Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Vatn deyðir – vatn lífgar

    Er hægt að skrifa með vatni?

    Já, það er hægt, en stafirnir standa ekki lengi.

    Í París var settur upp gjörningur til að vekja athygli á óhreinu drykkjarvatni. Boðskapurinn var einfaldur: Óhreint drykkjarvatn deyðir. Hreint drykkjarvatn lífgar.

    Hvatningin sem felst í þessu er líka einföld: Gefðu vatn og gefðu þannig líf. Til dæmis í gegnum Hjálparstarf kirkjunnar eða átaksverkefni eins og charity:water.

  • Haustlitirnir í Reykjavík (myndir)

    Á laugardagsmorgni var farið í göngutúr um hverfið með yngstu börnunum á heimilinu. Borgin skartar sínu fegursta og haustlitirnir eru magnaðir. Við tókum þessar myndir.

    Haustlitir í höfuðborginni
    Haustlitir í höfuðborginni
    Haustlitir í höfuðborginni
    Haustlitir í höfuðborginni
    Haustlitir í höfuðborginni
    Haustlitir í höfuðborginni
    Haustlitir í höfuðborginni
    Haustlitir í höfuðborginni
    Haustlitir í höfuðborginni

    Smellið á myndirnar til að skoða stærri útgáfur – eða skoðið þær á flickr.

  • Mótmælagluggar

    Rúður voru brotnar í Alþingishúsinu í mótmælunum á Austurvelli á mánudaginn. Ein rúða var líka brotin í Dómkirkjunni. Þetta eru mótmælagluggar og þeir standa sem eins konar áminning um líðan fólks þessa dagana. Við áttum leið niður í bæ í dag og tókum þessar myndir (smellið á litlu myndirnar til að sjá stærri útgáfur).

    Ef ég hef skilið fréttirnar rétt er ein af þessum rúðum sú sem var brotin í mótmælunum við þingsetninguna.
    Þetta er ein af rúðunum í Alþingishúsinu
    Mótmælasviðið sést speglast í rúðunni.
    Hér sést Austurvöllur líka

    Ps. Enn stærri myndir er að finna í albúmi á flickr svæðinu okkar.

  • Hreinsunardeild réttlætisins

    Í níufréttum útvarps að morgni þriðjudags var fjallað um mánudagsmótmælin á Austurvelli. Þar voru um átta þúsund manns. Boðskapurinn var einn: Við mótmælum ástandinu í samfélaginu. Ástæðurnar voru fleiri, kannski allt að átta þúsund.

    Eggjum var kastað. Líka grjóti. Málningu slett. Það var mikið drasl eftir á Austurvelli og við Alþingishúsið. Rúður voru brotnar í húsinu, málning á veggjum. Hreinsunardeild Reykjavíkurborgar hóf störf strax um nóttina og var enn að störfum morguninn eftir. Deildin á skýra verkferla fyrir svona verkefni, fara í gallana og ganga hreint til verks.

    Lögreglan var við störf á mótmælakvöldi. Hún hafði góð tök á stöðunni, sagði lögreglustjórinn Stefán Eiríksson. Hún stóð vörð um þinghúsið. Lögreglan nýtur mikils trausts í samfélaginu. Líklega nýtur hreinsunardeildin líka mikils trausts. Þau vita hvað þau ætla að gera, stíga örugg skref og vinna vinnuna sína. Þetta eru starfsmenn á plani.

    Í síðustu viku fór atkvæðagreiðsla á Alþingi 63-0. Sextíu og þrír þingmenn greiddu því atkvæði að vinna nauðsynlegar umbætur á stjórnkerfinu í kjölfar Hrunsins. Þeirra er þörf. Í stefnuræðu sinni á mánudaginn sagði Jóhanna Sigurðardóttir frá því að bankarnir drægju lappirnar þegar kæmi að sértækum úrræðum fyrir fólk í vanda. Það gengur ekki.

    Við spyrjum: Þurfum við ekki sérsveit sem stendur vörð um hagsmuni almennings í landinu, hagsmuni fólksins andspænis hagsmunum banka og auðræðiskerfis sem kallaði Hrunið yfir þjóðina? Þurfum við ekki hreinsunardeild sem tekur til í bönkum og stjórnkerfi eftir Hrunið? Sem víkur þeim frá sem hirða ekki um málefni ekkna og munaðarleysingja, sem gæta ekki réttar þeirra sem minnst mega sín?

    Hvers vegna eru engir verkferlar til í landinu fyrir slík verkefni? Hvar eru starfsmennirnir sem eiga heima á því plani? Við köllum eftir sérsveit mennskunnar. Við köllum eftir hreinsunardeild réttlætisins.

  • Jesús frá Montreal – Jesús á Austurvelli

    Í kvöld kl. 21 verður kvikmyndin Jesús frá Montreal sýnd í Bíó Paradís. Þetta er fyrsta sýning Deus ex cinema hópsins í bíóinu. Á undan sýningunni flytur Árni stutta innlýsingu og þar ætlar hann meðal annars að tengja myndina við málefni dagsins: Hvaða skilaboð flytur Jesús frá Montreal til samfélags, kristni og kirkju á Íslandi um þessar mundir? Er Jesús frá Montreal Jesús Austurvallar, þinghúss eða Dómkirkju?

    Verið velkomin í Bíó Paradís.

  • Í dag og Á morgun

    Við byrjum í dögun.
    Sjáum mótorhjól stöðva við landamærastöð á mærum ókunnra landa.
    Maður stígur af hjólinu.
    Talar við landamæraverðina.
    Við þekkjum ekki tungumálið.
    Sem betur fer er myndin textuð!
    Hvaðan ertu að koma, spyrja þeir?
    Þaðan, segir hann og bendir aftur fyrir sig.
    Hvað varstu að gera?
    Veiða.
    Hvað er í fötunni, segir annar landamæravörðurinn og bendir á hvíta fötu.
    Fiskur. Sá sem ég veiddi.
    Þú mátt ekki fara með fisk yfir landamærin. Engan fisk.
    Hvað eigið þið við svarar maðurinn? Erum við ekki í Evrópusambandinu? Frjáls flutningur milli landa og það allt.
    Þú mátt ekki fara með fiskinn. Þú verður að skilja hann eftir.
    Það eru reglurnar.
    Og maðurinn á mótorhjólinu tekur fötuna.
    Hellir úr henni vatninu og fiskinum fylgir með, spriklar á þurru landi.
    Svo heldur hann áfram.

    Svona hefst rúmenska kvikmyndin Á morgun. Þessi mynd var sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík og hún fékk kvikmyndverðlaun kirkjunnar sem voru veitt í um helgina. Þetta er mögnuð mynd sem fjallar um mærin milli fólks og reglurnar í lífinu, bæði reglur sem hvetja til þjónustu við náungann og reglur sem þjóna engu nema sjálfum sér.

    Á morgun fjallar líka um vináttu og um samtal. Hún segir sögu Nelu sem frá Rúmeníu og Behran sem er frá Tyrklandi. Þeir verða vinir, en tala þó ekkert sameiginlegt tungumál. Nema kannski tungumál mennskunnar. Á þeim grundvelli vex vinátta þeirra og virðing fyrir hvor öðrum.

    Nelu frá Rúmeníu og Behran frá Tyrklandi verða vinir. Um það fjallar kvikmyndin Á morgun. Þeir eru ólíkir, þeir skilja ekki hvorn annan, en þeir skilja samt hvorn annan. Þeir verða vinir þrátt fyrir landamærin og fjarlægðina á milli þeirra. Þeir tala tungumál mennskunnar.

    Við þurfum að taka upp æfingar í tungumáli mennskunnar hér á Íslandi. Það er verkefni dagsins í dag, það er verkefnið Á morgun og líka hinn.

  • Skjaldborg reist um heimilin: Lendi þau í vandræðum látum við þau fá meira, segir ríkisstjórnin

    Þessa frétt lásum við ekki í dag:

    Ríkisstjórnin mun gera allt til þess að sjá til að heimilin verði ekki fyrir skakkaföllum. Falli gengisdómar heimilunum í óhag mun ríkið láta þau fá meiri pening, segja stjórnvöld í yfirlýsingu til þjóðarinnar í dag.

    Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar sem var birt í dag segja stjórnvöld að hveitibrauðsdögum bankanna á Íslandi eftir Hrun sé lokið. Aukinnar þátttöku bankanna í niðurgreiðslu skulda sé vænst, frystingu skulda sé ekki lokið og engin nauðungaruppboð séu framundan.

    Á sama tíma segjast stjórnvöld ætla að slá skjaldborg um heimilin. Í kaflanum um mögulega dóma í tengslum við gengislán segir að ef í ljós komi að allt fari á versta veg fyrir heimilin, að þau ráði ekki við stöðuna, þá muni ríkissjóður bjarga fjárhag þeirra með því að veita fé til þeirra.

    Endurfjármögnunin mun kosta ríkissjóð, fjármagnseigendur og erlenda lánardrottna bankanna verulegar fjárhæðir en það er nokkuð sem þeir sem bera ábyrgð á Hruninu verða að axla til að tryggja stöðugleika í landinu og uppbyggingu.

    Segir ríkisstjórn Íslands að tillaga um slíkt verði lögð fyrir Alþingi fyrir í október. Þar fái ríkisstjórnin heimild til að setja meira fé í heimilin og heimila Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, að endurfjármagna þau heimili sem Hrunið hefur komið illa við.

    Þess í stað mátti lesa þetta: Skjaldborg reist um bankana: Lendi bankar í vandræðum látum við þá fá meira, segir ríkisstjórnin.

    Sussubía.

    Við þurfum fleiri fréttir af afgerandi aðgerðum í þágu heimila og fjölskyldna í landinu.

    Við þurfum skýrari skilaboð um samstöðu með fólki.

  • Gleymum aldrei þessum nöfnum

    Gleymum börnunum ekki.

    Sara, Anna, Emilía, Katrín, Eva

    Jón, Daníel, Aron, Viktor, Alexander

    Þetta eru fimm algengustu eiginnöfnin sem voru gefin drengjum og stúlkum á aldrinum 0-4 1. janúar 2008. Á Hrunárinu. Þau standa fyrir börnin okkar allra. Þau sem bera byrðarnar.

    Hannes Hólmsteinn vill að við gleymum aldrei nöfnum fimm Alþingismanna.

    Við viljum að við gleymum ekki nöfnum barnanna sem munu bera byrðarnar.

    Við viljum að við gleymum ekki andlitum barnanna.

    Við viljum að við gleymum ekki hagsmunum þeirra.

    Aldrei.

  • Verðlaunastikla

    Eitt af verkefnum okkar (nánar tiltekið Árna) á RIFF er að starfa með dómnefndinni sem úthlutar kvikmyndaverðlaunum kirkjunnar. Starfið felst í að horfa á myndirnar tólf í keppnisflokknum og taka þátt í vali á verðlaunamyndinni. Þetta er skemmtilegt starf sem opnar augu og huga fyrir því nýjasta sem er að gerast í kvikmyndagerð í heiminum.

    Verðlaunin eru nú veitt í fimmta sinn. Áður hafa kvikmyndirnar Fjórar mínútur, Listin að gráta í kór, Snjór og Saman fengið þess verðlaun. Allt magnaðar myndir sem eru vel þess virði að kynna sér. Dómnefndin er nú að störfum, niðurstaðan liggur fyrir á laugardaginn kemur.

    Ps. Stiklan hér að ofan er Árnaföndur sem gefur innsýn í fyrstu fjórar verðlaunamyndirnar.

  • Hættan við hugrekkið

    Hættulegasti maður í Ameríku. Hugrakkasti maður í Ameríku.

    Heimildarmyndin The Most Dangerous Man in America sem er sýnd á RIFF segir sögu Daniel Ellsberg. Hann var háttsettur í bandaríska stjórnkerfinu, starfaði sem ráðgjafi í Pentagon og hjá RAND stofnuninni. Starf hans laut meðal annars að því að safna og greina upplýsingar varðandi stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Víetnam. Hann hóf feril sinn sem stuðningsmaður stjórnvalda, en skipti svo um skoðun. Þetta leiddi meðal annars til þess að hann lak svonefndum Pentagon-skjölum um stríðsreksturinn í þessum hluta heimsins til þingmanna og fjölmiðla.

    Tveir meginþræðir eru fléttaðir saman í myndinni: Hugrekki og meðvirkni. Oftar en einu sinni kemur fram í myndinni að margir höfðu vitneskju um að ekki var allt í lagi í þessum efnum en þorðu ekki að stíga fram og segja frá. Þegar Ellsberg fann að hann var tilbúinn að lenda í fangelsi fyrir afstöðu sína og aðgerðir var hann líka tilbúinn að stíga fram.

    Þetta er mynd um tíðaranda og tjáningarfrelsi. Þetta er mynd um hugrekki og Hrun. Þetta er mynd um framkvæmdavald og löggjafarvald. Þetta er mynd um ótta og útilokun.

    Þetta er mynd sem við mælum með, sem sögulegri heimild og sem samtíma áskorun.