Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • „Smátt og smátt lærist mér …“

    Í dag er allra heilagra messa. Á þessum degi minnast margir látinna ástvina og íhuga sorgina og lífið. Við horfum yfir farinn veg. Mörg okkar halda líka í kirkjugarða til að vitja um leiði, kveikja kannski á kerti og gera stutta bæn. Mig langar í dag að deila með ykkur sem heimsækja þetta blogg stuttu ljóði eftir ástralska ljóðskáldið Marjorie Pizer:

    Ég taldi að dauði þinn
    væri eyðing og eyðilegging,
    sársaukafull sorg sem ég fékk vart afborið.
    Smátt og smátt lærist mér
    að líf þitt var gjöf og vöxtur
    og kærleikur sem lifir með mér.
    Örvænting dauðans
    réðist að kærleikanum.
    En þótt dauðinn sé staðreynd
    fær hann ekki eytt því sem þegar hefur verið gefið.
    Með tímanum læri ég að líta aftur til lífs þíns
    í stað dauða þíns og brottfarar.

    „Smátt og smátt lærist mér,” skrifar hún. Með tímanum lærist okkur að horfa á lífið, vera þakklát fyrir það sem þegið var meðan okkur auðnaðist að ganga saman en ekki bitur yfir því sem aldrei fékk að verða. Kannski er það stærsti lærdómur þess sem fetar sig eftir stíg sorgarinnar.

    Kannski er það líka áskorun okkar sem þjóðar, nú á þessum tímum, þegar við glímum við úrvinnslu kreppusorgarinnar.

  • Fimm þúsund börn

    Það mætti halda að allt snerist um peninga á Íslandi þegar horft var til forsíðna morgunblaðanna fyrr í vikunni. Þar mátti lesa:

    • Vogunarsjóðir sjá tækifæri í íslensku bönkunum á ný
    • Fimmtungur lána í frystingu
    • Afskrifa líklega milljarða vegna lána Jötuns Holding
    • Hvöss gagnrýni á umframútgjöld og málsmeðferð hjá ríkinu

    Aðalfréttin rataði hins vegar ekki á forsíður blaðanna. Og þó mér fannst hún vera forsíðuefni í dagblöðum og á vefmiðlum. Og hvaða frétt var það? Átakið gegn einelti sem hleypt var af stokkunum. Í tengslum við það hafa samtökin Heimili og skóli m.a. bent á að 5000 börn eru lögð í einelti hér á landi.

    5000 börn.

    Það eru alltof margir.

    Og á bak við þessa tölu eru auðvitað fleiri: Aðstandendur og gerendur.

    Á vef Heimilis og skóla er hægt að fræðast meira um átakið og þar er hægt að sækja bækling með hollráðum til foreldra. Við ættum að taka okkur saman og vekja athygli á þessu, skapa meðvitund og styðja Heimili og skóla til góðra verka. Miðla á Facebook og vefmiðlum og til þeirra sem eru í tengslanetunum okkar. Og hvetja svo íslenska fjölmiðla til að setja þetta mál í forgang.

    Því það á ekki allt að snúast um peninga.

    Það á allt að snúast um fólk.

    Það er eins gott að við áttum okkur á því.