Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Gulrætur og svínaspik

    Frakkar eru hugkvæmir þegar grænmeti er annars vegar. Auk þess eru þeir öfundsverðri af úrvalinu sem stendur þeim til boða. Hefur það eitthvað með ESB að gera? Látum svarið við því hanga í loftinu.

    Hér er hins vegar uppskrift af ljúffengum rétti sem er góður einn sér ellegar með steiktu kjöti, en lang bestur þegar hans er notið í góðum félagsskap.

    Carottes au lard – Gulrætur með svínaspiki (handa 4)*

    • 1/2 kg nýjar gulrætur
    • 10-12 sjalottlaukar eða nýir laukar
    • um 200 g mögur svínasíða án pöru (má nota beikon af því að á Íslandi fæst voða lítið af lekkerum kjötvörum)
    • 3 msk smjör, salt, pipar
    • 2-3 dl kjötsoð, steinselja

    Svo gerist þetta svona:

    1. Skolið og skafið gulræturnar og skerið í bita (ekkert alltof stóra, ekkert alltof smáa). Hreinsið laukana og skerið í smáa bita.
    2. Skerið spikið í smábita og steikið í 1 msk af smjöri. Bætið í gulrótum og lauk og látið krauma með smástund. Saltið og piprið.
    3. Bætið í kjötsoði og sjóðið með lokið að hálfu yfir pottinum þar til gulræturnar eru orðnar meyrar og lítið er eftir að vökva. Stráið steinselju yfir.

    Við bárum þetta fram með nýbökuðum bagettum, það féll í góðan jarðveg hjá börnum og fullorðnum.

    * Byggt á bókinni Franskur Sveitamatur sem AB gaf út í Reykjavík 1987 og geymir margar afbragðs uppskriftir.

  • Einfalt og hollt og fjölbreytt

    Skyr með bláberjum og smá rjóma er afbragðs matur.

    Skyr með bláberjum og smá rjóma er afbragðs matur.

    Okkur langar að taka undir með Steinunni Stefánsdóttur sem skrifar leiðara Fréttablaðsins í dag. Hún segir meðal annars:

    Vitað er að mataræði og neysluvenjur allar hafa veruleg áhrif á heilsu. Þegar barni er gefið að borða er þannig ekki bara verið að seðja hungur og næra það fyrir daginn heldur er líka verið að leggja inn til framtíðar, ala upp neytanda. Sá matur sem börnum er boðinn hefur áhrif á það hvernig matarsmekkur þeirra þróast og þar af leiðandi hvernig mat þau munu velja sér þegar þau hljóta sjálf til þess umboð. Þannig geta matarvenjur í æsku haft verulega áhrif á heilsu, ekki bara á barnsaldrinum heldur um alla framtíð.

    Leggjum áherslu á einfaldan, hollan og fjölbreyttan mat. Fyrir börnin í skólanum. Fyrir börnin og foreldrana heima.

    Ps. Lesendur bloggsins mega gjarnan deila með okkur hugmyndum og jafnvel uppskriftum að einföldum og hollum uppáhaldsmat.

  • Tilkynningaskylda prestsins er algjör

    Árni og Kristín:

    Sr. Geir Waage hefur verið áberandi í fjölmiðlum í gær og í dag. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag og viðtölum á Pressunni, Eyjunni, Mbl.is og Rúv.is heldur hann fram þeirri skoðun að þagnarskylda prestsins sé algjör og hafin yfir fyrirmæli barnaverndarlaga um tilkynningaskyldu. Í frétt sem birtist á vef Ríkisútvarpsins í dag segir:

    Lögfræðingur á Barnaverndarstofu sagði í viðtali við RÚV nýverið að öllum þeim, sem gruni að brotið hafi verið gegn barni, beri skylda til að tilkynna slíkt til barnaverndarnefnda. Þagnarskylda presta gangi ekki framar þessari skyldu.

    Sr. Geir Waage er ekki sammála þessu. Prestar eigi ekki að tilkynna það sem komi fram í trúnaðarviðtölum við skjólstæðinga. Þagnarskyldan verði að vera alger eða engin. Allt sem prestur verði áheyrandi að við skriftir heyri hann í Kristsstað og presturinn sé bundinn algerri þagnarskyldu um það.

    Þetta er rangt hjá sjera Geir.

    Tilkynningaskylda prestsins er algjör þegar kemur að þessu ákvæði barnaverndarlaga.

    Biskup Íslands svarar þessu í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér eftir hádegi í dag:

    Fyrirmæli barnaverndarlaga taka af öll tvímæli um tilkynningaskyldu presta að hún gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu. Gengið er út frá því að velferð barnsins hafi forgang. Það er í fullu samræmi við hina kristnu siðfræði og mannsskilning sem setur barnið og velferð þess fremst.

    Samkvæmt starfsmannalögum eru prestar eins og allir opinberir starfsmenn bundnir trúnaði og þagnarskyldu um það sem þeir verða áskynja í starfi og leynt skal fara. En jafn ljóst er að þeim ber að lúta fyrirmælum barnaverndarlaga.

    Í skriftum ber presturinn þá ábyrgð að hlusta á syndajátningu einstaklings „í Guðs stað“ og boða iðrun og fyrirgefningu syndanna í Jesú nafni. Þegar einstaklingur leitar prests til að skrifta, það er játa synd sína og þiggja fyrirgefningu syndanna eins og af Guðs munni, þá á það sér undanfara í samtali þar sem iðrun og yfirbót er mikilvæg forsenda. Þó að presturinn sé bundinn trúnaði sem hann má ekki bregðast, þá getur skriftarbarnið ekki bundið samvisku prestsins. Íslensk lög og kirkjuréttur hafa gengið út frá því um langan aldur. Presti sem verður áskynja í skriftum að lífi eða heill annarra er ógnað er skyldugt að leiða viðkomandi fyrir sjónir að honum beri skylda til að koma í veg fyrir það og að prestinum sé skylt að tilkynna slíkt ef viðkomandi gerir það ekki sjálfur.

    Velferð barnsins á að hafa forgang.

    Höfum það hugfast.

  • Trúverðugleiki kirkjunnar er í húfi

    Kristín:

    Í fjölmiðlum síðustu daga hefur manni virst sem svo að innan þjóðkirkjunnar séu uppi ólík sjónarmið þegar kemur að þagnarskyldu presta í tilfellum sem varða barnaverndarmál.

    Die Nacht

    Margir hafa bent á að ákvæði barnaverndarlaganna séu skýr þegar kemur að skyldu og ábyrgð þeirra sem verða varir við að pottur sé brotinn í velferð barna. Þetta sjónarmið kemur vel fram í siðareglum fyrir starfsfólk kirkjunnar og vígða þjóna kirkjunnar, sem voru samþykkt á kirkjuþingi 2009. Karl Sigurbjörnsson biskup hnykkir á þessu í grein í Fréttablaðinu og á trú.is í dag og segir þessi ákvæði vera undantekningarlaus:

    „Í siðareglunum er og skýrt kveðið á um upplýsingaskyldu skv. barnaverndarlögum þar sem segir að starfsfólk og vígðir þjónar kirkjunnar skuli „vera ávallt upplýst um lög og reglur sem gilda um börn og unglinga og að skylt sé að tilkynna barnaverndaryfirvöldum ef ætla má að barn búi við óviðunandi aðstæður eða er þolandi ofbeldis“. Þessar siðareglur voru samþykktar á Kirkjuþingi 2009 og gilda fyrir alla presta og starfsmenn Þjóðkirkjunnar undantekningarlaust.“

    Það kveður við annan tón hjá sóknarprestinum í Reykholti, séra Geir Waage, sem telur að trúverðugleiki prestsins býði hnekki ef þagnarskyldan víki fyrir upplýsingaskyldunni. Hann lætur hafa eftir sér í viðtali við Pressuna í dag:

    „Presturinn er sálusorgari og það sem hann heyrir í skriftum má ekki, undir neinum kringumstæðum, fara lengra. Annaðhvort er þagnarskyldan algjör eða engin.  Trúverðugleiki prestastéttarinnar er í húfi því ef menn geta ekki treyst því að það sem þeir segja prestinum fari ekki lengra er trúnaðurinn horfinn.“

    Hér er greinilegur ágreiningur á ferð um eðli þagnarskyldu prests og gildi barnaverndarlaganna. Það sem er umhugsunarvert er hins vegar hver staða embættismanns er, sem lýsir því yfir að hann muni ekki fara eftir landslögum.

    Hvernig bregst biskupsembættið og kirkjuráð við því?

    Trúverðugleiki kirkjunnar er einmitt í húfi.

  • Takk fyrir

    Árni og Kristín:

    Þakklætið er ekki ein af hinum klassísku dygðum en okkur finnst að það eigi svo sannarlega heima í lista yfir nútímadygðir sem hjálpa okkur að lifa hinu góða lífi.

    Þakklæti er grundvallarafstaða til lífsins. Þakklæti er meðvitund um að við lifum í þörf. Þörf fyrir aðrar manneskjur, ást, næringu, ljós, áskoranir, viðurkenningu og daglegt brauð.

    Þakklæti er að leyfa sér að vera manneskja. Þakklæti er að gleðjast yfir lífinu.

    Við eigum uppáhaldssálm um þakklætið sem er ættaður frá Þýskalandi. Hann hefst svona:

    Danke für diesen guten Morgen,
    danke für jeden neuen Tag.
    Danke, dass ich all meine Sorgen auf dich werfen mag.

    Íslenska útgáfan hefst svona:

    Þakkir fyrir hvern fagran morgun
    þakkir fyrir hvern nýjan dag
    þakkir að ég get endurgoldið og elsku veitt í mót.

    Í dag viljum við þakka fyrir fjölskyldu og vini, fólkið sem gefur okkur verkefni og áskoranir, fólkið sem nærir okkur með umhyggju, velvilja og kærleika. Við viljum þakka fyrir þau sem eru með okkur í dag og líka þau sem eru farin frá okkur og skilja eftir minningar og söknuð. Við viljum þakka fyrir hvert annað og fyrir þennan dag.

    Fyrir hvað vilt þú þakka í dag?

  • Beatrix, Bill og Bechdel

    Bechdel prófið er einfaldur mælikvarði á sýnileika kvenna í kvikmyndum. Það byggist á þremur spurningum:

    1. Eru tvær eða fleiri konur í kvikmyndinni?
    2. Tala þær saman?
    3. Tala þær um eitthvað annað en karla?

    Ef þessum þremur spurningum er svarað játandi þá telst myndin hafa staðist Bechdel prófið.

    Það er skemmst frá því að segja að ótrúlega margar kvikmyndir standast ekki þetta einfalda próf. Meðal þeirra mynda sem eru nefndar í myndbandinu hér að ofan er Pulp Fiction eftir Quentin Tarantino. Hún stenst semsagt ekki Bechdel prófið. Það sama er ekki hægt að segja um Kill Bill eftir sama höfund. Raunar mætti segja að konur fái heldur betri útreið úr þeirri mynd en karlar.

    Við horfðum á Kill Bill um helgina (Kría í annað sinn, Árni í fimmta) og fengum stórfenglega drápsreið Beatrix Kiddo beint í æð (í gamla túbusjónvarpinu okkar, nota bene). Beatrix er mikil hetja og enginn stendur henni á sporði í bardagalist og herkænsku. Vegna þess að uppgjörið er við gömlu klíkuna, og konur voru í meirihluta í henni, sýnir myndin mikið af samskiptum Beatrix og hinna stelpnanna.

    Við höfðum Bechdel í huga þegar við horfðum á Kill Bill. Það kom á daginn að myndin stenst prófið með sóma. Beatrix talar og tekst á fjölda kvenna, svo sem hina hnífalipru Vernitu, ósvífna klíkuforingjann O-Ren Ishii og hina eineygðu Elle. Litríkar aukapersónur koma líka við sögu. Hún kemur þeim öllum fyrir kattarnef án þess að neinn karl komi þar við sögu.

    Hin mjúku gildi kvennanna svífa ekki yfir vötnum í Kill Bill – og myndin er í raun tryllingslega ofbeldisfull. Svo mjög að mörgum þykir nóg um. En hún gerir konum samt sem áður nógu hátt undir höfði til að hafa fleira en eina kvenpersónu í burðarhlutverki, láta þær eiga samskipti og orðastað, um eitthvað annað en karlmenn.

    Þess vegna stenst hún Bechdel prófið.

  • Barnaníð og barnavernd

    Árni og Kristín:

    Sigríður Guðmarsdóttir ræddi um barnaníð og barnavernd í útvarpsprédikun í gær:

    „Barnaníð á aldrei að hafa forgang yfir barnavernd hver sem í hlut á og því er hvert og eitt okkar undir tilkynningaskyldu til barnaverndar ef okkur grunar að líf og heilsa barns sé í veði. Við þurfum sem þjóðfélag að horfast í augu við það sértæka ofbeldi sem konur og börn búa við vegna misréttis kvenna og karla í samfélaginu í stað þess að tala það niður. Við eigum ekki að kveinka okkur við því að heyra sögur þeirra sem þjáðst hafa vegna kynferðisofbeldis og annars ranglætis. Við eigum heldur ekki að smjatta á þeim af pornógrafískri hræsni púrítanans.“

    Og hún bætti hún við:

    „Við þurfum að takast á við bölið og óréttlætið sem viðgengst í okkar eigin röðum og sýna því hugrakka fólki virðingu okkar og stuðning sem stígur fram þegar rifnar ofan af kýlunum. Í því liggur auðmýkt, auðmýkt þeirra sem horfast af djörfung í augu við það að samfélagið okkar er ekki eins öruggt og gott og við vildum hafa það. Og það glittir á hvítar perlur í rifunum.“

  • Barnavernd og tilkynningarskylda

    Árni og Kristín:

    Þagnarskylda - tilkynningarskylda

    Um tilkynningaskyldu er fjallað í sautjándu grein Barnaverndarlaga. Þar segir:

    „Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart. […] Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.“

    Á þetta sama er minnt í 14. grein siðareglna siðareglna vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar:

    „14. Vera ávallt upplýst um lög og reglur sem gilda um börn og unglinga og að skylt sé að tilkynna barnaverndaryfirvöldum ef ætla má að barn búi við óviðunandi aðstæður eða er þolandi ofbeldis.“

    Í 2. grein starfsreglna um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar segir:

    „Ef meint kynferðisbrot varðar barn, skal talsmaður eða sá sem hefur vitneskju um ætlað kynferðisbrot, gegna skilyrðislausri tilkynningaskyldu til hlutaðeigandi barnaverndarnefndar sbr. 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.“

    Þetta er alveg ótvírætt.

    Á þetta hafa þrír prestar sem hafa bloggað um þagnar- og tilkynningarskylduna einmitt bent:

    „Það er engin vafi á því að kirkjan vill og telur að prestar og aðrir innan hennar eigi að hlíta landslögum þ.m.t. vitaskuld barnaverndarlögum.  Í reglugerð um meðferð kynferðisafbrota innan kirkjunnar segir þannig m.a.
    2. gr. Ef meint kynferðisbrot varðar barn, skal talsmaður eða sá sem hefur vitneskju um ætlað kynferðisbrot, gegna skilyrðislausri tilkynningaskyldu til hlutaðeigandi barnaverndarnefndar sbr. 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.“ Baldur Kristjánsson: Prestar og siðareglur!

    „Prestar eru tilkynningaskyldir samkvæmt starfsreglum kirkjunnar og byggir það á ákvæðum barnaverndarlaga. Þetta ákvæði gengur mun lengra en almenn þagnaskylda í siðareglum prestafélagsins og er ákvæðið afdráttarlaust í starfsreglum kirkjunnar (sem byggja á lögum).“ Kristján Björnsson: Prestar eru tilkynningarskyldir

    „Mér finnst gott hjá fjölmiðlum að taka þetta mál upp því það er svo sannarlega mikilvægt. Og Ríkisútvarpið á þakkir skyldar fyrir að sýna umræðum á aðalfundi Prestafélagsins árið 2007 þennan áhuga.
    En vilji RUV upplýsa fólk um hvar það hafi kirkjuna og þjóna hennar í þessum efnum er illskiljanlegt að stofnunin hafi kosið að þegja um Siðareglur vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar sem samþykktar voru á Kirkjuþingu, æðstu stofnun kirkjunnar, í fyrra.“ Svavar Alfreð Jónsson: Þagnarskylda og kynferðisbrot

  • Pétur, Jónas og kirkjujarðirnar

    Kristín:

    Jónas Kristjánsson, eðalbloggari, og Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, virðast hafa sömu sýn á eignir þjóðkirkjunnar. Pétur sagði við upphaf aukakirkjuþings á laugardaginn var:

    „Fjárstuðningur ríkisins við þjóðkirkjuna byggist ekki nema að hluta á sjónarmiðum um sérstöðu kirkjunnar sem þjóðkirkju heldur skýrum rökum um sögulegt eignarréttartilkall hennar til þeirra kirkjujarða og kirkjueigna, sem ríkinu voru endanlega fengnar í hendur með samkomulaginu frá 1997. Hverfi ríkisvaldið frá þessum stuðningi við kirkjuna raknar tilkall hennar til afhentra eigna að sjálfsögðu við. Þessi grundvallarstaðreynd verður að vera öllum skýr og ljós.“

    Og Jónas bloggar í dag:

    „Bezt er að kasta þessum ríkisjörðum í hausinn á lúterskunni. Segja veskú og hætta að borga lúterskunni skattpeninga.“

    Það er að segja að ef samningi ríkis og kirkju er sagt upp þá sé eðlilegt að ríkið skili kirkjunni eignum hennar þannig að hún geti ráðstafað þeim án afskipta ríkisvaldsins.

  • Aldrei aftur

    Árni og Kristín:

    Þegar við vorum að skríða inn í unglingsárin á síðustu öld hélt angistin yfir mögulegu kjarnorkustríði fyrir okkur vöku. Listrænar útfærslur á hörmungum kjarnorkuvetrar og afleiðingum hans fyrir mannfólkið rötuðu iðulega á sjónvarpsskjáinn. Fréttir af ísköldu vopnakapphlaupi stórveldanna voru daglegt brauð í fjölmiðlum.

    IMG_3198

    Sextíu og fimm ár eru liðin síðan kjarnorkusprengjum var varpað á borgirnar Hiroshima og Nagasaki í Japan, við lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Við þessi tímamót er þess virði að nema staðar og íhuga sársaukann sem fylgir þeim.

    Það er sársaukinn yfir fórnarlömbum árásarinnar, þeim sem dóu og þeim sem þjáðust og þjást enn þann dag í dag vegna afleiðinga sprengjunnar á líkama og náttúru.

    Það er sársaukinn yfir því að enn þá lifir heimurinn við kjarnorkuvá sem ógnar friði og stöðugleika. Það er sársaukinn yfir því að frá því sprengjan féll árið 1945, skiptist heimurinn í ríki sem hafa tekið sér rétt til að að framleiða og eiga þessi gjöreyðingarvopn, og mikinn meirihluta ríkja sem eiga þau ekki.

    Við tökum undir með þeim sem hafna því að ójafnvægi og klofningur á borð við þetta sé afsprengi menningar okkar. Heilræði Biblíunnar til manneskjunnar er að velja lífið svo að allir fái lifað. Í þeim anda berjumst við gegn kjarnorkuvopnum. Það er ekkert pláss fyrir vopn sem ógna lífi manneskjunnar og jarðarinnar, eins og kjarnorkusprengjan gerir.

    Kalda stríðið og kjarnorkuváin heldur ekki vöku fyrir unglingunum okkar í dag. En það er full ástæða til að minnast fórnarlamba sprengjunnar í Hiroshima og Nagasaki 6. og 9. ágúst og snúa huga okkar og hjarta til þeirra sem þar þjáðust. Við erum þakklát fyrir framtak opinberra aðila og almennra borgara sem hafa látið sitt af mörkum til að velja lífið.

    Aldrei aftur Hiroshima.
    Aldrei aftur Nagasaki.