Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Trú, typpi og píkur

    Er trúin eins og typpi? Jón Gnarr skrifar um hliðstæðuna milli trúar og typpis í Fréttablaðspistli um helgina. Hann segir hvort tveggja ágætt til persónulegra nota „…en ekki tala mikið um það við ókunnuga eða troða því upp á fólk“. Líkingin er áhugaverð, en ekki endilega af þeirri ástæðu sem Jón telur. Til að hafa gagn af henni þarf að útvíkka hana svo hún nái yfir bæði typpi og píkur. Annars njóta hvorki trúin né typpin sannmælis.

    Rétt eins og allir karlar eru með typpi og allar konur með píku er trú og lífsskoðun órjúfanlegur hluti af hverri manneskju. Ekki í þeirri merkingu að hún trúi á Guð sem er handan þessa heims heldur hefur hún lífsskoðun sem tengir hana við meðvitundina um stöðu sína í tilverunni. Öll samfélög hvíla raunar á gildum sem tengjast slíkum lífsskoðunum.

    Kynfræðin kenna að kyn hefur raunveruleg áhrif á menninguna sem við sköpum og að tjáning kynverundar er heilbrigðismál og mikilvæg hverri manneskju. Það sama gildir um trú og lífsskoðanir. Af því að að trú og lífsskoðun er samofin einstaklingnum og sjálfsmynd hans er ekki gott að hann þurfi að bæla hana. Slík bæling tjáningarfrelsis er hliðstæð þeirri bælingu kynverundar sem við sjáum í löndum þar sem konum er gert að hylja líkama sinn – ekki aðeins píkur og brjóst – heldur líkamann allan. Það er hvorki heilbrigt né vænlegt að hunsa trú og lífsskoðanir og gera ekki ráð fyrir þeim í hinu opinbera rými, t.d. með því að taka hið trúarlega markvisst út fyrir rammann í skóla- og frístundastarfi.

    Þegar allt kemur til alls snýst þetta því ekki um það hvort „Guð sé til“ heldur hvort við viðurkennum trú og lífsskoðun sem heilbrigðan og eðlilegan þátt í lífi einstaklings og samfélags.

    Fréttablaðið, 17. febrúar 2014.

  • Biblíublogg 16: Lúther og Biblían

    Biblían var í brennidepli í lífi Lúthers og siðbótarinnar allrar. Sem prófessor í Wittenberg kenndi Marteinn Lúther ritskýringu Biblíunnar, hann ritaði fjölda skýringarrita við rit Biblíunnar, hann þýddi Biblíuna á þýsku og sem prestur prédikaði hann úr Biblíunni allt sitt líf.

    Í augum Marteins Lúthers var mikilvægast af öllu að fólk gæti lesið og skilið Biblíuna. Aðeins þannig gæti orð Guðs verið kjölfestan í lífi þess. Fyrirheit Guðs um líf var lykill Lúthers að frelsi manneskjunnar. Á grundvelli trúarinnar á þetta fyrirheit Guðs erum við kölluð til ábyrgðar í heiminum. Þannig er Biblían, trúin, náðin og Kristur sjálfur grundvöllurinn fyrir líf hinnar kristnu manneskju í heiminum.

    Biblíuþýðing Lúthers kom út á árunum 1522-1534, en Lúther hófst handa við hana árið 1521 þegar hann dvaldist í útlegð í kastalanum í Wartburg. Á meðan á dvöl hans stóð þar þýddi hann allt Nýja testamentið úr grísku. Hann sneri aftur til Wittenberg í mars 1522 og þá var sú þýðing endurskoðuð af honum og félögum hans, einkum Filippusi Melanchthon og Georgi Spalatín. Nýja testamentið kom svo út í september 1522.

    Þýðing á ritum Gamla testamentisins fylgdi í kjölfarið og kom út í nokkrum hlutum. Biblían öll kom út árið 1534. Þýðingarstarfinu var þó ekki lokið því Lúther og samstarfsmenn héldu áfram að endurskoða og endurbæta þýðinguna. Þýðingin var gerð úr frummálunum hebresku og grísku og hún var á góðu og skiljanlegu máli. Hið síðarnefnda átti eftir að tryggja áhrif hennar um langa tíð.

    Biblía Lúthers fékk mikla útbreiðslu. Prentaðar voru tíu útgáfur af allri Biblíunni og 80 útgáfur af hlutum hennar í Wittenberg á meðal Lúther lifði. Í ljósi þessa má segja að Biblíuþýðingin sé mikilvægasta verkið sem Lúther vann og sendi frá sér á sínum annars viðburðaríka ferli.

    Meira efni um Lúther og Biblíuna.

  • Biblíublogg 8: Ég stend með þér

    Í tuttugasta og fimmta kafla Matteusarguðspjalls eru talin upp verk sem eiga að móta viðhorf okkar til náungans. Þau útskýra hvað náungakærleikur merkir.

    Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín. (Matt 25.35-36)

    Þessi verk hafa í trúarhefðinni verið nefnd miskunnarverk og þau standa fyrir ábyrga afstöðu til náungans og mynda grundvöll samhjálpar og velferðar.

    Fyrir nokkrum árum var leitað til almennings að svari við spurningunni hver eru miskunnarverk samtímans. Niðurstaðan var þessi: Þú ert í hópnum, ég stend með þér, ég tala vel um þig, ég geng með þér dálítinn spöl, ég deili með þér, ég heimsæki þig, ég bið fyrir þér.

    Hvort tveggja, hin klassísku miskunnarverk og hin könnuðu miskunnarverk eru gagnleg þegar kemur að því að skilja hvað náungakærleikur og umhyggja merkir fyrir okkur sem tilheyrum hinni kristnu kirkju.

  • Biblíublogg 5: Biblían frá upphafi til enda … í popplögum

    Það má fara ýmsar leiðir til að fjalla um Biblíuna. Ein er sú að horfa til dægurmenningarinnar. Á YouTube fundum við þessa tilraun til að fanga kjarnann í Biblíunni með því að tengja þemu og sögur við þekkt popplög.

    Hvaða tenging finnst þér best heppnuð í myndbandinu?

  • Biblíublogg 4: Lifandi og túlkað trúarrit

    Í öðru Biblíublogginu skrifuðum við að aðferðarfræði kristins fólk við að lesa Biblíuna fælist í að nota hana sjálfa sem gleraugu eða linsu.

    Þetta er gert í hverri einustu guðsþjónustu. Þar eru lesnir þrír textar úr Biblíunni, einn úr Gamla testamentinu og tveir úr Nýja testamentinu. Að auki eru ótal vísanir í texta Biblíunnar í bænum safnaðarins og öðrum liðum messunnar.

    Annar textinn úr Nýja testamentinu er sóttur í guðspjöllin. Hann hefur sérstöðu því þar segir frá lífi og starfi Jesú. Iðulega geymir hann einnig einhver af orðum Jesú. Hinir lestrarnir tveir voru valdir með hliðsjón af guðspjallinu og efni þess.

    Hver einasti helgur dagur ársins á sitt sett af lestrum. Reyndar eru til fleiri en eitt sett. Núna notar þjóðkirkjan til dæmis tvær textaraðir.

    Aðferðarfræði guðsþjónustunnar felst í því að hlusta og meðtaka orð Biblíunnar úr fleiri en einni átt. Það er hlutverk prédikarans að túlka merkingu lestranna þriggja og tengja þá við líf og aðstæður þeirra sem hlusta.

  • Biblíublogg 3: Bent nálgast Biblíuna

    Í morgun hófst útvarpsþátturinn Virkir morgnar á laginu Bent nálgast með XXX Rottweiler hundar. Texti lagsins er dæmi um það hvernig flétta má Biblíustef inn í dægurlög.

    Þarna er m.a. vísað í sköpunarsöguna (1Mós 1.1–2.4) , engisprettuplágu (2Mós 10.1–20) og nafn Guðs kemur fyrir (2Mós 3). Í viðlaginu er þetta sett í samhengi þess heimurinn hafi verið skapaður á sjö dögum sem í meðförum rapparans verður upptaktur að heimsendi á sjö dögum:

    Skapaði heiminn á sjö dögum og eyði honum á jafn mörgum
    Náttúruhamfarir á fyrsta degi og engisprettur á öðrum
    Þriðja, fjórða, fimmta og sjötta mun ég bæta við ykkur kvölunum
    Kem svo sjálfur á sjöunda degi til að ráða ykkur af dögunum

    Guðsmyndin er eitt af viðfangsefnum langsins. Hér birtist hinn reiði Guð sem. Hann hefur í raun holdgerst í rapparanum eins og titill lagsins ber með sér.

    Guðsmyndin er eitt af stóru viðfangsefnunum í Biblíunni. Þar kynnumst við ólíkum myndum af Guð, Guði sem skapar heiminn (1Mós 1–2), Guði sem refsar (1Mós 6–7), Guði sem sýnir umhyggju (Hós 11.3–4, Lúk 13.34). Verkefnið okkar sem rýnum í Biblíuna er púsla þessum ólíka vitnisburði um Guð saman. Þegar við gerum það getur bæði verið gagnlegt og skemmtilegt að hafa hliðsjón af vinnu textaskáldanna sem yrkja í samtímanum.

  • Biblíublogg 1: Skrifaði Guð Biblíuna?

    Biblían er stundum kölluð orð Guðs. Það þýðir ekki að Guð hafi skrifað hana eða að allt þar sé frá Guði komið. Biblían er ekki Guðs verk heldur mannanna verk.

    "Escribano" eftir Jean Le Tavernier
    Höfundur skrifar bók. Mynd frá 15. öld. Wikipedia
    Samt lítur kristið fólk á Biblíuna sem hluta af sinni sögu sem inniheldur ávarp Guðs til sín hér og nú. Hvernig kemur það heim og saman?

    Svarið liggur í snertifletinum sem við finnum við fólkið sem við lesum um í Biblíunni, við fólkið sem setti söguna sína í texta Biblíunnar og vitnar um leið um reynslu sína af því að vera manneskja í heiminum, að vera manneskja sem elskar, þráir, kreppist, óttast og missir, að vera manneskja sem trúir af því hún hefur reynslu af hinu heilaga sem birtist henni sem leiðarljós, fyrirheit um frelsi og frið. (more…)

  • Biblíublogg í febrúar

    Drottinn sé með yður
    Biblían er víða. Á kaffihúsi í Berlín standa orðin „Drottinn sé með yður“ ásamt vísun til Sálms 6.2
    þar sem segir: „Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni, tyfta mig ekki í heift þinni.“

    Í ár á Hið íslenska Biblíufélag 200 ára afmæli og er því með eldri félögum á landinu. Í tilefni þess langar okkur að setja Biblíuna á dagskrá í bloggheimum.

    Við ætlum að nota allan næsta mánuð til þess. Ástæðan er sú að í febrúar er Biblíudagurinn og þá setja kirkjur og söfnuðir fókus á Biblíuna og Orðið og fagna því með ýmsum hætti. Næstu tuttugu og átta daga bloggum við því daglega um Biblíuna frá ýmsum sjónarhornum. Öll tengjast þau nálgun og notkun Biblíunnar í lífi hinna kristnu og samfélagi þeirra.

    Við lofum vísunum í klassíska guðfræði, dægurmenningu, íslenska kirkjusögu og þýðingarspurningar, svo eitthvað sé nefnt.

    Fylgstu með biblíublogginu sem verður vonandi til skemmtunar og fróðleiks.

    #biblíublogg

  • Tjáningarfrelsið og trúarkenningarnar

    Kirkjuþing og biskup Íslands lýstu í dag yfir stuðningi við frumvarp þingflokks Pírata um afnám fangelsisrefsinga fyrir tjáningu skoðana. Í greinargerð með málinu segir meðal annars:

    Í 125. gr. almennra hegningarlaga, er nú m.a lögð fangelsisrefsing við því að draga opinberlega dár að eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúfélags, sem er hér á landi. Biskup tekur undir þá skoðun [þingflokks] Pírata að lagaheimildir sem setja tjáningarfrelsinu skorður með þessum hætti standist ekki nútíma viðhorf til mannréttinda.

    Sammála.

  • Gleðilegt nýtt ár

    Við upphaf nýs árs viljum við biðja öllum lesendum þessa bloggs blessunar. Megi nýja árið færa ykkur spennandi upplifanir, gleði og góðar stundir með fjölskyldu og vinum.