Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Kviknar

    Árni:

    Hvernig tjáum við sýn? Hvernig miðlum við ástandi? Hvernig hvetjum við til aðgerða?

    Ég hef verið svolítið hugsi yfir þessu upp á síðkastið og ég hef velt fyrir mér hvernig sé hægt að nota nýja miðla og aðrar aðferðir í þessum tilgangi.

    Tökum dæmi:

    Við Kristín höfum rætt svolítið um hættuna sem felst í doðanum, í kulnun samfélagsins, í vonleysinu og kyrrstöðunni. Við höfum rætt um reiðina og um þörfina fyrir hvatningu. Við þurfum að kveikja von, við þurfum að virkja. Þetta stutta myndbrot má skoða sem myndlíkingu sem miðlar þessu.

    En það má líka líta það öðrum augum. Sem myndlíkingu um sögu föstudagsins langa og páskadags.

    Kannski þarf eitt ekki að útiloka annað 😉

  • Vorar skuldir?

    Hundrað sænskar krónur

    Árni og Kristín:

    Á maður alltaf að borga skuldir sínar? Ef allt er með felldu og rétt er staðið að lánveitingu svörum við því afdráttarlaust játandi. En það er ekki alltaf raunin. Síðasta áratug hefur athygli heimsins beinst að svokölluðum ólögmætum skuldum þjóðríkja.

    Slíkar skuldir geta verið ólögmætar af ýmsum ástæðum. Ein er sú að lánveitandi hafi ekki gengið úr skugga um að lánþegi gæti greitt skuldina. Önnur lýtur að því hver stofnaði var til skuldarinnar. Fyrir nokkrum árum var úrskurðað að milljarða dala skuldir Íraks og Nígeríu skyldu felldar niður vegna þess að til þeirra var stofnað af stjórnvöldum sem ekki voru lýðræðislega kjörin. Samt gátu þessar þjóðir staðið undir greiðslum.

    Í áttunda bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis segir: „Borgarar í lýðræðisríki bera ábyrgð á réttilega kjörnum stjórnvöldum. Meginforsenda þess að borgararnir geti axlað þessa ábyrgð vel er að þeir búi við góð skilyrði til upplýstrar skoðanamyndunar.“ Í skýrslunni kemur einnig fram að alvarlegir misbrestir eru á þessu hérlendis (bls. 241). Þar er jafnframt harðlega gagnrýnt að á ákveðnu tímabili hafi veik stjórnvöld falið fjármálakerfinu og bönkunum of mikið vald, leyft of mikil umsvif og sýnt of lítið aðhald.

    Kannski má ganga svo langt að segja að á Íslandi hafi ríkt auðræði í stað lýðræðis. Að lýðræðislega kjörnir fulltrúar hafi ekki verið við stjórnvölinn.

    Ef allt væri með felldu ættum við að axla fulla ábyrgð á því sem réttilega kjörin stjórnvöld hafa kallað yfir okkur. En skuldsetningu íslensku þjóðarinnar vegna efnahagshrunsins má að hluta rekja til þess auðræðis sem ríkti hér eftir einkavæðingu og útrás. Það var ekki allt með felldu. Við getum ekki horft fram hjá því á leið okkar frá reiði til sáttar.

  • Vorblogg um von

    Árni:

    Svavar Alfreð skrifar vorblogg um vonina og segir meðal annars:

    [S]terkur er hrammurinn sem þjóðin þarf að losa sig úr.

    Íslenska þjóðin á fátt eftir nema vonina.

    En við skulum ekki vanmeta vonina.

    Von getur orðið gott bensín á umbreytingamótorinn.

    Þó að erfitt hafi verið að bíða eftir Skýrslunni var að mörgu leyti við hæfi að birta hana í vorbyrjun.

    Vonin er lykilmál og spurningin er eiginlega þessi: Hvernig miðlum við og vekjum von á þessu vori? Eftir þennan vetur!

  • Í þínu ljósi

    Árni:

    Við Kristín vorum stödd í Frankfurt á dögunum. Urðum reyndar strandaglópar þar um þriggja daga skeið vegna öskunnar frá Eyjafjallajökli. Við heimsóttum meðal annars Alte Nikolaikirche sem er í miðbænum. Þar voru þessi myndskeið tekin.

    Tilvitnunin á bænaljósunum er í Sl 36.10 þar sem segir „í þínu ljósi sjáum vér ljós.“

  • Algjörlega óþolandi

    Árni:

    „Þetta er algjörlega óþolandi.“

    Reiðimessan er í Grafarvogskirkju 16. apríl kl. 20.

  • Matur

    Árni og Kristín:

    “Það er óþolandi að fólk þurfi að standa í röð í marga klukkutíma til þess að fá mat,” segir Sigrún Óskarsdóttir.

    Reiðimessan er í Grafarvogskirkju 16. apríl kl. 20.

  • Það sem gerir okkur reið

    Árni og Kristín:

    Margt gerir okkur reið á Íslandi í dag. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru nefndar fjölmargar ásetnings- og vanrækslusyndir sem hafa bitnað á okkur öllum. Sum okkar eiga í vök að verjast og berjast í bökkum, en lífið gengur sinn vanagang hjá öðrum. Öll verðum við fyrir áhrifum af því að trúverðugleiki og traust til stofnanna og valdafólks hefur hrunið.

    Hruninn trúverðugleiki og svíðandi ranglæti hefur fætt af sér réttláta reiði. Reiðin er eðlilegt og heilbrigt viðbragð við óeðlilegu ástandi. Reiðin er frumtilfinning sem vekur okkur og þenur taugar og hjarta. Reiðin er ekki góður staður til að vera á, en stundum erum við sett á þannig stað.

    Fyrir samfélag í kreppu er sinnuleysi og tilfinningadoði hættulegri en reiðin. Sinnuleysið er samfélagsógn. Það er ekki gott að búa í skeytingarlausu og köldu samfélagi þar sem heiðarleiki og velvild eru sniðgengin. Á meðan við erum reið er okkur ekki sama. Reiðin getur gefið kraft til að hefja ferli sem er nauðsynlegt til að breyta því sem er ranglátt og óheilbrigt.

    Leiðin frá reiði til sáttar er löng. Það er ekki hægt að stytta sér leið. Við verðum að fá að nefna það sem lætur hjartað okkar slá örar í reiði og sorg. Við verðum að fá að vera reið og tjá það. Hlustum á hjartað sem berst í brjósti okkar.

    Skýrslan er birt. Nú rennur upp tími aðgerða. Það dugar ekki að setja plástur á sár þjóðar sem blæðir vegna ábyrgðarlausrar framgöngu og brotins trausts. Góðverk koma aldrei í stað réttlætis. Við þurfum að styrkja lýðræðið, bæta samskiptin og efla samfélagsvitundina á landinu okkar.

  • Skeytingarleysi

    Kristín:

    Það sem gerir mig reiða er skeytingarleysið gagnvart þeim sem minnsta mega sín í samfélaginu okkar.

  • Reiðimessa

    Árni og Kristín:

    Það er margt sem gerir okkur reið á Íslandi í dag. Við erum reið yfir því sem við sjáum í kringum okkur, yfir því sem aflaga fer. Í Grafarvogskirkju verður  reiðimessa föstudaginn 16. apríl kl. 20.

    Reiðimessa er guðsþjónusta þar sem við berum reiði okkar á borð fyrir Guð og hvert annað. Í reiðimessunni ætlum við að nefna reiðina okkar og biðja með henni.

    Við lítum til Biblíunnar til að sjá hvernig reiðin getur birst í trúarlífi manneskjunnar. Alveg eins og með aðrar frumtilfinningar, þá hefur reiðin sinn sess og sitt hlutverk í bæn hins trúaða til Drottins.

    Í 44. sálmi Davíðs er Guð ásakaður og manneskjan segir reið við Guð: „En nú hefur þú hafnað oss og niðurlægt!“ Á öðrum stað sjáum við hvernig Jesús bregst reiður við þegar honum er misboðið: „Þá gerði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra.“

    Við komum með reiðina okkar í kirkjuna og uppgötvum að þar erum við örugg að tjá okkur og nefna það sem lætur hjartað okkar slá örar í reiði og sorg. Við komum með hjarta sem er reitt og úthellum því frammi fyrir Guði. Við rísum upp og erum reið.

    Verið velkomin til kirkju.

  • 12. apríl 2010

    Mynd miðlar þúsund orðum. Myndband miðlar 2000 síðum.