Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Frambjóðandi #3: Sigurður Árni Þórðarson

    Dr. Sigurður Árni Þórðarson

    Dr. Sigurður Árni Þórðarson var þriðji frambjóðandinn í biskupskjöri. Þessa dagana birtum við myndir af öllum frambjóðendum í biskupskjöri.

    Þessa mynd tók ég á fyrirlestri í Neskirkju sem var hluti af fyrirlestraröðinni Á nöfinni. Það var Framtíðarhópur kirkjuþings, sem Sigurður Árni leiðir, sem efndi til þessara fyrirlestra um kirkju og framtíð. Þarna er Sigurður Árni í essinu sínu, lifandi fyrirlesari með skarpa sýn.

    Meira um biskupskjör 2012.

  • Frambjóðandi #2: Kristján Valur Ingólfsson

    Sr. Kristján Valur Ingólfsson

    Sr. Kristján Valur Ingólfsson var annar frambjóðandinn í biskupskjöri. Þessa dagana birtum við myndir af öllum frambjóðendum í biskupskjöri.

    Þessi mynd er tekin á vígsludegi Kristjáns Vals sem Skálholtsbiskups. Það var í mörg horn að líta og margir sem vildu hitta nývígðan vígslubiskup. Ég fylgdi honum í Skálholtsskóla þar sem hann afskrýddist og smellti svo af þessari mynd. Þetta er semsagt nývígði vígslubiskupinn Kristján Valur á gleðidegi.

    Meira um biskupskjör 2012.

  • Frambjóðandi #1: Sigríður Guðmarsdóttir

    Dr. Sigríður Guðmarsdóttir

    Dr. Sigríður Guðmarsdóttir var fyrst til að bjóða sig fram í biskupskjöri. Næstu daga ætlum við að birta myndir af öllum frambjóðendum. Af því að hún var fyrst er hún fyrst.

    Þessi mynd var tekin á vígsludegi Guðríðarkirkju þar sem Sigríður er sóknarprestur. Þetta var fallegur gleðidagur þar sem margir komu saman til að fagna þessari nýju kirkju. Gleðin sést alveg á andliti Siggu.

    Meira um biskupskjör 2012.

  • Á netinu er ekkert einkalíf

    4 5 6Stefán Hrafn Hagalín talaði á Alþjóða netöryggisdeginum í gær. Hann var líka í viðtali við Sjónvarp Mbl og sagði þar meðal annars:

    … þú stýrir þínum prófíl á netinu. Það portrett sem er til af þér. Sú spegilmynd sem er til af þér á netinu, þú ákveður hvað er sett þarna, bæði orðin og myndirnar og annað slíkt og ég held að þeim mun fyrr sem fólk er komið í skilning um þetta, að þeim mun betri og öruggari staður verður netið til að vera á.

    Þetta er alveg rétt hjá honum og það verður ekki brýnt of mikið fyrir fólki á öllum aldri að þekkja miðlana sem eru notaðir hverju sinni og vera sér meðvituð um hverjir geta séð. Þekkja til dæmis muninn á sýnileika- og friðhelgisstillingum á Facebook.

    Morgunblaðið tekur þetta upp í leiðara um einkalíf á netinu:

    Umræða um persónuvernd og friðhelgi einkalífsins er síst of mikil í samfélaginu og finnst mörgum skorta á virðingu fyrir henni. Í þeirri umræðu gleymist að oft eru það einstaklingarnir sjálfir, sem minnsta virðingu bera fyrir friðhelgi síns einkalífs og gæta ekki að því hvaða upplýsingar þeir bera á torg. Netið er vitaskuld mikið þing en það verður að umgangast af varúð eins og alla aðra hluti. Á netinu er ekkert einkalíf.

    Þetta er góð brýning og hægt að taka undir allt í henni nema seinustu setninguna.

    Hún er röng.

    Hún er röng í samhengi málsgreinarinnar. Ef það væri ekkert einkalíf á netinu þá þyrftum við ekki að bera virðingu fyrir friðhelgi eigin einkalífs á netinu.

    Hún er röng í samhengi netsins almennt. Þar eru til að mynda opnir vefir (eins og mbl.is), lokaðar netþjónustur (eins og iMessage í snjallsímanum) og hálf- eða kannski misopnir vefir (eins og  facebook og flickr). Það efni sem fer á opinn vef er vissulega öllum aðgengilegt. Þar er lítið einkalíf. Efni á lokuðum vefjum og netþjónustum er ekki aðgengilegt og á ekki að vera neinum aðgengilegt. Þar getur vissulega verið efni sem heyrir til einkalífi fólks. Eða lítum við svo á að smáskilaboðin sem við sendum varði ekki einkalífið? Eða myndasafnið sem ég set á lokað vefsvæði, læst með aðgangsorði sem ég deili bara með fjölskyldunni.

    Mörkin þarna á milli eru skýr og við eigum ekki að hringla í þeim eða ala á óöryggi fólks gagnvart þeim með því að senda misvísandi skilaboð.

    Það eru hinsvegar misopnu vefirnir, eins og facebook og flickr og google+ sem við þurfum að vera okkur sérstaklega meðvituð um. Þar setjum við mörkin nefnilega sjálf og þá þarf heilbrigða dómgreind.

    Morgunblaðið og Stefán Hrafn fá hrós dagsins fyrir að minna okkur á mikilvægi þess að vera meðvituð um einkalífsmörkin á netinu og ábyrgð hvers og eins á eigin gjörðum. En leiðarahöfundur Moggans fær líka skamm fyrir lokasetningu leiðarans sem gerir mörkin ekki skýr heldur óljós.

  • Alþjóðlegi netöryggisdagurinn – bloggað í beinni

    Alþjóðlegi netöryggisdagurinn er haldinn í dag. Í tilefni dagsins stendur SAFT fyrir málþingi þar sem á að ræða um net og tengsl. Ég er mættur þar og ætla að freista þess að blogga dagskrána í beinni. Þetta er spennandi dagskrá þar sem meðal annars á að ræða um áhrif netsins á samskipti fólks, tölvunotkun í námi og kennslu, kynslóðamun, siðferði og einkalíf.

    Ragnheiður framkvæmdastjóri Heimilis og skóla og ungur maður sem er fulltrúi ungmennaráðs SAFT kynna daginn og dagskrána stuttlega. Svo ætlar innanríkisráðherra að setja málþingið. Fylgist með frá upphafi. (more…)

  • Reglunum breytt

    Starfsreglum um biskupskjör var breytt á aukakirkjuþinginu sem var haldið í dag. Í stað rafrænnar kosningar verður póstkosning eins og verið hefur.

    Á aukakirkjuþingi sem haldið var í dag í Grensáskirkju var starfsreglum um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa breytt í þá veru að taka aftur upp póstkosningar í stað rafrænna kosninga eins og var fyrirhugað. Það var gert að beiðni kjörstjórnar sem taldi að kosningin yrði öruggari með póstkosningu.

  • Aukakirkjuþing um biskupskjör – bloggað í beinni

    Ég er staddur á aukakirkjuþingi í Grensáskirkju. Til þess er boðað af því að kjörstjórn við biskupskjör telur að breyta þurfi nýjum starfsreglum um biskupskjör vegna þess að ekki sé hægt að tryggja öryggi og fullkomna framkvæmd ef kosningar eru rafrænar.

    Þingið stendur yfir í dag og tvö mál liggja fyrir því. Nú verður reynt að blogga þingið í beinni. Lesandinn athugi það við lesturinn.

    Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, setur þingið. Í setningarræðu sinni segir hann frá að tvívegis hafi verið kosið til kirkjuþings rafrænt. „Í hvorugt skiptið voru bornar brigður á framkvæmd þeirra kosninga. Það segir hins vegar ekki alla söguna um öryggi og áreiðanleika rafrænna kosninga. Þrátt fyrir tækniframfarir og tölvubyltingar hafa rafrænar kosningar ekki verið teknar upp við kjör sveitastjórna, þjóðþinga eða þjóðhöfðingja.“
    (more…)

  • Biskuparnir dansa og börnin líka

    Biskupar og börn dansa í norska Biblíulaginu. Lagið tengist verkefninu Kode B sem hefur það að markmiði að kenna 11 og 12 ára gömlum krökkum á Biblíuna og kynna hana fyrir þeim sem spennandi bók sem hefur gildi fyrir lífið.

  • Kjörskrá í biskupskjöri lögð fram

    Kjörskrá í biskupskjöri var lögð fram í dag. Hægt er að skoða hana á kirkjan.is. Á kjörskrá eru 492 prestar, djáknar, guðfræðingar og leikmenn.

  • Uppkast að kvikmyndahátíð samtalsins

    Ég fékk fyrirspurn á dögunum frá sóknarpresti á landsbyggðinni sem langar að halda kvikmyndahátíð í söfnuðinum. Hann var að leita að nokkrum myndum sem væri hægt að sýna í kirkjunni og eiga gott samtal um.

    Þetta þurftu að vera myndir sem höfða til ólíkra hópa og vekja með áhorfendum spurningar, ekki ósvipað því sem við leggjum til grundvallar þegar kvikmyndaverðlaun kirkjunnar eru afhent. Þetta voru myndirnar sem við enduðum með:

    Það væri gaman að heyra frá lesendum bloggsins. Hvaða myndir vilduð þið helst sjá á svona lista?