Árni og Kristín

Blogg

Færslur um hvaðeina sem okkur þykir áhugavert. Notaðu hnappana til að sía eða flettu gegnum allt.

  • Íslendingar borða ekki pöddur

    Snjórinn

    Nú hylur snjórinn bæinn okkar eins og mjúkt hvítt teppi sem hefur verið breitt yfir allt umhverfið. Þegar byrjaði að snjóa fyrir nokkrum dögum, breytti allt um svip. Hús og garðar fengu á sig dulúðlegan blæ, götur og ljósastaurar voru eins og klipptir út úr Narníu. Umferðarniðurinn og borgarhávaðinn sem fylgir íbúunum frá morgni til kvölds kæfðist undir þykkri snjóbreiðunni. Áætlanir og tímamörk riðluðust því enginn komst almennilega leiðar sinnar. Snjórinn fékk okkur til að staldra við.

    Nýfallinn snjór sem breiðir yfir allt kallar fram þrána í brjóstum okkar eftir góðum bernskudögum og eftir því sem er hreint og óspillt. Snjórinn fellur á skítugar götur og ruslahauga. Hann leyfir okkur að halda augnablik að umhverfið okkar sé einmitt þannig: hreint og óspillt. Þannig fylgir snjónum fylgir huggun og hugheysting.

    Þessa daga og misseri líður okkur á Íslandi eins og við sitjum á stórum haug þar sem ýmislegt leynist. Hruninn trúverðugleiki nær frá viðskiptaheiminum inn í embættismannakerfið,  stjórnmálin og samfélagið allt. Við bíðum eftir aðgerðum sem miða að réttlæti í samfélaginu okkar.

    Slíkar aðgerðir eru forsenda þess að sátt náist í samfélaginu. Án sáttar getur kreppa lifað í huga og hjarta ungra og aldinna. Aðgerðir sem miða að réttlæti í samfélaginu, nefna hlutina sínu rétta nafni og kryfja málin til margjar. Þær ganga jafnt yfir alla. Réttlæti snýst hvorki um hefnd né offors. Það miðar að jafnvægi og jafnrétti.

    Við bundum ákveðnar vonir við stjórnlagaþingið – að þar fengju kjörnir fulltrúar þjóðarinnar að fara yfir grundvallaratriðin sem lýðveldið okkar byggir á. Eitt af stóru málunum þar eru vitaskuld auðlindir þjóðarinnar og hvernig við umgöngumst þær. Sumir vilja meina að umdeildur dómur hæstaréttar sem dæmdi framkvæmd kosninga til stjórnlagaþingsins ólöglega eigi einmitt rætur sínar að rekja til þeirra hörðu átaka sem standa yfir í þjóðfélaginu um auðlindir hafsins, fiskinn okkar og kvótakerfið.

    Kvótakerfið, sem að hluta til er byggt á verndunarsjónarmiðum, er núna til endurskoðunar sem ekki sér fyrir endan á eða hvernig muni fara. Helst er bent á tvo þætti sem gagnrýna má kvótakerfið fyrir: áhrifin á byggðirnar og umgengnin við aflann. Skuldsetning sjávarútvegsins er svo annað mál. Þar veldur hver á heldur.

    Brottkast afla og brottkast fólks

    Umgengnin við aflann – auðæfi hafsins sem manneskjan nýtur góðs af – er það sem við ætlum að staldra við í dag, sérstaklega það sem við heyrum svo oft talað um og þykir bera sjómennskunni slæmt vitni. Brottkastið. Það hefur snertir nefnilega guðspjallstextann sem er lesinn í dag:

    Enn er himnaríki líkt neti sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker en kasta þeim óætu burt. (Matt 13.47-48)

    Hér er verið að lýsa á brottkasti. Brottkast á afla er notað til að útskýra aðgreininguna sem á sér stað „þegar veröldin endar“. Þá munu englarnir koma, „skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ (Matt 13.49-50)

    Í samhengi dagsins er brottkast afla mikið vandamál og stóralvarlegt frá sjónarhóli sjálfbærni og náttúruelsku. Kvótakerfið sjálft hvetur til brottkastsins vegna þess að sá sem er á veiðum og hefur bara tiltekinn kvóta fyrir tiltekna tegund, má hreinlega ekki koma að landi með aðrar tegundir. Þeim er því fleygt og nýtast hvorki til manneldis né viðgangs náttúrunnar sjálfrar.

    Ranglátt fyrirkomulag leiðir til ranglátra afleiðinga. Brottkast afla er því miður ekki eina dæmið um ranglátt brottkast sem viðgengst. Félagslegt brottkast er líka af hinu illa, þegar fólk er flokkað í æskilegt og óæskilegt, í skóla, á vinnustöðum, í þjóðfélaginu öllu. Við heyrðum eitt slíkt brottkastsdæmið orðað nú í síðustu viku þegar formaður samtaka atvinnulífsins talaði um að „allir sem einhverju máli skipta“ væri á tiltekinni skoðun. Óhjákvæmilega leiðum við hugann að því hverjir það séu sem skipti þá minna eða jafnvel engu máli.

    Íslendingarnir og pöddurnar

    Í guðspjallinu er brottkastið og aðgreiningin hins vegar af hinu góða – eða öllu heldur eitthvað sem veruleiki guðsríkisins kallar óhjákvæmlega á. Eða hvað? Þegar ég settist niður til að undirbúa þessa guðsþjónustu skrifaði Kristín stutta færslu og dreifði henni á facebook. Þar var þessi brottkaststexti einmitt nefndur og vinirnir á facebook spurðir hvað þetta þýddi í samhengi trúarinnar og kirkjunnar.

    Viðbrögðin sem létu ekki á sér standa komu úr ýmsum áttum. T.d. skrifaði einn vinur okkar það sem við höfum oft heyrt – það að aðgreiningin í guðspjallinu á góðum og illum eigi ennþá við og þarna sé t.d. verið að tala um trúaða og trúlausa. Trúaðir séu góðir og trúlausir vondir.

    Annar vinur benti á að textinn fengi okkur til að hugsa um það hvernig mat okkar á góðu og illu, ætu og óætu, nýtilegu og ónýtu breytist með tímanum. Það sem var álitið óætt í Genesaretvatni á dögum lærisveinanna væri löngu orðið að ætum fiski. Og ein vinkona bætti um betur og minnti okkur á að lengi vel var öllum humri sem veiddist hér við land fleygt – „ Íslendingar enda lítið gefnir fyrir pöddur!“

    Tímarnir breytast, en fólkið?

    Svona breytast tímarnir og svona breytist mat okkar, sýn og skilningur á því hvað er gott, hvað er hjálplegt, hvað styður við manneskjuna og lífið, og hvað er slæmt, hvað brýtur niður og viðheldur ranglæti.

    Brottkast er hluti af veruleikanum af því að við erum alltaf að greina hluti í sundur. Það er hluti af því að vera manneskja að þurfa að greina á milli, þurfa að dæma hvað er gott og hvað er hjálplegt. En við eigum ekki að stunda ranglátt brottkast, rangláta aðgreiningu. Þess vegna sjáum við að fiskveiðistjórnunarkerfi sem hvetur til brottkasts afla er ekki gott kerfi. Þess vegna spyrjum við okkur hvort réttmætt sé að kasta burt stjórnlagaþingi í því uppbyggingarferli sem við viljum sjá eiga sér stað á Íslandi.

    Einu sinni köstuðum við humrinum sem veiddist af því við vildum ekki borða pöddur. En svo uppgötvuðum við að þetta ófrýnilega skeldýr er í raun herramannsmatur og selst dýrum dómum. Þannig erum við minnt á að stundum er sitthvað nýtanlegt sem við héldum að væri það ekki. Það kemur á óvart hvað nýtist.

    Brýningin í textum dagsins og næringin sem við sækjum í samfélaginu við Guð og hvert annað á þessum bjarta og snjóþunga degi því kannski tvenns konar.

    Annars vegar að við séum tilbúin að endurskoða hvernig við höfum stundað brottkast með aðgreiningu sem stjórnast ekki endilega af kærleika og ábyrgð. Að við séum opin fyrir því sem kemur á óvart og fyrir hinu dýrmæta sem leynist meðal þess sem við töldum óætt, óalandi og óferjandi.

    Hins vegar að við berum gæfu til þess að greina á milli þess sem er gott og hjálplegt og þess sem rífur niður.

    Fagnaðarerindi guðspjallsins sem við megum taka með okkur út í daginn, út í vikuna er þetta: Við erum frjáls til að velja góðu götuna sem er okkur til blessunar, náunganum til góðs og Guði til dýrðar. Við erum frjáls að velja lífið.

    Þessa prédikun fluttum við í messu í Víðistaðakirkju í morgun. Hún er líka birt á trú.is.

  • Snjórinn og jafnvægið

    Enlightening

    Þegar byrjaði að kyngja niður snjó í gær breytti borgin um svip. Hús og garðar fengu á sig dulúðlegan blæ, götur og ljósastaurar voru eins og klippt út úr Narníu. Umferðarniðurinn og borgarhávaðinn sem fylgir íbúunum frá morgni til kvölds kæfðist undir þykkri snjóbreiðunni. Áætlanir og tímamörk riðluðust því enginn komst almennilega leiðar sinnar. Snjórinn fær okkur til að staldra við.

    Nýfallinn snjórinn kallar fram þrá eftir því sem er hreint og óspillt og saklaust. Snjórinn sem fellur sýnir umhverfið okkar einmitt þannig: hreint og óspillt. Snjónum fylgir þannig huggun og hugheysting.

    Þessa daga og misseri líður okkur á Íslandi eins og við sitjum á stórum haug þar sem ýmislegt leynist. Við bundum vonir við stjórnlagaþingið sem mikilvægt skref í rétta átt, en vitum nú ekki hvað verður.

    Aðgerðir sem miða að réttlæti eru forsenda þess að sátt náist í samfélaginu. Án sáttar fær kreppan að lifa í huga og hjarta ungra sem aldinna. Aðgerðir sem miða að réttlæti í samfélaginu, nefna hlutina sínu rétta nafni og kryfja málin til margjar. Þær ganga jafnt yfir alla. Réttlæti snýst hvorki um hefnd né offors. Það miðar að jafnvægi og jafnrétti.

    Góðverk og góður ásetningur koma aldrei í stað réttlætis. Á það benti Ágústínus kirkjufaðir á sinni tíð og á það minnum við núna. Við þurfum að vinna saman að réttlæti í samfélaginu. Þráin í hjarta okkar er til samfélags þar sem ríkir sátt og náungakærleikur.

    Þangað skulum við stefna.

    Við höfum áður skrifað um þetta. Góð vísa er aldrei of oft kveðin.

  • Hér er Jósef, um Jesús

    Í Víðsjá á mánudögum gluggar Ævar Kjartansson í bækur. Bók gærdagsins var Jesús frá Nasaret eftir Jósef Ratzinger sem er kannski betur þekktur sem Benedikt XVI páfi. Árni Svanur var viðmælandi Ævars í þættinum. Hægt er að hlusta á vef Rúv og svo sjóræningjaupptöku á vefnum.

  • Ekki koma inn án leyfis

    Án leyfis - með leyfi

    Við sáum þessa skemmtilegu áletrun á dögunum, ungir menn með skýr mörk settu þetta á blað :)

  • Inngangur að ljóðlist

    Fyrir stuttu vorum við kynnt fyrir ljóðskáldinu Billy Collins (f. 1941). Hann er virtur rithöfundur í heimalandi sínu, Bandaríkjunum, þar sem hann hefur gefið út fjölda bóka og kennt ungu fólki um list ljóðsins. Þetta ljóð hefur yfirskriftina Inngangur að ljóðlist – og þar deilir hann með sér því sem virðist vera reynslan af því að láta háskólanema meðtaka ljóð.

    Kennarinn hvetur nemendurna til að kanna og upplifa undraheima ljóðsins – en þau vilja bara negla það niður í stól og kreista sannleikann úr því.  Okkur finnst margt í þessu ljóði vísa til þess hvernig margir umgangast texta – ekki síst trúarlega texta eins og Biblíuna. Hugsum um hvernig við getum búið til lifandi samband við textana í lífi okkar og uppgötvað fjölbreytileika þeirra, frekar en að smækka þá niður í einfaldaðan “sannleika”.

    Tökum texta alvarlega en ekki bókstaflega.

    Introduction to Poetry

    I ask them to take a poem
    and hold it up to the light
    like a color slide

    or press an ear against its hive.

    I say drop a mouse into a poem
    and watch him probe his way out,

    or walk inside the poem’s room
    and feel the walls for a light switch.

    I want them to waterski
    across the surface of a poem
    waving at the author’s name on the shore.

    But all they want to do
    is tie the poem to a chair with rope
    and torture a confession out of it.

    They begin beating it with a hose
    to find out what it really means.

  • Tafla, spjald eða bretti

    Rowan's Rule, upphafssíða

    Því hefur verið spáð að árið 2011 verði ár spjaldtölvunnar og nýlega bárust fréttir af því að Amazon bókaverzlunin seldi fleiri rafbækur en prentaðar bækur.

    Kannski verður árið 2011 eins konar bóka-byltingar-ár.

    Í því samhengi veltum við fyrir okkur hvað við eigum að kalla þessi fyrirbæri? Eigum við að kalla spjaldtölvuna (e. tablet computer) spjaldtölvu? Eða eigum við að stytta þetta yfir í spjald? Töflu? Bretti?

    Tæki eins og Kindle gæti til að mynda kallast lesbretti – og lesefnið sjálft heitið brettabók.

    Hvað segið þið?

  • Betri heimur með betri umræðu

    Outside

    Á Eyjubloggi birtist fyrr í gær færslan Betri heimur án trúarbragða eftir Valgarð Guðjónsson. Máli sínu til stuðnings nefnir Valgarður meðal annars tíu jákvæðar yrðingar um trúleysi.

    Skilja má pistil Valgarðs sem svo að hinn trúlausi aðhyllist betri lífsskoðun þar sem þessi tíu atriði gildi um hann – og aðeins hann.  Okkur sýnist í fljótu bragði sem þessar yrðingar eigi jafnframt við mikinn fjölda trúaða einstaklinga, til að mynda þá sem tilheyra þjóðkirkjunni á Íslandi.

    Sá sem er trúaður og tilheyrir þjóðkirkjunni (og hér tölum við um þjóðkirkjuna sérstaklega því það er okkar trúfélag og við þekkjum hana best):

    1. getur komið í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma með því að nota smokk – og hefur getað lengi
    2. lætur alveg vera að fordæma þá sem laðast að eigin kyni
    3. hefur enga þörf fyrir að myrða lækna sem fara að lögum
    4. neitar ekki börnunum sínum um að þiggja blóð þegar það getur bjargað lífi þeirra
    5. lætur sér ekki detta í hug að drepa fólk sem teiknar skopmyndir af persónum sem voru (hugsanlega) uppi fyrir þúsunum ára
    6. finnur ekki hjá sér þörf til að sprengja sig og fjöldann allan af fólki í loft upp vegna trúarinnar
    7. treystir frekar á læknismeðferð en bænir
    8. lætur ekki taka ungar stúlkur af lífi sem hefur verið nauðgað
    9. brennir ekki heilu fjölskyldurnar inni vegna þess að hann heldur að þar séu nornir á ferð
    10. þarf ekki að óttast sem barn ef einhver nákominn deyr að viðkomandi líði vítiskvalir í helvíti

    Vandi Valgarðs og kannski vandi svona alhæfinga almennt er þessi: Alhæft er um trúarbrögð og trúaða einstaklinga almennt út frá nokkrum neikvæðum atriðum, sem augljóslega eiga alls ekki við alla. Þar að auki er gagnrýnin sem borin er á borð oftar en ekki gagnrýni sem margir trúaðir hafa þegar fært fram. Ekki þarf að horfa lengra aftur en til deilunnar um afstöðu til einna hjúskaparlaga hér á landi til að sjá þetta.

    Myndin sem Valgarður dregur upp er því of einföld. Fyrirbærið sem hann lýsir er flóknara en svo að það rúmist innan þessa ramma. Það sama gildir að sjálfsögðu um guðleysi/trúleysi. Það er flóknara en svo að hægt sé að afgreiða það með alhæfingum eins og að guðleysingjar séu siðlausir, að þeir séu ómögulegir uppalendur o.s.frv.

    Við eigum að sýna okkar eigin lífsskoðun og lífsskoðunum annarra virðingu. Við getum verið ósammála og talið sumt alveg hreint herfilega rangt, en við skulum ekki leggja upp með umræðu sem byggir á því að ýkja eða afskræma.

    Það gerir ekki gagn og afhjúpar endanlega bara fordóma þess sem heldur á penna.

  • Betri heimur án karlmanna

    „Hugsum okkur frétt um að 44% aðspurðra telji að heimurinn væri betri án karlmanna eða karlmennsku, en 18% að heimurinn sé betri vegna þessa. Gaman væri að heyra að fólk væri á réttri leið, mér þætti að minnsta kosti nokkuð ljóst að heimurinn væri miklu betri án karlmanna.

    Því sá sem er kona

    • getur komið í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma með því að nota smokk – og hefur getað lengi
    • lætur alveg vera að fordæma þá sem laðast að eigin kyni
    • hefur enga þörf fyrir að myrða lækna sem fara að lögum
    • neitar ekki börnunum sínum um að þiggja blóð þegar það getur bjargað lífi þeirra
    • lætur sér ekki detta í hug að drepa fólk sem teiknar skopmyndir af persónum sem voru (hugsanlega) uppi fyrir þúsunum ára
    • finnur ekki hjá sér þörf til að sprengja sig og fjöldann allan af fólki í loft upp vegna trúarinnar
    • treystir frekar á læknismeðferð en bænir
    • lætur ekki taka ungar stúlkur af lífi sem hefur verið nauðgað
    • brennir ekki heilu fjölskyldurnar inni vegna þess að hann heldur að þar séu nornir á ferð
    • þarf ekki að óttast sem barn ef einhver nákominn deyr að viðkomandi líði vítiskvalir í helvíti

    Það er ágætt að hafa í huga að kennisetningar sem margir karlmenn byggja á eru skrifaðar fólki sem (hugsanlega vel meinandi) var að leita að skýringum á heiminum og vildi gefa samferðamönnum sínum leiðbeiningar. Þetta var gert fyrir (mismunandi) mörgum öldum og aldatugum af fólki sem oftast hélt að jörðin væri miðpunktur alheimsins, vissi minna um mannslíkamann en þriggja ára barn í dag, hafði líklega ekki grun um þyngdarlögmálið, minnsta fyrirbæri sem þekktist var sennilega sandkorn og nýting rafmagns ekki einu sinni möguleg hugmynd í þeirra villtustu draumum. Og svo er ekki ólíklegt að eitthvað hafi skolast verulega til í þýðingum á leiðinni.

    Nú veit ég að margir karlmenn meina vel og fyrirlíta þá sem, að þeirra mati, mistúlka og misnota kennisetningar karlmanna til að réttlæta óhæfuverk. En það er nú gallinn við flesta karlmenn að þeir eru mótsagnakenndir innbyrðis í besta falli og hægt að teygja og túlka að vild. Og þeir sem voðaverk fremja í nafni karlmennsku eiga ekki í nokkrum vandræðum með að finna verkinu stoð í sinni „karlmennsku“. Það sem einum finnst dæmisaga sem ber að túlka með tilliti til aðstæðna tekur annar sem heilagan boðskap.

    Væri ekki betri heimur sem er einfaldlega laus við þetta?

    Ég á örugglega eftir að fá óteljandi athugasemdir um óhæfuverk kvenna og vissulega eru til skelfileg dæmi – en þau voru ekki framin í nafni kvenna heldur voru stjórnmálastefnur eða önnur vitfirring sem réði þar för. Eða eru einhver dæmi um fjöldamorð í nafni kvennahyggju (mér er illa við að nota hugtakið „feminisma“)?

    Ég var nýlega spurður hvað konur hefði gert fyrir heiminn og bent á fullt af jákvæðu starfi í nafni karla.

    Jú, það er rétt að mikið og gott starf er unnið í nafni karla, hjálparstarf er kannski það fyrsta sem kemur í hugann. En það er auðvitað hægt að hjálpa bágstöddum án þess að gera það í nafni karla og fullt af fólki sem sinnir eða styrkir hjálparstarf sem ekki tengist körlum á nokkurn hátt.“

    Finnst þér þetta fáránlegt?

    Gott.

    Okkur líka.

    Þetta er endursögn endurvinnsla á bloggfærslu Valgarðs Guðjónssonar um trúna í samtímanum. Í stað tvenndarinnar trúarbrögð-trúleysi hjá Valgarði höfum við sett karlar-konur.

    Hvorug framsetningin gengur upp. Látum hvert annað njóta sannmælis, karla og konur, trúaða og trúlausa.

    Við viljum enga fordóma.

  • Bull, ergelsi, pirra

    Vitringarnir þrír

    Vitringarnir sem sagt er frá jólaguðspjallinu færðu Jesúbarninu gjafir, gull, reykelsi og myrru. Í meðförum rebba í barnastarfinu í Neskirkju varð þetta reyndar að bulli, ergelsi og pirru. Þrettándinn er vitringadagur. Sigurður Árni segir frá vitringunum og hann spyr hvað við eigum að gera við helgisöguna um vitringana:

    Við eigum að nota vitringana sem fyrirmynd og íhuga og vitkast. Sagan tilheyrir áhrifasviði mannlífsins. Hún á sér líklega sögulega stoð. Engu skiptir þó hvort svo var eða ekki, en þó hefur hún engu að síður merkingu fyrir raunverulegt líf. […] [H]elgisögur hafa merkingu eins og mikilvægar sögur mannkyns, sögur sem túlka mikilvægi og skilgreina lífsefnin.“

    Og Sigurður Árni heldur áfram:

    Hin táknræna merking guðspjallstextans er þá m.a. að menn séu ferðalangar í tíma. Að markmið lífsgöngu allra manna sé líkt langferð vitringanna til móts við barnið, til að mæta manninum Jesú í tíma og í raunveruleika. Okkar köllun er að gefa það, sem okkur er mikilvægt, af okkur sjálfum, já okkur sjálf – eins og vitringarnir – og snúa síðan til okkar heima með reynslu af hinu stórkostlega í veganesti.

    Ágætis áminning á helgisögu- og vitringadegi.

  • 2010 í tólf myndum og nokkur hundruð orðum

    Á árinu sem senn er liðið stungum við nokkrum sinnum niður penna og skrifuðum pistla. Flestir birtust í Fréttablaðinu. Tveir í Morgunblaðinu. Allir birtust á vefnum. Þetta var viðburðaríkt ár.

    Desember

    Frá Esjustofu

    Desember var útgáfumánuðurinn mikli. Þá kom Glíman út og þar átti Kristín grein um helgihald og kirkjusýn. Þá gáfum við líka út Víðförla, níu bókamerki um vonina og svo jóladagatalið Að vænta vonar. Við gerðum líka öðruvísi jólakveðju.

    Tími þakka og pakka
    Dagur hinna saklausu barna
    Ljós koma
    Birta nándarinnar
    Smokkar og trúfesti eru forvarnir í þágu lífsins
    Aukapokinn er aðalpokinn

    Nóvember

    Kosið til stjórnlagaþings

    Nóvember var stjórnlagaþingsmánuður. Við vorum þeim Arnfríði Guðmundsdóttur og Hjalta Hugasyni innan handar, leiðbeindum þeim um notkun félagsmiðla og útbjuggum stuttar auglýsingar fyrir þau. Afar skemmtilegt. Arnfríður komst á þing :) Árni Svanur útbjó líka nokkur stutt myndbönd um þjóðgildabókina hans Gunnars Hersveins.

    Að vænta vonar
    Búrkubann?

    Október

    Landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar 2010

    Október var landsmótsmánuður. Þá fórum við eina helgi í skottúr til Akureyrar til að taka þátt í Landsmóti æskulýðsfélaga sem reyndist hin besta skemmtun. Landsmótið fékk líka mikla athygli í fjölmiðlum.

    Trú, boð og bönn
    Hreinsunardeild réttlætisins

    September

    Söfnunarbaukurinn í sunnudagaskólanum

    September var bíómánuður. Þá var Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík haldin og við veittum kvikmyndaverðlaun kirkjunnar í fimmta sinn. Mikið bíófjör.

    Umhverfisvænn norskur löggubíll
    Bræður munu bregðast
    Markaleysi og meðvirkni á hvíta tjaldinu
    Þjónustumiðstöð nærsamfélagsins

    Ágúst

    The lobster is on the grill

    Ágúst var mánuður sumarfrís og umróts í kirkjunni. Við áttum góða daga með börnunum í fyrri hluta mánaðarins, en fórum svo ekki varhluta af mikilli umræðu um kirkjuleg málefni. Svo kom Víðförli út, að þessu sinni helgaður heimsþingi LH.

    Takk fyrir
    Aldrei aftur

    Júlí

    Árni og Kristín

    Júlí var lútheskur mánuður. Þá sóttum við heimsþing Lútherska heimssambandsins sem var að þessu sinni haldið í Stuttgart í Þýskalandi. Kristín var þingfulltrúi og lauk líka setu sinni í stjórn LH, Árni Svanur var starfsmaður þingsins og ritstýrði myndböndum á ensku.

    Daglegt brauð eru mannréttindi allra

    Júní

    67borgari

    Júlí var hjúskaparlaga- og sumarfrísmánuður. Við hófum mánuðinn á góðu seminari um ólögmætar skuldir í Neskirkju. Víðförli kom út, helgaður því efni. Þá tóku gildi ný hjúskaparlög sem höfðu mikið verið í umræðunni. Þá fórum við líka í stutt sumarfrí með krökkunum okkar. Kærkomin hvíld og endurnæring.

    Þjóð, kirkja og hjúskapur
    Að skilja ríki og kirkju
    Völdum fylgir ábyrgð – opið bréf

    Maí

    Á+K

    Maí var brúðkaupsmánuður. Á hvítasunnudag gengum við í hjónaband í Langholtskirkju umvafin vinum og ættingjum. Sólin skein á réttláta og rangláta og hljómsveitin Hraun lék undir dansi.

    Fátækt og bænir
    Séra Ruddi dópar og drekkur

    Apríl

    Botnssúlur

    Í apríl voru páskar og við fögnuðum þeim við sólarupprás á Þingvöllum. Þá vorum við í hópi sem skipulagði og hélt reiðimessu í Grafarvogskirkju undir yfirskriftinni Hjartað brennur í brjósti mér. Í apríl gaus Eyjafjallajökull og við fengum nokkra aukadaga í Frankfurt vegna þess. Við gáfum líka út Víðförla, þann fyrsta með breyttu útliti.

    Vorar skuldir?
    Það sem gerir okkur reið
    Vonlaust samfélag?

    Mars

    Skuggamynd fyrir skjávarpa

    Í mars er æskulýðsdagur þjóðkirkjunnar og í tilefni hans var margmiðlunarmessan Bænarý haldin í Neskirkju.

    Sáttin og snjórinn

    Febrúar

    Á gatnamótum

    Febrúar var rólegur heimamánuður. Við héldum áfram að pæla í díakóníunni og hinni þjónandi kirkju vegna námskeiðsins sem við kenndum við guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ.

    „Ég stend með þér“
    Náungasamfélagið

    Janúar

    Kría spilar á ukelele

    Í janúar hófst annasamt og ávaxtaríkt ár, við byrjuðum með útvarpsmessu og settum okkur í díakóníugírinn fyrir námskeiðið Díakónía I.

    Barnið og Bjarnfreðarson
    Fólk ársins

    Þetta var gott ár. Við höfum miklar væntingar til þess sem senn gengur í garð.