Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Videoblogg #2: Bíóseptember

    September er bíómánuður og algjör uppáhaldsmánuður hjá okkur sem bíóunnendum. Í dag opnar Bíó Paradís og í næstu viku hefst Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík. Árni videobloggar.

  • Videoblogg #1: Liljur vallarins

    Við ætlum að gera svolitla tilraun með videoblogg á næstunni. Við prófuðum þetta á þingi Lútherska heimssambandsins í Stuttgart í sumar og nú langar okkur að halda áfram. Kristín byrjar með stuttu spjalli um heimildarmyndina Liljur vallarins. Hún var tekin fyrir á þriðjudagssýningu Deus ex cinema hópsins í gærkvöldi. Þorsteinn Jónsson, kvikmyndagerðarmaður, var gestur okkar og hann leiddi okkur inn í mynd sína og tók svo þátt í skemmtilegu samtali að sýningu lokinni. Mögnuð mynd!

  • Bregðumst við

    Bregðumst við!

    Gerður Kristný er brýnandi í bakþönkum gærdagsins:

    Enn hefur speglinum verið brugðið á loft en nú er hann borinn upp að vitum okkar til að ganga úr skugga um að með okkur bærist lífsmark, fólkinu sem hvorki gat skenkt Sigrúnu Pálínu skilning né samúð. Næst þegar til okkar verður leitað skulum við bjóða gestinum til sætis, ljúka hurðinni aftur, slökkva á símanum og leggja við hlustir. Eitt getum við nefnilega verið viss um, fleiri eiga eftir að biðja okkur um áheyrn.

    Þetta er prófraunin.

    Bregðumst við!

  • Við viljum enga fordóma

    Við viljum enga fordóma

    Við höfum hlustað mikið á barnaplötuna Meira pollapönk í sumar. Lokalagið á henni fjallar um fordóma og það heitir Þór og Jón eru hjón. Textinn dregur upp mynd af nokkrum dæmigerðum einstaklingum sem verða fyrir barðinu á fordómum samfélagsins. Þar á meðal eru hommarnir Þór og Jón sem eiga saman börnin Sif og Örn, Pólverjinn Michal Král sem vinnur hjá Suðurstál og Ylfa Þöll sem elskar tröll.

    Pollarnir taka skýra afstöðu gegn hvers kyns fordómum og þeir kveða í viðlaginu:

    „Ef þú lætur plata þig
    í að tala illa um mig,
    láttu af þeim ósóma,
    við viljum enga fordóma.“

    Því miður eru birtingarmyndir fordóma í dægurmenningunni ekki án fyrirmynda. Í dag voru fjölmiðlarnir fullir af miður skemmtilegum fréttum um íslenska fjölskyldu af kúbverskum uppruna sem hafði reynt á eigin skinni fordóma og ofbeldi vegna kynþáttar.

    Faðir og unglingssonur flúðu land vegna kynþáttafordóma. Ungur maður af erlendu bergi brotnu átti kærustu á Íslandi og var mætt af fordómum.

    Toshiki Toma er prestur innflytjenda á Íslandi. Hann þekkir til fleiri svona mála eins og hann greinir frá í þessu viðtali. Almennt séð séu þó Íslendingar umburðarlyndir í garð innflytjenda. Þeir sem stundi slíkar ofsóknir séu fámennur og fáfróður hópur.

    Pollapönkararnir eru á sömu skoðun. Þeir telja meira að segja að fordómar séu eitthvað sem við lærum, því að öll fæðumst við með tæran koll – þó sumir detti í drullupoll – og verði fordómum um aðra að bráð.

    Við erum sammála.

    Við viljum enga fordóma.

  • Ár sannleiksnefndanna

    Nú eru ár sannleiks- og rannsóknarnefndanna.

    Rannsóknarnefnd Alþingis sendi fyrr á árinu frá sér skýrslu þar sem sannleikurinn um Hrunið er dreginn fram. Í vikunni kom svo út skýrsla um skýrsluna frá Alþingisnefndinni sem fór yfir hana. Fyrir skemmstu var lofað sannleiksnefnd á vegum þjóðkirkjunnar sem á að rannsaka viðbrögð kirkjunnar þegar Sigrún Pálína Ingvarsdóttir steig ásamt fleiri konum fram árið 1996 og sagði frá ofbeldinu sem hún hafði mátt þola af hálfu Ólafs Skúlasonar, sem þá gegndi embætti biskups Íslands.

    Eitt er mikilvægt að hafa í huga varðandi sannleiksnefndirnar: Þær gefa okkur ekki annaðhvort-eða niðurstöður heldur kafa þær á dýptina, setja í samhengi, skýra.

    Það þurfti ekki rannsóknarnefnd Alþingis til að segja okkur að hrunið stafaði af því að kerfið og kerfiskallar og -konur hefðu brugðist. Við vissum það þegar allt fór á annan endann í október 2008.

    Það þurfti enga þingmannanefnd til að segja okkur að ráðherrarnir hefðu brugðist. Við vissum það þegar Geir sagði „Guð blessi Ísland“ í sjónvarpinu.

    Það þarf enga þjóðkirkjusannleiksnefnd til að segja okkur að kirkjan brást árið 1996. Við vissum það áður en biskup sagði það í Morgunblaðsviðtali í ágúst 2010.

    Sannleiksnefndir gefa nefnilega ekki annaðhvort-eða niðurstöður. Þær kafa á dýptina.

    Og við þurfum á því að halda núna.

    Þess vegna olli það vonbrigðum að Eygló Harðardóttir, þingkona, sem var annars flott í viðtalinu við Egil Helgason í Silfrinu í dag, skyldi segja að það þyrfti enga rannsóknar- eða sannleiksnefnd til að skoða einkavæðingu bankanna.

    Við erum ósammála því. Nú er einmitt tími rannsóknar- og sannleiksnefnda. Við skulum velta við steinum og skoða ofan í kjölinn og læra af reynslunni.

    Við skuldum okkur sjálfum það.
    Við skuldum börnunum okkur það.

  • Óttatímar

    Haustlauf

    Þegar manneskjan verður óttaslegin bregst hún við með vissum hætti. Það eru eiginlega náttúrulegir varnarhættir sem gera vart við sig þegar óttinn grípur okkur. Þessir varnarhættir miða að því að verja okkur sjálf, nema hvað.

    Það merkilega er að við bregðumst eins við þegar eitthvað ógnar okkur í raun og veru – og þegar eitthvað ógnar heimsmynd okkar og lífsskoðunum. Varnarhættirnir sem við sýnum þegar eitthvað ögrar viðteknum skoðunum og gildum, geta lokað okkur inni í ótta og andúð á því sem er öðruvísi.

    Við sjáum margskonar varnarhætti og óttaviðbrögð í kringum okkur núna. Þess vegna viljum við gera þessa bæn um styrk á óttatímum að okkar.

    Bæn um styrk á óttatímum

    Látum okkur vera hin fullorðnu í herberginu
    þau sem þekkja sársauka sinn og finna til.
    Þau sem þekkja of vel skelfingu umburðarleysis, múgsefjunar, ofbeldis.
    Þau sem leyfa ótta sínum ekki að umbreytast í biturð.
    Þau sem sætta sig ekki við hatrið sem endanlegt svar.

    Látum okkur vera hin fullorðnu í herberginu,
    sem uppnefna ekki aðra,
    sem ofureinfalda ekki málstaði né smætta manneskjur.
    Sem mála ekki myndir með hnussi og of breiðum penslum.
    Sem afgreiða ekki margbrotið fólk með einföldum dómum.

    Látum okkur vera hin fullorðnu í herberginu,
    þau sem ganga á milli í eineltinu.
    Þau sem leyfa ekki uppnefni.
    Sem líða öðrum ekki að smætta manneskjur.
    Sem standa með kærleikanum.

    Látum okkur vera hin fullorðnu í herberginu,
    þau sem spyrja spurninga, færa rök.
    Sem vita að sannleikurinn gerir okkur frjáls.
    Sem skilja hvenær á að tala og hvenær á að hlusta.
    Sem læra af harðneskju sögunnar og heita: „Aldrei framar.“

    Látum okkur vera hin fullorðnu í herberginu,
    þau sem vita að Hið heilaga rúmast ekki í einu nafni.
    Sem veita viðtöku visku Allah, Móse,
    sem fagna lífi Krishna, Jesú,
    sem lesa heilaga ritningu náttúru og vísinda.

    Látum oss vera hin fullorðnu í herberginu,
    þau sem vita að fjölbreytni gerir okkur sterkari.
    Sem leita margbrotinnar visku,
    sem tala mörg tungumál,
    sem vilja viðurkenna að við þörfnumst hvers annars.

    Höfundur bænarinnar heitir Meg Riley. Hún er prestur.

  • Samstarfssáttmáli

    Skrifað í forskriftarbók í skólanum

    Við hjónin eigum þrjú börn á grunnskólaaldri. Af ýmsum ástæðum eru þau öll í sitthvorum skólanum. Tvö eru í grunnskólum Reykjavíkur og eitt í skóla nágrannasveitarfélagi.

    Við höfum því forréttindastöðu þegar kemur að því að upplifa og reyna starfið í skólunum. Almennt hefur reynslan okkar af samstarfi við kennara og skólayfirvöld verið mjög góð. Kennarar barna okkar hafa sýnt frumkvæði og sköpunargáfu í samskiptum við heimilin og það er auðvelt að finna að hverjum nemanda er mætt með umhyggju.

    Í morgun vorum við á fundi í einum skólanum, þar sem báðir kennarar árgangsins hittu foreldra í upphafi skólastarfs. Tilgangur fundarins var meðal annars að koma á samstarfssáttmála milli skóla og heimilis, með því að skilgreina hvert er hlutverk skólans og hvert er hlutverk heimilisins.

    Foreldrarnir á fundinum fengu nokkrar mínútur í minni hópum til að setja á blað sínar hugmyndir hvert hlutverk skólans væri og hvert hlutverk heimilisins. Til vara mátti setja niður á blað hvað við teldum ekki vera hlutverk skólans og ekki heimilisins. Að lokum deildu hóparnir með hver öðrum því sem fram kom í samtalinu milli foreldranna.

    Meðal þess sem foreldrum fannst vera hlutverk skólans var að leiðbeina, veita uppeldi, skapa tækifæri til náms, kenna nemendum að við erum ólík, með ólíkar þarfir og ólíkar skoðanir, og kenna samskipti. Hlutverk heimilisins var m.a. að skapa börnunum öruggt og nærandi umhverfi svo þau gætu notið skólans og fræðslunnar þar, veita uppeldi og kenna virðingu fyrir reglum, s.s. stundvísi.

    Á sama hátt var það niðurstaða fundarins að það væri ekki hlutverk skólans að mismuna nemendum og hunsa þarfir þeirra. Eins er það ekki hlutverk heimilis að sýna neikvæðni í garð skólans og starfsemi hans.

    Út frá þessum hlutverkum voru dregin gildi, sem fundurinn vill sjá í fyrirrúmi í samstarfi heimilis og skóla. Þau voru

    • Öryggi
    • Umhyggja
    • Virðing
    • Vinátta

    Af því að þetta er sáttmáli, heitum við því hér með að leggja okkur fram um að láta börnunum okkar í té og kenna þeim að miðla til annarra: öryggi, umhyggju, virðingu og vináttu.

    Samstarfssáttmáli er málið.

  • Hvers konar samfélag?

    Þórhallur Heimisson var fundarstjóri á borgarafundi um fátækt sem var haldinn á miðvikudaginn. Hann segir frá fundinum í viðtalinu hér að ofan. Þórhallur skrifaði líka stuttan og brýnandi pistil þar sem hann segir meðal annars:

    Við köllum okkur stundum velferðarþjóðfélag en stöndumst þó hvergi samanburð við raunveruleg norræn velferðarþjóðfélög. Gerðum það ekki heldur á góðæristímabilinu.

    Og svo bætir hann við (og hnýtir aðeins í ESB umsóknina):

    Við erum að sækja um ESB aðild núna. Væri ekki nær að senda sendinefnd þingmanna í læri t.d. til Kaupmannahafnar eða Stokkhólms til að læra hvernig á að reka mannbært samfélag?

    Látum liggja á milli hluta hvaða afstöðu við höfum til ESB, en höldum því til haga að við getum lært sitthvað af frændþjóðum okkar á Norðurlöndunum. Og höldum svo áfram að velta fyrir okkur hvers konar samfélag við viljum byggja upp á Íslandi eftir Hrun.

    Er það ekki aðalmálið?

  • Uppáhaldslagið Komdu

    Svavar Knútur Kristinsson er snillingur og Hraun er uppáhaldshljómsveit. Enda spiluðu þeir í brúðkaupsveislunni okkar og lágu ekki á liði sínu. Á síðustu menningarnótt vorum við í Kraumi þar sem þeir félagarnir léku lagið Komdu. Það er einmitt uppáhaldslag :)

  • Þjónustumiðstöð nærsamfélagsins

    Þessir krakkar tóku þátt í starfi fyrir börn í sókninni sinni.

    Þessir krakkar tóku þátt í starfi fyrir börn í sókninni sinni.

    Í öllum hverfum borgarinnar, í hverjum bæ og hverri sveit er þjónustumiðstöð á formi sóknarkirkju. Þar er veitt margþætt þjónusta fyrir einstaklinga og hópa í ólíkum aðstæðum sem koma upp í lífinu.

    Rekstur þessara þjónustumiðstöðva nærsamfélagsins hvílir á sóknargjöldum. Þau innheimtir hið opinbera fyrir öll trúfélög á Íslandi. Hver fullráða einstaklingur greiðir í ár 767 krónur á mánuði til sinnar þjónustumiðstöðvar. Sóknargjöldin renna þannig beint til nærsamfélagsins á hverjum stað.

    Sóknarnefndir móta starf þessara þjónustumiðstöðva því sóknir þjóðkirkjunnar eru sjálfstæðar stjórnsýslueiningar. Þeim er stjórnað af sjálfboðaliðum sem þiggja umboð sitt á almennum safnaðarfundum sem haldnir eru árlega. Þau sem eru skráð í þjóðkirkjuna geta þannig haft bein áhrif á starf sóknarkirkjunnar sinnar og ákveðið í samstarfi við prestana sína hvernig sóknarkirkjan nærir samfélagið.

    Sóknarkirkjan er öllum opin. Þjónusta presta og safnaða stendur öllum til boða, óháð trúfélagsaðild. Möguleikar safnaðarstarfsins mótast hins vegar af tekjum kirkjunnar, sóknargjöldunum. Ef þú segir þig úr þjóðkirkjunni verður sóknarkirkjan þín af tekjum án þess að nærsamfélaginu sé bætt það upp með beinum hætti. Einhliða skerðing stjórnvalda á sóknargjöldum bitnar líka á nærsamfélaginu.

    Öflugt nærsamfélag nærir einstaklinga og fjölskyldur, skapar öryggi og skilyrði til þroska. Það hlúir að sjálfbærum lífsstíl. Nærsamfélagið er mikilvægur varnarþáttur í þjóðfélaginu og um það þurfum við að standa vörð.

    Kirkjan er þar sem fólkið kemur saman til að syngja og tala, prjóna og biðja, föndra, drekka kaffi, til alls þess sem sem söfnuðurinn skapar í sameiningu. Sóknarkirkjan er hluti af nærsamfélaginu og sóknarkirkjan nærir samfélagið. Með því að vera í þjóðkirkjunni styrkir þú þjónustumiðstöðina þína. Það skilar sér inn í nærsamfélagið þitt.