Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Það eru páskarnir

    Guð.
    Vorið heldur innreið sína.
    Lífið kviknar.
    Það birtir á landinu okkar
    og í hjörtunum okkar.
    Það eru páskarnir.
    Tími birtu, tími lífs og tími vonar.
    Fyrir það viljum við þakka.
    Og yfir því viljum við gleðjast.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 4. apríl 2013.

  • Morgunbænir kl. 6:36

    Morgunbænirnar á Rás 1 eru á dagskrá klukkan 6:36 alla daga nema sunnudaga. Það kom í minn hlut að sjá um þær næstu tvær vikurnar. Fyrsta skiptið var í morgun og það síðasta verður sextánda apríl. Ég ætla að deila bænunum sjálfum með lesendum bloggsins, þær munu birtast hér á hverjum morgni kl. 6:36 og þegar upptakan hefur ratað á vefinn bæti ég við vísun á hana. Þið getið því lesið og hlustað. Viðbrögð eru að sjálfsögðu vel þegin.

  • Guð, gerðu okkur þakklát í dag

    Guð,
    viltu hjálpa okkur að meta lífið
    í öllum sínum fjölbreytileika,
    meta það sem við þiggjum frá þér
    og frá fólkinu sem við mætum.
    Viltu minna okkur á að þakka fyrir allt
    sem er svo reglulegur hluti af lífinu að lítum á það sem sjálfsagðan hlut
    – og að þakka fyrir fólkið í kringum okkur og það sem aðrir gera fyrir okkur.

    Guð, gerðu okkur þakklát í dag.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 3. apríl 2013.

  • Tobba og Glói leika sér

    Tobba og Glói leika sér

    Það var gaman að fylgjast með hundunum leika sér í snjónum.

  • Fyndnasta, skemmtilegasta, besta, fallegasta og ágengasta Jesúmyndin

    Kvikmyndavefurinn Svarthöfði bauð mér að taka saman lista yfir fimm uppáhalds Jesúmyndir í tilefni páskanna. Listinn birtist í dag og þarna er hægt að lesa um fyndnustu, skemmtilegustu, bestu, fallegustu og ágengustu Jesúmyndina.

  • Hvað er að frétta af Kirkjuritinu?

    Nokkrir mánuðir eru liðnir frá því Kirkjuritið kom síðast út. Það er því von að lesendur ritsins velti fyrir sér hvenær næsta tölublað komi út. Af því að við hjónin eigum lausa stund í dag datt mér í hug að taka stutt viðtal við Kristínu sem er einmitt hinn ritstjóri Kirkjuritsins um blaðið sem nú er í vinnslu.

    Árni: Komdu sæl Kristín, hvað er nú að frétta af Kirkjuritinu?

    Kristín: Vorhefti ársins er á síðustu metrunum. Við erum að klára að setja upp þemaumfjöllunina sem er að þessu sinni helguð konunum í leiðtogastöðum í kirkjunni. Það hefur verið sérlega skemmtilegt að vinna þann hluta, ekki síst að setjast niður með þremur brautryðjendum og fá þeirra sýn á stöðuna eins og hún var og eins og hún er og von þeirra fyrir framtíð kirkju og kristni á landinu.

    Árni: Hvað fleira fáum við að sjá í ritinu?

    Kristín: Ritið kemur núna út á mörkum föstu og páska og ritið birtir fjórar prédikanir eftir snjalla presta sem voru til í að spreyta sig á því að örprédika í Kirkjuritinu. Það kemur mjög skemmtilega út. Svo eru í ritinu pistlar um Guð og kaffibollann, stjórnarskrána, aðdraganda fermingar og sitthvað fleira. Ljóðskáld þessa heftis Kirkjuritsins er Andri Snær Magnason.

    Árni: Hvenær er von á ritinu í póstkassa áskrifenda?

    Kristín: Það fer í prentun í næstu viku og kemur væntanlega út viku síðar.

    🙂

  • Í páfanafninu felst stefnumörkun

    Jorge Mario Bergoglio er fyrsti Jesúítinn sem er valinn til að gegna embætti páfa. Í gærkvöldi las ég viðtal við Philip Geister. Hann er Jesúítaprestur og starfar í Svíþjóð og við höfum kynnst aðeins í gegnum námskeið um kvikmyndir og guðfræði sem við höfum kennt saman á undanförnum árum. Philip sagði í viðtalinu að það væru djúp skilaboð fólgin í nafninu sem hinn nýi páfi hefði valið sér:

    „Hann kemur frá Suður-Ameríku sem glímir við mikla fátækt. Hann tekur sér páfanafn eftir heilögum Frans sem boðaði að kirkjan skyldi lifa einföldu lífi. Þar með setur nýi páfinn stefnuna fyrir það hvernig kirkjan eigi að lifa og hvað hún eigi að prédika.

    Þetta eru skilaboð til fátækari landa um að kirkjan sé fyrst og fremst til fyrir þau fátæku og að kirkjan eigi að einkennast af einfaldleika og fátækt. Það var leiðarljós heilags Frans frá Assisi.“

    Mér finnst þetta nokkuð áhugavert. Það verður forvitnilegt að fylgjast með nýja páfanum og sjá hvort þessi spá reglubróður hans rætist.

  • Trú/verk

    Faith and works

    Þetta stendur skrifað í Jakobsbréfi og ég las það í Fjársjóðnum sem er á skrifborðinu mínu í vinnunni. Hvernig skiljið þið það – almennt og í samhengi þjóðkirkjunnar?

  • Lattelist

    latte1

    Pálmar á Pallett er snillingur þegar kemur að kaffigerð og lattelist. Þennan bolla fengum við á aðfangadegi jóla.