Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Átta þúsund blöðrur og bænir

    Árni:

    Hvað segir það um þjóð að hún setji minnisvarða um sársaukann í sinni eigin sögu á besta stað í höfuðborginni? Hvernig var hægt að endurreisa Berlínarmúrinn og brjóta hann svo niður á þremur dögum?

    Prédikunin mín í Seltjarnarneskirkju í gær fjallaði um þetta.

  • Engillinn á Múrnum

    Krossinn og Múrinn eru bræður. Ég ræddi það í stuttu erindi sem ég flutti á ráðstefnunni World Without Walls sem Institute for Cultural Diplomacy hélt í Berlín. Það er hægt að lesa það og skoða myndirnar sem fylgdu á Medium.

  • Ljósmúrinn í Berlín

    Um síðustu helgi var þess minnst að tuttugu og fimm ár eru liðin frá falli Berlínarmúrsins. Í tilefni af því var listgjörningurinn Ljósmúrinn – Lichtgrenze – settur upp í borginni. Hann samanstóð af 8000 upplýstum blöðrum sem var komið fyrir þar sem múrinn stóð áður, á fimmtán kílómetra leið frá Bornholmer Straße í norðri að East Side Gallery í suðri. Kveikt var á blöðrunum við sólsetur þann 7. nóvember og klukkan sjö sunnudaginn 9. nóvember var þeim sleppt, einni af annarri og ljósmúrinn leystist upp og sveif til himins. Með blöðrunum fylgdu stutt skilaboð og bænir frá börnunum í Berlín.

    Ég gekk hluta af þessari leið og tók nokkrar myndir. Það var sérstakt að upplifa þetta, ganga í gegnum hverfin þar sem Múrinn stóð, íhuga kjör fólksins sem lifði sitt hvoru megin við hann og þakka fyrir friðartáknið sem hann er núna.

    Ps. Á vef The Atlantic eru nokkrar magnaðar myndir af ljósmúrnum. Múrinn á líka sína síðu á Facebook.

    Pps. Ég tók líka fleiri myndir en þær sem eru hér að ofan.

  • Elstu félagsgjöldin

    Í setningarræðu á kirkjuþingi í síðustu viku sagði Magnús E. Kristjánsson að sóknargjöldin væru elstu félagsgjöld á Íslandi. Hann áréttaði þetta í viðtali við Morgunblaðið og sagði jafnframt frá því að ýmsir hefðu gert ágreining um þetta efni og vildu frekar líta á sóknargjöld sem framlag ríkisins til trúfélaga.

    Morgunblaðið fylgdi málinu eftir með fyrirspurn til fjármálaráðuneytisins sem vísaði á innanríkisráðuneytið. Í dag greinir blaðið frá því að ráðuneytið líti svo á að sóknargjöld séu félagsgjöld og að „eng­in sér­stök and­mæli hafa verið við því“. Blaðið á þakkir skildar fyrir að fylgja málinu svona eftir.

    Þar með má öllum vera ljóst að fulltrúar stærsta trúfélags á Íslandi og fulltrúar innanríkisráðuneytisins sem fer með málefni trúfélaga hafa sama skilning á sóknargjöldunum. Það greiðir vonandi úr í viðræðum um niðurskurð á sóknargjöldum þegar fram líða stundir.

  • Ást verður sorg verður ást

    Árni:

    Sorgin er eins og köttur því hún er sjálfstæð. Við eigum hana ekki þótt hún sé hluti af okkur. Við stjórnum henni ekki og getum ekki kallað hana fram þótt við finnum hana stundum nálgast. Smátt og smátt lærum við samt að þekkja aðstæðurnar þegar sorgin hellist yfir okkur.

    Ást verður sorg verður ást, prédikun í Laugarneskirkju 2. nóvember 2014.

  • Á Hallgrímshátíð

    Ég sótti hátíðarmessu í Hallgrímskirkju í gær. Tilefnið er Hallgrímshátíð sem er haldin í tilefni þess að 400 ár eru liðin frá fæðingu sálmaskáldsins sem Hallgrímskirkja er kennd við. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, prédikaði í guðsþjónustunni og ræddi meðal annars um traustið í samfélaginu okkar.

  • Geðveik messa í Laugarneskirkju

    Í dag var haldin geðveik messa í Laugarneskirkju. Bergþór G. Böðvarsson formaður undirbúningsnefndar Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins flutti ávarp og Kári Auðar Svansson flutti magnaða hugvekju um líf með geðklofa. Kristín þjónaði ásamt messuþjónum, Arngerður María og kórinn Veirurnar leiddu sönginn.

  • Morgunbæn og orð dagsins

    Kristín fékk það hlutverk að flytja morgunbæn og orð dagsins á Rás 1 frá 6. september og áfram. Það er hægt að hlusta á hverjum morgni klukkan 6:25 og líka á vefnum hvenær sem er.

  • Kristín í Garðakirkju

    Kristín prédikar í Garðakirkju 31. ágúst 2014.
    Kristín prédikar í Garðakirkju 31. ágúst 2014.
  • Hugrekkið og bænamálið

    Haukur Viðar Alfreðsson skrifar bakþanka um skráningu í trúfélög, morgun- og kvöldbænir á Rás 1 í Fréttablaðið í gær. Umræðan um trú og samfélag er mikilvæg og ég vil bregðast við nokkrum atriðum í pistlinum.

    1. Haukur líkir skráningu í trúfélög við skráningu í hópa á Facebook. Á þessu er grundvallarmunur: Hver sem er getur skráð Facebook-vini sína í hóp á Facebook. Börn fylgja aftur á móti foreldrum sínum þegar kemur að skráningu í trúfélög að því tilskyldu að foreldrarnir séu sammála. Enginn getur „addað“ barni í trúfélag nema hann fari með forsjá þess. Þeim aðilum er raunar falið af ríkisvaldinu að taka slíkar ákvarðanir fyrir hönd barnsins. Skráning í hópa á Facebook og skráning í trúfélög er ekki það sama.

    2. Það er ekki hægt að smætta samtalið um stöðu morgun- og kvöldbænar á Rás 1 niður í einn hóp á Facebook. Fjöldi fólks hefur látið í sér heyra og sýnt í orði og verki að Ríkisútvarpið skiptir þau máli og bænin líka.

    3. Haukur líkir biskupi Íslands við æsingakonu sem hafi hellt olíu á eld. Kannski er það bara hans eigin eldur en líkingin er ekki góð. Agnes biskup hefur tjáð sig af hófsemd og yfirvegun um stöðu bænarinnar í almannarýminu.

    4. Haukur segir útvarpsstjóra hafa látið undan handrukkaraþrýstingi. Þessu er ég ósammála. Frá því hann tók við starfi sínu hefur Magnús Geir viljað efla samtalið um Ríkisútvarpið og umræðan um þessar dagskrárbreytingar er samtal við hlustendur. Það hefur sýnt sig að fjölda hlustenda Rásar 1 er ekki sama um þessa dagskrárliði. Að hlusta á þann hóp og taka mark á honum ber vott um hugrekki að mínu mati.

    Á endanum snýst þetta mál þó hvorki um biskup eða útvarpsstjóra heldur þann stóra hóp sem lætur sig varða Rás 1, þjóðkirkjuna og bænina. Þeim er ekki sama. Okkur á ekki að vera það heldur.

    Fréttablaðið, 26. ágúst 2014.