Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Leik-, lífs- og trúargleði barnanna

    Guð.
    Þú sagðir okkur að vera eins og börnin
    til að skilja þig og nálgast þig.
    Viltu gefa okkur leikgleði barnanna, lífsgleði barnanna og trúargleði barnanna –
    sem eru svo opin gagnvart lífinu og gagnvart þér.
    Viltu hjálpa okkur að standa vörð um börnin sem minna mega sín og um barnið í okkur sjálfum.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 12. apríl.

  • Gefðu ró

    Guð.
    Á hverjum degi upplifum við augnablik
    sem gefa tilefni til að gleðjast og vera hamingjusöm.
    Stundum sjáum við þau ekki
    því við göngum svo hratt gegnum lífið
    eða erum upptekin af því slæma.
    Viltu gefa okkur ró í huga og hjarta
    til að lifa hægt og upplifa augnablikin
    þar sem gleðin er fullkomin.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 11. apríl.

  • Brennandi

    Guð.
    Viltu ganga með okkur til Emmaus, eins og með lærusveinunum forðum daga.
    Til okkar Emmaus.
    Viltu gefa okkur brennandi hjarta
    þegar við lesum um þig.

    Brennandi munn
    þegar við tölum um þig.

    Brennandi hendur þegar okkar hendur
    sem verða þínar hendur,
    til góðra verka í heiminum sem við lifum í.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 10. apríl.

  • Hjartabrosin

    Guð.
    Hjartabrosin eru.
    eins og aflstöðvar
    kærleikans í lífinu.

    Viltu gefa okkur bros á hjarta.
    Til að lýsa upp lífið okkar í dag.

    Guð.
    Viltu gefa okkur bros á varir.
    Til að deila með öðrum.
    Og gera þannig daginn þeirra betri en hann væri ella.

    Guð.
    Viltu brosa til okkar í dag.
    Svo að við megum brosa til annarra
    og séum þannig farvegur fyrir kærleikann þinn.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 9. apríl 2013

  • Það er náungakærleikur

    Guð.
    Gæðum jarðar er misskipt.
    Sumir hafa mikið, aðrir lítið.

    Viltu gera okkur meðvituð og þakklát
    fyrir það sem við höfum.
    Viltu gera okkur meðvituð og örlát
    gagnvart þeim sem búa við skort.

    Viltu kenna okkur að gefa öðrum
    af því sem okkur hefur verið gefið.

    Því það er náungakærleikur.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 8. apríl 2013

  • Fullvissan og loforðið

    Guð.
    Í dag og aðra daga
    viljum við ganga með þér
    í trausti til þess sem þú gefur okkur í öllum aðstæðum lífsins
    sem er fullvissan um lífið
    og loforðið um lífið.

    Viltu láta loforðið þitt
    um sigurinn yfir dauðanum
    taka sér bólfestu í okkur
    og móta bæði líkamann okkar og sálina
    þannig að við verðum boðberar lífsins
    og þar með boðberar þínir.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 6. apríl 2013

  • Bikinivottorð fyrir sumarið?

    Líkamsvirðingarbloggið er gott innlegg í opinbera umræðu hér á landi. Í dag bloggar Gabríela Bryndís Ernudóttir um bikinikroppa. Hún hefur eftir erlendum bloggara eitt gott sumarprinsip: Bikinikroppur er sérhver kroppur sem kemst í bikini. Stutt og laggott og skýrt enda eru bikinikropparnir allskonar.

    Það eru góð skilaboð á gleðidögum að enginn eigi að þurfa að skammast sín fyrir líkamann sinn. Takk líkamsvirðingarbloggarar.

  • Ég skil þig ekki Guð

    Guð.
    Stundum skiljum við ekki orðin þín.
    En þegar við horfum á Jesú,
    sjáum hvernig hann mætti fólki af umhyggju og í kærleika,
    þá þurfum við ekki að skilja allt.

    Því við skynjum hvernig þú mætir okkur
    og vitum hvernig við eigum að mæta öðrum.

    Af umhyggju og í kærleika.

    Viltu gefa okkur að mæta öðru fólki í dag
    eins og þú mætir okkur í Jesú.
    Amen.

    Morgunbæn á Rás 1, 5. apríl 2013.

  • Fyrir klippinguna

    Heiðbjört Anna

    Heiðbjört Anna, fyrir klippinguna.

  • Marteinsvefur

    Vefur okkar hjóna um Martein Lúther var einn þeirra sem duttu út um daginn. Nú er hann kominn í loftið á nýjum stað og reyndar með nýju útliti líka. Það er örlítið snurfus eftir, en þetta er að mestu leyti komið. Njótið hans vel.