Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Sjötíu orða ritdómur um Tímakistuna

    Tímakistan er fallega skrifuð bók sem dregur fram töfrana í hinu hversdagslega. Augu skáldsins horfa með hlýju og ljúka upp undraveröld.

    Tímakistan er góð bók sem spyr mikilvægra spurninga um eilífið og augnablik, um hamingju og öryggi, ást og sorg. Um það hvað skiptir okkur mestu máli.

    Tímakistan er bók sem býður okkur að horfa til, kunna að meta og læra af bernskunni.

    Tímakistan er vonarrík bók. Andri Snær er vonarberi.

  • Eineltið fer ekki í helgarfrí

    Í dag er alþjóða baráttudagur gegn einelti. Í tilefni hans verður kirkjuklukkum um allt land hringt klukkan eitt. Agnes biskup hefur hvatt til þess að þeim verði hringt í sjö mínútur, eina mínútu fyrir hvern dag vikunnar. Enda fer eineltið ekki í helgarfrí.

    Á vefnum hafa í vikunni birst nokkrar góðar greinar um baráttuna gegn einelti.

    Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF, minnir á að fræðsla um réttindi barna getur dregið úr einelti:

    Með því að fræða börn og fullorðna um mannréttindi, ekki síst réttindi barna, sköpum við umhverfi þar sem börn verða fulltrúar eigin réttinda, sem og réttinda annarra. Þannig styrkjum við og eflum börn og ungmenni og búum þau undir að verða virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi.

    Vanda Sigurðardóttir, lektor, talaði um góðmennsku gegn einelti á dögunum og lýsti löngun sinni til að fá sem flesta með í liðið gegn einelti:

    Við öll höfum því vald bæði til að ýta undir einelti – með því að gera ekki neitt – en líka að stoppa það. Þeir sem lagðir hafa verið í einelti segja margir að það sem særi þá mest er að enginn hjálpi þeim.

    Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum, talar um mikilvægi þess að rækta umburðarlyndi og umhyggju meðal leikskólabarna:

    Í leikskóla sem hefur umburðarlyndi, virðingu, umhyggju og hugrekki að leiðarljósi og ræktar þessi gildi meðal nemendanna, eru minni líkur á að barn verði fyrir aðkasti vegna einhverrar sérstöðu sinnar. Þar er fjölbreytileikinn virtur og þar eru allir jafningjar, þrátt fyrir mismunandi aðstæður, eiginleika og bakgrunn.

    Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir frá göngu gegn einelti í öllum hverfum bæjarins:

    Einelti getur birst hvar sem er í samfélaginu, á vinnustöðum, í félagsmiðstöðvum eða á sumarnámskeiðum svo dæmi séu nefnd. Síðast en ekki síst þurfum við þó sem foreldrar, forráðamenn, kennarar, bæjarstjórar eða aðrar fyrirmyndir að líta í eigin barm og huga að því hvers konar skilaboð við sendum til yngstu kynslóðarinnar.

    Sigurvin Jónsson, prestur í Laugarneskirkju, ræddi um Jesús og einelti:

    Í sögunni af Jesú Kristi öðlumst við fyrirmynd um mann sem hafði hugrekki til að rísa upp gegn kerfisbundnu ofbeldi síns tíma og gaf fyrirheiti um að við stöndum ekki ein í lífinu.

    Ps. Á Trú.is er fjöldi pistla og prédikana um einelti. Kannski hefur einhver gagn af því.

  • Tíminn læknar engin sár

    „Þeir segja að tíminn lækni öll sár.
    Það er helvítis lygi.“

    Sagði pabbinn.
    Þá voru liðin níu eða kannski tíu ár frá því litli strákurinn hans dó.
    Það varð slys og aðkoman var hræðileg og brenndi sig inn í augun hans og hugann og hjartað.
    Sárin voru enn til staðar. Sársaukinn var til staðar. Kannski ekki alltaf, en hann bjó þarna. Stundum í leynum. Stundum augljós.

    „Þeir segja að tíminn lækni öll sár.
    Það er … lygi.“

    Hann hefur alveg rétt fyrir sér. (more…)

  • Fjörtíu og fimm ljúf ár

    Það hefur verið ljúft að vera prestur í þessi fjörtíu og fimm ár og útgangspunkturinn hefur alltaf verið að Jesús á að vaxa og ég á að minnka. Ég vona að það hafi tekist.“

    Tómas Sveinsson um árin fjörtíu og fimm í prestsþjónustu. Þetta lýsir honum vel.

    Ps. Kveðjumessan hans er á sunnudaginn kl. 11.

  • Málmhaus

    Hera Málmhaushetja leikur á rafmagnsgítar við gröf bróður síns.
    Hera Málmhaushetja leikur á rafmagnsgítar við gröf bróður síns.

    Ég sá á Málmhaus í Háskólabíói í gær. Eftir sýninguna átti ég þess kost að setjast niður með nokkrum bíógestum og Ragnari Bragasyni leikstjóra og Helgu Rós V. Hannam búningahönnuði myndarinnar. Við vorum í Neskirkju í boði Sigurðar Árna Neskirkjuprests.

    Myndin er mögnuð og það var gott að geta sest niður til að eiga samtal um hana. Það var meiriháttar að hafa kvikmyndagerðarfólkið með okkur í samtalinu. Ég hef borið mikla virðingu fyrir Ragnari sem kvikmyndagerðarmanni frá því ég sá fyrstu myndirnar hans og hún vex bara með hverri mynd.

    Málmhaus verðskuldar ítarlega umfjöllun. Þangað til hef ég þrennt að segja um hana:

    • Málmhaus er frábær kvikmynd, vel skrifuð, leikin, leikstýrt.
    • Málmhaus er ein besta íslenska myndin sem ég hef séð um sorg og úrvinnslu hennar, ef ekki sú besta.
    • Presturinn í Málmhausi ber af öðrum norrænum bíóprestum.

    Skellið ykkur í bíó ef þið hafið ekki séð hana. Sjáið hana aftur ef þið hafið séð hana. Svona mynd nýtur sín á hvíta tjaldinu.

  • The Set Menu

    Við sáum þessa stuttmynd á dögunum í Electric Cinema í London. Hún var sýnd á undan aðalmyndinni Elysium sem var alveg mögnuð. Þessi er líka nokkuð glúrin.

  • Þrenn skilaboð til þín

    Í kirkjunum um allt land stigu prestar fram í gær til að flétta saman ritningarlestra úr Biblíunni og margsknoar aðstæður fólks í kirkjunni. Þrjár þessara prédikana hafa líka birst á vefnum Trú.is. Þar er að finna að minnsta kosti þrenn skilaboð til okkar sem lesum.

    Sigurvin Jónsson talaði um trúarhetjur í daglegu lífi, Guðbjörg Jóhannesdóttir talaði um það hvar við köllum fólk til ábyrgðar og uppbyggingar í samfélaginu okkar og Kristín talaði um djúpið þar sem Jesús mætir okkur.

    Þrír prestar.
    Þrenn skilaboð.

    Hvað tekur þú til þín við lesturinn?

  • Engin fúkyrði takk

    Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra.

    Mannakorn dagsins á síðu kirkjunnar á Facebook. Góð skilaboð og fín markmiðslýsing um samskipti á vefnum og í lífinu almennt.

  • Einelti og andhetja

    Lucy og Gru hittast í Aulinn Ég 2
    Lucy og Gru hittast í Aulinn Ég 2

    Ég sá Aulinn ég 2 með börnunum í gær. Við kíktum í Sambíóin í Egilshöll og skemmtum okkur alveg konunglega. Til undirbúnings höfum við öll horft nokkrum sinnum á fyrstu myndina um Gru og félaga. Í þeirri mynd ættleiðir hann þrjár stúlkur, Margo, Edit og Agötu.

    Gru er, eins og flestir þekkja, algjört varmenni í fyrstu myndinni og þegar hann tekur stelpurnar að sér er ekki af umhyggju fyrir þeim heldur til að hjálpa sér að fremja glæp. En eins og í fleiri myndum þá hafa börnin áhrif á aðalsöguhetjuna.

    Í upphafi annarrar myndarinnar er Gru ekki lengur aðalþrjóturinn heldur ábyrgur fjölskyldufaðir sem hefur snúið sér af glæpabraut og vill nú búa til og selja sultur. Myndin bregður skýrara ljósi á það hvers vegna Gru varð biturt og neikvætt varmenni: hann mátti þola einelti í barnaskóla. Við vitum líka að móðir hans beitti hann ofbeldi.

    Ofbeldi á líkama og sál elur af sér ofbeldi. Úr því verður vítahringur sem börnin rjúfa.

    Aulinn ég 2 er skemmtileg og góð kvikmynd sem vekur spurningar um samband og tengsl og möguleika okkar til að breytast til góðs. Ég mæli með henni.

  • Friðarbæn

    Miskunnsami Guð, viltu gera friðinn sem er á vörum okkar sýnilegan í lífinu, að við megum vera verkfæri friðar þíns á heimili, í samfélagi og heimi.

    Í dag sameinast kristið fólk um allan heim í bæn um frið í Sýrlandi.