Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Bræður munu bregðast

    Nick í Submarino

    Submarino segir sögu Nick Torp og litla bróður hans. Sá yngri er aldrei nefndur á nafn í myndinni, við þekkjum hans aðeins sem föður Martins. Bræðurnir alast upp á brotnu heimili og sú reynsla markar líf beggja. Við kynnumst þeim sem börnum í upphafi myndarinnar, fáum innsýn í erfiðar aðstæður á heimilinu, sjáum þá reyna sig í hlutverkum sem tilheyra fremur fullorðnum en börnum, sjáum hvernig þeir ráða ekki við þetta líf.

    Svo víkur sögunni að bræðrunum sem fullorðnum mönnum. Í fyrri hluta myndarinnar segir frá Nick, í síðari hluta myndarinnar bróður hans. Nick notar áfengi til að deyfa sársaukann sem hann býr við, bróðir hans er fíkill. Fortíðin fjötrar báða. Nick býr einn í félagslegri íbúð. Hann hittir Sofie nágrannakonu sína stöku sinnum, þau hafa félagsskap af hvort öðru og af víninu, en ekki mikið meira. Bróðirinn býr einn með syni sínum Martin. Hann segist lifa fyrir soninn, en fíknin er sterkari.

    Þetta er mögnuð mynd um uppgjör og endurlausn.

    Í umræðum að lokinni sýningu Submarino á RIFF sagði Jakob Cedergren (sem leikur Nick í myndinni) að þetta væri saga af ástinni milli bræðranna tveggja. Um leið væri þetta eins konar frumsaga í anda sögunnar af Kain og Abel. Submarino fjallar að vísu ekki um bræðravíg eins og sú saga, en hún fjallar um brostin sambönd, brostnar vonir og brostna bræður. Í myndinni sjáum við Nick og bróður hans sökkva niður á botn. Annar verður eftir. Hinn fær tækifæri til að stíga upp.

    Við mælum hiklaust með Submarino. Hún er sýnd á RIFF í kvöld.

    Ps. Heiti myndarinnar er sótt í nafn á pyntingaraðferð. Myndin fjallar ekki um pyntingar, en kannski er hliðstæðan fólgin í því að myndin fjallar langtímaáhrif þess að ganga nærri börnum og virða ekki mörk.

  • Palli löggubíll og fyrsta bíóferðin

    Laugardagur var fjölskyldudagur á RIFF. Kristín videobloggar um Palla (Lása) löggubíl sem er sýndur á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík. Þetta er flott barnamynd um umhverfismál. Þetta var líka fyrsta bíóferð yngsta barnsins á heimilinu.

  • Umhverfisvænn norskur löggubíll

    Palli löggubíll og oturinn

    Palli löggubíll er frábær mynd fyrir alla fjölskylduna sem var sýnd í dag og verður sýnd þrisvar í viðbót á RIFF í ár. Þetta er  falleg og hrífandi mynd með beittan boðskap og leiftrandi húmor. Að blanda húmor og boðskap heppnast ekki alltaf en í þessari tölvuteiknuðu mynd eru Norðmennirnir á heimavelli.

    Rafbíll eða Hömmer?

    Þemað er umhverfið okkar. Senan er sett í litlu þorpi í norður Noregi, sem er samfélag- og samtímaspegill áhorfandans. Aðalhetjan er Pelle Politibil (ætti auðvitað að heita Lási löggubíll á íslensku, hrynjandinnar vegna) sem eftir langa og dygga samfélagsþjónustu, umbreytist í rafmagnsbíl eftir hildarleik í óveðri. Við það er hann settur til hliðar og þarf sér til mikillar angistar að sjá nýjan, chic og kraftmikinn Hömmer koma í sinn stað í lögguteyminu.

    Við tært fjallavatn, sem m.a. sér þorpinu fyrir drykkjarvatni, kynnist hann yndislega steiktum otri sem verður vinkona hans.  Saman verða þau vitni af umhverfisspjöllum, þegar tveir viðskiptajöfrar (innrásarvíkingar) ryðjast inn á sviðið og hreinlega stela vatninu til að geta tappað því á flottar glerflöskur og sent langt út í heim, fyrir drjúgan skilding. Alvara málsins lýkst upp fyrir otrinum þegar hún leggur saman tvo og tvo: ef ekkert vatn, þá engir fiskar, þá engir otrar.

    „Ef þetta væru alvöru glæpir …“

    Vopnaður þekkingu á þvi sem er að eiga sér stað og spámannlegri rödd sem varar bæjarbúa við yfirvofandi hættu, lendir löggubíllinn í því sama og margir boðberar slæmra frétta. Honum er ekki trúað og hann er jaðarsettur enn frekar. Löggustjórinn er frekar pirraður:

    „Ef þetta væru alvöru glæpir á borð við reiðhjólastuld og að keyra yfir á rauðu ljósi, væri þess virði að eyða mannskap í málið – en að stela vatni, nei.“

    Alvöru umhverfisníðs sem og andvaraleysi samfélagsins eru gerð núanseruð og greinargóð skil í þessari barnamynd. Myndin er líka beinskeytt í gagnrýni sinni á yfirborðsmennsku græðgi og sýndarmennsku gagnvart því að standa með því sem maður sjálfur er. Og hún er hvorki tilgerðarleg né leiðinleg þegar hún ber þennan boðskap á borð.

    Myndin um Palla löggubíl fær bestu meðmæli okkar – sem og þriggja barna sem voru með í för. Fyrir eitt þeirra markaði sýningin í Bíó Paradís mikil tímamót – þetta var nefnilega fyrsta bíóreynslan :-)

  • Markaleysi og Meðvirkni

    Meðvirknipörin tvö í Cyrus

    Við ætlum að blogga um myndirnar sem við sjáum á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík. Hátíðin hófst í fyrradag. Opnunarmyndin er hin tragí-kómíska Cyrus eftir þá Jay og Mark Duplass. Hún var sýnd í Þjóðleikhúsinu og eftir því sem við komumst næst mun þetta vera í fyrsta sinn sem kvikmynd er sýnd í húsinu (í það minnsta á opinni sýningu).

    Það var góð stemning í salnum. Ari Eldjárn kynnti dagskrána og reytti af sér brandara, Hrönn Marinósdóttir sagði frá hátíðinni sem er metnaðarfyllri en nokkru sinni fyrr, Þórir Snær Sigurjónsson jós skömmum yfir Rúv fyrir að taka ekki virkan þátt í framleiðslu íslenskra kvikmynda og Jón Gnarr setti hátíðina og sagði nokkur orðum bíóborgina Reykjavík.

    Cyrus fjallar um John og Molly. John er einhleypur, skildi við Jamie fyrir sjö árum. Hann sækir samt enn stuðning til hennar. En Jamie er að gifta sig og hún  vill fyrir alla muni koma sínum fyrrverandi maka út aftur. Molly er einstæð móðir sem býr með syni sínum Cyrus. Hann er tuttugu og eins árs gamall mömmustrákur.

    Cyrus er tragí-kómísk ástarsaga um samband John og Molly. Þau hittast í partýi, falla fyrir hvort öðru og allt gengur vel. Svo hittir John Cyrus. Hann er fullorðinn, en samt barn, og tekur heilmikið rými í lífi Mollyar. Svo mikið að það er spurning hvort pláss er fyrir annan karlmann. Að formi til er þetta dæmigerð rómantísk gamanmynd: Strákur hittir stelpu. Með þeim takast ástir. Upp kemur vandamál. Þau fara í sundur. Vandamálið er leyst af því að þau eru svooo hrifin af hvort öðru. Þau ná aftur saman. Happy ending.

    Þetta er yfirborðið. Undir niðri er Cyrus beitt ádeila á markaleysi og meðvirkni í samskiptum fullorðinna og barna. Þetta gildir jafnt um samband John við Jamie og samband Molly við Cyrus.

    Emmin tvö – markaleysið og meðvirknin – hafa nefnilega einkennt tengsl persónanna í myndinni um langan tíma. Fyrrverandi makarnir John og Jamie eru ennþá tilfinningalega háð hvort öðru og það hindrar þau bæði í að lifa lífinu.  Þótt Jamie vilji af góðum hug styðja John, skapar markaleysið í samskiptunum þeirra álag á nýja sambandið hennar Jamie.

    Molly og Cyrus hafa lifað ein og óáreitt alveg síðan Cyrus fæddist. Nú er hann uppvaxinn en kann svo vel við litla konungsríkið sitt þar sem mamma Molly er drottningin að hann er ekki að fara breyta neinu þar. Fyrr en John kemur til sögunnar.

    Kvikmyndin er rólegheita saga – en þó eru stór skref stigin í henni. Markaleysis- og meðvirknishringirnir sem persónurnar eru fastar í, eru rofnir og það er forsendan fyrir því að allir geta haldið áfram og byggt nýja hluti. Breytingar geta verið sársaukafullar en óhjákvæmilegar.

    Myndin er svona happy ending saga því framtíðin virðist blasa björt við John og Molly þegar myndinni lýkur.

    Það var góð skemmtun að horfa á Cyrus í Þjóðleikhúsinu. Margt í henni vekur til umhugsunar og varpar ljósi á persónuleg tengsl og mynstur í þeim.  Öll þurfum við að kljást við M&M í mismunandi magni í eigin lífi.  Listir og menning – líka bíó – hjálpa okkur að skilja og skynja það upp á nýtt.

  • Baráttan gegn kynþáttafordómum er sameiginlegt verkefni

    Baráttan gegn fordómum er sameiginlegt verkefniToshiki Toma skrifar stuttan pistil á Smuguna í dag. Hann segir þar meðal annars að:

    1. Við þurfum að hlusta á þolendur kynþáttafordóma og taka mark á upplifun þeirra.
    2. Við eigum að forðast að nota órökstuddar alhæfingar í umræðunni.
    3. Við eigum að fræða markvisst um fordóma.
    Toshiki hefur starfað sem prestur innflytjenda um árabil. Hann er sjálfur innflytjandi og hefur því reynt þetta á eigin skinni. Hann hefur skarpa innsýn í þessi mál og er öflugur talsmaður innflytjenda á Íslandi.
    Við tökum undir með honum viljum gera lokaorð hans að okkar: Baráttan gegn kynþáttafordómum er sameiginlegt verkefni Íslendinga og innflytjenda.
  • Skilaboð frá Skrímslaborg

    Sölli í kvikmyndinni Skrímsli ehf.

    Við horfðum á Chris Martenson í uppáhaldsþættinum Silfri Egils í gær og hlustuðum á það sem hann sagði um orkuna. Hún er víst höfuðatriði í efnahagskerfum. Sturtið 100 milljónum dollara á sker úti í hafi. Ekkert gerist fyrr en þið bætið orkunni við. Þá fara hjólin að snúast.

    Chris Martenson setti líka aðgengi að orku á heimsvísu í samhengi við hagvöxt og efnahagslíf. Við höfum búið við stöðuga aukningu af orkuframboði í heiminum hingað til (frá við til kola, til olíu sem flæðir út um allt). Nú horfumst við í augu við að með hverju árinu sem líður minnkar aðgengi okkar að hefðbundnum orkugjöfum. Þetta minnkar ekkert endilega með látum, en toppinum er náð. Við þurfum að hugsa neyslu og uppbyggingu hagkerfa út frá þeirri staðreynd.

    Farsæld og vellíðan samfélaga í framtíðinni liggur ekki síst í því að þekkja með hvaða hætti þau geta verið sjálfbær með orku og nýtingu hennar. Á Íslandi er jarðvarminn sá orkugjafi sem við þurfum að læra að nota og nýta sem best.

    Mikilvægi orku og hvernig hún er nýtt er viðfangsefni teikninmyndarinnar Skrímsli hf. Hún gerist í Skrímslaborg þar sem Sölli, Maggi og öll hin skrímslin vinna við að hlaða niður skelfingaröskrum barna til að knýja borgina og skrímslaefnahaginn. Hagvöxtur Skrímslaborgar byggir á því að því meir sem skrímslin ná að hræða lítil börn með því að birtast undan rúmum og út úr skápum, því meiri orka er til staðar til að láta hjólin snúast.

    Eins og í öllum góðum sögum þá á sér stað hreyfing og þroski einstaklinga og samfélags. Helsti lærdómurinn sem Sölli og Maggi draga af starfssemi sinni er að hlátur barna skapar miklu meiri orku af sér en skelfing og grátur.  Það er því samfélaginu til góða að nota tækni og þekkingu til að skapa gleði og vellíðan en ótta og skelfingu.

    Sambandið á milli orku og þess hvernig fólki líður er bæði viðfangsefni Skrímsla hf. og fyrirlestra Chris Martenson. Orkan er undirstaða alls vaxtar og hreyfiaflið í samfélaginu. Með minnkandi orku minnka möguleikar á að bæta lífsstíl fólks. En þýðir það óhjákvæmilega að lífsgæði fólks muni minnka?

    Nei.

    Flottur lífsstíll og lífsgæði haldast ekki í hendur. Orku má nota til að ýta undir aukna neyslu en slíkt leiðir ekki endilega til góðs. Flottur lífsstíll tryggir ekki hamingju. Og ef hann er ekki sjálfbær viðheldur hann ranglæti sem bitnar á öðru fólki.

    Lífsgæði eru ekki fólgin í því að hámarka neyslu. Hlátur og gleði eru betri uppspretta velferðar og vellíðunar en ótti og skelfing.

    Skilaboð dagsins eru því þessi:

    Notum orkuna til góðs.

    Minnkum óttann.

    Hlæjum meira.

  • Þorum að hlusta

    Samfélag sem þorir að hlusta

    Guðrún Jónsdóttir, sem er talskona Stígamóta, segir í Fréttablaðinu í gær:

    „Þjóðfélagsumræðan að undanförnu um ofbeldi hefur hreyft mjög við fólki sem í áratugi hefur burðast eitt með leyndarmál sín. Það er eins og fólki sé að detta í hug í fyrsta skipti að það geti átt rétt á uppreisn æru. Það leyfir sér að þrá staðfestingu á að brotið hafi verið á því.“

    Hún heldur svo áfram og segir:

    „Mörg málanna eru fyrnd og sumir þeirra ofbeldismanna sem um ræðir eru dánir en eftir sitja konur og karlar sem að umræðan að undanförnu hefur hreyft við þannig að þetta fólk er í uppnámi. Það er langt síðan að ég minnist þess að samfélagsumræða hafi skilað fjölgun á borð við þessa inn til okkar.“

    Það sem við heyrum hana segja er að samfélagið hefur, í gegnum umræðu og upplýsingar um kynferðisbrot, opnað sig þannig að þolendum kynferðisofbeldis finnst að þeim sé sýnd virðing. Virðing gagnvart þeirri reynslu sem í lengri eða skemmri tíma hefur valdið sársauka og kreppt. Virðing gagnvart reynslu sem er óþolandi. Og núna skulum við að hlusta. Við skulum ekki að láta þau, sem brotið var á, bera byrðina ein.

    Þess vegna segjum við – sem samfélag – við þau sem hefur orðið fyrir ofbeldi:

    Gefðu þig fram, segðu söguna þína, leyfðu okkur að bera sársaukann þinn með þér. Við getum ekki sett okkur í þín spor því virðingarleysið sem þér var sýnt beindist ekki að okkur, en við viljum hlusta á þig og sýna þér þá virðingu að trúa þér.

    Við viljum standa með þér.

  • Haltu kjafti
!

    Ungur piltur og ryðguð keðja

    Ég var ellefu ára. Staddur heima hjá bekkjarbróður og við vorum að fara út að leika. Áður en við fórum af stað þurfti hann að tala við foreldra sína. Og þeim sinnaðist eitthvað og það skipti engum togum að hann gargaði á mömmu sína: „Haltu kjafti!“

    Svo rauk hann út. Og ég á eftir. Það kom á mig. Ég var alinn upp við það að svona talaði maður ekki við foreldra sína.

    Ég veit ekki hvað varð um strákinn eða fjölskyldu hans. Ég þekki ekki söguna á bak við þetta. En ég hugsaði um þetta kvöld í vikunni þegar ég sá móður hans á gangi niðri í bæ. Hún er svolítið kreppt í útliti. Gengur um lotin. Beygð. Eins og kona sem hefur þurft að bera þunga byrði á ævi sinni.

    Ég hef séð hana nokkrum sinnum í gegnum árin – og reyndar tvisvar í þessari viku! Og alltaf leitar hugurinn aftur til þessa kvölds.

    Þetta hefur líka fengið mig til að hugsa um það hvernig við komum fram hvert við annað, hvað fólk þarf að bera, hverju það þarf að taka á móti.

    Hvers konar heimilisaðstæður ala af sér svona samskipti? Hvað þarf að gerast í sambandi foreldra og barna til að þau gargi á hvert annað: „Haltu kjafti!“ Hvað við getum gert, sem samfélag, til að styðja. Hvernig getum við mætt hvert öðru betur?

    Hér er ein tillaga:

    Við skulum reyna, á hverjum degi, að mæta fólki þannig að það gangi frá samfundum okkar með örlítið beinna bak. Minna kreppt. Með betri tilfinningu fyrir því hvers virði þau eru, reistari sem manneskjur. Þá geta þau mætt öllum hinum betur. Og gefið þeim meira af sér.

    Smátt og smátt verður þá samfélagið okkar aðeins reistara, minna kreppt. Opnara og hlýrra. Og aðeins fallegra.

  • Krútt í reykvískum Bakgarði

    FM Belfast í kvikmyndinni Backyard

    Í gærkvöldi sáum við tónlistarmyndina Backyard frumsýnd í Bíó Paradís. Myndin er höfundarverk þeirra Árna Sveinssonar og Árna Rúnars Hlöðverssonar. Hún fjallar um tónlistarsenuna á Íslandi og segir menningarnætursögu í bakgarði við Frakkastíg þar sem nokkur af mest spennandi böndum landsins komu saman einn dag til að spila tónlist fyrir gesti og gangandi.

    Meðal þeirra sem koma fram í myndinni eru Borko, Sin Fang Bous, Hjaltalín, Reykjavík!, Múm, Retro Stefson og FM Belfast, en Árni Rúnar er einmitt meðlimur í síðastnefndu hljómsveitinni.

    Backyard er opnunarmynd bíótektsins Bíó Paradísar. Það var rífandi stemning í salnum, áhorfendur klöppuðu þegar hljómsveitirnar höfðu flutt lögin sín, og skemmtu sér svo prýðilega að mynd lokinni. Okkur fannst þetta skemmtileg innsýn í tónlistarsenuna á Íslandi. Davíð Þór kallaði myndina „Krútt í Reykjavík“ á fésinu. Við erum sammála og hlökkum til að heyra meira.

    Takk krútt!

  • Videoblogg #3: Meira um Liljur vallarins

    Örlítið meira um Liljur vallarins, þar sem lífsspurningarnar eru ræddar í prédikunarstólnum og stofunni og fjósinu og úti á túni. Árni videobloggar.