Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Hjúskaparlög fyrir alla, kellingar og kalla

    Kristín:

    Margir prestar innan þjóðkirkjunnar fagna einum hjúskaparlögum. Rúmlega níutíu prestar, djáknar og guðfræðingar skrifuðu undir yfirlýsingu þess efnis í apríl. Lögin voru samþykkt í gær. Það var gleðidagur og enn meira verður fagnað 27. júní þegar lögin taka gildi. Þann dag verður messað í þjóðkirkjunni og á mörgum stöðum verða gleði- og regnbogamessur af þessu tilefni.

    Til hamingju!

  • Vatn, réttlæti og Biblían

    Kristín:

    Í Biblíunni er vatn táknmynd réttlætis fyrir alla og umgengni við vatn er mælistika á siðferði manneskjunnar. Að synja þyrstum um vatn er synd (Job 22.7). Og spámaðurinn Esekíel þrumar yfir þeim sem spilla vatni svo að aðrir geta ekki notið þess:

    Nægir yður ekki að drekka tæra vatnið, nema þér gruggið upp það, sem eftir er, með fótum yðar? Og svo verða sauðir mínir að bíta það, sem þér hafið troðið með fótum yðar, og drekka það, sem þér hafið gruggað upp með fótum yðar (Esk 34.18-19).

    Vonska og spilling manneskjunnar kemur líka með sérstökum hætti fram í ranglæti í vatnsumgengni. Þetta á bæði við um trúarlífið og framkomu við aðra. Jeremía spámaður, sem var samviska þjóðar sinnar á erfiðum tímum, lýsir hinu siðferðilega ástandi svo:

    Því að tvennt illt hefir þjóð mín aðhafst: Þeir hafa yfirgefið mig, uppsprettu hins lifandi vatns, til þess að grafa sér brunna, brunna með sprungum, sem ekki halda vatni (Jer 2.13).

    Og hin endanlega svívirða þess sem valdið hefur, er að krefja fólk um borgun fyrir aðgang að vatni: “Vatnið sem vér drekkum, verðum vér að borga” (Hl 5.4).

    Á sama hátt er hið góða og réttláta ástand tjáð með gnægð vatns. Hin réttláta manneskja er vatnsveita sem lætur “réttinn vella fram sem vatn og réttlætið sem sírennandi læk” (Am 5.24). Sömuleiðis stendur náð Guðs opin hverjum þeim sem vill: “Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn” (Op 22.17).

  • Vatnið og markaðslögmálin

    Kristín:

    Í dag var frumvarp um afnám vatnalaga afgreitt úr iðnaðarnefnd Alþingis. Miklar deilur urðu um vatnalögin árið 2006, einkum breytingu á eignarréttarákvæði laganna sem kvað á að landeigendur skyldu öðlast eignarrétt á vatnsauðlindum í eignarlöndum sínum.

    Mynd: Árni Svanur Daníelsson

    Mynd: Árni Svanur Daníelsson

    Kirkjan stendur föstum fótum í grundvallarskilningi sínum á því að vatnið sem grunnefni lífs og Guðs gjöf til allra, eigi aldrei að lúta markaðslögmálum eða gróðasjónarmiðum sem koma niður á almannahagsmunum. Hún leitar í sína eigin hefð að myndmáli og áherslum sem undirstrika samábyrgð okkar gagnvart hvert öðru og umhverfinu sem við tilheyrum. Þannig eru áþreifanleg vatnsmál tjáð með hugtökum guðfræðinnar og orðfæri trúarinnar.

    Við erum minnt á að takmörkuð auðlind skapar þörf fyrir að deila því sem við höfum með þeim sem ekki hafa. Kirkja Krists er einn líkami sem nærist af sama vatni í sama andlega og efnislega vistkerfinu. Vatnið sem Guðs gjöf kallar sömuleiðis á ábyrgð manneskjunnar að umgangast það með virðingu og skynsemi. Mannréttindi og vatnsvernd eru þess vegna forgangsatriði í því umhverfi sem við viljum skapa í kringum vatn, á Íslandi og heiminum öllum.

  • Réttlæti, umhyggja og reisn í hnattvæddu markaðssamfélagi

    Árni:

    Þetta er þriðja viðtalið af þremur sem ég tók við Martin Junge og Peter Prove í tilefni af komu þeirra hingað til lands. Þeir eru komnir til að tala á málþinginu Vorar skuldir sem verður haldið í Neskirkju 7. júní kl. 13.

  • Ísland sem fyrirmynd og Ísland sem lexía

    Árni:

    Við höfum séð gjá myndast milli efnahagskerfis og samfélags manna í heiminum, segir Peter N. Prove, sem er í forsvari fyrir mannréttindastarf Lútherska heimssambandsins. Þetta hefur haft djúpstæð áhrif. Vandinn hér á Íslandi er dæmi um þetta og hér á landi getur að líta afleiðingar þessarar gjár, afleiðingar ábyrgðarleysis og skorts á siðferðisramma. Hann bætir við: Við teljum að það sem hefur gerst á Íslandi feli í sér mikilvægan lærdóm fyrir Íslendinga og fyrir fólk um allan heim.

    Þetta er annað viðtalið af þremur sem ég tók við Martin Junge og Peter Prove í tilefni af komu þeirra hingað til lands. Þeir eru komnir til að tala á málþinginu Vorar skuldir sem verður haldið í Neskirkju 7. júní kl. 13.

  • Ólögmætar skuldir og hnattvæðing

    Árni:

    Við höfum mikla reynslu í Lh af því að fást við fjárhagsleg áföll og krísur, segir Martin Junge, verðandi framkvæmdastjóri Lútherska heimssambandsins. Hann bætir við: Við höfum fjallað mikið um ólögmætar skuldir og viljum deila þeirri reynslu með Íslendingum og íslensku kirkjunni. Við viljum skoða áskorunina sem felst í núverandi aðstæðum og viljum ræða spurninguna: Hvernig eigum við að lifa saman í hnattvæddum heimi?

    Þetta er fyrsta viðtalið af þremur sem ég tók við Martin Junge og Peter Prove í tilefni af komu þeirra hingað til lands. Þeir eru komnir til að tala á málþinginu Vorar skuldir sem verður haldið í Neskirkju 7. júní kl. 13.

  • Hvaða skuldir eru óréttmætar?

    Árni og Kristín:

    Í greininni „Ábyrgð óréttmætra skulda hvílir á þeim sem veita lánið“ nefnir Joseph Hanlon átta atriði sem geta leitt til þess að skuldir teljist óréttmætar.

    Sænskar krónur

    Harðstjórn
    Illa þokkaðar skuldir kallast skuldir sem verða til þegar harðstjórar taka lán til að styrkja sig í sessi. Slíkar skuldir ber að líta á sem skuldir stjórnarinnar en ekki ríkisins.

    Skuldir sem eru teknar í arf
    Nelson Mandela, forseti Suður Afríku, var beittur miklum þrýstingi til að greiða 21 milljarð Bandaríkjadala sem voru fengnar að láni. Lántakandi var ríkisstjórn hvíta minnihlutans. Hún hafði nýtt peningana í þágu aðskilnaðarstefnunnar og til að kúga svarta meirihlutann í landinu.

    Spilling
    Hundruðir milljóna bandaríkjadala hafa aldrei skilað sér til lántakenda. Þess í stað hafa spilltir leiðtogar dregið að sér fé og lagt inn á eigin reikninga í erlendum bönkum. Þetta er gert með vitund lánveitanda. Niðurfellingar lána til Nígeríu voru meðal annars á grundvelli þessa.

    Pólitískar lánveitingar
    Á tímum kalda stríðsins voru mörg lán veitt harðstjórum sem studdu Vesturlönd, til dæmis Mobutu í Zaire og Suharto í Indónesíu. Lánin voru veitt án þess að kannað væri hvort verkefnin sem lánað var til væru æskileg eða hvort lánin yrðu endurgreidd.

    Mikil vanræksla
    Lán sem eru veitt þegar vitað er að ekki verði hægt að endurgreiða þau eru teljast vera á ábyrgð lánveitanda. Slíkt telst mikil vanræksla. Dæmi um þetta eru lán Alþjóða gjaldeyrissjóðsins til Zaire við lok áttunda áratugarins.

    Misheppnuð verkefni
    Mörg lán eru veitt til verkefna sem má rekja til landanna sem veittu lánin. Fátækari lönd hafa oftar en ekki forsendur til að meta slík verkefni og þurfa því að reiða sig á þekkingu annarra. Þegar verkefnin skila ekki árangri verður lánveitandinn, sem hefur þekkinguna, að axla ábyrgðina. Dæmi um þetta er 2,3 milljarða dala kjarnorkuver sem var byggt á þekktu sprungusvæði í Filippseyjum.

    Okur
    Okurvextir hafa lengi verið vandamál. Skuldavanda upp úr 1980 má meðal annars rekja til þess að þá varð breyting á raunvöxtum. Þeir höfðu verið afar lágir en urðu allt að 12% á þeim tíma. Það leiddi til þess að mörg lönd gátu ekki greitt af lánum sínum og þurftu jafnvel að taka ný lán til að geta staðið við skuldbindingar sínar.

    Óásættanleg skilyrði
    Sumum alþjóðlegum lánum fylgja skilyrði sem brjóta í bága við stjórnarskrár eða landslög. Dæmi um það eru skilyrði frá Alþjóðabankanum eða Alþjóða gjaldeyris-sbljóðnum varðandi einka-væðingu, lækkun launa opinberra starfsmanna, komugjöld í heilsugæslu, skólagjöld o.fl. Skilyrði sem þessi geta haft slæm áhrif á samfélagið. Skilyrði sem hafa áhrif langt út fyrir tilgang láns geta leitt til þess að það sé talið óréttmætt.

    Nánar má fræðast um Hanlon á vefnum hans.

    Þessi grein og fleira birtist einnig í júníhefti Víðförla sem fjallar um óréttmætar skuldir.

  • Valdaflokkur eða grasrótarhreyfing?

    Árni:

    Hjalti Hugason, prófessor í guðfræði, brýnir kirkjuna í pistlinum Þjóðkirkjan – valdaflokkur eða grasrótarhreyfing sem birtist í dag á vefnum trú.is. Hjalti hefur í vetur skrifað mikið um sjálfsmynd kirkjuna og þörfina fyrir gagnrýna sjálfsskoðun. Hann bendir í pistlinum á að kirkjan geti bæði séð sig í slagtogi við valdaflokka og grasrótarhreyfingar og hvetur kirkjuna til að samsama sig frekar grasrótinni:

    Þjóðkirkjan býr að félagslegu neti sem spannar landið allt. Víða er hún einn mikilvægasti þátturinn í nærumhverfi fólks. Enn er hún líka í hópi þeirra samtaka sem reglulega nær til hvað flestra eða hvaða félag safnar jafnmörgum til vikulegra samfunda og hún? Við núverandi aðstæður ber Þjóðkirkjunni að taka höndum saman við öll þau samtök sem vilja efla félagslegt starf, beina því í hollan farveg og byggja upp Nýtt Ísland. Þannig verður hún áfram þjóðkirkja í jákvæðri merkingu.

  • Völdum fylgir ábyrgð – opið bréf

    Árni og Kristín:

    Elsku Besti flokkur!

    Innilega til hamingju með stórglæsilegan árangur í borgarstjórnarkosningunum um helgina. Eins og alþjóð veit, þá komst þú, sást og sigraðir. Hinum flokkunum gekk ekki jafn vel.

    Á ylströndinni

    Kannski mátum við kjósendur það sem svo að hinir flokkarnir hafi ekki staðið við loforðin sín. Hafi ekki notað völdin vel. Hafi frekar notað þau í eigin þágu en annarra. Hafi ekki hlustað.

    Þú lofaðir ýmsu. Vonandi gengur vel að efna það. Við hlökkum sérstaklega til að þurfa ekki að taka handklæði með í sund. Við eigum svo mörg börn að okkur munar um að þurfa ekki að druslast með fullt skott af blautum handklæðum.

    Nú er þetta í þínum höndum. Og völdum fylgir ábyrgð. Fyrsta bíómyndin um Köngulóarmanninn minnir okkur á það. Þar sjáum við þegar Peter Parker lætur ógert að stíga inn í aðstæður og stoppa skúrk sem vinnur óvinum hans tjón. Afleiðingarnar eru hræðilegar. Á þetta er líka minnt í sjónvarpsþáttunum The Wire, eins og þú þekkir auðvitað mæta vel. Þar erum við líka minnt á hvað þarf að vera í lagi til að samfélag sé gott.

    Ofurhetja með ábyrgðartilfinningu er kannski það sem Reykvíkingar óskuðu sér í þessum kosningum. Mikill vandi blasir við einstaklingum og samfélaginu öllu. Inn í þessar aðstæður þarf að stíga, slá vörð um velferð og styðja við fólk á öllum aldri. Til þess varst þú valinn.

    Nú ríður á að nota okkar sameiginlegu sjóði sem best. Af því að þeir eru ekki ótakmarkaðir, þarf að ákveða hvað verður gert og hvað er látið ógert. Kannski eru ókeypis handklæði ekki það sem mest liggur á. Við treystum þér til að velja rétt.

    Gangi þér allt í haginn!

    Þessi pistill birtist einnig í Fréttablaðinu, 2. júní 2010.