Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Nærandi samfélag

    Árni og Kristín:

    Dr. Rowan Williams, erkibiskup af Kantaraborg, flutti aðalfyrirlestur heimsþings LH. Hann minnti okkur á að sem kirkja eigum við að vera samfélag þjónustu og gagnkvæmrar næringar. Þetta snerti á hugsuninni um hina þjónandi kirkju og þetta var ágæt áminning því samhengi og í samhengi yfirskriftar heimsþingsins sem er „Gef oss í dag vort daglegt brauð“.

    Ef kirkjan gleymir sér í eigin deilum sendir hún skilaboð um að hún hirðir ekki um þarfir eða gjafir náungans. Við getum gleymt okkur í endalausri iðjusemi í þjónustunni við aðra en vanrækt okkar eigið hungur og fátækt. Óaðfinnanlegt helgihald kemur ekki staðinn fyrir að við umbreytum samfélagi okkar í samfélag gagnkvæmrar næringar. Þannig samfélag á kirkjan að vera. Ef látum staðar numið við grundvallarréttindi manneskjunnar, missum við af fegurð hennar og reisn – en í því er brauðið sem nærir okkur fólgið.

  • Segjum söguna upp á nýtt

    Árni og Kristín:

    Hluti af því að geta haldið áfram, er að gera upp við sína eigin sögu og horfast í augu við það sem hefur valdið öðrum og okkur sjálfum skaða. Í sögu Evrópu er mikið um ofbeldi og ofsóknir sem tengjast trú og trúarbrögðum.

    Í iðrunarmessu á heimsþingi Lútherska heimssambandsins í Stuttgart heyrðum við sögur af ofsóknum á hendur endurskírendum og Mennonítum, upplifðum sársaukann með þeim sem þjáðust og fundum sorg yfir ranglæti og misnotkun sem okkar eigin trú hefur ýtt undir.

    Við stigum skref í átt að samfélagi sem þorir að biðja um fyrirgefningu og þorir að fyrirgefa.

  • Daglegt brauð eru mannréttindi allra

    Árni og Kristín:

    Aðgangur að mat er ein af forsendum réttlætis og friðar. Á þetta erum við minnt í Faðir vorinu þegar beðið er: „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“

    Kross sem minnir á daglegt brauð

    Fimmtung mannkyns skortir daglegt brauð. Samt er nægur matur til í heiminum. Veruleiki syndar og niðurbrots birtist í því að hungur er til staðar í heiminum í miklum mæli.

    Við, sem höfum nóg, eigum að leggjast á eitt og deila því sem við höfum. Þannig tökum við orð Jesú í 25. kafla Mattheusarguðspjalls alvarlega, þar sem hann segir „Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“

    Frá sjónarhóli kristinnar trúar er ekki bara maklegt og réttvíst að deila fæðu með þeim sem skortir hana, heldur setur Guð þá kröfu á fólkið sitt að það „leysi fjötra rangsleitninnar“, „gefi frjálsa hina hrjáðu“ og „miðli hinum hungruðu af brauði sínu“ (Jes 58.6). Þetta spámannlega sjónarhorn færir okkur að rótum vandans og beinir athygli að kerfinu sem viðheldur ástandi hungurs og skorts.

    Marteinn Lúther skrifaði í Fræðunum meiri um bænina „Gef oss í dag vort daglegt brauð“ að hún væri í raun bæn fyrir öllu sem manneskjan þarfnast til að lifa og njóta lífsins á hverjum degi og gegn hverju því sem stendur í vegi fyrir því. Þegar kemur að díakoníu og hjálparstarfi er því ekki nóg að gefa með sér af brauðinu sínu ef því fylgir ekki krafa um réttlæti til handa þeim sem líða undan fátækt.

    Það er til nóg til af brauði til að fæða allan heiminn. Því hlýtur hungrið í heiminum að stafa af misskiptingu gæða. Sum hafa meira en nóg, önnur hafa alltof lítið. Slíkt er óásættanlegt. Hvort sem misskipting á rætur að rekja til græðgi, sögulegra atburða, náttúruhamfara eða vanþekkingar, á hún ekki að líðast. Við erum kölluð til að vinna gegn misskiptingu. Við erum kölluð til að uppræta hungur.

    Daglegt brauð eru mannréttindi allra.

  • Þjóð, kirkja og hjúskapur

    Árni og Kristín:

    Um helgina tóku gildi ný hjúskaparlög á Íslandi. Fyrir það hafa Íslendingar hlotið hrós frá mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna sem lítur á lögin sem skref í þá átt að samkynhneigðir njóti jafnra réttinda og virðingar.

    Þingvallakirkja á júníkvöldi

    Hér á landi hafa trúfélög umboð til að gefa fólk saman í hjónaband. Þess vegna hafa þau verið virkir þátttakendur í samtalinu um hjúskaparlögin. Eðli málsins samkvæmt snertir þetta mál þjóðkirkjuna með sérstökum hætti þar sem prestar hennar framkvæma langflestar hjónavígslur sem fram fara í landinu.

    Innan þjóðkirkjunnar hafa málefni samkynhneigðra verið mikið til umfjöllunar. Kirkjan hefur, eins og samfélagið almennt, þurft að horfast í augu við að margt í hennar eigin sögu hefur stuðlað að útskúfun og jaðarsetningu samkynhneigðra. Viðhorfsbreyting gagnvart samkynhneigðum hefur átt sér stað í þjóðkirkjunni, eins og í samfélaginu almennt.

    Þjóðkirkja hefur ríkari skyldur við þjóðina en önnur trúfélög. Kirkja og þjóð eiga að ganga saman þegar kemur að umbótum á mannréttindum og auknu jafnrétti. Annars missir kirkjan marks sem þjóðkirkja og gerir sig að sértrúarsöfnuði. Sértrúarsöfnuður lýtur öðrum lögmálum en þjóðkirkja og getur í nafni trúar og samviskufrelsis farið aðra leið en fólkið í landinu þegar kemur að umbótum á mannréttindum.

    Frá því lög um staðfesta samvist tóku gildi 27. júní 1996 hafa samkynja pör getað fengið blessun og bæn yfir samband sitt í kirkju. Frá 27. júní 2008 hafa pör getað staðfest samvist sína í kirkju. Frá 27. júní 2010 geta bæði samkynja pör og gagnkynja pör gengið í hjónaband í kirkju. Þetta er eðlileg þróun. Kirkjan er samstiga þjóðinni í umbótum á mannréttindum og velferð. Þjóð og kirkja eiga samleið þegar ný hjúskaparlög taka gildi.

  • Til hamingju með ein hjúskaparlög

    Árni og Kristín:

    Til hamingju með daginn

    Til hamingju með ein hjúskaparlög sem taka gildi í dag. Deginum verður fagnað með fjölbreyttum hætti í kirkjum víða um land, t.d. verður gleðimessa á Möðruvöllum í Hörgárdal kl. 20.30 í kvöld.

    Þessi dagur er gleðilegur af svo mörgum ástæðum. Það er sannarlega skref í rétta átt í mannréttindamálum að samkynhneigðir séu ekki aðgreindir með sérstökum lögum sem gilda bara um þá. Kirkjan hefur verið þátttakandi í samtalinu um hjúskaparlögin vegna þess að trúfélög á Íslandi hafa umboð til að vígja í hjónaband. Innan kirkjunnar – eins og í samfélaginu öllu – hefur grundvallar viðhorfsbreyting gagnvart samkynhneigðum átt sér stað.

    Frá og með deginum í dag geta öll pör gengið í hjónaband í þjóðkirkjunni. Þannig á það að vera – og því ber að fagna!

  • Skilnaðarveislur

    Kristín:

    Mynd: Roberto Bouza

    Mynd: Roberto Bouza

    Í skemmtilegri frétt á RUV segir frá hugvitsömum bissnissmanni í Japan sem býður hjónum sem eru að skilja upp á að halda þeim veislu af tilefninu.  Kannski dettur flestum ekki veisluhöld í hug þegar hjónaskilnaður er annars vegar – en hugmyndin að gera þeim tímamótum skil er ekki ný af nálinni.

    Það fylgir manneskjunni að vilja lyfta upp með einhverjum hætti stórum stundum í lífinu.  Margar kenningar í mannfræði um helgihald og helgisiði ganga út frá því að við tímamót og krossgötur sé manneskjunni beinlínis nauðsynlegt að viðhafa ritúal eða heilaga stund. Slík stund miðlar merkingu og staðfestir ferli sem á sér stað.

    Þessar helgistundir gegna margvíslegu hlutverki. Stundum eru þær beinlýnis ætlaðar til þess að koma breytingum til leiðar – eins og margvíslegir útfararsiðir gegna því hlutverki að auðvelda ferðalagið frá þessu lífi yfir í hið næsta. Við getum skoðað hjónavígsluna – eins og hún birtist í ólíkum trúarbrögðum og menningarsamhengi – út frá þessu sjónarhorni. Hjónavígslan er haldin til að gera sýnilegt – og raunverulegt – að tveir einstaklingar úr tveimur fjölskyldum rugla nú reitum sínum og binda nýtt bandalag. Þetta er gert í heyranda hljóði og staðfestir fyrir umhverfinu að þessi breyting hefur átt sér stað.

    Ýmsar félagslegar aðstæður þurfa að vera til staðar til að krossgötur í lífi manneskjunnar fá þann sess að verðskulda helgisiði. Eitt af því er sameiginlegur skilningur á því sem á sér stað. Barn fæðist – á því leikur enginn vafi – við höldum skírn, nafngjöf, helgun eða eitthvað slíkt. Barn verður að fulltíða manneskju – við sjáum ýmsar útfærslur á hvernig haldið er upp á það.

    Þetta á líka við um hjónavígslu eða brúðkaup. Skilnaður hefur hins vegar ekki fengið sérstaka athöfn fyrir sig – og fer þannig lagað séð ekki fram fyrir opnum tjöldum.  Engum dylst að skilnaður er stór breyting á högum einstaklinga og fjölskyldu – félagslega, tilfinningalega, fjárhagslega. En það sem greinir skilnað frá mörgum öðrum breytingum í lífinu er að aðilar málsins koma hugsanlega að því frá ólíkum hliðum og upplifa hann ólíkt. Fyrir einn er skilnaðurinn lausn, fyrir annan skipbrot.  Jafnvel þegar um sama skilnað er að ræða.

    Vegna þess að erfitt er að finna sameiginlega tjáningu á því sem skilnaðurinn hefur í för með sér, er líka erfitt að miðla henni með athöfn. En það er auðvitað alltaf tilefni til að halda góða veislu.

  • Allir geta gift sig í kirkju

    Árni og Kristín:

    Þingvallakirkja

    Í Bakþönkum Fréttablaðsins í dag skrifar Hólmfríður Helga Sigurðardóttir að „ótrúlegur fjöldi þjóðkirkjupresta“ ætli ekki að gefa samkynja pör saman í hjónaband og sé á móti því að samkynhneigðir njóti jafnra réttinda og virðingar í samfélaginu.

    Þetta er ekki rétt.

    Meirihluti presta fagnar nýjum hjúskaparlögum og frá og með 27. júní geta allir sem vilja gengið í hjónaband í kirkjunni sinni. Og þau sem koma eru afar velkomin.

  • Að skilja ríki og kirkju

    Það er liðin tíð á Íslandi að stjórnmál, vísindi og listir lúti kenningarvaldi eða sjónarmiðum kirkjunnar. Aðgreining hins opinbera frá trúarsetningum er óumdeilanlegt fyrirkomulag um vestrænan heim og einkenni nútímans. Það þýðir hins vegar ekki að ríkisvaldið sé ósnortið af veruleika trúar og trúfélaga eða tengsl kirkju og ríkis séu ekki til staðar í einhverri mynd á hverjum tíma.
    Krafan um „algjöran aðskilnað” ríkis og kirkju missir að okkar mati marks því hún horfir fram hjá veigamiklum atriðum sem er nauðsynlegt að hafa í huga til að skilja ríki og kirkju.

    Í fyrsta lagi snúast tengsl ríkis og kirkju um stöðu trúarbragða í menningunni og hvernig hið opinbera tengist þeim í samfélaginu. Undir þetta fellur hvernig trú, trúfélög og trúarbrögð móta einstaklinginn í nútímanum, viðhorf hans, lífstúlkun og mannskilning. Trú er persónulegs eðlis en samt ekki einkamál hvers og eins. Samspil einstaklings og samfélags er gagnvirkt að þessu leyti og á sér stað í hinu opinbera rými.

    Í öðru lagi lúta tengsl ríkis og kirkju að því hvernig hið opinbera hefur bein afskipti af starfsemi trúfélaga í gegnum lagasetningar og reglugerðir. Hér ber að horfa til þjónustu sem ríkið innir af hendi í þágu allra trúfélaga, vegna þess að framlag þeirra til samfélags og velferðar eru metin. Ríkið þjónustar trúfélög m.a. með innheimtu sóknargjalda, sem eru einmitt ekki bein framlög hins opinbera.

    Í þriðja lagi þarf að huga að sérstakri stöðu þjóðkirkjunnar sem stærsta trúfélags í landinu með auknar skyldur og ábyrgð þess vegna. Um það hefur Hæstiréttur fjallað og komist að því að núverandi tengsl ríkis og trúfélagsins þjóðkirkjunnar brjóti ekki gegn jafnræðisreglu ríkisins eða séu óeðlileg út frá mannréttindasjónarmiðum.

    Annars skiljum við ekki ríki og kirkju.

    Birtist í Fréttablaðinu, 16. júní 2010.

  • Fleiri vatnsdropar

    Í dag bárust fréttir frá Alþingi um að gildistöku vatnalaganna hefði verið frestað.  Í frétt sem birtist hér á Eyjunni segir:

    Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í kvöldfréttum RÚV nú áðan að þótt vatnalögum verði ekki breytt fyrir þinglok verði það tryggt að þau taki ekki gildi og því sé niðurstaðan ásættanleg í bili að hennar mati. … [S]amkvæmt samkomulaginu á Alþingi í kvöld verður gildistökunni verði frestað fram á næsta ár, þannig að enn verði svigrúm til að afnema þau eða breyta verulega.

    Við blogguðum um vatn á dögunum. Á trú.is má lesa meira um vatn, meðal annars þessa pistla:

    Það er full ástæða til að rifja þetta upp og huga að því í áframhaldandi umræðu um vatnið okkar.

  • Góður leiðtogi þjónar

    Árni:

    Góður leiðtogi þjónar segir Tutu erkibiskup.