Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Besti flokkurinn – starfsmenn á plani

    Kristín:

    Í nýafstöðnum bogarstjórnarkosningum dró til tíðinda. Nýtt framboð, Besti flokkurinn, spratt upp og sópaði til sín atkvæðum. Þegar talið var upp úr kjörkössunum í Reykjavík var Besti flokkurinn það framboð sem flest atkvæði hlaut.

    Mannfjöldinn II

    Þetta er athyglisvert fyrir margra hluta sakir. Að mínu mati hljótum við að horfa á niðurstöður í kosningum í höfuðborginni í ljósi þeirra hræringa sem þjóðfélagið allt hefur gengið í gegnum síðustu misseri. Þær eru tímanna tákn.

    Eftir efnahagshrunið hafa hefðbundnar stofnanir samfélagsins, þar á meðal stjórnmálaflokkarnir, þurft að spyrja sig hvort þær hafi ennþá það traust sem þarf til að vera lýðræðislegur farvegur þjóðarinnar. Stjórnmál og stjórnmálamenn sem stóðu vaktina í hruninu, eru í augum kjósenda hluti af vandamálinu sem Ísland glímir við en ekki partur af lausninni sem þarf til að reisa það á fætur.

    Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að Besti flokkurinn kom, sá og sigraði í borgarstjórnarkosningunum. Á einhvern hátt hitti hann í mark hjá kjósendum sem voru hættir að sjá sig sjálfa í hefðbundnum fjórflokknum, hættir að skilja hina pólitísku orðræðu, hættir að treysta atvinnustjórnmálamönnunum.

    Hvað stendur svo Besti flokkurinn fyrir? Guðmundur Andri Thorsson talar um hópinn í kringum Besta sem pólitísk viðrini, þ.e. að hann sjálfur standi ekki fyrir neitt sérstakt heldur komi inn í andrúmsloft sem hafnar trénuðu orðfæri, úrsérgengnu kerfi og stöðnuðum hugmyndum. Besti bauð ekki fram með atvinnu stjórnmálafólki heldur fólki úr öðrum áttum, með annan bakgrunn og ólík sjónarmið.

    Kannski eru árangur Besta flokksins fyrst og fremst endurkoma leikmannsins í stjórnmálin – starfsmanna á plani. Manneskjunnar sem býr að reynslu borgarans, hefur lifað og starfað í Reykjavík, alið upp börn, beðið eftir leikskólaplássi, þurft að hafa samskipti við skólakerfið, notað íþróttaaðstöðu og ferðast með strætó. Allt í einu föttuðu kjósendur að svoleiðis fólk er alveg eins hæft til að fást við borgarmálin og vera fulltrúar borgarbúa eins og atvinnupólitíkusar.

    Kirkjan hefur líka upplifað leikmannabyltingu eins og nú á sér stað í Reykjavík. Það var þegar Lúther setti fram hugmyndina um hinn almenna prestsdóm. Hún gengur út á að fagnaðarerindið tilheyri öllum skírðum og að hvert og eitt okkar hafi þannig ábyrgð og réttindi gagnvart Guði og náunga okkar. Það þarf ekki sérstaka atvinnustétt til að vera milligöngumaður Guðs og manna. Þar er hver og einn einstaklingur við stjórnvölinn.

    Það er hollt fyrir samfélagið að dusta rykið af almenna prestsdóminum, hvort sem er í kirkju eða þjóðfélaginu almennt. Einstakir flokkar og einstakar stéttir eiga hvorki kirkjuna né samfélagið, heldur þú og ég. Við berum öll ábyrgð, við eigum öll að njóta frelsis og erum öll kölluð til þjónustu.

  • Séra Ruddi dópar og drekkur

    Árni og Kristín:

    Nýlegt atriði í þættinum Steindinn okkar sem sýndur er á Stöð2 sýnir samskipti prests við fermingarbörn og annað fólk. Þetta atriði vakti athygli okkar og hér koma viðbrögð við því.

    Fermingin

    Fermingin er  mikilvægur þáttur í íslenskri unglingamenningu. Hlutfall þeirra sem fermast í kirkjunni eða borgaralega í hverjum árgangi er hátt, með því hæsta sem þekkist nokkurs staðar.

    Þetta er mikilvægur tími, börnin standa á þröskuldi unglingsáranna og fá tækifæri til að glíma við stóru spurningarnar, spurningar um líf og tilvist og trú, siðferði og sjálfsmynd. Fermingardagurinn sjálfur er ekki síður mikilvægur. Fjölskyldur koma saman, boðið er til veislu til heiðurs unglingnum og fagnað. Þetta gildir jafnt um þau sem fermast í kirkju og hin sem fermast borgaralega. Við vitum að mörg fermingarbörn upplifa kirkjuna sína sem vettvang fyrir umræðu um stóru spurningarnar í lífinu og öruggan stað til að vera á.

    Atriðið í Steindanum okkar gefur innsýn í fermingarathöfn þar sem allt fer úrskeiðis. Presturinn er sökudólgurinn. Hann er óáreiðanlegur, óábyrgur, ofbeldishneigður. Hann fer yfir öll mörk, hagar sér í öllu tilliti á annan hátt en við búumst við af almennilegri manneskju. Hvað þá presti. Kannski á brandarinn að búa einmitt þar. Father Thug – séra Ruddi – drekkur undir stýri, neytir fíkniefna, mætir of seint í kirkjuna, kemur fram á ofbeldisfullan hátt, sýnir kirkjugestum, fermingarbörnum, kirkjurýminu og sér sjálfum vanvirðingu.

    Presturinn í atriðinu er reyndar ekki aðeins fulltrúi sinnar stéttar eða kristinnar trúar. Hann er líka fulltrúi hinna fullorðnu. Hér er dregin upp neikvæð mynd af fullorðnu fólki.

    Prestarnir í menningunni

    Við þekkjum dæmi um framsetningu af þessu tagi úr menningarsögunni, úr bókmenntum, leikritum og kvikmyndum. Svo nokkur dæmi séu tekin úr kvikmyndasögunni þá má nefna að presturinn í Brúðgumanum er fégráðugur, eldri presturinn í Ítölsku fyrir byrjendur er ofbeldismaður, prestur í Fanny og Alexander beitir fjölskyldu sína andlegu og líkamlegu ofbeldi. Við höfum líka séð dæmi um þetta í nýlegum sjónvarpsþáttum. Bad Vicar úr þáttum Mitchell og Webb kemur upp í hugann.

    Við þekkjum líka dæmi um hið gagnstæða úr menningarsögunni, yngri presturinn í Ítölsku fyrir byrjendur er  mesta gæðablóð, Jón Prímus í Kristnihaldi undir jökli gengur í takt við þjóðina, og presturinn Ivan í Eplum Adams er góðhjartaður en kannski svolítið skrítinn. Í þáttunum um Klerkinn í Dibley sjáum við prest sem er samfélagsstólpi og mætir fólki og viðfangsefnum með húmor og jákvæðni.

    Atriðið í Steindanum okkar er á formi tónlistarmyndbands. Myndbandið er við þekkt lag Ameno með hljómsveitinni ERA. Það mætti hugsa sér að skoða það út frá hliðstæðum við önnur tónlistarmyndbönd, stemningin minnir á rappmyndbönd, en við erum ekki nægilega fróð um það svið til að geta fullyrt um það. Kannski getur einhver lesandi bloggsins frætt okkur um þetta.

    Ímynd og væntingar

    Brandarinn í atriðinu gengur út á að spila á ímynd presta og væntingar til prests og fermingar. Þess vegna er svona áhrifaríkt að draga upp mynd sem er gagnstæð því við eigum að venjast. Það vekur sterk viðbrögð.

    Við höfum horft á nokkur atriði úr þessum þáttum. Þau eru misfyndin, eins og gengur með svona efni. Fermingaratriðið vekur blendnar tilfinningar. Það gerir okkur líka hugsi um ímynd presta og um skilaboðin sem við fullorðna fólkið gefum unglingunum okkar um það sem lífið gengur út á. Virðing fyrir okkur sjálfum og fyrir öðrum er mikilvægt veganesti fyrir unglingana okkar, kannski það mikilvægasta sem þau fá út í lífið. Ef tilgangur Steindans okkar var að minna okkur á það, hefur hann náðst.

  • Ábyrgð stjórnmálamanna – trúnaður við almenning

    Árni:

    Í öðru örviðtalinu sem ég tók við Vilhjálm Árnason ræðir hann um ábyrgð fagstétta og stjórnmálamanna. Þeir ættu að líta á og hugsa um skyldur sínar út frá trúnaðarskyldum við almenning. Breyta þarf sýn stjórnmálamanna á ábyrgð sína.

  • Áberandi skortur á virðingu fyrir reglum

    Árni:

    Það var áberandi skortur á virðingu fyrir reglum í íslensku samfélag, sagði Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki, þegar við spjölluðum saman um daginn. Vilhjálmur var einn af aðalfyrirlesurum Prestastefnu sem var haldin í lok apríl. Hann ræddi þar um siðferði og samfélag og kom inn á skýrsluna og hrunið. Ég tók við hann stutt viðtal, þrjú myndbönd úr því hafa nú ratað á vefinn. Þetta er það fyrsta:

  • Trúverðug kirkja

    Árni:

    Í morgun hittum við Kristín þýska guðfræðinginn Klaus-Peter Jörns. Hann er kominn hingað til lands til að tala á ráðstefnu um frjálslynda guðfræði. Jörns hefur skrifað mikið um trúverðugleika í samhengi guðfræði og kirkju. Um trúverðuga guðfræði og trúverðuga kirkju. Við tókum við hann stutt viðtöl sem er hægt að skoða á YouTube:

    Kristín skrifaði líka pistil á trú.is um trúverðuga kirkju.

  • Kjósin og stóru spurningarnar

    Árni:

    Í næstu viku hefst kvikmyndahátíðin Skjaldborg á Patreksfirði. Þar verður meðal annars sýnd kvikmyndin Liljur vallarins. Hún fjallar um stórar spurningar í raunverulegu umhverfi, nánar tiltekið um tilvist, trú og kirkju í Kjósinni. Presturinn á svæðinu kemur heilmikið við sögu:

    Myndin er tekin að mestu leyti í Kjósinni, sem er 200 manna sveitasamfélag í skjóli við Esjuna. Séra Gunnar [Kristjánsson] kemur inn í þetta íhaldsama bændasamfélag með róttækar hugmyndir frá Evrópu, kenningar friðarhreyfinga og nýjar hugmyndir um náttúruvernd. Í hans huga eru þessar hugmyndir nátengdar kenningum Jesú frá Nasaret og boðskap Biblíunnar. Í sókninni eru ekki allir sammála um það.

    Sem áhugamaður um prestamyndir er ég spenntur að sjá hana, en líka af því að ég er forvitinn að sjá hvernig fjallað er um tilvistarspurningarnar á hvíta tjaldinu. Vonandi rata Liljur vallarins fljótt suður þannig að við sem ekki eigum heimangengt getum notið þeirra.

  • Fátækt og bænir

    Gegn fáækt

    Árni og Kristín:

    Fyrir utan eldfjöllin eru fyrirbæri ársins 2010 kannski undirskriftalistar þar sem fólk tjáir afstöðu sína og skoðanir til ólíkra málefna. Áskoranirnar til forseta Íslands um að skrifa ekki undir Icesave lögin eru okkur í fersku minni og á Facebook samskiptavefnum hafa ótal slíkir listar sprottið á formi hópa sem helgaðir eru ólíkum málefnum. Þetta eru nokkurs konar bænalistar.

    Bænalistarnir breyta engu í sjálfu sér. Réttlætinu verður ekki fullnægt við það að við setjum nafn okkar undir yfirlýsingu þess efnis að fjárglæframenn sem köstuðu mykju á málstað ekkna og munaðarleysingja eigi að iðrast gjörða sinna og hljóta makleg málagjöld.

    Bænir sem við beinum hvert til annars og til almættisins gera aðeins sitt gagn ef þær leiða til aðgerða. Bænir, hvers eðlis sem þær eru, eiga að beina okkur til þeirra sem á einhvern hátt skortir það sem þarf til að lifa með mannlegri reisn. Bænalíf sem skilar sér ekki út í lífið er ónýtt bænalíf.

    Nú stendur yfir Evrópuár gegn fátækt og félagslegri einangrun. Athygli okkar hefur beinst að fátækt á Íslandi. Hún birtist í ólíkum myndum, en alltaf rænir fátæktin manneskjuna reisn og tækifærum til að blómstra. Fátækt hefur lengi verið staðreynd á Íslandi, en margt bendir til að Hrunið hafi aukið hana. Í dag eiga rúmlega 11.000 börn foreldri án atvinnu og 30.000 Íslendingar lifa í fátækt.

    Það breytist ekki neitt þótt við göngum í Facebook hópinn Við mótmælum fátækt á Íslandi. Látum því ekki staðar numið með listana. Nú er tími til að byggja samfélag þar sem allir geta lifað með reisn. Samfélag þar sem við sættum okkur ekki við fátækt. Tökum okkur stöðu með þeim sem eru útilokuð frá nægtaborðinu, búa við kröpp kjör. Vinnum í þágu þeirra og samfélagsins.

    Birtist einnig í Fréttablaðinu, á Vísi.is og á trú.is 12/5/2010.

  • Í hjartastað

    Árni:

    Ég hitti Sigrúnu Óskarsdóttur, prest í Árbæjarkirkju, í síðustu viku, og fékk hana til að segja mér svolítið frá því sem er framundan í söfnuðinum. Hún sagði mér líka frá slagorði Árbæjarkirkju sem er stutt yrðing: „Í hjartastað“.

  • Aðgerðasinnar þjónustunnar

    Árni:

    Bænin á að leiða til þess að við verðum eins konar aðgerðasinnar, aðgerðasinnar þjónustunnar. Þetta var eitt af því sem við Kristín ræddum í messunni í Víðistaðakirkju í morgun. Við vitnuðum líka nýja trúarjátningu eftir Ármann Gunnarsson, djákna, sem dvelur um þessar mundir við rannsóknir á aðstæðum stéttleysingja á Indlandi.

    Ármann hefur skarpa sýn á réttlæti og þjónustu og í játningunni segir hann meðal annars:

    Ég trúi á Jesú Krist, vin minn og frelsara, sem fæddist inn í þennann heim til að leita að hinu týnda og frelsa það. Á Jesú vin minn sem tók sér stöðu með þeim sem eru útilokuð frá nægtarborðinu, þeim sem eru hungruð, án klæða, í fangelsum, þyrst, útskúfuð, öðruvísi, með þeim sem þræla við að búa til kaffið mitt, fötin mín og matinn minn, dótið mitt, já með þeim sem vinna öll þau störf sem verður að vinna í hverju samfélagi en þau sem eiga fé og völd vilja ekki vinna sjálf – með verkafólki og ummönnunarstéttum.

    Ég trúi á Jesú Krist, vin minn, sem gagnrýndi óhræddur valdastéttir, fræðimenn og fariseia. Ég trúi á Jesú bróðir minn, sem vildi frekar standa með þeim lægst settu og kallaði þau til starfa sem þjóna sína. Hann er hinn hungraði, fátæki, þyrsti sá sem er sviptur frelsi, hinn nakti stéttlausi maður.

    Ég trúi á Jesú Krist systur mína, sem elskar mig og segir mér að ef ég vilji endurgjalda þessa ást verði ég að elska vini hans og systkyni … öll þau sem lifa án fullra mannréttinda í heiminum.

    Ég held að við getum lært af þessu. Ég held að okkur væri hollt að prófa að hugsa um okkur sem samfélags-aðgerðasinna og sem þjóna í umhverfinu okkar.

  • Gegn fátækt og félagslegri einangrun

    Árni og Kristín:

    Nú stendur yfir Evrópuár gegn fátækt og félagslegri einangrun. Yfirstandandi vika er helguð vitundarvakningu um þetta brýnamálefni og á morgun höfum við prestarnir verið hvött til að fjalla um þetta í prédikunum. Við ætlum að ræða þetta í Víðistaðakirkju klukkan ellefu í fyrramálið. Þangað til er hægt að skoða stutta brýningu frá Karli Sigurbjörnssyni, biskupi Íslands.