhaldið er ekki síður áhugavert. Blaðakonan unga er með pálmann í höndunum og getur sagt krassandi frétt en hún vill ekki stilla manninum upp við vegg. Þau semja: Hann lætur hana fá skýrslu á undan öðrum fjölmiðlum og samþykkir svo að koma í viðtal út af henni.

    Viðtalið fer síðan á annan veg en við er að búast. Umfjöllunarefnið er plánetan okkar og hnattræn hlýnun – sem sumir virðulegir menn vestanhafs ræða undir sömu formerkjum og efnahagshrunið á Íslandi: Meint hnattræn hlýnun. Sem er hún er ekki.

    Nema hvað, í viðtalinu er spurt sömu spurninga og alla jafna er spurt í svona viðtölum: hvernig er staðan? Hverju þarf að breyta til að snúa hlýnunarferlinu við? Hverjar verða afleiðingarnar ef við snúum þessu ekki við. Og viðmælandinn – sérfræðingur á þessu sviði svarar: Staðan er ómöguleg. Það er ekkert hægt að breyta þessu. Þessu verður ekki snúið við. Það er of seint. Við horfum fram á hörmungar.

    Frans sendir bréf

    Það var greint frá öðrum leka í fjölmiðlum í vikunni. Úr sjálfu Vatikaninu. Nýjasta páfabréfið sem hefur yfirskriftina Lof sé – Laudato si. Það hefst á bæn eftir dýrlinginn Frans frá Assisi:

    „Lof sé þér Drottinn minn, fyrir systur okkar, Móður Jörð, sem nærir okkur og viðheldur og sem gefur margvíslega ávexti, lituð blóm og jurtir.“

    Frans sem var ítalskur munkur og lifði á Ítalíu á 13. öld er meðal annars þekktur fyrir hófsemi og virðingu fyrir dýrum og umhverfi en ekki bara manneskjunni.

    Bréf nafna hans sem situr á páfastóli fjallar um umhverfismál og það kannski var eins gott að það lak því það þurfti að milda höggið sem því fylgir. Umfjöllunarefnið er svolítið franslegt: umhverfið, nægjusemin.
    Undirliggjandi og þó ekkert svo mikið undir heldur á yfirborði er kerfisgagnrýni á það hvernig við umgöngumst jörðina. Meginatriðin í bréfinu má draga svona saman:

    1. Loftslagsbreytingar eru raunverulegar. Þetta er ekki að batna, það er að versna. Páfinn segir að í þeim felist ein mesta áskorun mannkyns á okkar tímum og við stöndum frammi fyrir áður óþekktum breytingum á vistkerfum sem hafa verulegar afleiðingar fyrir okkur öll.
    2. Mannfólkið ber höfuðábyrgð á loftslagsbreytingum.
    3. Loftslagsbreytingar hafa mikil áhrif á hin fátæku í heiminum – hlutfallslega meiri en á aðra.
    4. Við getum og verðum að gera það sem í okkar valdi stendur til að bæta úr þessu.
    5. Einstaklingar geta lagt sitt af mörkum en stjórnmálamenn verða að leiða þessa vinnu.

    Enski presturinn Giles Fraser lagði út af páfabréfinu í pistli í dagblaðinu Guardian í gær þar sem hann sagði Frans páfa líkjast baráttukonunni Naomi Klein – í hempu. Fraser segir þar meðal annars: Manneskjan er í grundvallaratriðum eins og stórt barn, knúin áfram af löngunum sínum: ég ég ég, vil vil vil. Kapítalískt hagkerfi reynir að uppfylla þessar langanir alveg óháð því hverjar þær eru.

    Hann bætir við að kapítalisminn sé öflugt kerfi til að mæta eða koma til móts við það sem fólk vill – til að uppfylla langanir – en að hann geri engan greinarmun á því sem manneskjur vilja og því sem þær þurfa. Afleiðingarnar séu skelfilegar fyrir plánetuna okkar og fyrir hamingju eða velferð einstaklinganna.

    Týndir synir, týndar dætur

    Söguna um týnda soninn sem við lesum í kirkjunni í dag má heimfæra á þetta. Sonurinn sem fór að heiman er stóra barnið – sem heimtar peninga, fer út í heim, lifir lífinu óháð öðrum og endar í svaðinu. Hófsami bróðirinn varð eftir heima. Faðirinn fagnar þegar týndi sonurinn kemur aftur heim og tekur hann að sér.

    En það er hinsvegar ekki í boði að lifa áfram hinu ýkta lífi sóunarinnar. Það er í boði að lifa í samfélagi og yrkja jörðina. Lifa í nægjusemi. Þótt það sé haldin veisla endrum og sinnum þá er lífið semsagt ekki veisla 24 tíma á sólarhring, 7 daga vikunnar. Frans páfi er því kannski að kalla á týnda syni og dætur þessa heims. Hættið að sóa, gerið greinarmun á þörfum og löngunum, komið heim.

    Um leið er hann að kalla eftir því að við sjáum okkur öll sem hluta af heild. Skiljum að náunginn er ekki bara sá sem býr undir sama þaki og við og ekki bara sá sem býr í sömu borg eða sama landi eða sömu heimsálfu og við heldur allir sem við getum haft áhrif á með höndunum okkar, huganum og hjartanu – og þar liggur allur heimurinn undir.

    „Auðvitað getum við breytt heiminum“

    Þess vegna er svo gott að við höfum í þessari messu með okkur góðan kór frá systurþjóðinni í austri, frá dómkirkjunni í Niðarósi sem var einu sinni ein af okkar dómkirkjum. Við erum þakklát fyrir þá nærveru hér og líka fyrir tónlistina sem er hið sammannlega tungumál. Mér finnst líka sérlega dýrmætt að hafa ykkur hér því frá Noregi höfum við fengið ungliðahreyfinguna Changemaker sem vinnur eftir slagorðinu: Auðvitað getum við breytt heiminum og hefur kennt okkur að við erum hendur Guðs til góðra verka í heiminum.

    Forsvarsmaður umhverfisstofnunarinnar í Newsroom var ómyrkur í máli og hann var líka vonlaus. Frans páfi er ómyrkur í máli en hann á von. Hún byggir á skýrri sýn á vandamálin og kallar á samstöðu við lausn þeirra. Hún krefst kerfisbreytingar. Ég held við eigum að fylgja honum að máli í þessum efnum.

    Við ætlum að bjarga þessari plánetu.
    Við ætlum að bjarga þessu fólki.
    Það er ekki of seint.
    Við ætlum að gera það saman.

    Ertu með?

    Dýrð sé Guði sem elskar heiminn.
    Dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást.
    Dýrð sé heilögum anda sem er þessi ást.

    Flutt í Langholtskirkju, á þriðja sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 21. júní 2015.

     

  • Það er dýrt að vera fátækur

    Tónlistin okkar hljómar í sálinni, sagði kona í samtali við Fréttastofu Rúv í gærkvöldi. Hún var að segja frá þjóðlagasöng sem er iðkaður þessa helgi á Akureyri. Af orðunum mátti ráða að tónlistin skiptir máli. Hún snertir sálina,  getur nært hana og lyft henni upp.

    Mig langar að íhuga tónlist og trú í dag og ég ætla að gera það með því að leggja út af þremur tónleikum sem ég hef sótt á undanförnum vikum.

    Fyrst hlustaði ég á síðpönksveitina Trúboðana sem fagnaði útkomu plötunnar Óskalög sjúklinga. Þá tróð söngvaskáldið Svavar Knútur upp og fagnaði útkomu fjögurra platna á vínil. Það er stundum svolítið pönk í honum. Loks var það frumpönkarinn T. V. Smith sem gaf innsýn í sína tónlist. Ég lærði sitthvað á þessum tónleikum og mig langar að deila því með ykkur í kirkjunni í dag.

    *

    Trúboðarnir tróðu upp á Gauknum. Þeir syngja um smáatriðin í daglegu lífi  sem spegla samtímann og ljúka lífinu upp. Óskalög sjúklinga beina kastljósinu að því sama og kvöldfréttirnar: Heilbrigðiskerfinu og fólkinu sem þiggur þjónustuna:

    Færðu fatið undir lekann
    Sérðu ekki að húsið það er fokhelt
    Lyftan aftur föst aá milli hæða
    Hjartastuðtækið orðið straumlaust

    Söngvarinn er staddur á spítalanum og og það sem styttir stundir eru hin nostalgísku óskalög sjúklinga. Svo lýkur laginu á þessum hendingum:

    Ég hlusta á’ óskalög sjúklinga
    fæ ég lifrarígræðsluna
    náðu í nýrnavélina
    viltu græða í mig sálina.

    Undirliggjandi eru skilaboðin um að kerfið sé ekki í fullkomnu lagi þótt manneskjan þrauki.

    Það sama er uppi á teningnum í laginu Vantrúboð:

    Ei skal hafa annan guð en Glitni
    Glöð við beygjum höfum til Nastakk
    Gröfum síðan gömul hindurvitni
    Við Guð við segjum einfaldlega nei takk
    – Hvaða guð sé oss næstur

    Athygli hlustandans er líka beint að trú og trúarhefðum í skólastofunni og sungið um gildismat. Trúboðarnir spyrja hvort það geti verið að við séum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Textinn er brýnandi og málefnið mikilvægt.

    Lög Trúboðanna eru þétt og kraftmikil, textarnir fullir af boðskap og spurningarnar um samfélagið okkar brýnandi. Þetta er gott stöff.

    *

    Svavar Knútur lék og söng á Rósenberg.
    Svavar Knútur heillaði gesti á Rósenberg.

    Svavar Knútur söng á Rósenberg og beindi hug og hjarta  að gildi einveru og íhugunar, sársaukanum sem getur fylgt því að vera manneskja og að ferðaþránni sem leiðir okkur á ókunnar lendur. Hann söng um lífið í hæðum og lægðum á minimalískan og einfaldan hátt sem snertir hjartað. Í lagasmíðum sínum hefur Svavar líka beint sjónum að ranglátum kerfum og lýst áhyggjum.

    Eitt besta dæmið um það er lagið Af hverju er ég alltaf svona svangur. Þar er sungið er á gamansaman hátt um uppvakninga – zombíur – sem kunna að meta Bauhaus og Bylgjulestina, Kringluna og Smáralind. Undirliggjandi eru áhyggjur af gildismati sem metur neysluna meira en manneskjur. Það er gildismat hagvaxtarins sem stundum virðist tröllríða öllu.

    *

    T. V. Smith í fullu fjöri á Dillon.
    T. V. Smith í fullu fjöri á Dillon.

    Svo var það pönkarinn T.V. Smith sem trommaði gítarinn sinn áfram á Dillon og kyrjaði hrá pönklög um kerfisbundið ranglæti. Laglínurnar voru einfaldar og textarnir boruðu sig undir kvikuna. Það er dýrt að vera fátækur syngur T. V. Smith:

    Það er dýrt að vera fátækur,
    því allt kostar meira,
    ég banka á luktar dyr.
    Það er dýrt að vera fátækur,
    vill einhver kasta til mín nokkrum brauðmolum,
    ég skal borða þá af gólfinu.
    Það er dýrt að vera fátækur,
    en ég lít kannski vel út þegar ég er fullur örvæntingar.

    Upp úr lögunum hans stendur ekki bara tilfinning fyrir ranglæti heldur spurningar: Ertu með? Eigum við að breyta heiminum?

    *

    Kæri söfnuður.

    Við erum enn inni á áhrifatíma Hvítasunnunnar. Hátíðar heilags anda. Og heilagur andi talar til okkar með margvíslegum hætti. Í gegnum reynsluna í lífinu, gegnum þrautir og sigra. Í daglegu lífi. Í tónlistinni sem við heyrum. Líka þegar við búumst bara alls ekki við því.

    Trúboðarnir brýna okkar. Ekki með því að segja: Eitt er best og miklu betra en annað heldur með því að spyrja út í gildismatið og spyrja um það hvernig og hvers vegna og setja fingurinn á það sem er kannski bara svolítið ranglátt og ætti að vekja okkur til umhugsunar. Það sama gera Svavar Knútur og T. V. Smith.

    Svo er það kirkjan.

    Hér syngjum við líka.

    Hér erum við líka að fást við sömu spurningar og tónlistarmennirnir gera í lögum sínum.

    Spurningar um það hvernig við búum til gott og réttlátt samfélag.

    Hjörtun okkar slá í takt og við ætlum að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins.

    Hvað þýðir það?

    Það þýðir að við viljum betri heim.

    Eins og Jesús.

    Það þýðir að við viljum gera heiminn betri. Sjálf.

    Eins og Jesús.

    Kannski þurfum við bara svolítið pönk í kirkjuna. Var Jesús ekki töluverður pönkari – svona miðað við viðbrögðin sem hann fékk? Kannski er kirkjupönk kall dagsins.

    Við þurfum að byrja núna.

    Því kerfið er ekki fullkomið.

    Og þá þarf að bretta upp ermarnar og gera breytingar.

    Annað var það nú ekki.

    Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé Jesú sem þorði að vera öðruvísi og orða hlutina eins og þeir eru, dýrð sé heilögum anda sem gefur hugrekki til að aðhafast.

    Þessi prédikun var flutt í síðdegismessu í Laugarneskirkju á öðrum sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 14. júní 2015.

  • Roðdregna Biblíu? Nei, takk

    Í kvikmyndinni Super Size Me sem var sýnd hér á landi fyrir rúmum áratug ræðir kvikmyndagerðarmaðurinn Morgan Spurlock meðal annars um kjúklinganagga og hann spyr: „Úr hvaða hluta kjúklingsins er kjúklinganaggurinn eiginlega?“

    Svarið er: Naggurinn er ekki úr einu stykki af kjúklingi heldur úr næstum því heilum kjúklingum sem eru maukaðir. Því næst spurði Spurlock: „Hvað er hráefni úr mörgum kjúklingum í einum nagga?“ Svarið var: Mörgum.

    Kæri söfnuður.

    Ég ætla ekki að prédika um kjúklinganagga. Ég ætla að tala um Biblíuna. Og um fisk. En kjúklinganaggurinn er gagnlegur sem líking og þannig verður hann meðhöndlaður í dag. Meira um það á eftir.

    Hvernig lesum við Biblíuna?

    Biblían er á dagskrá á þessu ári. Hún er auðvitað alltaf á dagskrá í kirkjum og samfélagi en í ár fær hún aukið rými af því að Hið íslenska Biblíufélag er tvö hundruð ára. Það liggur því beint við á einum af lykildögum kirkjuársins – Sjómannadeginum – að íhuga hvað Biblían er og hvernig við meðhöndlum hana.

    Hvað gerum við þegar við lesum, íhugum og notum Biblíuna? Hvernig nálgumst við hana og hvernig berum við hana áfram?  Það er kannski viðeigandi að taka líkingu af fiski af því að það er Sjómannadagur. Ef Biblían er fiskur og við erum fisksalinn, hvað gerum við?

    • Afhendum við hana heila? Gjörðu svo vel, hér er hún, gerðu endilega eitthvað með hana. Viltu uppskriftabækling?
    • Skerum við hausinn og sporðinn af af því að það er efni í henni sem á ekki erindi við fólk, efni sem við skömmumst okkar fyrir? Hér er Biblían þín, hér eru sögurnar, en ég ætla að halda nokkrum eftir af því að þær eru leiðinlegar, skipta ekki máli, gagnast ekki eða ég skammast mín kannski fyrir þær.
    • Roðdrögum við Biblíuna (roðflettum fyrir okkar sunnanfólkið) þannig að flakið eitt sé eftir? Snyrtum hana og gerum fallega og höldum svo eftir kjarnanum? Skerum hana kannski í bita af því að fólk höndlar hana ekki í heild en getur meðtekið smá búta í einu?
    • Sjóðum við hana kannski – eldum úr rétt? Búum við til rétt – til dæmis prédikun?

    Hvað gerum við og hvernig meðtekur fólk Biblíuna í dag? Gerum við kannski allt þetta og jafnvel meira til?

    Ótúlkað, túlkað, oftúlkað

    Það hefur verið eitt af einkennum hinnar lúthersku nálgunar við Biblíuna að fólk eigi að hafa aðgang að henni sjálft. Til að lesa og íhuga, rýna, gagnrýna. Það þýðir ekki að við veljum ekki úr texta til að lesa í kirkjunum – eins og textana þrjá sem við lesum hér í dag. Það þýðir að við notum þá sem dæmi um heildina, en þeir eiga ekki að koma í stað hennar.

    Það er meira. Við erum meðvituð um að Biblían er opið rit. Hún er túlkuð. Raunar finnum við fjölda dæma um það í Biblíunni sjálfri – það eru textar sem kallast á gegnum ritin, árin og aldirnar.

    En það eru ekki allir sem vilja gera þetta. Tveir hópar andæfa þessari nálgun. Báðir hafa bókstafstrúarnálgun við Biblíuna:

    • fundamentalískir vantrúarmenn
    • fundamentalískir trúmenn

    Það einkennir slíka nálgun við Biblíuna að vilja líta svo á að það sé bara til ein rétt túlkun á textum. Og að hún sé augljós. Það einkennir þessa nálgun að vilja velja og hafna, snyrta burt óheppilegu textana (eða kannski þá heppilegu eftir því hvernig á það er litið) en vilja halda öðrum á lofti. Slíta þá úr samhengi og hafa uppi stóra yfirlýsingar: „Svona segir Biblían.“

    Þetta er ekki góð nálgun. Við eigum ekki að búta Biblíufiskinn svona niður og halda á lofti einstökum versum, án samhengis og túlkunar.

    Hvers vegna?

    Vegna þess að hér er gefið í skyn að samhengið skipti ekki máli. Vegna þess að hér er ekki tekið tillit til þess hvað Biblían er og hvernig hún varð til. Vegna þess að hér verður til hætta á misnotkun Biblíunnar. Til dæmis til að berja á fólki sem á  undir högg að sækja í samfélaginu.

    Fúndamentalistarnir segja: Það er ein túlkun og aðeins ein sem er möguleg. Hin lútherska áhersla er andstæð þessu: Textinn er túlkaður, hann kallar á túlkun, hann krefst túlkunar.

    Biblían er fiskur

    Biblían er fiskur. Eða eins og fiskur.

    Fiskflak.

    Hnakkastykki.

    Heill.

    Fúndamentalisminn vill ekki aðeins roðdraga Biblíuna, hann vill gera úr henni nagga: taka það sem var lífræn heild og búa til úr því eitthvað nýtt sem samanstendur af mörgum smáeiningum en þiggur ekki bragð af þeim heldur af kryddi sem er bætt í og ónáttúrulegum bragðefnum.

    Að nálgast Biblíuna í trú er hins vegar að virða heildina, leyfa henni að tala til sín og leita að þræðinum eða þráðunum sem koma saman. Á hverjum sunnudegi hafa til dæmis verið valdir saman lestrar sem miðla afstöðu trúarinnar til lífsins. Í dag er einn þráðurinn svohljóðandi:

    Treystu Guði.

    Vonaðu á Guð.

    Því að Guð er trausts verð/ur og þar getur þú fundið logn í stormum lífsins.

    En ekki bara þetta.

    Treystu líka sjálfum eða sjálfri þér til að lesa Biblíuna og hlusta eftir orði Guðs.

    Treystu þér.

    Við gerum það.

    Það er hin lútherska nálgun.

    Það er boðskapur dagsins.

    Dýrð sé Guði föður sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýðr sé heilögum anda sem er þessi ást.

    Flutt í Áskirkju á Sjómannadegi, 7. júní 2015. Mynd: August Linnmann.

  • Innkaupatangó á Klapparstíg

    Sviðið á Rósenberg við Klapparstíg er ekki stórt en í gær mættust þar tvær harmonikkur, tvær fiðlur, eitt klarinett, einn gítar og einn kontrabassi að viðbættum sjö hljóðfæraleikurum. Í einu lagi mátti jafnframt heyra leikið á greiðu. Þarna var hljómsveitin Mandólín mætt til að leika og syngja fyrir unnendur góðrar tónlistar.

    Sigríður Ásta Árnadóttir hafði orð fyrir hópnum og tilkynnti tónleikagestum að nú yrði leikinn tangó sem kallaðist á við ástina, tunglið, rauða kjóla, reiða eiginmenn og afbrýðisamar eiginkonur. Tónleikagestir voru hvattir til að taka sporið ef þá lysti. Ungt par sem stóð á stéttinni utan við staðinn tók hljómsveitina á orðinu og steig dans við fagra tóna. Það magnaði bara upplifunina og gerði kvöldið eftirminnilegra.

    Lögin komu úr ýmsum áttum, meðal annars var sungið á rúmensku, finnsku, jiddísku og þýsku að ógleymdu okkar ástkæra móðurmáli. Lögin fjölluðu um ást og nánd og fjarlægð og báru með sér nálægan og fjarlægan þokka. Eftirminnilegastur er líklega innkaupatangóinn sem gaf alveg nýja sýn á Nóatúnsverzlanirnar, franskbrauð og innkaupakerrur.

    Þetta var eftirminnilegt kvöld og það er full ástæða til að þakka fyrir sig og smella læki á bandið á Facebook svo við sjáum örugglega hvar og hvenær þau spila næst.

  • Rýnt í Hrúta

    Kvikmyndin Hrútar eftir Grím Háskonarson var frumsýnd í Cannes fyrr í mánuðinum og á Íslandi í vikunni. Ég skrifaði stutta umfjöllun um myndina sem birtist á vef Deus ex cinema. Þar eru hliðstæður við Biblíutexta dregnar fram, en þær eru nokkrar í myndinni. Þetta er alveg frábær kvikmynd sem full ástæða er til að sjá í bíó.

  • Mýkingarefni handa hjörtum

    Ég ætla að kenna þér boðorð sem getur breytt lífinu þínu. Boðorð sem er einfalt og stutt svo allir geta munað það og hefur umbreytandi áhrif í lífinu. Það er svona:

    „Þú skalt ekki eiga óvini og ekki eignast óvini.“

    Hvers vegna? (more…)

  • Burður og bæn í beinni

    Torfbær verður steinhús

    Pabbi ólst upp í torfbæ. Hann bjó norður í landi á litlum bæ ásamt foreldrum sínum og bræðrum. Á næsta bæ bjó föðurbróðir hans. Þau sinntu bústörfum – tóku örugglega á móti miklum fjölda lamba.

    Það var ekki rafmagn í torfbænum, slíkur lúxus þekktist fyrr en seinna, kannski um það leyti sem þau fluttu í reisulegt steinhús sem reist var á staðnum. Þá breyttist margt.

    Svo varð pabbi unglingur og ungur maður og ofaná vinnuna í sveitinni bættist líka vinna í sláturhúsinu í þorpinu sem var nálægt og sjálfsagt var sitthvað fleira sem gripið var í. Svo kynntist hann mömmu sem var ævintýragjörn borgarstelpa sem vann sumarlangt í hótelinu í kaupstaðnum. Þau fluttu síðan í borgina. Þannig var sú saga.

    Þetta er ekkert merkileg saga þótt hún sé mér kær. Þetta er saga þúsunda, jafnvel tugþúsunda sem hafa á síðustu áratugum hafið lífið úti á landi og flutt búferlum til til höfuðborgarsvæðisins.

    Ísland er að breytast.
    Sveitasamfélagið dregst saman.
    Borgin stækkar.

    Við höfum flutt úr torfbæjum í timburhús og steinhús.
    Flutt úr sveit í bæ í borg.
    Og timburkirkjan þar sem allir þekktu alla er orðin að steinkirkju þar sem sumir þekkja suma.

    Sveitaferðin og burður í beinni

    Sveitaferðir eru ómissandi hluti af vori leikskólabarna. Þið sem eruð í yngri kantinum hér munið örugglega eftir nokkrum slíkum og foreldrarnir líka. Íslensku þjóðinni var boðið í sveitaferð í vikunni, nánar tiltekið var okkur boðið að fylgjast með sauðburði að Syðri-Hofdölum í Skagafirði í heilan sólarhring. Þessi sveitaferð átti meira að segja sitt eigið hashtagg:

    #beintfráburði

    Rúv bauð til ferðarinnar sem stóð frá hádegi á uppstigningardegi fram að hádegi daginn eftir. Fyrirmyndin er norsk og útsendingin var vel heppnuð.

    Athygli þjóðarinnar var fönguð og við fengum innsýn í það sem sumir þekkja en ekki margir. Landinn var mættur inn í stofu til að kenna okkur um lífið og dýrin.

    Stóru spurningarnar

    Sem manneskjur stöndum við frammi fyrir sístæðum spurningum:
    – Hver erum við?
    – Hvaðan komum við?
    – Hvað er að vera manneskja?
    – Hvað er að vera Íslendingur?

    Og svo eru það auðvitað spurningarnar um tilgang og merkingu:
    – Til hvers erum við?
    – Hvað er gott og hvað er illt?
    – Hvernig er maður góð manneskja?

    Ein leið til að leita svara svona spurningum er með því að horfa til hefða og umhverfis. Horfa til þess hvar við höfum verið. Ég held #beintfráburði hafi einmitt verið slík tilraun. Tilraun til að minna okkur á að Ísland var einu sinni sveitasamfélag og er það að hluta til ennþá. Áminning um að við eigum að vera stolt af því.

    Við sjáum víða vísanir til þessa, til dæmis þegar íslenskar vörur eru kynntar:

    „Lambakjöt. Á diskinn minn.“
    „Íslenskt grænmeti. Þú veist hvaðan það kemur.“

    #beintfráburði kallast á við sjónvarpsþáttinn Landann sem hefur notið mikilla vinsælda. Eitt af markmiðum hans er að leiða okkur á staði sem virðast fjarlægir en eru það ekki í raun.

    Þetta er áhugaverð, gagnleg og mikilvæg dagskrá og hún snerti svolítið við prestinum af því að fjárhúsið er kristnu fólki mikilvægt.

    Beint frá …

    Hvað fleira í samfélaginu þarf að taka svona til meðferðar? Í kynningu sinni á dagskránni nefndi Rúv fjórar sambærilegar útsendingar sem norska ríkissjónvarpið hefur staðið fyrir:

    Fyrir þremur árum sigldi skemmtiferðaskip með strönd Noregs. Þar fékkst innsýn í landið. Svona lítur landið okkar út – frá öðru sjónarhorni voru skilaboðin.
    Fyrir tveimur árum var helgarútsending um eldivið og arineld. Þar gafst tækifæri til að íhuga hitann í húsunum. Svona hitum við húsin.
    Sama ár var sýnt frá norsku prjónakvöldi. Svona verður peysan þín til.
    Og í fyrra var öll norska sálmabókin sungin í beinni útsendingu. Svona er sungið um Guð.
    Mig langar að staldra við þetta seinasta. Enda er ég prestur og við í kirkju. Ég held nefnilega að við gerðum gagn í því að beina sjónum landans að hinum trúarlega þræði í lífsmynstri okkar Íslendinga. Hann þykir ekki alltaf hipp-og-kúl en hann er þarna. Og hann er mikilvægur og hefur verið um aldir.

    Bænir og Biblía

    Um allt land – í sveitinni og í borginni – eru til dæmis börn sem læra bænir af mæðrum og feðrum. Læra vers eins og Vertu Guð faðir, faðir minn og Nú er ég klæddur og Vertu nú yfir og allt um kring og öll hin versin sem eru okkur kær og fylgja frá upphafi lífsins til enda þess.

    Um allt land eru börn sem læra Biblíusögurnar. Læra um Adam og Evu í aldingarðinum, Nóa og dýrin í örkinni, Davíð og Golíat, Jesú sem gerði kraftaverk.

    Þetta er þáttur heimilisins. Sum börn taka líka þátt í kirkjustarfinu og flest þeirra fermast og sum halda áfram í unglingastarfi kirkjunnar. Hvers vegna? Vegna þess að trúin skiptir máli og vegna þess að þetta er vandað og gott félagsstarf fyrir ungt fólk – sem er að auki ókeypis.

    Uppeldið í trúnni er málefni heimilisins í samstarfi við kirkjuna.
    Fræðslan um trúna fer þar fram og hún fer líka fram í kirkjunni.
    En það eru fleiri aðilar sem koma að þessu.
    Til dæmis skólinn.

    Í skólanum, í skólanum

    Og það skiptir máli að vel takist til á þeim vettvangi. Að fræðslan sé vönduð og það sé nóg af henni.

    Þess vegna er vont að krakkar fái ekki lengur Nýja testamentið og Sálmana að gjöf í skólum í Reykjavík. Ástæðan er sú að það sendir röng skilaboð, sendir þau skilaboð að ritin í Nt eigi ekki heima í skólunum. Samt eru þau hluti af grundvelli menningar okkar og þekking á þeim nauðsynleg til að skilja bækur og bíómyndir, tónverk, leikrit og tungumál. Við þurfum að bæta úr þessu.

    Við þekkjum jú til bókakynninga í grunnskólum – til dæmis fyrir jólin. Þar fer ekki fram ritskoðun eða ritrýning á innihaldi hennar. Höfundum er einfaldlega treyst. Við þurfum líka að treysta þeim sem þekkja Biblíuna.

    „Þetta er eðlilegt“

    Norðmenn sungu alla sálmabókina sína síðasta vetur. Það var sent í beinni í Ríkissjónvarpinu þeirra og á vefnum.

    Útsending af þessu tagi „normalíserar“.
    Hún segir ekki aðeins: þetta gerist
    Hún segir: þetta er eðlilegt.
    Svona fæðast lömbin.

    Og:
    Þegar lömbin fæðast er þeim sýnd umhyggja.
    Þau mæta ekki bara, tilbúin og plastpökkuð í frystikisturnar í Bónus.

    Það hefur gildi fyrir samfélagið að „normalísera“.
    VIð eigum að gera meira af því.

    Til dæmis með:

    60 klukkustundum af sálmasöng.
    60 klukkustundum af morgun- hádegis- kvöldbæn.
    60 klukkustundum af kirkjulífi.
    60 klukkustundum af leik barna í borginni.
    Við skulum byrja fljótt. Ekki seinna en í haust.

    Það er boðskapur dagsins.

    Dýrð sé Guði sem elskar heiminn, dýrð sé syninum sem var sendur svo við fengjum að kynnast þessari ást og dýrð se heilögum anda sem er þessi ást.

  • Örvænting, upprisa og uppvakningar

    Haraldur Hreinsson fjallar um sjónvarpsþættina The Walking Dead í nýrri grein á vef Deus ex cinema:

    Við skynjum að í þessum nýja, ógurlega heimi er enn eitthvað til sem heitir réttlæti og góðvild og við sjáum áhrifamikil dæmi um eitthvað sem við gætum kallað miskunn, fórnfýsi og fyrirgefningu. Þó fólkið sem við fylgjumst með glími við erfiðleika sín á milli þá sjáum við að innan hópsins ríkir kærleikur, vinátta og samstaða.