Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Aðventan í mynd

    advent 06 v1

    Hvað finnst ykkur um þessa aðventumynd Ben Bell?

  • Jólamynd #3: Hvít jól

    Jólamyndin Hvít jól  kallast á við uppáhaldsþátt unga fólksins: Dans dans dans. Hún fjallar um félagana Bob Wallace og Phil Davis sem kynnast systrunum Betty og Judy Haynes. Saman dvelja þau á litlu sveitahóteli í Vermont þar sem þau ætla að koma fram, syngja og dansa.

    Ferðamannabransinn gengur ekki vel þessi jólin. Þegar Bob og Phil komast að því að eigandi hótelsins er leiðtogi þeirra úr hernum, Waverly hershöfðingi, ákveða þeir að leggja sitt af mörkum til að bjarga honum og hótelinu.

    Þetta er falleg mynd, full af skemmtilegum söngvum eins og titillaginu sem allir þekkja. Aðalleikarnir fjórir eru líka liðtækir dansarar. Hvít jól minnir á að jólin eru tími ástar og umhyggju og að þau eru tíminn þegar við látum gott af okkur leiða. Hún er ómissandi innlegg í jólamyndaáhorfið á aðventunni.

  • Jólamynd #2: Fæðing frelsarans

    Biblíumyndin Fæðing frelsarans segir frá ferðalagi þeirra Maríu og Jósefs frá Nasaret til Betlehem. Ferðalagið er erfitt og sem áhorfandi öðlast maður kannski dýpri skilning á því sem hjónin ungu þurftu að ganga í gegnum. Guðspjallið er myndskreytt.

    Eftir langa göngu komast þau til smábæjarins Betlehem. Og við vitum nú eiginlega hvernig þetta endar. Höfum nefnilega lesið bókina.

    Barnið fæðist í fjárhúsinu. Foreldrarnir fegnir og dást að litla kraftaverkinu. Dýrin eru allt um kring. Englar birtast hirðunum. Það er mikil dýrð og mikið ljós. Og vitringarnir mæta á staðinn. Og þetta er svona – svo vitnað sé í Baggalút – eins og í Biblíumyndunum.

    Í eftirminnilegu skoti sjáum í fjarmynd inn í hellinn sem er fjárhús. Hann er rækilega upplýstur. Það sést móta fyrir öllum lykilpersónunum. Ljósgeisli skín af himni. Allt er eins og það á að vera.

    Stundin er heilög og bíómyndin miðlar því vel og ber kannski með sér þá sýn að jólin séu tími þegar hið heilaga verður nálægt og sýnilegt.

  • Jólamynd #1: Snjóbrettajól Davíðs og Golíats

    Snjóbrettajól Davíðs og Golíats er nýjasta myndin um þá strákinn Davíð og hundinn Golíat. Hún gerist á jólum í litla ameríska smábænum sem er heimili þeirra félaga og gefur innsýn í jólahald og samband krakka sem aðhyllast ólík trúarbrögð.

    Davíð er kristinn. Hann heldur upp á jólin og fær jólagjafir. Jólagjöfin hans í ár er snjóbretti og það tengir hann einmitt við félagana Jasmín, sem er múslimi og Samma sem er gyðingur. Bæði eru snjallir snjóbrettakappar og saman eiga krakkarnir góðar stundir í fjallinu.

    Snjóbrettajólin eru mynd sem dregur upp mynd af ólíkum hefðum í kringum jólin og aðrar trúarlegar hátíðir s.s. Ramadan-föstuna og Ljósahátíð gyðinga. Hún er líka – eins og margir þættirnir um Davíð og Golíat – þroskasaga þess fyrrnefnda. Hér kynnist hann því að ekki halda allir upp á jólin og ekki gefa allir jólagjafir. Og „samt eru þeir bara glaðir“ svo vitnað sé í samtal hans og Golíats.

    Þetta er líka falleg saga um samvinnu og umburðarlyndi. Krakkarnir lenda í snjóflóði, mæta skógarbirni fer ásamt Golíat að sækja hjálp. Allt fer vel að lokum.

    Snjóbrettajólin eru vel þess virði að skoða á aðventunni. Ekki síst ef það eru krakkar á heimilinu.

    Ps. Á aðventunni ætlum við að blogga um um það bil eina jólamynd á dag. Þetta er sú fyrsta.

  • Bleikt eða blátt?

    Bleikt eða blátt trúfrelsi er yfirskrift pressupistils Hjalta Hugasonar frá því í sumar. Hann segir þar meðal annars:

    „Hvort sem trúfrelsi er bleikt eða blátt skiptir þó mestu að liturinn sé ljós, að fólk bíti sig ekki í afdráttarlausa stefnu eða pólitískan rétttrúnað heldur reyni að stuðla að slökun spennu og friðsamlegri sambúð trúarlegra minni- og meirihluta sem og hinna sem hafna allri trú.“

    Það er ágætt að rifja þetta upp, nú þegar rætt er um trú, kirkju og skóla.

  • Kirkja og skóli – nokkrar vísanir

    Mikið hefur verið rætt um samskipti kirkju og skóla upp á síðkastið. Tilefnið eru reglur Reykjavíkurborgar um samskipti skóla og trúfélaga. Hér eru vísanir á nokkrar fréttir, pistla og bloggfærslur sem fjalla um efnið. Færslurnar eru í öfugri tímaröð.

    Við söfnum þessu saman til að hafa yfirlitið á einum stað. Ábendingar um vísanir má skilja eftir í ummælum við færsluna.
  • Líka fyrir fullorðna

    ‎6h.is er hollráðavefur fyrir foreldra, unglinga og börn. Þar segir um samskipti foreldra og barna:

    Gefum okkur tíma til að ræða við börn okkar á hverjum degi. Í samræðum foreldra og barna er mikilvægt að tala af einlægni, skiptast á skoðunum, lýsa tilfinningum sínum, virða sjónarmið hvert annars og byggja upp gagnkvæmt traust.

    Mikilvægt er að barnið finni að hlustað er á það. Þegar fjölskyldan hefur vanið sig á góð og uppbyggileg samskipti er auðveldara að ræða ágreiningsmál þegar þau koma upp innan sem utan fjölskyldunnar.

    Í samræðum foreldra og barna, þar sem leiðarljósið er að hlusta á barnið deila skoðunum sínum og tilfinningum, eru foreldrarnir í raun að aðstoða börn sín við að verða ábyrg gerða sinna.

    Þetta gildir líka fyrir fullorðna.

    Og mætti leggja til grundvallar í samtalinu um mörg deilumál í samtímanum.

    Með góðum árangri.

  • Aðventuhakkabuff

    Aðventuhakkabuff á Laundromat

    Laundromat café í Austurstræti er uppáhaldsstaður. Þar er nú í boði dýrindis aðventuhakkabuff.

  • Sex vonarberar

    Í málstofunni á morgun ætlum við að ræða um nokkra glugga í jóladagatalinu og sýna dæmi. Meðal annars ætlum við að skoða framlag vonarberanna Sigurðar Árna, Margrétar Pálu, Toshiki, Jóns, Jónu Hrannar og Barböru. Til að einfalda undirbúninginn bjuggum við til spilastokk á YouTube þar sem hægt er að horfa á glugganan þeirra í röð.

    Hverjir eru ykkar uppáhalds vonarberar?

  • Að vænta vonar í málstofu Guðfræðistofnunar

    Við verðum með erindi í málstofu Guðfræðistofnunar á mánudaginn. Auglýsingin er svona:

    Hvaða þýðingu hefur vonin í menningunni? Er vonin vænleg lífsafstaða í lífsbaráttunni? Hvaða merkingu hefur aðventan í huga þjóðarinnar?

    Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir unnu verkefnið “Að vænta vonar – jóladagatal kirkjunnar 2010” fyrir síðustu aðventu, sem birtist á vef þjóðkirkjunnar, www.kirkjan.is. Þar tjáðu 24 einstaklingar, leikir og lærðir, sýn sína á vonina í stuttum myndbandsupptökum sem birtar voru á vefnum á hverjum degi frá 1.-24. desember.

    Höfundar leituðu til nokkuð breiðs hóps einstaklinga sem tóku að sér hlutverk vonarbera sem lyftu upp hlutum sem þau tengja merkingu og mikilvægi vonarinnar, út frá boðskap kristinnar trúar og í samhengi menningarinnar. Útkoman er breitt litróf skoðana og stuttra hugleiðinga sem birta mynd af voninni í lífi fólks í samtímanum.

    Í erindinu leitast höfundar við að setja vitnisburð jóladagatalsins í samhengi guðfræði vonarinnar á 20. öld og staðsetja boðskap þess í eftir-afhelguðum (post-secular) samtímanum.

    Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir eru prestar. Þau hafa lært guðfræði á Íslandi, í Svíþjóð og í Bandaríkjunum. Þau hafa verið virk í umræðu um kirkju, guðfræði og þjóðmál á Íslandi og halda úti bloggi á www.arniogkristin.is.

    Þið eruð velkomin 🙂